Category: Dulúð

Tilkomi þitt ríki

Um daginn var ég beðin um að útskýra Faðirvorið, sjá hér. Spurningin er góð, vegna þess að hún tengist ekki aðeins þekkingu eða hæfni til útskýringa. Faðirvorið er eins og góður íkon, maður horfir inn í dýpt og sú dýpt tekur á sig ýmsar myndir eftir því hver útskýrir og túlkar.

Faðirvorið er bænin sem Jesús kenndi lærisveinunum samkvæmt guðspjöllunum, þegar þeir báðu hann um að kenna sér að biðja. Það má skipta Faðirvorinu upp í sex bænir, auk ávarpsins í upphafi og lofgjörðarinnar í lokin.

  1. Helgist þitt nafn.
  2. Tilkomi þitt ríki.
  3. Verði þinn vilji svo á jörðu, sem á himni.
  4. Gef oss í dag vort daglegt brauð.
  5. Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
  6. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.

Þegar ég horfi á þessar sex bænir þá finnst mér bænir númer eitt og tvö vera lyklarnir að öllum hinum.  Helgist þitt nafn. Tilkomi þitt ríki, segja þær og í Faðirvorinu birtist eins konar manifestó guðsríkisins. Jesús er óþreytandi í guðspjöllunum að draga upp frumlegar myndir af ríki Guðs. Himnaríki er perla, net, fjársjóður, sáðkorn, mustarðskorn segja guðspjöllin. Ríki Guðs er ekki aðeins heimkomustaður eftir dauðann eða staðurinn ofar festingunni samkvæmt fornri heimsmynd, heldur mitt á meðal okkar þótt við sjáum það ekki alltaf. Við sjáum það þar sem kærleikurinn ríkir og sá kærleikur er dýrmætari og fegurri en nokkuð annað. Og hann hefur burði til að vaxa.

Helgist þitt nafn, tilkomi þitt ríki. Hvernig sér maður ríki Guðs á meðal manna?  Hvar sér maður nafn Guðs helgast?  Í hinum bænunum fjórum sem á eftir koma erum við leidd inn í þennan veruleika guðsríkisins. Til þess sem eflir guðsríkið. Til þess sem ógnar guðsríkinu og varnar því þroska á meðal manna.

Guðsríkið fær að dafna þegar vilji Guðs ríkir.

Guðsríkið fær að dafna þegar allir fá brauð að borða.

Guðsríkið dafnar þegar við þiggjum fyrirgefningu Guðs og getum sjálf fyrirgefið öðrum.

Og Guðsríkið dafnar þegar við treystum Guði fyrir öllu okkar lífi.

Við endum bænina á lofgjörðinni sem kemur til okkar úr vídd vonarinnar. Þannig er hið kristna líf alltaf á mörkum tveggja vídda. Þess sem við lifum og víddar vonarinnar þegar Guðsríkið eitt ríkir, viljinn, brauðið, fyrirgefningin og frelsandi traustið. Stundum sjáum við bara í einni vídd. Stundum er mustarðskornið svo lítið, fjársjóðurinn týndur, perlan mött og netið slitið.

Þess vegna endum við á lofgjörð um ríkið, máttinn og dýrðina. Að eilífu.

Amen.

Trúarlíf mitt og fyrirmyndir

Ég hef fengið spurningu um mitt persónulega trúar- og bænalíf, hverjar séu fyrirmyndir mínar og áhrifavaldar og hver séu uppáhaldsvers mín í Biblíunni. Spurningarnar í heild má sjá hér:

Ég hef verið kristin frá því að ég man eftir mér. Mamma hengdi biblíumyndir í gylltum römmum fyrir ofan rúmin hjá okkur börnunum og það fyrsta sem ég sá þegar ég opnaði augun á morgnana og það síðasta þegar ég lokaði þeim á kvöldin var myndin af Maríu með litla Jesúbarnið í fanginu. Ég hef alltaf verið trúuð en á ólíkan hátt eftir aldri og þroska. Ég hef glímt við efa trúarinnar en hef aldrei komist að niðurstöðu um það hvers vegna ég er kristin. Ég einfaldlega er það og von trúarinnar hefur brotist sterkust fram þegar fátt annað virkar í mínu lífi.

Ég held að uppáhalds fyrirmynd í trú sé Sigurþór móðurbróðir minn. Siggi frændi minn er einstaklega góður maður, blíður og hjartahlýr og trúin er eitthvað sem batt okkur snemma saman. Ég sé Jesú Krist í því hvernig hann umgengst menn og málleysingja.

Ég hef orðið fyrir áhrifum af ólíku fólki á ævinni. Foreldrar mínir eru mér endalaus uppspretta ástar og virðingar. Ég var 15 ára þegar Vigdís Finnbogadóttir varð forseti Íslands, fyrst kvenna í heiminum til að vinna lýðræðislegar forsetakosningar. Ég var og er óendanlega stolt af Vigdísi og hún hefur alltaf verið mér fyrirmynd eins og móðurleg fjallkona sem vakti yfir þjóð sinni af greind og hlýju. Ég hef orðið fyrir sterkum áhrifum af persónu og prédikun Sigurbjörns Einarssonar biskups, sem setti svip sinn á jólakvöld bernsku minnar þegar hann hélt yfir okkur alvörugefnar jólaræður úr sjónvarpinu. Ég skrifaði doktorsritgerðina mína um guðfræði Paul Tillich og lá í verkum hans svo árum skipti.  Ég hef bæði glímt við texta Tillich og búið í þeim. Þeir hafa mótað guðfræði mína og trúarsýn. Og að síðustu vil ég nefna doktorsmóður mína Catherine Keller, sem er mér fyrirmynd í trú og guðfræðiiðkun þar sem trú og gagnrýnin skynsemi fallast í faðma.

Ég lifi reglulega bænalífi. Ég er þátttakandi í tveimur bænahópum. Annar stundar fyrirbænir en hinn íhugandi bæn. Þann síðarnefnda er ég nýbúin að uppgötva og báðir gera þeim mér og starfi mínu gott, þótt með ólíku móti sé. Í guðsþjónustu sunnudagsins rennur mitt persónulega bænalíf inn í bænir safnaðarins. Ég bið líka með fermingarbörnunum og á miðvikudögum syngjum við nóntíð í Guðríðarkirkju. Allt þetta hjálpar við að varða vikuna bænalífi og innri ró.

Ég á mér marga uppáhaldsritningartexta. Uppáhaldstextinn minn úr Davíðssálmum tengist doktorsverkefninu mínu um afgrunn guðdómsins (Abyss of God), vers úr 42. sálmi 8, abyssus abyssum invocat:

Eitt djúpið kallar á annað
þegar fossar þínir duna,
allir boðar þínir og bylgjur
ganga yfir mig.

Líkingin um Guð sem djúp eða flóð snertir við mér á djúpstæðan hátt. Ég á mér líka annan uppáhaldstexta úr Jesaja 43:1-2 sem ég myndi vilja gera að einkunnarorðum mínum í embætti. Það er ekkert að óttast þegar Guð er með í för:

En nú segir Drottinn svo,
sá sem skóp þig, Jakob,
og myndaði þig, Ísrael:
Óttast þú ekki því að ég frelsa þig,
ég kalla á þig með nafni,
þú ert minn.

Gangir þú gegnum vötnin
er ég með þér,
gegnum vatnsföllin,
þá flæða þau ekki yfir þig.
Gangir þú gegnum eld
skalt þú ekki brenna þig
og loginn mun ekki granda þér.

„Gæsir og englar“ Prédikun á aðfangadagskvöld í Guðríðarkirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Og gleðileg jól öll sömul!

Um daginn var kona á leið frá Ráðhúsi Reykjavíkur yfir á Lækjargötu. Hún gekk hratt, því nóg var að gera og snaraðist fyrir hornið á milli Iðnó og safnaðarheimilis Dómkirkjunnar. Þar mætti konan grágæs, sem var á vappi í snjónum og virti fyrir sér umferðina. Andartak virtu gæsin og konan hvor aðra fyrir sér, svo leit gæsin undan því gæsum er ekki vel við að horfa djúpt í augun á mannfólkinu. Konan og gæsin tvístigu nokkra stund eins og tvær kurteisar konur í Kringlunni, önnur í svörtum skóm og kápu, hin í fiðurpels, með hvítt brjóst og í grábleikum stígvélum. Svo rak gæsin upp hvellt garg, konan vék til hliðar og horfði á gæsina taka flugið út á Tjörnina.

Það er hægt að horfa á gæsir á margan hátt.
Gæsir hafa lengi verið taldar á Íslandi
og því er hægt að fylgjast með ferðum þeirra.
Grágæsir eins og sú sem mætti konunni við Tjörnina
verpa og halda sig nálægt sjó.
Flestar fljúga til Bretlandseyja yfir veturinn
en allnokkur hópur heldur sig
í nánd við Reykjavíkurtjörn allt árið.
Við getum horft á gæs og velt fyrir okkur hvaðan hún kemur,
hvort hún sé merkt,
hvort hún sé stygg,
hvort hún sé góð í matinn og hvar hún verpi.
Við getum velt því fyrir okkur
hvort hún muni drita á höfuðið á okkur
eða bíta okkur í nefið með gogginum sínum.
Allt eru þetta skynsamlegar ályktanir
af því sem fyrir augu okkar ber þegar við mætum gæs.
En lífið er meira en talningar,
matur í maga og iðbrögð við hugsanlegri árás.
Lífið er líka ljóð,
og í kvöld þegar við kyrrum hugann
og látum hann berast að lítilli jötu í Betlehem,
er tími til að láta ímyndunaraflið fljúga litla stund.
Eins og gæs, sem flýgur framhjá konu
og tekur strikið út á Tjörnina.

II.

Í þessari jólaprédikun langar mig til að tala um
fljúgandi engla,
eins og við hæfi er á helgri jólanótt.
Mig langar líka til að tala um
fljúgandi gæsir.
Mig langar til að tala við ykkur um englana
sem eru út um allt,
Að allir skapaðir hlutir
geti orðið okkur að engli,
ef við höfum augu á höfðinu
Og erum á höttunum eftir táknum um návist Guðs.

Þess vegna langar mig til að lesa fyrir ykkur
ljóð skáldkonunnar Mary Oliver um Villigæsirnar
í þýðingu Gyrðis Elíassonar:

Þú þarft ekki að vera góður,
þú þarft ekki að skríða á hnjánum
hundrað mílur yfir eyðimörkina, iðrandi.
Þú þarft aðeins að leyfa blíðu dýrinu
í þér að elska það sem það elskar.
Segðu mér frá örvæntingu þinni
og ég skal segja þér frá minni.
Á meðan heldur veröldin áfram.
Á meðan halda sólargeislar og tærar
glerperlur regnsins áfram að líða
yfir landslagið,
yfir slétturnar og djúpa skóga,
fjöllin og árnar.
Á meðan eru villigæsirnar,
hátt á bláum og tærum himni,
á heimleið á ný.
Hver sem þú ert, sama hve einmana
þú kannt að vera, þá býður heimurinn
sig fram fyrir þig og hugarflug þitt,
kallar til þín eins og gæsirnar,
hvellt og upplífgandi-
tilkynnir þér aftur og aftur
þinn stað í fjölskyldu alls
lífs.

Það eru komin jól og jólin þau kalla okkur til sín með ýmsu móti. Sum okkar lesa jólin úr augum barnanna, aðrir heyra klukkurnar kalla og finna hjartað svella í brjósti sér. Sum tengja komu jólanna við gamalkunna lykt eða skraut eða hefð. Sum hafa aldrei fundið fyrir jólum, kenna einungis tóms og pirrings yfir öllu jólaveseninu. Svo eru þau til sem jólin koma að óvörum, eins og gæs sem maður mætir við Tjörnina á annasömum degi.

Gæs er frábrugðin manneskju.
Og það er einmitt annarleiki dýrsins
sem tengir það og manneskjuna saman
í öllu því fjölbreytta hugarflugi sem heimurinn gefur
og í frið og gleði yfir því einu að vera til
ef þér tekst

að leyfa blíðu dýrinu í þér
að elska það sem það elskar

ef þér tekst að vera óhrædd og óhræddur
hefja þig upp yfir litla heiminn þinn sem þrengir að þér
og taka þátt í hinum stóra heimi

í fjölskyldu alls
lífs.

II.

Jólin koma með sinni gamalkunnu frásögn af barninu í jötunni í Betlehem. Lúkasarguðspjall segir frá hirðum úti í haga sem gættu hjarðar sinnar og vissu ekki til þess að neitt markvert hefði gerst í nágrenninu. Öllum að óvörum birtist þeim engill sem sagði að þeir skyldu ekki vera hræddir lengur, því að að frelsarinn væri fæddur í borg Davíðs. Og loftin öll fylltust af englum sem sungu Guði dýrð og fluttu fagnaðarboðskapinn um frið á jörðu.

Englar eru á listaverkum málaðir
eins og menn með geislabaug
Og stundum eins og lítil, þybbin börn.
Ég hef aldrei séð svoleiðis engil,
en ég hef fundið fyrir þeim og
þeir hafa komið mér að óvörum.
Englar gera menn stundum hrædda
en koma þeirra er gjarnan gagngert
tengd því að segja fólki
að það þurfi ekki lengur að vera hrætt.
Ég hef túlkað andartök og atvik
sem heimsóknir engla
og fundið ummerki um þá
þegar ég hef þurft á þeim að halda
jafnvel án þess að vita af þörf minni.
Á þessari aðventu hef ég hitt allnokkra engla,
sem leitast við að hjálpa þeim sem minna mega sín
og bera gleði-, uppörvunar- og friðarorð
þangað sem þörf er á.
Og ég hef líka hitt engil í fuglslíki.
Angelos á grísku merkir sendiboði
Sá sem kemur með merkilegar og óvæntar fréttir
Fréttir sem bæði vekja hræðslu
af því að þær eru óvæntar
Og hjálpa til við að lægja hræðslu
yfir öllu því sem steðjar að í einu lífi.
Merkur guðfræðingur hefur talað um
að englar séu fyrst og fremst táknmyndir
um návist, frið og forsjón Guðs.
Engill Drottins er birtingarmynd Guðs
á hverju því formi sem manneskjurnar
geta skilið og tengst.
Þess vegna eiga englarnir sér ekki
ævisögur og tilvist eins og mennirnir,
þótt sumir eigi nafn.
Þeirra hlutverk er að miðla ljósi,
skilboðum um birtu og gleði inn í heim
sem of oft gleymir sínu eigin hugarflugi,
sinni eigin birtu,
gleymir því að leyfa blíðu dýrinu í sér
að elska það sem það elskar
og finnur engan til að deila einmanaleika sínum,
erfiðleikum og örvæntingu með.

Engillinn er er þannig eins og ljóskristall
sem safnar í sig ljósinu
Og sendir það frá sér aftur
í nýjum, sterkum og ótrúlega fjölbreyttum myndum,
Engill sýnir okkur margbreytileika ljóssins
lætur okkur taka eftir ljósinu.

Engillinn er það sem hjálpar okkur
til að endurskoða aðstæður okkar
út frá nýju sjónarhorni
greina möguleika í erfiðri stöðu
finna æðruleysi, kjark og vit
til að halda áfram inn í nýtt ár.
Englarnir eru alls staðar og hvergi
Þeir mæta okkur í óteljandi atvikum
og við tökum oft ekkert eftir þeim.

Hirðarnir í sögunni tóku eftir englinum.
Þeir upplifðu englasönginn,
trúðu því að Messías hefði loksins fæðst
að Guð hefði vitjað Ísraelsþjóðarinnar
með barninu sem spáð hafði verið fyrir um.
Og uppgötvun þeirra leiddi þá að hrörlega fjárhúsinu
með nýfæddum frelsaranum í jötunni.
Ég velti því fyrir mér
hvort englarnir hafi farið víðar um Betlehem
þessa nótt.
Kannski voru fleiri þungbúnir einstaklingar
á kreiki í borg Davíðs
sem ekki tóku eftir englinum
lásu ekkert nýtt út úr skilaboðunum
voru hvorki hrædd
Né heyrðu að nú þyrftu þau aldrei að hræðast meir.
Kannski sáu þau aðeins gæsahóp
fljúga yfir hæðirnar í kringum Betlehem.
Kannski kom engillinn líka í heimsókn
til gistihúseigandans
og fjárbóndans
og konunnar sem bakaði brauðin
kannski voru það hirðarnir einir
sem voru nógu barnslegir í sér
til að sjá engil þar sem aðrir sáu ekki neitt
veittu enga athygli
og kærðu sig ekkert um.
Kannski fór fæðing frelsarans
gersamlega framhjá þeim.
Það voru hirðarnir sem uppskáru gleðina og friðinn
sem fylgir því að eiga Jesúbarn að annast um.
Það voru hirðarnir sem upplifðu helga nótt,
Sindrandi fegurð og dásamlegan englasöng,
Þar sem aðrir kunna að hafa séð
Einungis enn eina ískalda desembernótt í myrkrinu.

III.

Á meðan heldur veröldin áfram.
Á meðan halda sólargeislar og tærar
glerperlur regnsins áfram að líða
yfir landslagið,
yfir slétturnar og djúpa skóga,
fjöllin og árnar.
Á meðan eru villigæsirnar,
hátt á bláum og tærum himni,
á heimleið á ný.

Ég er á þeirri skoðun
að gæsin sem ég mætti við Tjörnina um daginn
hafi verið engill.
Ég veit ekki skilaboðin sem engillinn kom með
Kann engin skil á hvellu garginu sem lét mig hrökkva í kút.
Ég veit það eitt að eitthvað henti mig
við Tjörnina um daginn
og það sem gerðist var gott og öruggt
og hjálpaði mér að fela jólin Guði
hlæja að gæsinni í staðinn fyrir
að stressa mig yfir jólunum
eða erfiðleikum og önnum á nýju ári.
Ert þú að leita að hinu óvænta
í hinu gamalkunna í kvöld, kæri kirkjugestur?
Hefur þú húmor fyrir gæsum
Og finnst gott að horfa í augun á englum?

Ég er ekki að meina að gæsir
séu englar í dulargervi.
Ég er ekki að meina að allar gæsir
séu í rauninni englar.
Ekkert af þessu eitt og sér eru englar.
Allt, að þessu meðtöldu hefur möguleika
á að vera öðrum engill.
Tákn um návist Guðs
Og hugarflug heimsins sem gefur sig þér.

Stundum verða óvænt atvik svo dýrmæt og sterk
í einfaldleik sínum.
Eins og sú gjöf að horfa litla stund
í augu skepnu
Sem er allsendis ólík mér,
Sem aðeins gefst mér litla stund,
Áður en hún tekur flugið út á Tjörnina
og er mér tákn um heim
sem er stærri og meiri
en vangaveltur mínar um allt
sem ég þurfti að gera fyrir jólin.

Ég las í augum þessarar furðuveru í fiðurkápunni,
með brjóstið hvíta og í bleiku stígvélunum
eitthvað styrkjandi,
heilnæmt og gott um fjölskyldu alls lífs,
sem ég tilheyri
og sem þú tilheyrir
en hvorugt okkar stjórnar,
og um góða aflið
sem tengir saman þessa fjölskyldu.
Ég fann
hvernig jólin strukust við mig litla stund
Áður en þau flugu yfir Tjörnina.

Við eigum jól,
ekki af því að við séum svo góð og höfum afrekað svo mikið,
Heldur vegna þess að heimurinn og Guð gefa sig okkur
hugarflugi okkar
og hæfileikum til mennsku,
gefur okkur tækifæri til að hugsa málin upp á nýtt,
að ganga nýjan veg
upplifa og gefa nýja gæsku og ný tækifæri
sjá engla þar sem aðrir sjá bara skugga og svartnætti
eiga nýtt upphaf
og ný jól
taka á móti hinu óvænta
eiga frið
eiga barn
upplifa Guð í upphæðum og velþóknun yfir mönnunum
eins og forðum í bænum Betlehem.

„Verið óhrædd, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs.“

Og þessi boðskapur frá Betlehem
kallar til þín eins og gæsirnar,

hvellt og upplífgandi-
tilkynnir þér aftur og aftur
þinn stað í fjölskyldu alls
lífs.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Myndin er af grágæsum er tekin af Wikipedia og er eftir Michael Maggs, Wikimedia Commons

Mæðravernd og Meistari Eckhart

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

I.

Aðventan er runnin upp, þessi undursamlega og annasama tíð þegar við tökum á móti jólunum. Jólalögin taka öll völd í útvarpinu, hveitið og sykurinn hverfur af búðarhillunum og jólaljósin lifna hvert af öðru. Við erum ljósfíkin í svartasta skammdeginu og aðventan og jólin lýsa upp íslenskan vetur.

Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins,

segir í seinna ritningarlestri dagsins, og ljósastefið í upphafi aðventu er sannarlega engin tilviljun. Siðir og venjur breytast. Í bernsku minni var aðventan tími mikilla anna á heimili, baksturs og þrifa. Nú finnst mér meira lagt upp úr því að njóta aðventunnar sjálfrar, borða góðan mat, baka með börnum og taka þátt í uppákomum með þeim sem tengjast jólunum.

Hvað einkennir hinn trúarlega undirbúning aðventunnar? Hver eru hin kristnu hertygi ljóssins, hin kristnu jól? Fyrri ritningarlesturinn fjallar um undirbúning. Þar segir:

Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.

Þetta stef um hjálpræði Síonar er síðan endurtekið í guðspjalli dagins um konunginn Krist sem kemur til hennar. Síon er annað nafn á borginni Jerúsalem og í myndlíkingum biblíuskáldanna er Síon alltaf kona. Og enn hljómar stefið um borgarmúra Síonar í sálminum sem við sungum áðan, “Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt”.

Stef dagsins fjallar því um undirbúning í gleði og von,
að leggjast í vegagerð,
byggja nýjar brýr,
stækka dyrnar og hliðið
svo að frelsarinn komist inn til okkar á jólum.

Jólaundirbúningurinn, tónleikarnir og glaumurinn
lífga upp á svartasta myrkrið í desember.
En hertygi ljóssins, inntak aðventunnar bjóða og kalla fram meira en það.

II.

Um undirbúning og eftirvæntingu aðventunnar má ræða um með margvíslegu myndmáli. Sumt af því höfum við þegar séð í ritningarlestrum og sálmum, myndir af vegum, dyrum og hliðum, þar sem Síon tekur á móti hjálpræði sínu Jesú Kristi. Ein af líkingunum sem gefur mér mest á aðventunni er hugmyndin um að við hvert og eitt fæðum Krist á aðventu. Þessi hugmynd átti sérstaklega vinsældum að fagna á miðöldum.

Þannig talaði meistari Eckhart á þrettándu öld um að mikilvægasta hlutverk kristins fólks væri að bera Guð í heiminn. Eckhart kvengerði hina kristnu manneskju sem er þunguð af Kristi og sagði að hún væri

“frjáls og óháð, án nokkurs sem héldi henni niðri. Hún er jafnnærri Guði og sjálfri sér.”

En Eckhart gengur skrefinu lengra í kvengervingum sínum, því að sköpun og elska Guðs er líka dregin upp með fæðandi móðurlíkingum hjá honum. Eckhart segir:

“Öll gleði Guðs felst í því að fæða. Ekkert sem ég hef frá fæðingu notið verður frá mér tekið nema Guð taki það. Allt sem ég hins vegar nýt fyrir tilviljun og heppni get ég misst. Þess vegna fæðir Guð sjálfan sig í mér, til þess að ég glati Guði aldrei.”

Þannig gerir Eckhart meyfæðinguna að sístæðum atburði,
djúpu táknmáli um eftirvæntinguna eftir Kristi.
Í stað þess að við veltum því fyrir okkur hvort
meyfæðingin standist eftir lögmálum náttúrufræðinnar
þá hristir Eckhart upp í okkur og segir:
“Þið berið þetta barn, það er ykkar að koma því í heiminn.”

Í líkingamáli Eckharts skiptir engu máli
hvort við erum karlar eða konur, börn eða fullorðin,
okkur er öllum treyst fyrir því að fæða Krist inn í þennan heim á jólum,
að búa til rúm fyrir Krist,
að næra Krist
og finna Kristi stað
í okkar annasömu, æstu og undursamlegu veröld.

Og ástæða þess að okkur er treyst fyrir þessu hlutverki
er elska Guðs til okkar.
Guð veit að veröld okkar er ekki fullkomin
og stundum er hún full af óöryggi og synd.

Guð gefur okkur Krist
til þess að við vitum að við séum alltaf í Guðs hendi
og að ekkert geti gert okkur viðskila við þann kærleika.
Þannig heyrir það sem kemur okkur sjálfum vel
og það sem kemur öðrum vel saman.
Guð gefur okkur Krist vegna þess að Guð elskar okkur
og við fæðum Krist öðrum til heilla,
vegna þess að við endurgjöldum þessa ást.

Þungi Krists gerir okkur að betri og heilli manneskjum
í hlýrri tengslum við annað fólk.
Ef það er eitthvað sem jólin og aðventan geta kennt okkur,
Þá eru þær kennslustundir í von.
Ef jólin er fæðingarhátíð, þá er aðventan mæðravernd trúarinnar.

III.

Ég tala um þunga
og oft verður slík gjöf um að elska Guð og náungann þung.
Hún verður þung þegar við hugsum um þau sem líður illa á aðventunni
vegna sorgar, fátæktar og þunglyndis.
Burðurinn verður þungur þegar við kvíðum komandi degi,
kvíðum því að eiga ekki nóga peninga fyrir jólagjöfum, jólafötum og jólamat
og höfum áhyggjur af fólkinu sem við elskum.
Þá verður eftirvænting og hringiða aðventunnar erfið og ergjandi
og okkur langar til að slökkva á jólalögunum
og henda mandarínunum.

Byrðin verður þung þegar ég hugsa um hungrið í heiminum.
Um allan heim er Kristur fæddur á þessari aðventu og oft inn í mikla neyð.
Þess vegna er ég svo þakklát fyrir verk fermingarbarnanna
þegar þau söfnuðu fyrir vatni nú í nóvember.
Sjö og hálf milljón safnaðist, þar af 200 þúsund í Grafarholtinu á einni kvöldstund. Takk kæru krakkar fyrir verkin ykkar!
Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta,
þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka,
gestur var ég og þér hýstuð mig,
nakinn og þér klædduð mig,
sjúkur og þér vitjuðuð mín,
í fangelsi var ég og þér komuð til mín.
Kristur vitjaði ykkar í nóvember og þið gáfuð Kristi hreint vatn að drekka.

IV.

Guð gefur okkur nefnilega ekki Krist fyrir hressa stemmningu á aðventunni.
Hress stemmning er fín og jólaljósin gleðja,
en kristin jól eru meira en það.

Kristin jól eru fæðing Krists í heim og hjarta,
að minnast þess sem Guð hefur gefið okkur,
að tengjast þeim sem í kringum okkur eru
og ganga í von mót því sem framundan er.
Sú von stendur þrátt fyrir þunga, annir, peningaleysi og ergelsi.
Sú von er fyrir hendi
vegna þess að Guð kom auga á okkur fyrst
og það auga er fullt af elsku.

Þess vegna getum við gefið okkur eftirvæntingunni á vald
Og tekið þátt í fæðingu Jesúbarnsins á helgum jólum.
Hún á erindi við okkur öll,
erindi sem tengir okkur saman sem manneskjur
og gefur okkur þrótt til að lifa í krafti, von og trú.
Þess vegna fæðir Guð sjálfan sig í mér, til þess að ég glati Guði aldrei.

Og þannig gjörum við fæðandi dyrnar breiðar og hliðið hátt
inn í hjörtu okkar sjálfra og annarra.
Við leggjum veg og ryðjum grjótinu burt
svo að Kristur geti komið inn um borgarhliðin.
Við leggjum af skammdegið og tökum upp hertygi ljóssins.

Við gerumst “frjáls og óháð, án nokkurs sem heldur okkur niðri.
Við erum jafnnærri Guði og sjálfum okkur.”

Við erum Síon
og hjálpræði okkar kemur.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Afgrunn iðurótsins

Ég var að lesa Dettifoss eftir Einar Benediktsson í kvöld. Ég held mikið upp á Einar og hef unað mér við Einræður Starkaðar síðan ég var unglingur. Einar Ben. talar svo fallega um alveldissálir og afgrunn og mér finnst ekkert íslenskt skáld hafa orðað þessar algleymishugsanir mystíkurinnar jafnvel. Abyssus á latínu var þýtt með Abgrund í miðaldaþýsku og Einar tekur upp hina þýsku mynd þegar hann talar um afgrunnið, sem heldur saman tortímingu og uppbyggingu í sköpun sinni. Hér kemur fjórða erindið í kvæðinu um Dettifoss þar sem skáldið talar til fossbúans og segir rödd hans koma úr „afgrunni iðurótsins“.

Heill vatnsins jötunn, frjáls með breiðan barm.
Þér bindur íssins hel ei fót né arm.
Þín rödd er sótt í afgrunn iðurótsins,
en uppheimsloginn brennur þér um hvarm.
Þú gætir unnið dauðans böli bót,
stráð blómaskrauti yfir rústir grjótsins,
steypt mynd þess aftur upp í lifsins mót
með afli því frá landsins hjartarót,
sem kviksett er í klettalegstað fljótsins.

Stórkostlegt.