Tag: bæn

Maríumessa Magdalenu: Kollekta og ritningarlestrar

Í dag er Maríumessa Magdalenu. Víða er Maríumessa haldin sem sérstakur messudagur og í lúthersku kirkjunni í Bandaríkjunum (ELCA)  er notast við sérstaka kollektu og ritningarlestri ef Maríumessan er haldin.

Hér koma lestrarnir og kollektubænin:

KOLLEKTA:
Almáttugi Guð,
sem treystir fyrstri allra Maríu Magdalenu fyrir fagnaðarerindinu um upprisu sonarins.
Gef að vér megum bera út boðskap um  leiðtoga vorn Jesú Krist,
svo sem hún gerði með vitnisburði sínum,
fyrir Jesú Krist Drottin vornn sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda. Amen.

LEXÍAN: Rutarbók 1:16 Tryggð Rutar
Rut svaraði: „Reyndu ekki að telja mig á að yfirgefa þig og hverfa frá þér því að hvert sem þú ferð þangað fer ég, og hvar sem þú náttar þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. Þar sem þú deyrð þar dey ég og þar vil ég verða grafin. Drottin gjaldi mér nú og framvegis ef annað en dauðinn aðskilur okkur.

Sálmur 73: 23-28 Guð hugsar um okkur
Ég er ætíð hjá þér
Þú heldur í hægri hönd mína
Þú leiðir mig eftir ályktun þinni
Og síðan muntu taka við mér í dýrð.
Hvern á ég annars að á himnum?
Og hafi ég þig hirði ég ekki um neitt á jörðu.
Þótt hold mitt og hjarta tærist
Er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.

PISTILLINN: Postulasagan 13:26-33 Fagnaðarerindið um börn Guðs
Við flytjum yður þau gleðiboð að fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum, hefur hann efnt við okkur börn þeirra með því að reisa Jesú upp. Svo er ritað í öðrum sálminum.
Þú ert sonur minn
Í dag hef ég fætt þig.

GUÐSPJALLIÐ: Jóh. 20: 1-2, 11-18 María í grasgarðinum
Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma að enn var myrkur og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því að kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins sem Jesús elskaði og segir við þá: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni og við vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.
En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta.
Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“
Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.
Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“
Hún hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt þá segðu mér hvar þú hefur lagt hann svo ég geti sótt hann.“
Jesús segir við hana: „María!“
Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.)
Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki. Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og sg þeim: „Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“
María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“ Og hún flutti þeim það sem hann hafði sagt henni.

Trúarlíf mitt og fyrirmyndir

Ég hef fengið spurningu um mitt persónulega trúar- og bænalíf, hverjar séu fyrirmyndir mínar og áhrifavaldar og hver séu uppáhaldsvers mín í Biblíunni. Spurningarnar í heild má sjá hér:

Ég hef verið kristin frá því að ég man eftir mér. Mamma hengdi biblíumyndir í gylltum römmum fyrir ofan rúmin hjá okkur börnunum og það fyrsta sem ég sá þegar ég opnaði augun á morgnana og það síðasta þegar ég lokaði þeim á kvöldin var myndin af Maríu með litla Jesúbarnið í fanginu. Ég hef alltaf verið trúuð en á ólíkan hátt eftir aldri og þroska. Ég hef glímt við efa trúarinnar en hef aldrei komist að niðurstöðu um það hvers vegna ég er kristin. Ég einfaldlega er það og von trúarinnar hefur brotist sterkust fram þegar fátt annað virkar í mínu lífi.

Ég held að uppáhalds fyrirmynd í trú sé Sigurþór móðurbróðir minn. Siggi frændi minn er einstaklega góður maður, blíður og hjartahlýr og trúin er eitthvað sem batt okkur snemma saman. Ég sé Jesú Krist í því hvernig hann umgengst menn og málleysingja.

Ég hef orðið fyrir áhrifum af ólíku fólki á ævinni. Foreldrar mínir eru mér endalaus uppspretta ástar og virðingar. Ég var 15 ára þegar Vigdís Finnbogadóttir varð forseti Íslands, fyrst kvenna í heiminum til að vinna lýðræðislegar forsetakosningar. Ég var og er óendanlega stolt af Vigdísi og hún hefur alltaf verið mér fyrirmynd eins og móðurleg fjallkona sem vakti yfir þjóð sinni af greind og hlýju. Ég hef orðið fyrir sterkum áhrifum af persónu og prédikun Sigurbjörns Einarssonar biskups, sem setti svip sinn á jólakvöld bernsku minnar þegar hann hélt yfir okkur alvörugefnar jólaræður úr sjónvarpinu. Ég skrifaði doktorsritgerðina mína um guðfræði Paul Tillich og lá í verkum hans svo árum skipti.  Ég hef bæði glímt við texta Tillich og búið í þeim. Þeir hafa mótað guðfræði mína og trúarsýn. Og að síðustu vil ég nefna doktorsmóður mína Catherine Keller, sem er mér fyrirmynd í trú og guðfræðiiðkun þar sem trú og gagnrýnin skynsemi fallast í faðma.

Ég lifi reglulega bænalífi. Ég er þátttakandi í tveimur bænahópum. Annar stundar fyrirbænir en hinn íhugandi bæn. Þann síðarnefnda er ég nýbúin að uppgötva og báðir gera þeim mér og starfi mínu gott, þótt með ólíku móti sé. Í guðsþjónustu sunnudagsins rennur mitt persónulega bænalíf inn í bænir safnaðarins. Ég bið líka með fermingarbörnunum og á miðvikudögum syngjum við nóntíð í Guðríðarkirkju. Allt þetta hjálpar við að varða vikuna bænalífi og innri ró.

Ég á mér marga uppáhaldsritningartexta. Uppáhaldstextinn minn úr Davíðssálmum tengist doktorsverkefninu mínu um afgrunn guðdómsins (Abyss of God), vers úr 42. sálmi 8, abyssus abyssum invocat:

Eitt djúpið kallar á annað
þegar fossar þínir duna,
allir boðar þínir og bylgjur
ganga yfir mig.

Líkingin um Guð sem djúp eða flóð snertir við mér á djúpstæðan hátt. Ég á mér líka annan uppáhaldstexta úr Jesaja 43:1-2 sem ég myndi vilja gera að einkunnarorðum mínum í embætti. Það er ekkert að óttast þegar Guð er með í för:

En nú segir Drottinn svo,
sá sem skóp þig, Jakob,
og myndaði þig, Ísrael:
Óttast þú ekki því að ég frelsa þig,
ég kalla á þig með nafni,
þú ert minn.

Gangir þú gegnum vötnin
er ég með þér,
gegnum vatnsföllin,
þá flæða þau ekki yfir þig.
Gangir þú gegnum eld
skalt þú ekki brenna þig
og loginn mun ekki granda þér.