Flokkur: Dægurmál

Boðun, pólitík og kirkjuheimsóknir

Ég hef fylgst úr fjarlægð með allri umræðunni um kirkjuheimsóknir á aðventunni. Hún hefur verið hvöss og inn í hana blandast pólitískar hræringar sem erfitt er að henda reiður á. Þessi umræða snertir mig tilfinningalega. Ég veit að mörgu fólki þykir vænt um kirkjuheimsóknirnar. Ég á vini og ættingja sem eru trúlausir og þekki hversu ósátt þau eru við kirkjuheimsóknirnar. Það gerir mig vansæla að börn skuli stríða hvert öðru á trú og trúleysi eins og nýlegt dæmi sannar af dreng í Grafarvoginum sem ekki valdi að fara í kirkjuheimsókn. Þessi ljóta saga af stríðni minnti mig á strákana mína sem stundum var strítt af því að mamma þeirra væri prestur og var sagt að þeir ættu að þegja og fara heim og lesa Biblíuna.

Mér finnst það sárt og leiðinlegt að einmitt á þessum tíma ársins í desembermyrkrinu, þar sem við þurfum svo innilega á friði, gleði og náungakærleik að halda, skuli hann vera undirlagður af árvissum deilum í samfélaginu, bloggheimum, borgarstjórnarfundum, samfélagsmiðlum og kommentakerfum. Með þessu er ég ekki að segja að umræðan um kirkjuheimsóknirnar sé ekki mikilvæg, því hún er það. Umræða um tengsl trúfélaga og skóla, mannréttindi, trúfrelsi, eðli skólastarfs og þróun samfélagssáttmála er mikilvæg. Ég er hins vegar ekki viss um að allar myndir þessarar umræðu séu mjög gefandi eða þoki okkur í átt til lausnar og sáttar sem samfélags. Deilumálið Kirkjuheimsóknir er að mínu viti fast í hjólfari og flokkadráttum til hægri og vinstri.

Ég hef áhyggjur af þessu hjólfari, vegna þess að spólið í hjólfarinu getur leitt til þess að fólk í samfélaginu verði ónæmt fyrir veigamiklu spurningum um menntun, skólaskyldu, mannréttindi, menningararf og trú. Nú þegar verða margir grænir í framan þegar minnst er á kirkjuheimsóknir, af því að þeim finnst þetta svo hrikalega leiðinleg, tilfinningahlaðin og eitruð umræða. Ég er örugglega búin að missa helminginn af lesendum bloggsins nú þegar vegna þess að fólk vill miklu frekar gera eitthvað jólalegt eins og að kaupa jólatré en að hlusta á enn eitt röflið um kirkjuheimsóknir skólabarna á aðventu. Sem er auðvitað mjög dapurlegt af því að ég er rétt að komast að efninu og því sem mér finnst sjálfri um þessar heimsóknir.

Sko….

  • Kirkjuheimsóknir á aðventu eru ekki hluti af skírnarfræðslu kirkjunnar. Kirkjan sinnir skírnarfræðslu sinni með stuðningi við fjölskyldur og með barnastarfi í kirkjunni sem börn og unglingar sækja með foreldrum sínum eða með frístundatilboðum og fermingarstarfi sem börn hafa verið skráð í af forráðamönnum sínum.
  • Ef kirkjuheimsóknir eru stundaðar á annað borð er þar um að ræða vettvangsferðir á forsendum skólans.

Þessi tvö atriði útheimta yfirvegaða umræðu um samstarf kirkju og skóla. Það þarf að liggja fyrir hver mörk skírnarfræðslu og fræðslu um trúarbrögð eru. Og það þarf að liggja fyrir hvað átt er við með vettvangsferð.

Kannski finnst mörgum að þetta liggi allt saman morgunljóst fyrir. En það flækir umræðuna að við notum mörg hver orðið boðun á ólíkan hátt. Boðun í sinni víðustu mynd fjallar um allt það sem er boðandi eða normatíft á erlendum tungumálum. Boðun í merkingunni normatíft fjallar um það hvernig mér finnst að hlutirnir eigi að vera í andstöðu við það sem er lýsandi eða deskríftíft. Þegar ég segi börnum að þau eigi að vera góð hvert við annað, að þau eigi ekki að henda rusli eða stríða hvert öðru sendi ég frá mér normatíf, boðandi skilaboð. Boðun í þessari víðu merkingu er mikilvægur þáttur í uppeldi og skólastarfi. En það er líka hægt að nota orðið boðun í þrengri merkingu um boðun tiltekins trúararfs og trúarsannfæringar, sem prédikun og trúboð, eða það sem enskan kallar evangelization. Slík boðun er ekki hluti af aðalnámskrá grunnskóla og leikskóla en heyrir til heimilisguðrækni, skírnarfræðslu og fullorðinsfræðslu hvers trúfélags.

Hin fjöruga umræða á borgarstjórnarfundi í gær spratt m.a. út af statusuppfærslu Lífar Magneudóttur varaborgarfulltrúa og formanns Mannréttindaráðs þar sem hún gagnrýndi harðlega kirkjuheimsókn skóla og kallaði trúboð. Í kirkjuheimsókninni átti sóknarpresturinn í Langholtskirkju að flytja hugvekju. Líf er kona sem ég ber traust til og er oft sammála. En ég er ósammála henni um það að hugvekja prests sé endilega trúboð. Hugvekja hlýtur alltaf að byggjast á normatífri boðun, að hugvekjarinn flytji boð um það hvernig hlutirnir eigi að vera. En hún þarf ekki nauðsynlega að vera evangelísk í þeirri merkingu að hún boði trú eða trúarsannfæringu. Hugvekja getur til dæmis auðveldlega fjallað um umhverfismál, friðarmál, sættir og náungakærleik, eða rifjað upp jólasögu sem tengist því hversu mikilvægt það er að berjast gegn fátækt og óréttlæti. Þegar skóli velur að fara í vettvangsferð í kirkju getur prestur tekið á móti börnunum fyrir hönd kirkjunnar. Ef skólinn velur að biðja prestinn um að segja einhver orð eða halda hugvekju, þá ber prestinum að gera það á forsendum skólans og á þann hátt að ekki sé um evangelíska boðun að ræða.

Ég ber líka traust og hlýju til skólastjórans í Valsársskóla, Ingu Sigrúnar Atladóttur sem í statusuppfærslu ræðir mikilvægi þess að miðla fræðslu um kristinn trúararf í samræmi við námskrá grunnskóla. Hinn kristni trúararfur hefur fylgt íslenskri menningu í þúsund ár og sem skólanum ber að fræða nemendur sína um sem lið í menningarlæsi. Ég er hins vegar ósammála henni um það að það séu rök í málinu að allir nemendur grunnskólans séu meðlimir í Þjóðkirkjunni. Lögbundið skólastarf á ekki að tengjast trúfélagsaðild. Það á að vera normatíft og deskríptíft, boðandi og lýsandi, en ekki evangelískt án tillits til þess hvort við búum í sveit og borg og hvort og hvar börnin okkar eru skráð í trúfélög.

Í morgun las ég grein eftir Siggeir Ævarsson um upplifun hans af kirkjuheimsókn leikskólabarnsins síns. Færslan er reyndar fjögurra ára gömul, en dúkkaði aftur upp núna á Facebook í tengslum við umræðuna um kirkjuheimsóknir á aðventu. Í lýsingu Siggeirs byrjaði kirkjuheimsóknin á því að allir voru beðnir um að signa sig og síðan báðu allir saman Faðir vor. Þvínæst hafi presturinn sagt frá því að sagan af fæðingu Jesúbarnsins væri merkilegasta saga í heimi. Sjálfur lýsir faðirinn þeirri skoðun sinni að honum finnist það jákvætt og sjálfsagt að kristinn trúararfur og fræðsla um trúarbrögð sé hluti af starfi skólans en er óánægður með trúboðið sem hann taldi sig verða vitni að í kirkjunni. Hann vill trúfræðslu barni sínu til handa, ekki trúboð.

Lýsing Siggeirs er fjögurra ára gömul og vonandi hefur eitthvað breyst. Sjálf viðurkenni ég fúslega að hafa stjórnað kirkjuheimsóknum með þeim hætti sem hann lýsir hér áður og fyrr. En ég geri það ekki lengur. Ég geri greinarmun á þeim stöðum þar sem ég flyt evangelíska og normatífa boðun. Ég er prestur og prédika að sjálfsögðu, bið bænir og vitna um trúna í skírnarfræðslu og helgihaldi kirkjunnar. En því fer fjarri að ég þurfi að gera það á öllum stöðum og tímum. Ég er ekki foss eða gosbrunnur. Í vettvangsheimsóknum flyt ég ekki evangelíska boðun. Ég bið ekki lengur bænir í vettvangsheimsóknum eða ber fram hinn kristna trúararf sem hinn eina rétta og merkilegasta á þeim vettvangi. Ég geri mér far um það að þau orð sem ég segi í slíkum heimsóknum innihaldi frekar normatífa boðun en evangelíska, vegna þess að hin síðarnefnda boðunin heyrir til skírnarfræðslu kirkjunnar, ekki vettvangsheimsóknum skóla. Skólarnir eru velkomnir í kirkjuna og ef þau vilja flytja helgileikinn sinn þar þá er það líka velkomið. Ég virði líka ákvörðunarrétt skóla til að gera eitthvað annað á aðventunni en að heimsækja kirkju, eða vilja frekar koma í mars. Það er líka fínt, vegna þess að vettvangsferðir eiga að vera á forsendum skóla, ekki kirkju. Og skólinn er skóli allra barna, ekki aðeins hinna kristnu.

Þetta er nú svona það sem ég vildi segja um þetta mál. Getum við ekki sannmælst um það að taka þessa umræðu upp í janúar þegar jólaskjálftinn er runnin úr okkur?  Getum við ekki haldið áfram að fjalla um samstarf kirkju og skóla og gert það á einhvern hátt sem skilar okkur áfram?  Og getum við ekki sleppt því að gera þessar kirkjuheimsóknir að pólitísku þrætuepli?  Ég er pólitísk portkona sem hef kosið flesta flokka í kosningum. Ég set krossinn minn í kosningum við þann flokk sem ég treysti best hverju sinni til að huga að hag almennings, byggja upp heilbrigðis-, félags- og menningarlíf og standa vörð um mannréttindi og umhverfi. Ég hef nákvæmlega engan áhuga á því hvort Sjálfstæðisflokkurinn styður kirkjuheimsóknir eða hvort VG sé á móti þeim. Ég er hvorki með eða á móti kirkjuheimsóknum frekar en öðrum vettvangsferðum skóla. Mér finnst þetta ekki vera flokkspólitískt mál. Þetta er mál sem fjallar um það hvernig námsskrá grunnskóla verði best komið til skila og um samstarf kirkju og skóla. Slíkt samstarf á að vinnast á faglegum forsendum og á grundvelli menningar og trúarfræðslu.

Og að lokum, verum nú góð á aðventunni, elskum hvert annað og tölum fallega hvert um annað. Tölum af virðingu um trú, trúleysi og lífsskoðanir fólks og forðumst að búa til staðalímyndir hvert af öðru. Tölum við börn, systkini og barnabörn um mannvirðingu og manngildi. Skólabörn eiga ekki að þurfa að sæta stríðni vegna trúar og trúleysis. Trúuð og trúlaus eigum við jól saman, og ljósin okkar lýsa upp desembermyrkrið. Það er gott og það er nóg.

Drekkjandi umræða

Leiðari Fréttablaðsins í dag ber yfirskriftina „Að drekkja umræðu í umræðu“, sjá hér: http://www.visir.is/ad-drekkja-umraedu-i-umraedu/article/2014703189969.

Mér finnst leiðarinn vera blaðinu til skammar og að ritstjórar skuldi lesendum blaðsins afsökunarbeiðni vegna hans. Ég tel leiðarann ekki boðlegan í dagblaði vegna þess að hann gerir lítið úr þeim fjölmörgu sem senda inn greinar til blaðsins og þeirra sem setja fram skoðanir sínar í bloggi og greinum á netinu.

Það er furðulegt að heyra fjölmiðlafólk gera lítið úr frjálsri fjölmiðlun. Hverjum manni er frjálst að nota stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að viðra skoðanir sínar á þann hátt sem viðkomandi kýs helst. Þetta röfl leiðarahöfundar hljómar eins og óskilgreindur pirringur vegna einhvers tiltekins fólks sem hefur tekið óstinnt upp að fá ekki greinar birtar. Slíkur pirringur á frekar heima á ritstjórnarfundum en í leiðara blaðsins.

Áhugavert væri að vita hvað leiðarahöfundur telur að eigi að koma í stað ofgnóttar umræðunnar. Hver er andstæða umræðuofgnóttar?

Frídagarnir í miðri viku

Í gær var tekin fyrir tillaga til borgarstjórnar um að borgin reyndi að semja við stéttarfélög um að færa staka frídaga í miðri viku. Þannig gæfist fólki kostur á að færa frídagana að helgi og búa til þriggja daga fríhelgi.

Mér þykir vænt um þessa þrjá daga og hlakka alltaf til þeirra. Þeir eru ólíkir og eiga sér ólíka sögu. Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur Hörpu að fornu tímatali. Um hann er getið í elstu heimildum íslenskum og hann hefst alltaf á fimmtudegi. Sumardagurinn fyrsti er dagur þar sem fólk gleðst saman yfir vorinu, margir taka þátt í skrúðgöngu og börnum er enn gefnar sumargjafir. Um hann eru miklar og fornar hefðir eins og lesa má um í Sögu daganna eftir Árna Björnsson. Uppstigningardagur er kirkjuleg hátíð tíu dögum fyrir páska til að minnast himnafarar Jesú Krists og á sér amk sextán alda sögu. Sá dagur er kirkjudagur eldri borgara á Íslandi og er gjarnan notaður til að vekja athygli á handverki og tómstundum eldra fólks. 1. maí er aþjóðlegur baráttudagur verkafólks, þar sem fjölmennar kröfugöngur eru haldnar aðstæðum verkafólks til stuðnings og ýmsum öðrum málefnum. Gangan í Reykjavík var óvenju fjölmenn í ár þegar Græna gangan, ganga fólks sem gekk fyrir umhverfið bættist við, en í þá göngu mættu amk 5000 manns.

Ég er mótfallin því að hægt sé að færa til frí í tengslum við sumardaginn fyrsta, uppstigningardag og 1. maí. Ástæðurnar eru tvíþættar:

1) Ég óttast að um leið og farið verður að róta með þessi frí og þau verða hluti af samningapakka stéttarfélaganna líði ekki á löngu þar til dagarnir tapast sem frídagar launafólks.

2) Ég tel að gildi sameiginlegra frídaga fyrir félagsauð hverfa, bæja og byggða sé ótvírætt.  Hugmyndin um að eiga slatta af frídögum sem ég tek þegar mér hentar er gagnólík þeirri hugsun að eiga frídag með samfélaginu sínu og ber vott um vaxandi einstaklingshyggju.

Góð kona sagði við mig í gær:  „Ég berst ekki fyrir réttindum launafólks á leiðinni í sumarbústaðinn.“ Ég er alveg sammála henni.

Á myndinni má sjá skrúðgönguna á sumardaginn fyrsta koma upp brekkuna á Kristnibraut í Grafarholti. 

Sumardagurinn 2012

Kerti til sölu

Minnug þess að sumarið er að verða búið ákvað ég að ganga niður í Nóatún í dag og taka út peninga úr hraðbanka. Sólin skein og ég fór af stað berfætt í sandölum með slegið hár og í þunnri peysu. Skammt var liðið á ferðalagið þegar ég uppgötvaði að norðangjósturinn frá Esjunni var kaldur og að vindblásturinn væri nægilegur til að breyta mér í dægilegt lukkutröll.

Svarta Kaffið

Svarta Kaffið er uppáhaldsviðkomustaður minn á Laugaveginum. Svarta Kaffið er allt í senn, matsölustaður, kaffihús og bar og ég hef átt þar margar skemmtilegar stundir. Ég uppgötvaði hann fyrir þremur árum þegar elsti sonur minn tók saman við yngstu dóttur eiganda staðarins. Smám saman fór ég að detta inn á Svarta Kaffið við ólíklegustu tækifæri. Nú finnst mér eiginlega ómögulegt að labba Laugaveginn án þess að koma við.

Biskupsvísitasía Guðna Ágústssonar

Í dag bárust fréttir af því að Guðni Ágússon fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins væri ósáttur vegna  óvæginnar umfjöllunar Davíðs Þórs Jónssonar guðfræðings um forsetann og sjálfan sig á bloggsíðu þess síðarnefnda fyrir viku.  Davíð Þór hefur lokið starfsþjálfun sem prestsefni og gegnir nú um stundir afleysingastarfi sem óvígður fræðslufulltrúi í Austurlandsprófastdæmi.

Grein Davíðs Þórs má lesa hér og hefur hún eflaust fengið talsverðan lestur í dag eftir að fréttist af biskupsheimsókn Guðna. Í greininni dregur Davíð Þór upp sjö atriði sem hann telur styðja það að forseti Íslands sé bæði lygari og rógtunga og hvetur kjósendur til að gefa honum ekki atkvæði sitt.  Ennfremur vísar Davíð Þór í yfirlýsingar tveggja formanna nýnasistahreyfingarinnar „Norrænt mannkyn“ um að Guðni hafi verið félagi í þeim samtökum.

Í viðtali við Morgunblaðið (sjá hér) greinir Guðni frá því að hann hafi gengið á fund biskups Íslands frú Agnesar M. Sigurðardóttur í gær fimmtudag og kvartað yfir Davíð Þór. Ennfremur kemur fram að Guðni íhugi það að höfða mál gegn Davíð Þór. Aðspurður að því sem rætt var á fundi hans og biskups segir Guðni:

Ég sagði við hana að mér þætti þetta vera ófær framkoma hjá hennar þjóni. Ég gerði kröfur til þess sem heiðarlegur maður og kristinn að þessi maður gjaldi fyrir orð sín bæði í minn garð og forsetans.

DV hefur líka haft samband við Guðna vegna málsins og biskupsgöngunnar (sjá hér). Í samtalinu við DV segir Guðni:

Ég tel hárrétt að ávíta þennan mann og að biskup og kirkja skoði gang sinn að vera með svona þjón sem kemur svona fram við almenna borgara og forseta landsins.

Ég ætla ekkert að ræða skoðanir Davíðs Þórs á forsetanum sérstaklega. Ég hef sjálf valið að kjósa ekki sitjandi forseta vegna gagnrýni rannsóknarskýrslunnar á hann og ólíkra skoðana um eðli forsetaembættisins (sem lesa má hér), en ég tek ekki undir skoðanir Davíðs Þórs á að hann sé lygari og rógtunga. Né heldur hef ég áhuga á að velta upp gömlum málum um meinta félagsaðild Guðna í „Norrænu mannkyni“ á fyrri hluta tíunda áratugarins. Mér þykir grein Davíðs heldur flækjast við þessa aðildarvenslan sem er ekki beinlínis tengd efni pistilsins um forsetann. En nú er ég víst ekki að skrifa ritdóm um grein Davíðs Þórs, heldur að velta fyrir mér hvort hann megi hafa þá skoðanir sem hann setti fram.

Ég tel að málfrelsi sé mikilvægt í nútímasamfélagi og veiti valdsstjórnum nauðsynlegt aðhald. Davíð Þór má sem almennur borgari í þessu landi hafa hvaða skoðun sem hann vill á því hvernig forseti Íslands situr Bessastaði á hverri tíð. Hann má líka hafa skoðun á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, Alþingi Íslendinga, þjóðkirkjunni, Hæstarétti og hverju því öðru sem hann langar til að tjá sig um.

En á að gera ríkar kröfur til kirkjunnar þjóna eins og Guðni lagði áherslu á í heimsókninni til biskupsins? Til eru siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar sem nálgast má í heild sinni hér.  Greinin sem umkvartanir Guðna gæti flokkast undir er væntanlega þessi hér:

13. Sýna ábyrg rafræn samskipti og netnotkun.

Og þá er það spurningin:  Flokkast það undir óábyrga netnotkun að vara kjósendur við frambjóðenda vegna þess að viðkomandi telur hann ekki trausts kjósenda verður?

Það vill svo merkilega til að texti næsta sunnudags fjallar um köllun Jeremía spámanns. Í textanum í upphafi spádómsbókar Jeremía vantreystir spámaðurinn sér þegar Guð kallar hann til að verða spámaður sinn. Guðdómurinn situr fastur við sinn keip og Jeremía lætur undan. Þessi tregi spámaður átti eftir að verða fleinn í holdi síðustu konunganna í Júda, þeirra Jósía, Jóahasar, Jójakíms, Jójakíns og Sedekía. Jeremía skammaði konungana stöðugt fyrir valdníðslu, hjáguðadýrkun og trúleysi. Annar spámaður, Jesaja, gekk um á lendaskýlu í þrjú ár í mótmælaskyni við valdhafa sem hann taldi óréttláta. Þegar lesið er í gegnum spámannaritin  kemur fram mikil samfélagsleg ádeila og spámennirnir eru óhræddir við að láta kónga og hirðslekti heyra það.

Ég velti því fyrir mér meðan ég les textann frá köllun Jeremía hvort hann hefði verið fyrirmynd í ábyrgum netsamskiptum ef rafrænir samfélagsmiðlar hefðu verið til á hans tíð.  Ég held ekki.

Vegna hinnar spámannlegu hefðar og hinnar ríku samfélagsgagnrýni sem einkennir hinn gyðing-kristna arf tel ég að Davíð Þór Jónsson hafi fullan rétt sem kirkjunnar þjónn til að segja að forsetinn sé lygari og rógtunga fyrst honum finnst það , færir fyrir máli sínu  allnokkur rök og gefur kost á lýðræðislegri umræðu um skoðanir sínar á vefsíðu sinni. Ég þarf ekki að vera sammála rökunum eða ályktuninni. En ég virði rétt hans til að hafa þessar skoðanir.  Að mínu viti á hann ekki að fá neina áminningu fyrir slíka gagnrýni, hann á ekki „að gjalda fyrir orð sín“ og ég tel ekki að rétt sé að kirkjan  „skoði gang sinn að vera með svona þjón.“

Kirkja sem hlypi upp til handa og fóta vegna þess að einn starfsmaður hennar lýsti yfir óánægju með einn af valdhöfunum væri ekki mjög spámannleg.