Tag: stjórnmál

Takk, Tim Taylor!

Á miðöldum fór fólk sem vildi vinna yfirbótarverk til Santíago de Compostela og Rómar. Í nútímanum fer fólk sem vill axla ábyrgð á vímuefnanotkun sinni í meðferð. Hvaða leiðir eru til handa fólki sem vill axla ábyrgð á öráreitni sinni, kynþáttafordómum og forréttindum?

Ólöf Nordal

Mér finnst Ólöf Nordal hafa komið vel fram með því að tilkynna um að hún muni ekki gefa kost á sér áfram. Hver og ein/n getur hætt í pólitík þegar henni sýnist og sagt af sér ábyrgðarstörfum. En það lýsir ábyrgðartilfinningu og umhyggju fyrir landi og eigin stjórnmálaflokki að hætta með góðum fyrirvara og taka þá ákvörðun átta mánuðum fyrir alþingiskosningar svo að nægur tími vinnist til að þétta raðirnar. Ég vona að umræðan um að mikilvægt sé að Sjálfstæðisflokkurinn endurspegli þverskurð samfélagsins haldi áfram. Þverskurður getur ekki verið af aðeins öðru kyninu og ómögulegt að allar silkihúfur flokksins séu karlkyns.

Nú er ég að vona að Jóhanna Sigurðardóttir tilkynni bráðum að hún gefi ekki kost á sér aftur sem formaður Samfylkingar. Ég ber virðingu fyrir Jóhönnu og tel að hún hafi tekið við erfiðu búi á ögurstundu. En ef hún metur flokkinn sinn ofar eigin egói, þá stígur hún til hliðar núna.

Myndin af Ólöfu Nordal er tekin af vef Alþingis.

Jafnréttið í forsætisráðuneytinu

Áhugaverður dómur um jafnréttismál féll í síðustu viku, dómur sem valdið hefur miklum pólitískum titringi. Hann má lesa hér. Margir telja að umræður um dóminn endurspegli átök og núning milli ólíkra hreyfinga innan Samfylkingarinnar. Ýmsir telja málið þannig vaxið að forsætisráðherra muni þurfa að segja af sér vegna þess, ekki síst vegna þess að hún krafðist afsagnar ráðherra sem varð uppvís að jafnréttislagabroti árið 2004.

Ég hef meiri áhuga á jafnréttisdómnum sjálfum og því fordæmi sem hvert slíkt mál setur, heldur en að skipa mér í fylkingu með eða á móti forsætisráðherra. Og þess vegna vil ég rýna um stund í dómsorðin. Ég tel tvennt hafi gerst með þessum nýja dómi sem hafi áhrif á jafnréttismál framtíðarinnar.

Í fyrsta lagi hafa breytingar á jafnréttislögunum 2008 haft í för með sér aukið vægi kærunefndar jafnréttismála og þetta vægi er áréttað í dómnum. Í öðru lagi tel ég að í þessu jafnréttismáli hafi í fyrsta sinn verið viðurkenndur miski í jafnréttismáli, en hingað til hefur fjárhagslegur skaði eingöngu verið lagður til grundvallar bóta til þeirra sem verða fyrir jafnréttisbrotum. Hvort tveggja þessara atriða eru mikilvæg fyrir jafnréttismálin í landinu og því gleðst ég yfir niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur. Hér kemur nánari útlistun á þessum tveimur atriðum:

BINDANDI KÆRUNEFNDARÚRSKURÐUR

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála var birtur í mars 2011 og hann má lesa hér. Þar segir í niðurstöðu:

  1. Forsætisráðuneytið hefur ekki sýnt fram á að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið því er sá sem embættið hlaut var skipaður en ekki kærandi. Þegar menntun kæranda, starfsreynsla og hæfni í þeim sérstöku hæfnisþáttum sem sérstaklega var óskað eftir er borin saman við sambærilega kosti þess sem embættið hlaut verður vart önnur ályktun dregin en að kærandi hafi í það minnsta verið jafn hæf og sá sem embættið hlaut.
  2. Fyrir liggur að allir fjórir skrifstofustjórar forsætisráðuneytisins eru karlar og af 54 skrifstofustjórum Stjórnarráðsins, að utanríkisráðuneytinu undanskildu, voru á þeim tíma sem hér um ræðir og eftir því sem næst verður komist, 38 karlar og 16 konur.
  3. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar jafnréttismála að forsætisráðuneytið hafi ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar því að gengið var fram hjá kæranda við skipun í embætti skrifstofustjóra hjá ráðuneytinu, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.

Sumsé þá kemst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að Anna Kristín hafi verið að minnsta kosti jafnhæf og sá sem starfið fékk. Þar með telur kærunefndin að jafnréttislögin verið brotin.

Fram til 2008 voru niðurstöður kærunefndar fyrst og fremst ráðgefandi. Nefndin hefur þannig breyst úr álitsgjafa í úrskurðarnefnd og má lesa marga af úrskurðum (áður álit) kærunefndar jafnréttismála hér. Í 5. grein jafnréttislaga segir:

Úrskurðir kærunefndar eru bindandi gagnvart málsaðilum. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla. Að kröfu málsaðila getur nefndin kveðið upp úrskurð um frestun réttaráhrifa úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en tíu dögum frá birtingu úrskurðar. Frestun á réttaráhrifum úrskurðar skal vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan þrjátíu daga frá birtingu úrskurðar um frestun réttaráhrifa og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Ef beiðni um flýtimeðferð er synjað skal mál höfðað eins fljótt og unnt er eftir að synjun kemur fram og eigi síðar en innan þrjátíu daga frá synjun dómara. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki borið undir dómstóla innan þrjátíu daga frá birtingu úrskurðar um frestun réttaráhrifa eða mál er ekki höfðað innan þrjátíu daga frá synjun dómara um flýtimeðferð. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála sem eru til meðferðar hjá henni þar til dómur gengur í málinu.

Þar sem niðurstaða kærunefndar er bindandi skv. 5 gr. , hefði forsætisráðuneytið þurft að bregðast við úrskurðinum fyrir dómstólum ef það var ósammála niðurstöðunni. Greinilegt er á dómsorði Héraðsdóms að forsætisráðuneytið hefur ekki hirt um að reyna að hnekkja niðurstöðu kærunefndar fyrir dómstólum innan tilskilins tíma og þar með fresta réttaráhrifunum. Ráðuneytið brást ekki við og hefur því samþykkt úrskurðinn með þögninni. Þess vegna kemst dómurinn að eftirfarandi niðurstöðu:  Forsætisráðuneytið braut jafnréttislög við ráðningu skrifstofustjóra.

Það sem er mikilvægt við þessa niðurstöðu er að nú er ekki lengur hægt að dusta niðurstöður kærunefndar jafnréttismála af sér eins og rykkorn af skyrtuermi. Stofnanirnar sem kærðar eru þurfa að taka til varna fyrir dómstólum ef þau fá á sig jafnréttisúrskurð í stað þess að einstaklingurinn þurfi aftur að sækja sinn rétt og byrja frá grunni fyrir dómstólunum. Jafnréttislögin byggja á stjórnsýslulögunum og sá lagabálkur á að standa vörð um rétt einstaklingsins frammi fyrir stóru skrifstofubákni með öllum sínum bjargráðum. Þeir hagsmunir borgaranna eru áréttaðir hér og ég tel það vera gleðilegt. Svo geta menn endalaust þrúkkað um það hvort niðurstaða kærunefndar hafi verið rétt. Það einfaldlega skiptir ekki máli fyrir niðurstöðu dómsins, því að forsætisráðuneytið hirti ekki um að leita réttar síns á réttum stað og réttum tíma. Og það sem kannski er einkennilegast af þessu öllu er að frumvarp um að úrskurðir kærunefndar skyldu vera bindandi var fyrst lagt fram á Alþingi á löggjafarþinginu 2003-4- af núverandi forsætisráðherra (sjá hér).

FYRSTI MISKINN Í JAFNRÉTTISMÁLI?

Nú ætla ég að fullyrða dálítið sem ég held að sé rétt. Viti einhver betur þigg ég fúslega leiðréttingar. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem miski er greiddur í jafnréttismáli. Munurinn á skaðabótum og miskabótum er sá að skaðinn fjallar um beint fjárhagstjón sem af brotinu hlýst, en miskinn um annað tjón en hins fjárhagslega, t.d. vegna álitshnekkis. Skaðabætur eru skattskyldar en miskabætur ekki. Mér vitanlega hafa aldrei verið greiddar miskabætur í jafnréttismáli og tel ég að það geti stafað af því að enn telji fólk það ekki vera neitt sérstaklega alvarlegt að brjóta jafnréttislögin. Ég tel það því vera merkilegt mjög að Önnu Kristínu skuli hafa verið dæmdar miskabætur vegna framkomu ráðuneytisins við hana eftir að úrskurður kærunefndarinnar lá fyrir.

AÐ FÁ EÐA FÁ EKKI SKAÐABÆTUR

Dómurinn sýknaði forsætisráðuneytið af skaðabótakröfu Önnu Kristínar. Ég hef heyrt ýmsa túlka dóminn á þann hátt að ráðuneytið hafi ekki brotið jafnréttislögin og því hafi hún ekki átt rétt á skaðabótum. Það er hins vegar ekki rétt. Eins og áður sagði áréttar dómurinn 5. grein jafnréttislaga þar sem segir að úrskurðir kærunefndar jafnréttislaga skuli vera bindandi, nema að hinn kærði reyni að hnekkja úrskurðinum fyrir dómstólum. Það var ekki gert og þar með teljast jafnréttislögin brotin. Þá átti dómurinn hins vegar eftir að svara spurningunni um hvort beri að greiða þeim sem varð fyrir jafnréttislagabrotinu skaðabætur, sumsé hvort sannað sé að hún hafi orðið fyrir fjárhagslegum skaða af því að jafnréttislögin voru brotin á henni.

Ef umsækjendur um stöðuna hefðu aðeins verið tveir hefði þótt fullsannað að forsætisráðuneytið ætti að greiða Önnu Kristínu skaðabætur í ljósi þess að kærunefnd jafnréttismála hafði komist að þeirri niðurstöðu að hún væri að minnsta kosti jafnhæf og sá karlmaður sem um stöðuna sótti. En nú voru þau sem komust í úrslit fimm talsins og hinir þrír umsækjendurnir allar konur. Upplýsingar um hæfi þessara þriggja umsækjenda lágu ekki fyrir, þær kærðu ekki og töldust þar með ekki aðilar málsins.

Dómurinn hafnar skaðabótakröfunni. Ekki vegna þess að brot hafi ekki átt sér stað eða að ósannað sé að Anna Kristín hafi verið jafnhæf Arnari.  Skaðabótakröfunni er hafnað  vegna hinna umsækjendanna, sem allar hefðu getað verið jafnhæfar Arnari líka og hugsanlega hæfari Önnu Kristínu.

Anna Kristín Ólafsdóttir segir í viðtali eftir að dómur féll að þessi niðurstaða sé „sigur fyrir konur“. Ég hygg að það sé hárrétt hjá henni. Það er sigur fyrir konur, jafnt sem karla þegar jafnrétti er viðurkennt og virt, þegar reglur sem settar eru um stjórnhætti í landinu ná fram að ganga. Þau lög sem sett hafa verið eiga að gilda alls staðar í þjóðfélaginu og helst og fremst hjá því ráðuneyti sem hefur með jafnréttismál að gera.

Þingræði-forsetaræði-lýðræði

Forsetakosningar á Íslandi árið 2012 eru markaðar atburðum haustsins 2008 og eftirmála þeirra.

Forsagan er þessi: Þingræðið varð fyrir gífurlegu áfalli í bankahruninu. Fólk missti trú á að stjórnmálamenn tækju upplýstar ákvarðanir til heilla fyrir þjóð og land. Það þurfti heila búsáhaldabyltingu og gífurlega borgaralega óhlýðni til að fella ríkisstjórnina og knýja fram kosningar á árinu 2009. Hin nýja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gerði síðan samkomulag við Hollendinga og Bretland um Icesave reikningana. Samkomulagið var staðfest í þinginu , en forseti Íslands synjaði lögunum staðfestingar í ársbyrjun 2010. Þjóðaratkvæðagreiðsla var síðan haldin í byrjun mars 2010. Á tímanum fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni höfðu Íslendingum boðist betri samningskjör og því var niðurstaðan ljós fyrirfram. Samningur ríkisstjórnarinnar frá haustinu 2009 var orðinn úreltur og lýðum ljóst að ríkisstjórnin hafði samið af sér. Við tók annað samningsferli sem þótti ólíkt betra hinu fyrra. Forseti Íslands neitaði einnig að staðfesta þessi lög, þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin í apríl 2011 og seinni samningurinn felldur með 60% atkvæða gegn 40%.  Þótti þá fullreynt um sættir og Bretar og Hollendingar kærðu Íslendinga fyrir eftirlitsstofnun EFTA fyrir brot á EES samningnum.

Ríkisstjórn Íslands hefði átt að biðjast lausnar í október 2008 þegar efnahagskerfið hrundi. Búsáhaldabyltingin tók af henni ómakið og knúði hana til lausnar. Ríkisstjórn Íslands hefði átt að biðjast lausnar árið 2010, þegar ljóst var að hún hafði samið af sér. Ríkisstjórn Íslands hefði átt að biðjast lausnar árið 2011 þegar henni og mikilvægum ákvörðunum hennar hafði verið hafnað í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Þessi tregða síðustu ríkisstjórna til að sjá að umboð til þeirra frá þjóðinni var fallið hefur veikt þingræðið.

Það sem eftir stendur er reiði almennings og tortryggni út í Alþingi og Stjórnarráð Íslendinga. Þingræðið stendur völtum fótum, fyrst og fremst vegna þess að fólkið í landinu á erfitt með að treysta dómgreind og heilindum þingmanna. Við slíkar aðstæður, slíkt áfall, verður til kjörlendi fyrir skapandi og slyngan stjórnmálamann. Ólafur Ragnar Grímsson er slíkur stjórnmálamaður. Og í miðri óreiðunni í ársbyrjun 2010 breytti hann forsetaembættinu, undirstrikaði völd forseta og bjó til mótvægi við þingið.  Fyrir vikið voru afdrifarík spor stigin til aukin forsetaræðis á Íslandi.

Íslenska þjóðin er reið og blórabögglana vantar hana ekki. Samfélagsheildir í uppnámi leita hins vegar ekki aðeins útrásar fyrir reiði sína, heldur líka einhvers afls sem þær geta treyst og litið upp til. Ólafi Ragnari Grímssyni hefur með undraverðum hætti tekist að snúa ímynd sinni frá því að vera klappstýra útrásarinnar með „Ain´t seen nothing yet“ myllustein um háls yfir í að verða mörgum Íslendingnum einkavinurinn sem hlustaði á þjóðina og stöðvaði Icesave. Ólafur Ragnar Grímsson er á góðri leið með að búa til sína eigin föðurlandserkitýpu. Erkitýpu sem er eina traust margra hverra sem steyta hnefann framan í hrunið og Icesave.

Og þess vegna held ég að flest verði þeim mótdrægt sem bjóða sig fram á móti sitjandi forseta í þessum kosningum. Öll andspyrna við hann er túlkuð á flokkspólitískan hátt og frambjóðendur til forseta eru útmálaðir sem handbendi stjórnmálaafla. Fólk vantreystir stjórnmálamönnunum og telur allt þeirra vafstur bera vott um spillingu eða dómgreindarleysi. Í staðinn velur það að hylla manninn eina, sem geti myndað mótvægi við valdið við Austurvöll. Og maðurinn eini biður um umboð fjögur ár í viðbót til á óvissutímum. Alveg eins og ríkisstjórn Geirs H. Haarde varð að sitja áfram á óvissutímum. Alveg eins og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur varð nauðsynlega að sitja áfram eftir að þjóðin hafði hafnað henni í tveimur dramatískum þjóðaratkvæðagreiðslum.

Það sem íslensk þjóð þarf á óvissutímum er ekki öxl forsetans til að halla sér á. Hún þarf að efla þingræðið og aga sína þingmenn. Hún þarf líka að sjá styrkinn í sjálfri sér og gera breytingar á stjórnskipan lýðveldisins sem eflir hið beina lýðræði. Hún þarf að horfa óhrædd inn í óvissuna og krefjast þess að ráðamennirnir skili inn valdi sínu þegar þeir standa ekki undir væntingum. Hún á ekki að horfa til hins eina, heldur til fjöldans, því við erum mörg og við erum sterk þegar við hugsum saman.

Það er valið á milli forsetaræðis og þingræðis, sem ég set spurningamerki við.  Hugmyndin um vald eins manns til að túlka hug þjóðar sinnar virðist vera vinsæl hugmynd um þessar mundir, einkum og sér í lagi vegna þess að það þurfti vald þessa eina manns til að stöðva Icesave samningana. Þriðji möguleikinn er sá að fólkið sjálft taki virkari þátt í stjórnun landsins.  Ég er fylgjandi auknu beinu lýðræði borgaranna og þar með tel ég þjóðaratkvæðagreiðslur hið ágætasta mál.  Ég vil hins vegar ekki eiga það undir dyntum og dómgreind forseta Íslands hvenær slíkar atkvæðagreiðslur eiga við. Ég er fylgjandi lýðræði en mótfallin ræði hins eina. Og þess vegna kýs ég ekki mann á forsetastól sem vill efla forsetaræðið. Allra síst þann sem vill sitja í 20 ár vegna óvissutíma.

Spurningar til biskupskandídata

Til okkar biskupskandídatanna hefur verið beint fjórum spurningum. Þeir eru beðnir um að gera grein fyrir eftirfarandi atriðum:

1) hvað ógnar Þjóðkirkju Íslands eins og hún birtist þjóðinni í siðferðis-, stjórnmála- og efnahagskreppu.
2) hvernig hún getur mætt þjóðinni, þar sem hún er stödd nú (sjá 1)
3) hvaða verkefni þeir setja á oddinn, til að kirkjan geti mætt þjóðinni (sbr. 2)
4) hvernig þeir hyggjast beita sér til að bæta Þjóðkirkju Íslands.

Þetta eru fínar spurningar sem ég ætla að svara með nokkrum greinum hér á blogginu og á http://www.tru.is á næstunni. Meðan ég leggst undir feld þá bendi ég á yfirlýsinguna mína og þær greinar sem ég hef ritað undanfarið. Í yfirlýsingunni bendi ég á fjóra þætti sem ég ætla að leggja áherslu á ef ég verð biskup. Ég byrja á hinu víðasta og þrengi hringinn smám saman frá hinu almenna samtali, til safnaðanna og síðan inn í stjórnsýslu og starfsmannamál þjóðkirkjunnar. Yfirlýsinguna má nálgast hér. Ég bendi líka á sjö greinar sem ég hef skrifað að undanförnu og birt hér á Afgrunninu:

„Umdeildir leiðtogar“
„Kirkjan öllum opin“
„Lýðræði og ný þjóðkirkjulög“
„Valddreifing og valdefling í kirkjukosningum“ 
„Lifur líkamans“
„Þjóðkirkjan á breytingaskeiðinu“
„Gegnum glerþakið“

Á morgun ríð ég á vaðið með fyrstu grein:  „Hvað ógnar þjóðkirkjunni eins og hún birtist þjóðinni í siðferðis-, stjórnmála- og efnahagskreppu?“  Fylgist með.