Tag: nauðgun

Okkar eigin Steubenville

Nýlega hafa fréttir af nauðgun í Steubenville í Ohio verið áberandi í fréttum. Tveir ungir menn í bænum nýttu sér neyð ungrar stúlku í ágúst 2012, tóku verknaðinn upp og dreifðu á You tube. Myndbandið sýnir svo ekki verður á móti mælt að piltarnir tveir voru sekir um nauðgun. Eftirmál atburðanna í Steubenville urðu þau að meirihluti bæjarbúa stóð með ungu mönnunum sem voru upprennandi íþróttamenn í amerískum háskólafótbolta og þessi mikla samúð með ofbeldismönnunum breiddist út. Sjónvarpsstöðin CNN flutti fréttir af því þegar dómur var kveðinn upp og miðaðist fréttaflutningurinn fyrst og fremst við sjónarhorn þeirra sem ofbeldinu ollu, tilfinningar þeirra og foreldra þeirra og fjölskyldu en ekki aðstæður stúlkunnar sem var nauðgað. Fluttar voru fréttir af brostnum vonum ofbeldismannanna um skólagöngu og bjarta framtíð. Fjölmiðlar fluttu fréttir og vorkenndu drengjunum. Twitter fór af stað með athugasemdum eins og “þeir gerðu það sem flestir í þeirra aðstöðu hefðu gert,” og “þetta er ekki nauðgun og þú ert lauslát, full drusla.” Aðrir notuðu tækifærið til ráðlegginga eins og t.d. : “Takið ábyrgð á ykkur sjálfum stelpur, svo að ykkar drykkjuóðu ákvarðanir eyðileggi ekki saklaus líf.“

Laurie Penny skrifar í vikuritinu New Statesman um Steubenville réttarhöldin:

Myndirnar frá Steubenville sýna ekki aðeins stúlku sem er nauðgað. Þær sýna að það er horft framhjá nauðgunum, hvatt er til þeirra og þær eru í hávegum hafðar.  Hvers konar menning getur mögulega framleitt slíkar birtingarmyndir?  Það getur aðeins gerst í samfélagi þar sem sjálfræði kvenna og réttur þeirra til öryggis þykir svo lítilmótlegur að nauðgararnir og þeir sem héldu á myndavélunum upplifðu athæfi sitt sem “fullkomlega réttlætanlegt”.

Spyrja má hvort samfélag þar sem sjálfræði kvenna og réttur til líkamlegs, andlegs og kynferðislegs öryggis er fyrir borð borinn sé sérbandarískt fyrirbrigði, eða hvort Steubenville, Ohio fyrirfinnist á fleiri stöðum. Til dæmis á Húsavík.

Í kvöld var sýnt viðtal í Kastljósi við unga konu sem kærði nauðgun á Húsavík á vormánuðum 1999, en hún var 17 ára þegar jafnaldri hennar braut gegn henni. Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Norðurlands í árslok 1999 stúlkunni í vil. Hæstiréttur staðfesti síðan héraðsdóminn í apríl 2000, en hækkaði miskabætur til stúlkunnar, „með hliðsjón af því, að framangreint brot hefur valdið henni óvenju mikilli félagslegri röskun,“ eins og segir í dómnum.

Áhorfendur Kastljóss fengu nokkurn nasaþef af því í kvöld hvers konar „félagslega röskun“ stúlkan hafði búið við á Húsavík eftir að hún kærði nauðgunina. Þessi félagslega röskun fólst í því að fólk hætti að heilsa henni á götu. Það hringdi í hana og gagnrýndi hana fyrir að hafa kært nauðgunina. Það dró ofbeldið í efa. Það talaði illa um hana. Ein kona vatt sér að dansfélaga hennar á balli og sagði: „Passaðu þig, að vera ekki nauðgað!“ Og síðan tóku 113 bæjarbúar sig til og birtu í bæjarblaðinu Skráin stuðningsyfirlýsingu við hinn dæmda unga mann, nafngreindu hann, slógu því upp að þeir vonuðu og trúðu því að réttlætið næði fram að ganga, „vegna þess að mæður eiga líka syni“.

Ef „móðirin“ í þessu tilfelli er Húsavík, samfélagið og heimkynnin sem stóðu að þessum tveimur ungu manneskjum á ógæfukvöldi árið 1999, hvers vegna skipta þá aðeins hagsmunir, tilfinningar og afdrif sonanna máli? Hvers vegna skiptu dætur mæðranna ekki máli í Steubenville? Eiga mæður, feður og samfélög ekki líka dætur? (Með þessu er ég vitanlega ekki að segja að allir Húsvíkingar hafi tekið þátt í hinni „félagslegu röskun“. En stúlkan missti heimkynni sín og félagslegt öryggi sem þeim heimkynnum og samfélagi tengdust.)

Í Kastljósviðtalinu kom einnig fram að sóknarpresturinn á Húsavík hafi komið að málinu með þrennum hætti. Hann hafi reynt að fá stúlkuna til að hætta við að kæra málið. Hann hafi reynt að fá þau sem rituðu undir yfirlýsinguna til að birta hana ekki og birti sjálfur yfirlýsingu í Skránni þar sem hann hvatti söfnuð sinn til að sýna stillingu, taka tillit til fjölskyldna og tilfinninga hvers annars og koma hver fram við aðra á þann hátt sem Gullna reglan segir . (Þessi yfirlýsing er birt í heilu lagi í frétt DV, en Skrána hef ég ekki fundið á netinu). Í þriðja lagi lét hann þau orð falla í viðtali við DV að hann tryði á sáttargjörð, og hefði íhugað „hvort rétt væri að leita aðstoðar fagaðila eins og sálfræðinga í þeim efnum“, eins og segir í frétt DV.

Mér þykir vænt um að starfsbróðir minn skyldi berjast fyrir því í sínum söfnuði að nafnalistinn væri ekki birtur. Ég get tekið undir hvert orð sem hann sagði í yfirlýsingu sinni frá 2000 og tel að ónauðsynlegri þjáningu hefði verið afstýrt ef sóknarbörnin hefðu hlustað á þau orð hans. Það eru hins vegar önnur afskipti hans af málinu sem ástæða er til að staldra við, nú þegar málið er rifjað upp að nýju. Sóknarpresturinn hefur í viðtali við Fréttablaðið sem kemur út á morgun, en hefur verið birt á netinu tekið fram að hann rengi ekki orð stúlkunnar, en muni þau illa og hafi ætlað þau til stuðnings. En á hvaða hátt getur það verið til stuðnings fyrir þau sem fyrir ofbeldi verða að dregið sé úr þeim að kæra?

Nauðgun er glæpur.

Ég veit að þetta virðist augljóst, en það er samt nauðsynlegt að segja það oft: Nauðgun er glæpur og heyrir undir hegningarlög. Nógu oft til þess að einn daginn trúum við því nógu vel til þess að þessi vitneskja hafi áhrif á orð okkar og gjörðir.

Ég velti því fyrir mér hvað hefði gerst ef ekki hefði verið um nauðgun að ræða, heldur ölvunarakstur, þar sem ungi maðurinn hefði valdið ungu konunni stórum skaða með sannanlegum hætti. Allur bærinn hefði tekið þátt í sorg foreldranna og endurhæfingu stúlkunnar. Hann hefði líka tekið þátt í sorg unga mannsins og stutt fjölskyldu hans. Bænum hefði þótt sjálfsagt að málið færi fyrir lögreglu og dómara. Dómur í héraðsdómi og Hæstarétti hefði engu breytt í því efni og það er stjarnfræðilega ólíklegt að unga stúlkan á hjólastólnum hefði verið flæmd úr bænum fyrir að láta keyra á sig, eða hún ásökuð fyrir að vera að flangsast þetta í umferðinni.

Ölvunarakstur er glæpur. Af hverju virðast stundum önnur lögmál gilda um nauðganir en aðra glæpi í samfélaginu, sbr. Steubenville réttarhöldin?  Getur það verið vegna þess að undir niðri er sú skoðun enn ríkjandi að brot gegn kynverund kvenna séu engin sérstök brot, heldur minni háttar ávirðingar, sem hægt sé að leysa með öðrum hætti og valkvætt við hegningarlögin?

Mig langar að lokum að segja nokkur orð um sáttargjörð. Ég trúi nefnilega líka á hana og veit að hún skilar oft miklum árangri. Sáttargjörð er samin á hverjum degi í hjónaböndum, milli barna og foreldra og milli vina og starfsfélaga sem hafa orðið ósáttir. Sáttargjörð er einstakt dýrmæti sem hjálpar til að græða sár og mistök. Sáttargjörð er iðkuð í vaxandi mæli í forræðisdeilum. Í átökum landa þar sem borgarastyrjöld og ofbeldi hefur ríkt hefur stundum tekist að koma á sáttargjörð í stað blóðsúthellingar. Dæmi um það eru í Suður-Afríku og í Rwanda. Sáttargjörð er ekki valkvæð við hegningarlögin, heldur eitthvað sem gripið er til þegar önnur úrræði eru ekki til, til dæmis í samskiptum hversdagsins, mikilvægum samskiptum þar sem dómstólaleiðin er ekki endilega fýsileg og vegna þjóðarharmleiks sem engin réttur nær að rúma og orða. Sáttargjörð er aðeins möguleg ef fólk vill koma að borði, segja frá mistökum sínum og öðlast fyrirgefningu.

Konan sem sagði sögu sína af yfirvegun og æðruleysi í Kastljósviðtalinu hefur byggt upp gott líf í Noregi. Það er enn sárt fyrir hana að koma heim, vegna þess að móðirin Húsavík sinnti bara sonum sínum þegar á reyndi og dóttirin þurfti hennar með.  Ef hún vill og kærir sig um, þá er eflaust tækifæri til sáttargjörðar á Húsavík. Sú sáttargjörð er ekki endilega við þann sem braut á ungu konunni vorið 1999, því að það mál var rekið fyrir dómstólum og sökin og miskinn voru viðurkennd. Hin sorgin er eftir, eineltið, misskildi stuðningurinn, fólkið sem skrifaði á listann, en sér eftir því núna, samfélagið sem tekur synina fram yfir dæturnar.

Því að mæður eiga líka dætur og samfélög geta brugðist víðar en í Steubenville. Og það er gott að biðjast fyrirgefningar á því sem maður hefur gert rangt.

Friðrika og farísearnir

Friðrika Benónýs skrifar bakþanka í morgun undir yfirskriftinni „Femínistar og farísear“ og vísar í orð Krists úr Matt. 23:13: „Vei yður fræðimenn og farísear, hræsnarar!“ Pistilinn má nálgast hér.

Friðrika hefur pistil sinn á að ræða um atburðina í Steubenville þar sem tveir unglingspiltar báru dauðadrukkna stúlku á milli partýja, nauðguðu henni ítrekað undir fagnaðarlátum veislugesta, tóku verknaðinn upp á myndband, settu á You tube og uppskáru mikla samúð á bæjar og landsvísu þegar stúlkan tók upp á að kæra þá fyrir dómstólum. Þessa hryggilegu atburði í Steubenville og reiðina yfir meðvirkni með ofbeldismönnum tengir Friðrika síðan við klámvæðinguna og fagnar nýframkomnu frumvarpi innanríkisráðherra.

Ég vil taka undir þessa meginpunkta greinar Friðriku. Það eru sterk tengsl á milli menningar sem lítur fram hjá og jafnvel fagnar nauðgunum og klámvæðingar, tengsl sem byggja á hlutgervingu kvenlíkamans og virðingarleysi fyrir öryggi og hamingju kvenna. Og líklega eru fáir hópar í veröldinni sem hafa barist jafn einarðlega fyrir því að benda á tengslin  milli nauðgunarmenningar og klámvæðingar og einmitt femínistar. Ég bendi t.d. á yfirlýsingu  nú í vikunni á femíníska vefmiðlinum knúz.is þar sem femínistar um heim allan og úr ýmsum áttum lýsa yfir stuðningi sínum við aðgerðir innanríkisráðherra.

Það vekur því undrun mína hvernig Friðrika snýr pistli sem að stofni til fjallar um nauðgunarmenningu og klámvæðingu yfir í gagnrýni á femínisma.  Friðrika vísar í að einhvað „fólk“ sem hún nafngreinir ekki sé á móti höftum á tjáningafrelsi. Síðan vitnar hún í orð Maríu Lilju Þrastardóttur í gær í Morgunblaðinu um að Íslendingar séu betur meðvitaðir um nauðgunarmenningu en áður var og sætti sig að stórum hluta ekki lengur við meðvirknina. Friðrika er að vitna í þennan bút úr Morgunblaðinu:

María Lilja Þrastardóttir, talskona Druslugöngunnar á Íslandi, sagði að sem betur fer virtust þau viðhorf sem þarna birtast ekki endurspegla viðhorf Íslendinga. „Við fundum það mjög sterkt með Druslugöngunni að hlutirnir hafa breyst. Íslendingar eru almennt mjög vel upplýstir þó svo að þessi viðhorf kunni að leynast einhversstaðar. Þú þarft ekki að leita lengra en á kommentakerfi vefmiðlanna til að sjá að það er enn fólk þeirra skoðunar að fórnarlömb nauðgana, langoftast konur, geti sjálfum sé um kennt,“ segir María Lilja.

Orð Maríu Lilju um að Íslendingar séu á leið til meiri upplýsingar skapa sumsé þáttaskil í grein Friðriku, þar sem hún hættir að tala um tengsl nauðgana og kláms og yfir í hvað femínistar séu miklir hræsnarar.

Steininn tók þó úr í umræðunni í gær þegar forsvarskona Druslugöngunnar fullyrti í samtali við mbl.is að það að taka afstöðu með gerendunum og kenna fórnarlambinu um væri ekki vandamál hérlendis og að „sem betur fer virtust þau viðhorf sem þarna birtast ekki endurspegla viðhorf Íslendinga“. Í hvaða heimi býr hún?

Ég get ekki séð að María Lilja hafi í orðum sínum gert lítið úr nauðgunarviðhorfum hér á landi. Hún nefnir einmitt kommentakerfin og að enn sé til fólk sem telur að fórnarlömb nauðgana geti kennt sjálfum sér um. Hún hins vegar leyfir sér að vera bjartsýn, að trúa því að umræða og barátta undanfarinna ára hafi breytt einhverju og muni halda áfram að breyta Íslandi og vonandi heiminum. Ef slík von og bjartsýni flokkast undir faríseisma, þá bið ég um meira af slíku.

Eftir að hafa rassskellt einn femínista fyrir að leyfa sér að benda á breytingar á þjóðarsálinni, og vitnað í óskilgreindan hóp af „sama fólki“ sem mótmælir Steubenville en er á móti frumvarpi innanríkisráðherra límir Friðrika síðan titil á greinina sína:  „Femínistar og farísear“ og endar greinina á að bæta þurfi kynlífsfræðslu en tjá sig minna „um eigið ágæti“.

Grein Friðriku byggist einhvern veginn svona upp.

1. Steubenville réttarhöldin opinbera nauðgunarmenningu

2. Nauðgunarmenning helst í hendur við klámvæðingu.

3. Innanríkisráðherra vill setja lög sem sporna gegn klámvæðingu.

4. Einhvað „fólk“ er ekki sammála þessu frumvarpi.

5. Einn femínisti segir að sem betur fer sé umræða um nauðganir að batna á Íslandi, en á því séu því miður stórar undantekningar þar sem brotaþolum er kennt um.

6. Niðurstaða:  Femínistar eiga að tala minna um eigin ágæti.  Bíddu, ha?

Getur einhver útskýrt fyrir mér þessa röksemdafærslu?

P.S. Glöggur lesandi bloggsins benti mér á að umræðan um takmörkunina á klámi er ekki orðið að frumvarpi ennþá og réttara væri að tala um hugmyndir innanríkisráðherra. Því er hérmeð komið á framfæri.

Gillzenegger, Guðbergur og Gunnar á Hlíðarenda

Nauðgunarkærum á hendur Agli Einarssyni og unnustu hans hefur verið vísað frá. Sumir telja að Egill sé fórnarlamb pólitísks rétttrúnaðar, sem annars vegar einkennist af því að allir eigi að hafa sömu skoðanirnar og hins vegar af mikilli dómhörku götunnar.

Það sem gerir málið flóknara er að Egill Einarsson hefur komið sér upp umdeildri ímynd, Gillzenegger sem hefur verið markaðsvædd í stórum stíl sem fyrirmynd ungra manna í harðnaglafræðum. Egill Einarsson og ímynd hans eru tengdir órofa böndum í huga almennings og manninum og hliðarsjálfinu er einatt ruglað saman. DV birti til dæmis frétt á föstudaginn um að nauðgunarmál gegn Gillz hafi verið fellt niður. Þannig leggur DV sitt lóð á vogarskálarnar við að halda okkur á sviði mýtunnar, óranna um Gillzmanninn í stað þess að flytja fréttir af lögreglurannsókn af meintri nauðgun í raunheimi.

Á þjóðhátíðardaginn kvaddi Guðbergur Bergsson rithöfundur sér hljóðs og birtir mikla gagnrýni á dómstól götunnar. Guðbergur stekkur til varnar hinni uppdiktuðu persónu Gillzenegger, sem hefur að dómi Guðbergs orðið fyrir forlögum allra hetja og glæsimanna fyrri tíðar, öfund, aðkasti og hefnigirni. Guðbergur sparar ekki stóru orðin og orð eins og „pokaprestahræsni“, „nunnuvæðing“, „meyjarhaftavörn“, „galdrabrennur“ og „kaþólskur rannsóknarréttur“ fljúga hægri- vinstri.

Guðbergur virðist líta á málið gegn Agli Einarssyni sem eins konar táknsögu (allegóríu), um glæsimenni sem er komið á kné af lítilsigldum öfundarmönnum sínum. Sögupersónan Gillzenegger í meðförum Guðbergs Bergssonar er Bjössi á mjólkurbílnum. Hann er Mósart sem Salíeri hefur grafið undan. Hann er Fást. Hann er Óþelló sem Jagó bruggar banaráð. Hann er Kjartan Ólafsson, Grettir og Gunnar á Hlíðarenda. Hann er glæsimenni og alþýðumaður sem þjóðin hefur hafnað og krossfest af því að hún er lítilla sanda og sæva.

Íslendingar eru sögumenn og við erum fljót að túlka efnivið okkar eftir táknsögum sem móta líf okkar. Sumar þeirra eru dregnar úr goðafræðinni, aðrar frá Íslendingasögum, Biblíunni eða úr kennslubókum Jónasar frá Hriflu. Táknsögur eru mikilvægar, en þær eru líka varasamar. Táknsögur taka breytingum. Og það hollt að skoða þær táknsögur sem hafa áhrif á líf okkar, ráða gildismati okkar og fá blóð okkar til að ólga. Stundum er gott að afbyggja eigin táknsögur.

Gillz hefur ekki verið ákærður fyrir nauðgun. Gillz er ekki til, hann er ímynd, söluvara, samnefnari fyrir tiltekna tegund harðjaxlamenningar. Skapari hans Egill Einarsson var hins vegar kærður fyrir nauðgun og nú hafa kærurnar verið látnar niður falla.

Stefið sem Guðbergur slær er gamalkunnugt og margir geta eflaust speglað sig í því. Guðbergur hljómar reyndar furðu prestslegur í fordæmingu sinni á pokaprestshræsnislegri öfund. Öfundin var ein af hinum sjö kristnu dauðasyndum og Guðbergur lemur á hinum galdrabrennandi, femínísku nunnum og meyjarhaftsverjum í vel þekktum vandlætingarstíl.

Af nauðgunarkærum

Þjóðkunnur maður og kærasta hans hafa í dag verið yfirheyrð vegna ákæru um nauðgun og fréttirnar hafa skekið netheima og fjölmiðla nú síðdegis.

Nauðgunarkærur ganga sína leið í réttarkerfinu eins og allar aðrar ákærur er varða við hegningarlög. Það er að segja þær kærur sem fara alla leið og er haldið til streitu allt til enda. Aðeins hluti nauðgana er hins vegar tilkynntur til lögreglu og margar þeirra kvenna sem kæra nauðgun (brotaþolar eru flestir kvenkyns) draga kærur sínar til baka. Álagið er einfaldlega of mikið, fordómarnir gagnvart þeim sem verða fyrir kynferðisofbeldi ærnir, og oft drjúgir hagsmunir í húfi.

Það þarf kjark til að kæra þau sem hafa beitt mann ofbeldi og ekki síst þegar mikill munur er á stöðu, aldri og bjargráðum viðkomandi. Um þetta valdamisræmi ræðir Drífa Snædal í beittri grein á Smugublogginu.

Sú eða sá sem hefur orðið fyrir órétti á heimtingu á að hlutur hennar/hans sé réttur við fyrir dómstólum. Ég á mér þá ósk að öll þau sem verða fyrir nauðgun geti haldið út allt til enda. Að þau láti ekki kærur niður falla eða áhrif og völd hafa áhrif á sig, heldur gangi þessa götu alla leið fyrir dómstólum.

Við höfum ekki endilega vald á því sem kemur fyrir okkur sem manneskjur í flóknum heimi. En við höfum val um það hvernig við bregðumst við andstreymi og hvað við látum yfir okkur ganga. Dómskerfið dæmir að sönnu ekki alltaf brotaþolum í hag. En dómar, fordæmisgildi þeirra og sá texti og umræðugrundvöllur sem þeir skapa skipta miklu máli.

Og smátt og smátt breytum við heiminum.