Tag: bókmenntir

Drottins þjónn og daglegt brauð

Ég er brauð lífsins segir Jesús, brauðið sem er hold og orð og þekkir mannsins glímur. Hann þekkir villta bjarndýrið innra með okkur, sem við erum alltaf að reyna að temja og strauja skyrtur. Stundum tekst það ekki nógu vel og við eyðum öllu lífinu í að reyna að bæta um fyrir mistökin og byggja upp daglegt brauð öryggis og friðar. En sumum tekst líka helst til vel að temja björninn og birnuna innra með sér og passa inn í þann þrönga pappakassa sem lífi hans er skorinn. Og þá þurfum við Dára, villta sköpun í fimmtugsafmælisgjöf, því að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði.

Hellubæjarbækurnar

Hellubæjarbækurnar eru herragarðssögur eftir sænsku skáldkonuna Margit Söderholm (1905-1986) og í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég kynntist þeim fyrst á bókasafni Seltjarnarnness sem unglingur og hef lesið þær með reglulegu millibili allar götur síðan. Ég hef líka smám saman verið að safna bókunum. Í dag áskotnaðist mér síðasta bókin í safnið og afréð af því tilefni að skrifa pistil um þessar uppáhaldsbækur. Vera má að pistillinn lokki einhvern til að lesa þessar skemmtilegu sögur.

Margit Söderholm sendi frá sér sautján skáldsögur og þar af hafa þrettán komið út á íslensku. Hellubæjarbækurnar voru skrifaðar á árunum 1945-1980. Þær urðu alls átta og þar af komu sjö út á íslensku. Sjö af bókunum segja samfellda ættarsögu Ankarbergættarinnar í Suðurmannalandi í Svíþjóð á árunum 1802-1881, en ein á að gerast um miðjan sjötta áratug síðustu aldar.

Sögurnar eru:

  • Katrín Karlotta (Grevinnan 1945), Norðri 1949 og þýdd af Kristmundi Bjarnasyni. Bókin var endurþýdd af Skúla Jenssyni og gefin út af Skuggsjá 1978-9 í tveimur bókum, Brúðurin unga og Ekkjan unga. Ég fékk þær einmitt í jólagjöf þessi ár, þá á fermingaraldri.
  • Bræðurnir (Bröderna 1950) , Röðull 1957, þýdd af Skúla Jenssyni.
  • Hátíð á Hellubæ (Jul på Hellesta 1954) Skuggsjá 1958, þýdd af Skúla Jenssyni.
  • Sumar á Hellubæ (Sommar på Hellesta 1957), Skuggsjá 1959, þýdd af Skúla Jenssyni.
  • Það vorar á Furulundi (Våren kommer till Tyrsta 1960), Skuggsjá 1962, þýdd af Skúla Jenssyni.
  • Karólína á Hellubæ (Caroline 1962), Skuggsjá 1963, þýdd af Skúla Jenssyni.
  • Flickorna Ankarberg (1980), hefur ekki verið þýdd á íslensku.
  • Ský yfir Hellubæ (Moln över Hellesta 1955) , Skuggsjá 1960, þýdd af Skúla Jenssyni.

Sagan hefst árið 1802 þegar Katrín Karlotta von Berg frá Hellubæ giftist greifanum Karli Henrik Ankarberg frá óðalsetrinu Furulundi í Trosahéraði. Hún er sautján ára, en hann kominn vel yfir fertugt. Hjónabandið er óhamingjusamt frá upphafi. Karl Henrik kúgar hina ungu eiginkonu sína og tekur smám saman af henni öll völd. Steininn tekur úr þegar hann selur bernskuheimili hennar eftir dauða föður hennar og bannar henni að fara af bæ. Karlotta upplifir sig eins og dýr í gildru og þegar hún eignast drenginn Karl Jóhann sem er lifandi eftirmynd föður síns á hún erfitt með að láta sér þykja vænt um hann. Ekki bætir úr sök að ráðskonan á Furulundi, ungfrú Löfstedt, er gömul ástmey greifans og ræður öllu innanstokks. Karlotta stofnar til ástarsambands við ungan bóndastrák sem heitir Birgir og verður ófrísk eftir hann. Hinn kokkálaði greifi hefnir sín og lætur drepa Birgi í hesthúsinu en veikist skömmu síðar sjálfur og deyr af hjartveiki. Um miðbik fyrstu bókarinnar (Katrín Karlotta) er Karlotta greifynja því orðin ekkja tvítug að aldri með tvo syni, Karl Jóhann og Jakob Wilhelm og á fyrir óðalssetri að sjá. Við söguna kemur einnig Soffía Ankarberg Lothin, systir Karls Henriks og dætur hennar tvær Júlía og Annetta sem eru á líkum aldri og Furulundarbræðurnir.  Fabían Juncker á Ársteinum er helsta hjálparhella Karlottu við bústörfin og Junckerættin á eftir að koma við sögu Ankarbergfjölskyldunnar allar götur síðan, svo og nágrannarnir á Bjursundi, Tofsö og fleiri stöðum.  Karl er óðalserfingi að Furulundi en Wilhelm eða Will á enga arfsvon sem yngri sonur. Karlotta einsetur sér því að kaupa Hellubæ aftur fyrir Will og seinni hluti bókarinnar fjallar um baráttu hennar við að endurheimta Hellubæ. Bókin endar á miklu uppgjöri milli Karlottu og Wilhelms, þegar hún lætur honum eignarhaldsbréfið að Hellubæ í té en segir honum jafnframt allt af létta um faðerni hans.

Bræðurnir hefst árið 1827 þegar Will Ankarberg er 23 ára og orðinn liðsforingi í sörmlenska hernum. Hann er nýkvæntur og dóttirin Karlotta er nýfædd þegar ættmóðirin Karlotta deyr úr kóleru í Vínarborg, þar sem Karl Jóhann starfar sem sendifulltrúi. Sagan lýsir uppgjöri Wills við upprunann og sambandi þeirra bræðranna.

Hátíð á Hellubæ  á að gerast yfir jólahátíðina á Hellubæ árið 1851. Í bókinni er sænsku jólahaldi á nítjándu öld lýst á snilldarlegan hátt. Við sögu koma dætur Wills þrjár, Karlotta (23 ára), Soffía (18 ára) og Karólína (17 ára) og ástir þeirra allra setja svip sinn á bókina. Eldri sonur Wills, Karl (13 ára), er að koma heim af herskólanum Karlsbergi þar sem hann er lagður í einelti og yngsti sonurinn Andrés (5 ára) er uppátækjasamur sprelligosi. Karl Jóhann greifi á Furulundi sækir óðalssetrið lítið heim, heldur býr erlendis og hefur starfað sem sendifulltrúi í Kaupmannahöfn, Pétursborg og síðast Berlín. Hann er kvæntur Evu Riddercrantz og á með henni Jacques sem er 21 árs liðsforingi í Stokkhólmi, Karlottu (Lólottu, 18 ára) og Wilhelm (14 ára) sem er á Karlsbergi með Kalla en gengur ólíkt betur. Jacques og Wilhelm halda jólin með frændfólkinu á Hellustað en Lólotta er með foreldrum sínum í Þýskalandi.

Sumar á Hellubæ segir frá sorg Wills sem hefur nýlega misst eiginkonu sína, svo og ævi og ástum systranna Emilíu og Eugeníu (22 ára) Juncker sumarið 1854.

Í Það vorar á Furulundi víkur sögunni aftur til Furulundar rétt fyrir jólin 1859 og söguhetjan er Wilhelm Ankarberg sonur Karls. Faðir hans er nýlátinn í Baden an der Wien. Wilhelm sonur hans leggur á sig erfitt ferðalag til að geta haldið jól með Jacques bróður sínum og konu hans á óðalsetrinu Furulundi sem staðið hefur vanrækt í meira en tuttugu ár. Jacques greifi hefur steypt sér í miklar skuldir og glímir við mikla óhamingju í ástamálum. Wilhelm leitar leiða til að styðja bróður sinn, sem lítið vill af honum vita, milli þess sem hann stígur í vænginn við fallega stúlku í Stokkhólmi.

Karólína á Hellubæ er saga yngstu dótturinnar á Hellubæ, Karólínu og gerist nánast samhliða Það vorar á Furulundi. Karólína er ólík systrum sínum sem báðar eru giftar og eiga börn. Hún hefur hellt sér út í samkvæmislífið bæði í Stokkhólmi og í Þýskalandi, farið í ferðalög með Karli frænda og Evu um alla Evrópu og fengið fjölda bónorða. Hún vill hins vegar engum bindast. Í staðinn vill hún vera sjálfstæð eins og Karlotta amma hennar á Furulundi hafði verið. Karólína heldur jörðina Botnsnes, föður sínum til mikillar gremju og sagan segir frá ástum hennar og upplifunum.

Flickorna Ankarberg segir frá fjölskyldu Wilhelms á Furulundi 1884, Kalla, Henrik, Karlottu (18 ára) og Evu (17 ára). Aðalsöguhetjan er Karlotta sem er lifandi eftirmynd langömmu sinnar Karlottu von Berg. Will er látinn og Karl sonur hans tekinn við búsforráðum á Hellubæ. Börn Karls á Hellubæ, Willie og Annetta koma við sögu, svo og lausaleiksbarn Jacques sem kom undir í Hátíð í Hellubæ.

Ský yfir Hellubæ sker sig úr Hellubæjarbókunum, því þar kemur rúmlega sjötíu ára gat í frásögnina. Sagan er skrifuð 1955 og á að gerast á þeim tíma. Nú aka söguhetjurnar ekki lengur í hestakerrum og sleðum um linditrjágöngin við Hellubæ, heldur á Ólympiubifreið. Enn á ný heitir eigandi Hellubæjar Karl Ankarberg, 35 ára gamall fornleifafræðingur sem er nýtrúlofaður Margréti Snellman. Margrét er Stokkhólmsdama og rekur eigið tískufyrirtæki og hún er sögumaður bókarinnar. Fyrri unnusta Karls hafði látið lífið með vofeiflegum hætti á Hellubæ og Margrét fer að grafast fyrir um málið, milli þess sem hún rannsakar sögur af meintum draugagangi Karólínu Ankarberg og fleiri dularfulla atburði. Auk parsins Margrétar og Karls koma móðir Karls, Emilía, sem er að sjálfsögðu fædd Juncker, Agnes móðursystir hans Juncker og Eva Ankarberg systir hans við sögu og óhugnalegt morðmál og morðtilraun koma upp úr dúrnum. Ský yfir Hellubæ naut mikilla vinsælda á sinni tíð  og var kvikmynduð af 1956 í leikstjórn Rolf Husberg.

Ég hef viljandi forðast að tala um eiginkonur bræðranna Wilhelms og Karls til að eyðileggja ekki ánægjuna af lestri sagnanna. En jafnvel þótt konunum í sögunni séu ekki gerð nægjanleg skil í þessu yfirliti, þá eru sterkar kvennasögur sagðar í bókunum. Þegar ég var unglingur drakk ég í mig ástarsögurnar fjölskyldunnar Ankarberg. Seinna fór ég að hafa ánægju af öllu búshaldinu og matargerðinni, sérstaklega í Hátíð á Hellubæ og Sumar á Hellubæ. Og enn seinna fór ég að gera mér grein fyrir stéttaskiptingunni og ólíkum kynjahlutverkum karla og kvenna og fá tilfinningu fyrir því hversu háðar konur voru hjónabandi, samfélagsstöðu, barneignum og að þær tvístigju sig ekki í ástamálum til að þær gætu öðlast völd og sess í samfélaginu.

Mér þótti Ský yfir Hellubæ alltaf lélegasta bókin og þykir það enn. Ég var aldrei neitt sérstaklega hrifin af Karólínu í Hellubæ í æsku, kannski vegna þess að bókin endar ekki eins og almennileg ástarsaga á að gera. Konan neitar að giftast, engar brúðkaupsklukkur hringja, engin börn og hún á í ástarævintýri við mann sem er helmingi eldri en hún. Þetta féll nú ekki í kramið hjá rómantísku hjarta. En það er svo merkilegt að þegar ég les þessar bækur núna, þá standa Karlotta von Berg og Karólína upp úr sem flóknustu og áhugaverðustu kvenpersónurnar. Þær stíga báðar yfir stéttamörk í ástum sínum,  og báðar leita þær sjálfstæðis í búrekstri. Þær eru eins konar prótófemínistar báðar tvær.

Ég get mælt með þessum bókum. Og svo skemmtilega vill til að fyrsta bókin Katrín Karlotta, er einmitt til á bókamarkaðinum í Guðríðarkirkju núna og Sumar á Hellubæ einnig. Hér má síðan fá upplýsingar um bókasöfn sem eiga bækurnar. Góða skemmtun!

Gillzenegger, Guðbergur og Gunnar á Hlíðarenda

Nauðgunarkærum á hendur Agli Einarssyni og unnustu hans hefur verið vísað frá. Sumir telja að Egill sé fórnarlamb pólitísks rétttrúnaðar, sem annars vegar einkennist af því að allir eigi að hafa sömu skoðanirnar og hins vegar af mikilli dómhörku götunnar.

Það sem gerir málið flóknara er að Egill Einarsson hefur komið sér upp umdeildri ímynd, Gillzenegger sem hefur verið markaðsvædd í stórum stíl sem fyrirmynd ungra manna í harðnaglafræðum. Egill Einarsson og ímynd hans eru tengdir órofa böndum í huga almennings og manninum og hliðarsjálfinu er einatt ruglað saman. DV birti til dæmis frétt á föstudaginn um að nauðgunarmál gegn Gillz hafi verið fellt niður. Þannig leggur DV sitt lóð á vogarskálarnar við að halda okkur á sviði mýtunnar, óranna um Gillzmanninn í stað þess að flytja fréttir af lögreglurannsókn af meintri nauðgun í raunheimi.

Á þjóðhátíðardaginn kvaddi Guðbergur Bergsson rithöfundur sér hljóðs og birtir mikla gagnrýni á dómstól götunnar. Guðbergur stekkur til varnar hinni uppdiktuðu persónu Gillzenegger, sem hefur að dómi Guðbergs orðið fyrir forlögum allra hetja og glæsimanna fyrri tíðar, öfund, aðkasti og hefnigirni. Guðbergur sparar ekki stóru orðin og orð eins og „pokaprestahræsni“, „nunnuvæðing“, „meyjarhaftavörn“, „galdrabrennur“ og „kaþólskur rannsóknarréttur“ fljúga hægri- vinstri.

Guðbergur virðist líta á málið gegn Agli Einarssyni sem eins konar táknsögu (allegóríu), um glæsimenni sem er komið á kné af lítilsigldum öfundarmönnum sínum. Sögupersónan Gillzenegger í meðförum Guðbergs Bergssonar er Bjössi á mjólkurbílnum. Hann er Mósart sem Salíeri hefur grafið undan. Hann er Fást. Hann er Óþelló sem Jagó bruggar banaráð. Hann er Kjartan Ólafsson, Grettir og Gunnar á Hlíðarenda. Hann er glæsimenni og alþýðumaður sem þjóðin hefur hafnað og krossfest af því að hún er lítilla sanda og sæva.

Íslendingar eru sögumenn og við erum fljót að túlka efnivið okkar eftir táknsögum sem móta líf okkar. Sumar þeirra eru dregnar úr goðafræðinni, aðrar frá Íslendingasögum, Biblíunni eða úr kennslubókum Jónasar frá Hriflu. Táknsögur eru mikilvægar, en þær eru líka varasamar. Táknsögur taka breytingum. Og það hollt að skoða þær táknsögur sem hafa áhrif á líf okkar, ráða gildismati okkar og fá blóð okkar til að ólga. Stundum er gott að afbyggja eigin táknsögur.

Gillz hefur ekki verið ákærður fyrir nauðgun. Gillz er ekki til, hann er ímynd, söluvara, samnefnari fyrir tiltekna tegund harðjaxlamenningar. Skapari hans Egill Einarsson var hins vegar kærður fyrir nauðgun og nú hafa kærurnar verið látnar niður falla.

Stefið sem Guðbergur slær er gamalkunnugt og margir geta eflaust speglað sig í því. Guðbergur hljómar reyndar furðu prestslegur í fordæmingu sinni á pokaprestshræsnislegri öfund. Öfundin var ein af hinum sjö kristnu dauðasyndum og Guðbergur lemur á hinum galdrabrennandi, femínísku nunnum og meyjarhaftsverjum í vel þekktum vandlætingarstíl.

The Stereotype

„The stereotype is not a simplification because it is a false representation of a given reality. It is a simplification because it is an arrested, fixated form of representation.“

Homi Bhabha: „The Other Question: Difference, Discrimination and the Discourse of Colonialism“ Literature, Politics and Theory, London, Methuen, 1986, p. 163.