Tag: réttlæti

Konurnar í Krossinum

Gunnar Þorsteinsson áður forstöðumaður Krossins hefur stefnt konunum sem studdu konurnar sem ásökuðu hann um kynferðisbrot. Það er grundvallarréttur í lýðfrjálsu landi að þau sem telja sig hafa orðið fyrir kynferðisbrotum fái að segja sögu sína opinberlega án ógnunar. Það er líka grundvallarmál í réttarríki að hver maður fái að verja æru sína. Þversögnin liggur hins vegar í því að vilji maður sýna fram á að maður sé ekki ofbeldismaður er ekki hjálplegt ærunni að stefna fólki sem ásakar mann um ofbeldi. Ég styð rétt Krosskvennanna til að lýsa opinberlega ofbeldinu sem þær hafa orðið fyrir. Ég hef líka valið að trúa þeim og sögu þeirra. Þær eiga stuðningshóp á Facebook og slóðin er http://www.facebook.com/groups/126714100854993/.

Týndur Drottinn, tapað fé?

Prédikun í Guðríðarkirkju á páskadag 31. mars 2013

Að hverjum leitar þú? Jóh. 20:15b

Kristur er upprisinn!

Einu sinni voru hjón sem áttu tvo litla og óþekka drengi, sex og átta ára. Þessir ágætu strákar voru alltaf að lenda í vandræðum og foreldrarnir gátu alltaf verið vissir um að ef eitthvað fór úrskeiðis í þorpinu þar sem þau bjuggu, væru synir þeirra með einhverjum hætti ábyrgir. Ástandið var orðið þannig að foreldrarnir voru alveg að gefast upp á öllum prakkarastrikunum. Þau fóru því og hittu prestinn sem var sagður hafa lag á börnum. Þegar presturinn hafði heyrt af öllum stráksskap þessara ungu herramanna þá samþykkti hann að koma í heimsókn og tala við þá um að Guði þætti leiðinlegt hvernig þeir höguðu sér. Hann vildi hitta þá sinn í hvoru lagi. Fyrst var sex ára strákurinn leiddur fyrir prestinn í borðstofunni. Presturinn bauð stráknum að setjast niður við borð, settist síðan á móti honum, starði af mikilli alvöru í augun á drengnum og sagði síðan: „Hvar er Drottinn?“ Það heyrðist ekki múkk frá drengnum, svo að klerkur ræskti sig og sagði með aðeins strangara tóni: „Hvar er Drottinn?“ Stráksi deplaði ekki auga og starði fram fyrir sig. Enn bætti presturinn í röddina og nú rak hann fingurinn ógnandi framan í drenginn og sagði: „HVAR ER DROTTINN?“

Við þessi læti rauk drengurinn út, hljóp upp í herbergi og læsti sig inni í skáp. Stóri bróðir hljóp inn í herbergið á eftir honum og sagði: „Hvað gerðist eiginlega þarna inni?“

Rödd litla bróður hljómaði úr skápnum: „Við erum í rosalega vondum málum núna. Drottinn er týndur og þau halda að við höfum tekið hann!“

II.
Hvar er Drottinn? Að hverjum leitar þú?

Hina fyrstu kristnu páska voru allir lærisveinarnir að leita að Drottni. Gröfin var tóm þegar að var komið í árdagsbirtu páskadagsins og steininum hafði verið velt frá. Og rétt eins og í sögunni sem ég sagði ykkur hér áðan jafnframt verið að leita að sökudólgum og samsæri, vegna þess að einhver hlaut að hafa stolið líkama hins látna. Ein af þessum vinum Jesú var María Magdalena og Jóhannesarguðspjall segir okkur frá því að hún hafi staðið úti fyrir gröfinni og grátið meðan Pétur og annar lærisveinn leituðu að líki Jesú. Þá kemur til hennar maður sem lesandi og heyrandi guðspjallsins veit að er enginn annar en Jesús upprisinn. María hins vegar veit ekki neitt og sér ekki neitt. Hún þekkir ekki Jesú hinn upprisna, heldur að hann sé garðyrkjumaður og reynir að þröngva honum til að segja sér leyndarmálið um það hver hafi tekið Drottin. „Að hverjum leitar þú?“ segir hinn meinti garðyrkjumaður við Maríu. Merkilegt má telja að fyrstu orðin sem Jesús frá Nasaret segir í guðspjalli Jóhannesar skuli enduróma í fyrstu orðum hans eftir upprisuna. „Hvers leitið þér?“ voru orðin sem hann beindi til fyrstu lærisveinanna sem á vegi hans urðu. Það er eins og þessi leit að týnda Drottni rammi inn allt guðspjallið, marki þrá þeirra sem guðspjallið fjallar um og guðspjallið lesa og heyra, þrá í leit að tilgangi lífsins. Að vera lærisveinn Jesú er að leita Jesú, leita að týndum Drottni.

Þessi misskilningur Maríu þegar hún ruglaðist á garðyrkjumanninum og hinum upprisna, þessi leit að þeim sem er fyrir augunum á henni er hjarta páskaboðskapar Jóhannesar til okkar í dag. María sá Drottin. En hún þekkti hann ekki. Hjarta hennar var fullt af sorg yfir atburðum föstudagsins langa. Hún gat ekki horfst í augu við þá hugmynd að Drottinn væri alls ekki týndur. Hún hljóp allt í kringum hann og leitaði að honum. Hún spurði hann jafnvel sjálfan um það hver hefði tekið Drottin. Og þannig hefur sagan á sér furðulegt og jafnvel kómískt yfirbragð, páskahlátur inn í páskaguðspjallinu sjálfu vegna þess að við vitum góðu fréttirnar sem María veit ekki. Týndi Drottinn er fundinn. Og það voru hvorki krakkarnir í sögunni, Gyðingar né Rómverjar sem tóku hann.
Það er ekki fyrr en þessi dularfulli garðyrkjumaður kallar Maríu með nafni sem hún þekkir hann fyrir hinn upprisna Drottin. Jesús hinn upprisni segir Maríu að fara út og finna „bræður sína“. „Bræðurnir“ , eða adelfoí í gríska frumtextanum vísa ekki aðeins til nokkurra karlmanna í kringum Jesú, heldur til hins gjörvalla samfélags fólksins sem hafði safnast saman í kringum Jesú. Það er eitthvað merkilegt við þessa áherslu guðspjallsins. Það kallar okkur til tómrar grafar, til þess eins að snúa okkur burtu aftur frá gröfinni, til samfélagsins sem þarf á hinum týnda Drottni að halda. Það kallar okkur til að leita að hinum týnda Drottni, til þess eins að komast að því að Guð hefur ekki týnst og ætlar okkur verk meðal annars fólks.

III.
Hvar er Drottinn? Að hverjum leitar þú? Hvar þekkjum við Drottin og hvaða verk er okkur ætlað að vinna glöðu fólki sem er snúið frá tómri gröf? Hvar er samfélagið sem okkur er ætlað að sinna og ala önn fyrir?

Í síðustu viku upphófust miklar umræður um þróunaraðstoð í íslensku samfélagi í kjölfar þess að Alþingi Íslendinga samþykkti með þingsályktunartillögu að auka smám saman þróunaraðstoð Íslands úr 0,26 hundraðshluta af vergum þjóðartekjum í 0,4 hundraðshluta á næstu þremur árum. Stefnt skuli að því að árið 2019 verði talan komin upp í 0,7, en sú tala er einmitt í samræmi við það sem þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna gerðu ráð fyrir að ætti að vera það sem að iðnvæddar þjóðir greiddu að lágmarki til hjálpar fátækum þróunarlöndum. Alþingi hefur sem sagt ákveðið að uppfylla rúmlega helminginn af þúsaldamarkmiðunum árið 2016. Umræðurnar í samfélaginu snérust um það hvort réttlætanlegt væri að borga svona mikla peninga til útlanda, þegar fólk væri þurfandi hér heima. Þróunaraðstoðin sé þess vegna tapað fé, sem betur væri ráðstafað annars staðar og nær okkur sjálfum.

Og víst er fólk þurfandi hér heima. Það sem hins vegar er skakkt við þessa umræðu er stilla fólki upp við vegg eins og það þurfi að velja á milli þess að hjálpa samlöndum sínum og öðrum þjóðum, að einmitt nákvæmlega þessum hluta þjóðarkökunnar og öðrum ekki skuli beint að svöngum munnum og að okkar sé valið um það hvort skeiðin lendi í íslenskum eða afrískum munni. Fjármununum sem að Ísland ætlar að nota í þróunaraðstoð á næstu árum verður varið til ýmiss konar verkefna. Þeir fara m.a.í menntastofnanir sem að mennta fólk í þróunarlöndum til vaxandi atvinnuþáttöku og í að bæta innviði stjórnkerfa. Þar eru framlög til friðargæslu, til umhverfis og loftslagsmála, til mannúðarmála, jafnréttis og neyðaraðstoðar, til Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Þetta eru framlög sem tengjast ábyrgð okkar sem snerta okkur sem jarðarbúa sem bera ábyrgð á öðrum jarðarbúum, mönnum, dýrum og öðrum lifandi verum. Þessi framlög nýtast á veraldarvísu og þannig öllum manneskjum, en þeim ekki síst sem minnst mega sín í veröldinni, fátækasta og allslausasta fólki jarðar. Það á ekki að vera val fyrir okkur hvort við hjálpum þeim eða ekki. Það er sjálfsögð skylda okkar sem manneskja og mannvina hverrar trúar sem við erum og hvort sem við erum trúuð eða ekki.

Við sem játum kristinn sið hljótum að túlka kröfuna um þróunaraðstoðina á okkar eigin hátt og í ljósi okkar eigin kristnu tákna. Hinn kristni boðskapur leggur okkur skyldur á herðar. Upprisan, eilíft líf , sigur lífs yfir dauða, gleði yfir sorg, fjallar líka um dauða fátæktar og vonleysis. Baráttan við slíkan dauða getur aldrei verið tapað fé. Þessar manneskjur, þetta loftslag, þessar lífverur eru verkefni okkar þegar okkur er snúið frá kaldri gröf fátæktar og örbirgðar og aftur til „bræðranna.“

Kristur er upprisinn! Lífið lifir og það er heilög skylda okkar að greiða því veg á hvern þann hátt sem við getum. Nýlega kom út stór skýrsla á vegum Lútherska heimssambandsins, sambandi allra lútherskra kirkna í heiminum, um kirkjulegt hjálparstarf og kærleiksþjónustu. Þessi merka skýrsla hefur komið út á íslensku og hana má nálgast á heimasíðu Þjóðkirkjunnar. Þar er okkur sagt að kærleiksþjónustan sé ekki aðeins eitt af verkunum sem kirkjan framkvæmir á stórum gátlista. Öllu heldur er kærleiksþjónustan eitt af því mikilvægasta sem skilgreinir okkur sem kristnar manneskjur. Biblían svarar okkur þegar við spyrjum um hinn týnda Drottin og segir að við finnum hann hvar sem við hjálpum hinum þurfandi og reisum þau til þeirrar mennsku og reisnar sem hver sköpun Guðs á skilið.

Konungurinn mun þá svara þeim: „Sannlega segi ég yður, það allt sem þér gjörðuð einum mínum minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér. Matt. 25:40

Hinn týndi Drottinn sem birtist okkur í þurfandi systrum og bræðrum fer ekki í manngreinarálit. Hann sést ekki bara á hvítum, norrænum andlitum. Hann talar ekki bara íslensku. Hann sést á hælisleitendum frá hrjáðum löndum, á ásjónu hungraðs fólks af fjölbreyttum kynþáttum, trúarbrögðum og litarhætti. Fjarri fer því að skýrslan sem ég nefni láti sér nægja að mæla með því að iðnvæddar þjóðir greiði þá þróunaraðstoð sem sæmileg er. Ábyrgð okkar á okkar minnstu bræðrum og systrum hérlendis og erlendis er ekki lokið þegar við höfum greitt skattinn okkar, eins virðingarvert og það nú annars er og sem útheimtir miklar fórnir af hálfu okkur margra. Ábyrgð okkar sem kristnar manneskjur sem fögnum hinum upprisna, týnda Drottni birtir okkur boðskapinn um að kirkjan í heiminum verði að sinna kærleiksþjónustunni á grundvallandi hátt, hætta að líta á hana sem valkvæð góð verk og viðurkenna hana sem órofa þátt í því að vera kristin manneskja. Kærleiksþjónustan, þjónustan við hinn þurfandi mann á einstaklingsvísu, innan hins staðbundna samfélags, á landsvísu og á heimsvísu er þannig ófrávíkjanlegur þáttur í því að leita að hinum týnda Drottni og finna hann, vegna þess að hann er alls ekki týndur.

Kristur er upprisinn! Drottinn lifir og ástin, gjafmildin, auðmýktin, hjartagæðin sem tengd eru nafni hans lifa og ríkja.
Við sjáum hins vegar ekki nógu skýrt. Og við skynjum ekki veruleika upprisunnar, gleðinnar og ólgu bjartsýninnar fyrr en við þekkjum Krist í þeim sem á vegi okkar verða og þurfa á okkur að halda.

IV.
„Hvar er Drottinn?“ spurði presturinn strákinn forðum og hann hljóp og faldi sig inni í skáp. „Hvar er Drottinn?“ spurði María Magdalena hinn upprisna. Hún sá hann ekki og leitaði þó út um allt. Hún fór til vina Jesú og tilkynnti þeim: „Ég hef séð Drottin.“

Förum nú og sjáum hann líka.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

jesus-appears-to-mary-magdalene-fontana-lavinia

Hugmyndafræðilegt aðgengi

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
I.
Ríkissjónvarpið birti áhugaverða frétt síðasta miðvikudagskvöld Þar var sagt frá því að Öryrkjabandalag Íslands hafi haldið fund með forsvarsmönnum allra stjórnmálaafla sem bjóða fram í vor. Efni og erindi fundarins hafi verið það að ræða um sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland undirritaði árið 2007 og spyrjast fyrir um það hvort og þá hvernig og hvenær samningurinn verði fullgiltur eða lögfestur hér á landi.

Í tilefni þessa fundar var rætt við Evu Þórdísi Ebenezardóttur sem hefur kynnt sér þennan málaflokk rækilega. Í viðtalinu ræddi Eva Þórdís um að það væri mikilvægt að bæta aðgengi fatlaðs fólks í samfélaginu. Síðan bætti hún við að aðgengi væri meira en þröskuldur, tröppur eða lyftur. Aðgengi fjallaði ekki síður um það sem ætti sér stað inni í höfðinu á okkur sjálfum. Aðgengi væri þannig „spurning um viðhorf, hugarfar og hugmyndafræði.“

En hvað er hugmyndafræðilegt aðgengi? Það er ekkert erfitt að átta sig á því að fatlað fólk þurfi á lausnum að halda til þess að komast klakklaust um byggingar. Það getur verið nokkurt verk að endurhanna gamlar byggingar til að auka aðgengi fatlaðra, en verkið sjálft er býsna augljóst. Það snýst einmitt um þröskulda, tröppur og lyftur og þegar okkur hefur tekist að koma þessu á, öndum við flestöll léttar. Hvað er þá hugmyndafræðilegt aðgengi, til hvers meira er hægt að ætlast af ófötluðu fólki til að ala önn fyrir þeim sem búa við fötlun?

Sáttmálinn sem öryrjabandalagið kallaði stjórnmálamenn saman til að ræða svarar þessari spurningu. Sáttmálinn hefst á því að kalla þjóðir heims til ábyrgðar með því að „a) minnast meginreglna, sem kunngerðar eru í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem meðfædd göfgi og verðleikar og jöfn og óafsalanleg réttindi allra manna eru viðurkennd sem hornsteinn frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.“ Sáttmálinn ræðir síðan í nokkru máli hvernig þessar meginreglur um göfgi, verðleika og jafnrétta allra manneskja, fatlaðra jafnt sem ófatlaðra hafi áhrif á viðhorf til fatlaðs fólks. Þar er viðurkennd sú alvarlega staða að mannréttindi fatlaðra eru þverbrotin víða um heim og þar með með víðtækum hætti gengið gegn hugmyndum um reisn og virðingu alls fólks. Vakin er sérstök athygli á fátækt fatlaðs fólks um veröld víða. Kallað er eftir því að stjórnvöld um heim allan virði mannréttindi og göfgi fatlaðs fólks. Og síðan bendir sáttmálinn á ábyrgð allra einstaklinga í hverju samfélagi. Samkvæmt sáttmálanum er það málefni okkar allra að berjast fyrir þessum bættu aðstæðum og ganga eftir því að reisn fatlaðs fólks sé virt.

Það er hugmyndafræðilegt aðgengi, aðgengi sem lætur sér ekki nægja að gera ráð fyrir fatlaðrabílastæði, hjólastólalyftu og rennibraut, þó að þessi hjálpartæki séu vitaskuld mikilsverð. Hugmyndafræðilegt aðgengi lýtur að jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra við allar aðstæður daglegs lífs. Vegna þess að við erum öll jöfn og óendanlega mikilvæg.

Út frá kristnu sjónarmiði erum við undursamleg sköpun Guðs, einstök hvert og eitt. Sálmaskáld Biblíunnar orðar vel þessa áherslu á göfgi hverrar manneskju þegar það segir í 139 sálmi:

Ég lofa þig fyrir það
Að ég er undursamlega skapaður,
Undursamleg eru verk þín,
Það veit ég næsta vel.
Beinin í mér voru þér eigi hulin
Þegar ég var gjörður í leyni
Myndaður í djúpum jarðar.
Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni,
Ævidagar voru ákveðnir
Og allir skráðir í bók þína,
áður en nokkur þeirra var til orðinn.

Undursamleg sköpun erum við,
augu Guðs sjá okkur, hvert og eitt
og þekkja lífssögu okkar.
Og þess vegna er mannréttindabarátta eitthvað sem trúað fólk og trúlaust getur sannmælst um. Forsendur geta verið ólíkar, en viðmiðin, baráttan og skilningurinn á mikilvægi aðgengis er einn og hinn sami. Af því að við erum dýrmæt og reisn okkar allra er mikilvæg og aðgengi okkar að öllum þáttum samfélagsins er það líka.

II.
Samkvæmt guðspjalli dagsins er Jesús á ferð rétt fyrir utan borgina Jeríkó. Þar við veginn situr blindur beiningarmaður, einn af þeim ótalmörgu körlum og konum sem dæmdur var til fátæktar og útskúfunar vegna fötlunar sinnar. Þessum blinda beiningamanni hafa engin úrræði borist, engin hjálpartæki, engin sjóntæki, lækningar, hvítir stafir, hljóðgerflar eða sérbyggðar tölvur. Hans beið ekkert annað en útskúfun og samferðamenn hans litu á hann sem úrhrak og úrþvætti. Guðfræði þeirra margra hverra gerði líka ráð fyrir því að fötlun hans væri honum sjálfum að kenna eða foreldrum hans og því væru honum aðstæður sínar mátulegar. Við vitum fátt um blinda manninn annað en nafnið. Hann hét Bartímeus Tímeusarson og þennan dag sat hann við veginn og kallaði á Jesú. Hann kallaði á son Davíðs.

Mörg þeirra sem túlka Biblíuna segja að titillinn sonur Davíðs sé Messíasartitill. Þegar Bartímeus hinn blindi kallar á son Davíðs, þá viðurkennir hann Jesú frá Nasaret sem Messíasinn, Krist, sem þjóðin öll hafði beðið eftir í hundruð ára. Hann sér eitthvað í Jesú, sem hin sjáandi sáu ekki. Og Messíasinn nemur staðar hjá Bartímeusi, hlustar á hann, talar við hann, læknar hann og opnar honum aðgengi til Guðs.

Við getum alveg tekið okkur til og borið saman aðstæður Bartímeusar og aðstæður fatlaðs fólks á Íslandi. Víða um heim býr fólk við aðstæður sem eru ekki hótinu betri en þær sem Bartímeusi var forðum boðið upp á, aðstæður fátæktar, útskúfunar og félagslegrar einangrunar. Sem betur fer hafa aðstæður fatlaðra breyst mikið á Íslandi, fatlaðir Íslendingar búa við velferðarkerfi sem gerir aðstæður þeirra ólíkar lífi Bartímeusar.

Og samt höfum við ekki fullgilt samninginn um jafnan rétt fatlaðra og ófatlaðra.
Samt lítum við ekki enn á hugmyndafræðilegt aðgengi sem sjálfsagt baráttumál allra einstaklinga samfélagsins.
Samt eru aðstæður öryrkja á Íslandi víða mjög erfiðar, bæði félagslega og efnahagslega.
Samt er fatlað fólk á Íslandi gert ósýnilegt og við gleymum að gera ráð fyrir þeim.

Þar með má segja að við sem þjóðfélag og einstaklingar séum slegin sjónskekkju sem er erfiðari og lúmskari en það dimma sjónarhorn sem Bartímeus lifði við um sína daga. Þessi skekkja sjónar okkar er lúmsk vegna þess að hún gerir fatlaða einstaklinga ósýnilega augum okkar og kallar fram fordóma og hörð hjörtu í garð fólks sem eru öryrkjar.

Og þess vegna er það gott og hollt þegar við göngum inn í guðspjallssöguna og sláumst í för með Jesú þennan dag í Jeríkó að horfast í augu við Bartímeus, Bartímeus sem sá ekki, en sá þó betur en flest okkar, því að hann sá „son Davíðs“, Jesú sem er Kristur og Messías þeirra sem játa trú á hann. Einn af fyrstu mönnunum sem sá Jesú og það sem Jesús stóð fyrir var fatlaður maður, einn þeirra sem samfélagið mismunaði og smættaði á dögum Jesú og enn í dag.

III.
Síðasta sumar var sýnd frönsk bíómynd í íslenskum bíóhúsum. Myndin ber nafnið „The Intouchables“ og segir frá ríkum manni Philippe sem er bundinn við hjólastól. Hann þarf mikla hjúkrun og er að leita sér að aðstoðarmanni. Til hans kemur ungur atvinnulaus maður af afrískum uppruna sem heitir Driss og sækir um stöðuna án nokkurra vona eða væntinga. Hann er orðinn vanur að vera atvinnulaus og dettur ekki í hug að nokkur taki upp á því að ráða hann. Driss fær stöðuna, ekki vegna þess að hann sýni nokkra tilburði til að vera hæfur aðstoðarmaður. Hann kann ekkert fyrir sér í hjúkrun, hann er kæruleysislegur og virðist líklegur til vandræða á öllum sviðum. En hann hefur einn hæfileika, ákveðna sýn á veruleikann sem gerir hann óendanlega mikilvægan. Þessi hæfileiki er algerlega hulinn unga manninum sjálfum og fólkið sem að Philippe stendur skilur ekkert í því hvers vegna hann hefur Driss í vinnu. Hæfileiki unga mannsins, viðhorf hans er það að hann tekur ekki eftir fötlun ríka mannsins. Driss vorkennir ekki hinum fatlaða manni. Hann kemur fram við hann á nákvæmlega sama hátt og hann kemur fram við allar aðrar manneskjur. Og það er einmitt þessi „byltingarkennda“ hugsun, þessi sýn á jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra sem er svo undureinföld, falleg og skynsamleg, sem gerir unga manninn að mikilvægum aðstoðarmanni og enn mikilvægari vini.

Ungi maðurinn glímir við alls konar erfiðleika sjálfur, kynþáttamismunun, stéttaskiptingu, félagslega erfiðleika í fjölskyldunni. Þessir tveir verða vinir, þar sem hvor um sig yfirstígur girðingar samfélagsins í garð þeirra sem eru öðruvísi á einhvern hátt.Þeir sjá hver annan. Þeir læknast af samfélagslegri sjónskekkju.

Hvað skyldi Jesús hafa hugsað þegar hann horfði á Bartímeus?

Skyldi hann hafa þurft að kafa gegnum sína eigin fordóma, fordóma sem samfélagið hefur innrætt honum frá blautu barnsbeini?
Og ég vil túlka söguna á þann hátt að Jesús hafi líka séð Bartímeus, Bartímeus Tímeusarson. Hann sá ekki Bartímeus blinda, þann Bartímeus sem er skilgreindur út frá fötlun sinni, heldur miklu fremur manninn Bartímeus sem er einstök sköpun Guðs með öllum öðrum manneskjum án tillits til fötlunar eða ófötlunar. Það er sá Bartímeus sem Jesús spjallar við sem jafningja, sá Bartímeus sem Jesús vill gera eitthvað fyrir, þjóna og þykja vænt um. Og þess vegna kallar Bartímeus Jesú Rabbúní, meistara sinn, því að meistarinn hafði séð hann og skilið. Jesús var trúr þeirri hugsun að allar manneskjur væru dýrmætar og að við ættum að þjóna og hjálpa hvert öðru í stað þess að vorkenna eða labba framhjá. Hann opnaði Bartímeusi hugmyndafræðilegt aðgengi. Aðgengi að samfélaginu. Aðgengi að öðru fólki. Aðgengi að Guði.

Við tökum þátt í slíkri baráttu fyrir reisn og göfgi hvers annars með því að berjast fyrir slíkum sáttmálum og ganga eftir því að þeir séu virtir. En baráttan fyrir virðingu og reisn náungans er ekki aðeins byggð á opinberum skjölum og reglugerðum. Hún er líka einstaklingsbundin og persónuleg, vegna þess að virðingin fyrir öðru fólki er ekki aðeins altæk, heldur sértæk, beinist að tilteknu fólki á tilteknum tíma í tilteknum aðstæðum. Við getum sagt öll réttu orðin, aðhyllst allar réttu skoðanirnar en samt brugðist öðru fólki þegar við mætum því, vorkennt í stað þess að standa með, verið köld og harðbrjósta þegar umhyggju var þörf, sokkið í meðvirkni og undanlátssemi þegar við þurftum að setja öðrum mörk. Reyndar erum við alltaf að klúðra einhverju, því ekkert okkar lifir fullkomnu lífi eða sýnir af sér hina fullkomnu breytni. Það leysir okkur ekki undan því að reyna og reyna aftur að sýna öðru fólki virðingu og elska það eins og okkur sjálf og Guð með, eins og tvöfalda kærleiksboðorðið segir okkur. Það leysir okkur ekki undan því að rækta með okkur hugmyndafræðilegt aðgengi, því í því felst virðing fyrir öllu fólki án tillits til fötlunar, kyns, litarháttar, kynhneigðar, stéttar, aldurs, efnahagsstöðu eða allra annarra girðinga sem mismunandi samfélag setur upp í heila okkar.

Á þeirri Jeríkógöngu, þeim krossferli sem elskan til Guðs og náunga markar dag hvern gengur Jesús með okkur. Hann opnar okkur aðgengi, breytir viðhorfi okkar og hugarfari. Hann horfir í augun á Bartímeusi Tímeusarsyni, Philippe, Driss sem er ég og þú og segir: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig, þig kæra mannvera sem ert undursamlega sköpuð og ert dýrmæt í augum Guðs, þig sem ert fötluð og ófötluð og Guðs útvalda barn?“. Og við svörum:

„Rabbúní, að við fáum aftur sjón.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Að heyra til úlfynjum: Morgunblaðið 13. september 2010

Nýlega birtist pistilinn „Úlfar í prestahjörð“ eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur hér í Morgunblaðinu. Úlfarnir sem Kolbrún vitnar til eru framgjarnir prestar, sem reyna að klekkja á biskupi vegna óánægju með stöðuveitingar og rækta hvorki sannleika, samheldni né samstöðu. Mér að vitandi hefur aðeins einn starfandi prestur lýst því yfir að biskup Íslands eigi að stíga til hliðar. Sami prestur höfðaði mál gegn Þjóðkirkjunni vegna stöðuveitingar fyrir sex árum. Ég er sá prestur og álykta því að úlfarnir ónafngreindu rúmist flestir í minni persónu. Ég tel að biskup Íslands eigi að víkja úr embætti vegna þess að hann hefur verið borinn þungum sökum um þöggun. Kirkjuþing mun innan tíðar skipa rannsóknarnefnd til að skoða viðbrögð kirkjunnar þegar Ólafur Skúlason var sakaður um kynferðisbrot. Nefndin þarf svigrúm til þessarar vandasömu rannsóknar og því óheppilegt ef einn af þeim sem sætir rannsókn gegnir valdamesta embætti kirkjunnar á meðan. Ég tel einnig að biskup eigi að víkja vegna óheppilegra ummæla hans í fjölmiðlum þegar ásakanir á hendur fyrrum biskupi komu fram á nýjan leik. Ég hef ekki kallað eftir afsögn biskups, heldur beðið um að hann víki úr embætti. Því veldur ekki persónuleg óvild, eða þörf fyrir að ýlfra í fjölmenni, heldur vilji til þess að rannsóknarnefnd Kirkjuþings geti starfað með trúverðugum hætti.

Dómsmálið vegna stöðuveitingar sendiráðsprests í Lundúnum virðist í pistlinum haft til marks um hefnigirni úlfsins. Mál mín unnust á báðum dómstigum og má lesa dómana á heimasíðum Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar. Þjóðkirkjan var dæmd fyrir að brjóta jafnréttislög og gert að borga skaðabætur, en upphæð var ekki tilgreind í dómnum. Dómkvaddur matsmaður var því kallaður til og Biskupsstofa kallaði eftir yfirmati. Bótakrafa mín var byggð á matsgerðunum og vannst málið á varakröfunni. Hvorugur deiluaðila áfrýjaði seinni dómnum og voru mér greiddar skaðabætur í samræmi við hann. Dómurinn hefur þegar haft fordæmisgildi og áhrif á gang jafnréttismála innan kirkjunnar. Ég á ekki harma að hefna vegna stöðuveitingar í London, enda hefur tjón mitt verið viðurkennt af dómstólum og skaði minn greiddur.  Málareksturinn kostaði mig andvökunætur á sínum tíma, en hann gaf mér einnig sterkari rödd og mál til að berjast fyrir því sem ég tel í anda sannleikans.

Kolbrún telur að úlfarnir í prestahjörðinni elski ekki sannleikann og virði ekki samstöðu og samheldni. Ég hygg að samstaða stéttar minnar sé mikil, en hinum prestvígðu ber ekki aðeins skv.siðareglum að virða kollega sína, heldur ala önn fyrir þeim sem eru ung og órétti beitt. Til að mæta því skylduboði þarf stundum að taka sannleikshag alls úlfaflokksins fram yfir samheldni hinna ráðandi úlfa. Ég var ein ellefu presta sem rituðu Ólafi Skúlasyni bréf 1996 og báðu hann að fara í leyfi meðan mál hans yrði rannsakað og undirbjó með fleirum tillögu á Prestastefnu sama ár um að hann viki úr embætti. Ég vildi að ég hefði gert meira og sinnt konunum sem hann braut gegn. Ég hef síðustu fjórtán ár barist fyrir rétti samkynhneigðra til kirkjulegrar vígslu og tók þátt í baráttu 111 prests, djákna og guðfræðings fyrir einum hjúskaparlögum  í sumar. Ég hef talað fyrir umhverfisverndaráherslum og barist fyrir jafnrétti kvenna og karla á vettvangi kirkjunnar. Ég lýsti yfir stuðningi við biskup Íslands þegar hann vék Selfossklerki úr embætti síðastliðið haust vegna ósæmilegrar hegðunar þess síðarnefnda gagnvart ungum sóknarbörnum sínum. Ég vil að yfirstjórn kirkjunnar geri upp skuld sína við konurnar sem hún brást árið 1996.

Eitt megineinkenni úlfsins er tryggð og umhyggja fyrir öllum meðlimum flokksins, stórum jafnt sem smáum. Úlfur er tvíbent tákn í Biblíunni. Það vísar að sönnu til vargsins sem leggst á lambið (sem í líkingu Kolbrúnar virðist einkum vera biskup Karl). Úlfurinn er líka spámannlegt tákn fyrirmyndarríkisins og friðarins. Þegar úlfurinn liggur hjá lambinu kemur saman hin villta mergð og hin tamda hjörð í frelsi og friði. Í hinni messíönsku von er því ekki alvont að heyra til úlfynjum.