Tag: biskup

Biskupar og vígslubiskupar

Nýlega hafa birst tvær greinar í Morgunblaðinu um vígslubiskupana. Vilborg Auður Ísleifsdóttir Bickel birti grein 17. febrúar s.l. og talaði fyrir því að vígslubiskupsembættin yrðu lögð niður.Vilborg Auður segir:

Á öldinni sem leið vildu menn auka veg hinna fornu biskupsstóla og setja þar biskupa. Gallinn er hins vegar að við búum enn í grunninn við kirkjuskipan Kristjáns III. sem hefur guðfræði Lúthers að leiðarljósi. Ef menn taka kenninguna um hinn almenna prestdóm alvarlega, þá engin litúrgísk þörf á vígslubiskupum. T.d. gætu 12 prestar (postulleg tala) framkvæmt vígslu biskups. Séu störf vígslubiskupa hins vegar stjórnsýslulegs eðlis, er fráleitt að þeir sitji uppi í sveit.

Arnaldur Máni Finnsson skrifaði síðan grein í Morgunblaðið 27. febrúar s.l. og víkur að hlutverkum vígslubiskupa. Arnaldur Máni lýsir sig ósammála viðhorfum Vilborgar Auðar og telur skynsamlegra að veita vígslubiskupunum meiri hlutdeild í biskupsþjónustunni heldur en að leggja þá af.

Báðar þessar greinar eru vekjandi og umhugsunarverðar og ég þakka þær.  Þeirri spurningu hefur oft verið varpað fram, m.a. fyrir síðustu vígslubiskupskosningar hvort ekki sé rétt að leggja embættin í Skálholti og á Hólum niður og spara þannig frekar í yfirbyggingu kirkjunnar en í grunnlögum hennar, sóknum og sérþjónustu  sem nú á mjög undir högg að sækja. Þessi spurning á fyllilega rétt á sér.

Ég hef í pistlum undanfarnar vikur rökstutt það að biskup Íslands eigi að fara sem mest út úr rekstrarumsýslu kirkjunnar. Hlutverk biskupa er þríþætt, að vígja presta, kirkjur og biskupa (ordinatio), að vísitera presta og söfnuði (visitatio), og að hafa tilsjón með þeim (inspectio).  Ég tel að með því að taka biskupinn út úr stjórnuninni sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar geta svo vel létt af honum, skapist rými fyrir aukna tilsjón og vísitasíur á akrinum.

Ég hef heyrt í mörgu fólki um allt land í aðdraganda þessara biskupskosninga. Allir hafa tekið mér vel og allir eru glaðir yfir því að tala um kirkjuna sína. Sumir vilja tala um fjárhagsvandann, aðrir byggðamál, sameiningar sókna og prestakalla, eða það sem er efst á baugi á kirkjuþingi, stjórnsýslu kirkjunnar og ýmislegt fleira. Margir tala um það hvað vísitasíurnar eru góðar og hversu dýrmætt það er að fá biskupinn í heimsókn. Þetta samtal vil ég auka með öllum ráðum. Mér finnst að biskupsþjónustan eigi að einkennast af þjónandi forystu, að aðstæður séu þekktar á hverjum stað; fólk í yfirstjórninni og sjálfboðaliðarnir á akrinum þekkist með nafni og biskuparnir viti hvað krakkar prestsins heiti og jafnvel hundurinn hans.

Það er með þessari virku tilsjón sem að kirkjan verður til aftur og aftur. Af því að kirkjan er fólk. Hvert og eitt okkar er að vinna gott starf á sínum stað. Við loðum saman á líminu sem er Kristur, líka hefð og sögu, sem er undirstrikuð með stöðunum sem vígslubiskuparnir sitja á og vaka yfir. En við þurfum líka að loða saman á yfirsýn biskupanna sem koma í kaffi, skoða steypuskemmdir og kaleika, gleðjast yfir því sem gert er vel og ala önn fyrir þeim sem eru þreyttir og lúnir og leiðir á batteríinu sem þjóðkirkjan getur stundum orðið.

Þessi tilsjón er ekki eins manns verk. Hún er óendanlegt verkefni. Nýlega kallaði ég slíkt verk að vera lifur líkamans sem er Kristur (sjá hér). Og það er þess vegna sem ég tek undir með Arnaldi Mána og vil halda vígslubiskupunum áfram, hvorki sem sérstökum vígslutæknum (við getum pantað anglíkanskan og/eða lútherskan biskup með flugvél á morgun) eða sem stjórnunaraðila (þarf guðfræðing til að stjórna skrifstofu?), heldur sem ljósmæður og leiðtoga í trú og von á það að kirkjan heldur áfram að verða til með nýjum degi og nýrri gleði.

Biskupsaldur

Vinur minn gaukaði að mér eftirfarandi upplýsingum um aldur þeirra sem gegnt hafa embætti biskups Íslands. Áður voru tvö biskupsdæmi á Íslandi, í Skálholti og á Hólum en stólarnir voru sameinaðir um aldamótin 1800 og biskupinn fluttur til Reykjavíkur. Fyrst í talnarununni koma nöfn biskupanna, þvínæst ártalið sem þeir tóku við embætti, þá fæðingarár og loks aldursárið þegar þeir tóku við embætti.

Geir Vídalín 1801 1761 40
Steingrímur Jónsson 1824 1769 55
Helgi G. Thordersen 1846 1794 52
Pétur Pétursson 1866 1808 58
Hallgrímur Sveinsson 1889 1841 48
Þórhallur Bjarnarson 1908 1855 53
Jón Helgason 1917 1866 51
Sigurgeir Sigurðsson 1939 1890 49
Ásmundur Guðmundsson 1953 1888 65
Sigurbjörn Einarsson 1959 1911 48
Pétur Sigurgeirsson 1981 1919 62
Ólafur Skúlason 1989 1929 60
Karl Sigurbjörnsson 1998 1947 51

Enginn biskup Íslands hefur verið kona og íslenska Þjóðkirkjan er eina kirkjan á Norðurlöndum sem ekki hefur vígt konu biskupsvígslu (sjá grein mína „Gegnum glerþakið“ sem nálgast má hér). Eins og sjá má hafa fjórir biskupar verið innan við fimmtugt er þeir tóku við embættinu, Geir Vídalín, Hallgrímur Sveinsson, Sigurgeir Sigurðsson og Sigurbjörn Einarsson. Ég er að verða 47 ára í mars og lýsti því yfir í dag að ég gæfi kost á mér til embættisins. Fái ég brautargengi í kosningunum verður að leita aftur í fyrsta biskup Íslands til að finna yngri mann á stólnum, en biskup Geir stóð á fertugu þegar hann tók vígslu.

Rétt eins og í upphafi 19. aldar eru miklar breytingar í vændum á Guðs akri á Íslandi og þörf á nýrri sýn fyrir embættið og kirkjuna alla.

Valddreifing og valdefling í kirkjukosningum

Samkvæmt nýjum starfsreglum um biskupskjör hefur atkvæðisréttur verið rýmkaður og meira en tvö hundruð og fimmtíu nýir leikmenn fengið atkvæði í kosningum til biskups Íslands og vígslubiskups. Svona lítur 2. grein starfsreglnanna út sem samþykktar voru á síðasta kirkjuþingi:

2. gr.
Kosningarrétt við biskupskjör eiga vígðir þjónar og leikmenn sem hér segir:
a) biskup Íslands, vígslubiskupar og þjónandi prestar þjóðkirkjunnar, sbr. 33. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Ennfremur þeir prestar þjóðkirkjunnar, sem settir eru til þjónustu til eins árs eða lengri tíma.
b) prestvígðir menn í föstu starfi innan þjóðkirkjunnar.
c) þjónandi djáknar í föstu starfi innan þjóðkirkjunnar. Djákni skal vera ráðinn ótímabundið eða til a.m.k. eins árs til að njóta kosningarréttar.
d) kjörnir fulltrúar á kirkjuþingi og í kirkjuráði.
e) formenn allra sóknarnefnda sem og varaformenn sóknarnefnda í Kjalarnessprófastsdæmi og Reykjavíkurprófastsdæmum eystra og vestra.
f) kennarar í föstu starfi við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og eru guðfræðingar.
Skilyrði kosningarréttar er að kjósandi sé skráður í þjóðkirkjuna við framlagningu kjörskrár.

Valddreifing og valdefling er eitt mikilvægasta verkefnið sem Þjóðkirkjan stendur frammi fyrir á nýrri öld. Almennur prestdómur allra skírðra er mikilvægt sjónarmið í lútherskri guðfræði og byggir á jafnréttishugsjón siðbótarinnar um að öll störf og hlutverk séu jafnmikilvæg í augum Guðs, hin lærðu jafnt sem leiku. Enn vantar mikið á að hinn almenni prestdómur hafi skilað sér inn í stjórnkerfi kirkjunnar og ákvarðanatöku. Þetta biskupskosningaframtak er í áttina. Nú þarf líka að halda áfram og stíga aukin lýðræðisskref í því hvernig kosið verður til Kirkjuþings í framtíðinni. Auðvitað á allt Þjóðkirkjufólk að geta kosið til Kirkjuþings og haft þannig áhrif á það hvernig fjármunum er varið og þjónustunni háttað í landinu.

Nýju reglurnar hafa margt til síns ágætis, en betur má ef duga skal. Hvers vegna eru sóknarnefndarmenn þess umkomnir að kjósa biskup, en ekki organistarnir?  Hvað um æskulýðsfulltrúana, kirkjuverðina, hringjarana og meðhjálparana?  Af hverju mega hinir trúföstu kirkjukórameðlimir ekki kjósa?  Af hverju ekki allt hitt fólkið sem hefur metnað fyrir kirkjuna sína og vill veg hennar sem mestan? Hin vígða þjónusta hefur reyndar líka verið efld á ánægjulegan hátt með því að færa djáknunum rétt til að kjósa biskup.

Nýju starfsreglurnar eru stikur á leið til aukins lýðræðis. Meira lýðræði fylgir líka aukin ábyrgð, meira gagnsæi og nýjar aðferðir. Með nýju reglunum gefst meira en 500 manns kostur á að kjósa nýjan biskup. En hvernig á að standa að kosningum við þessar nýju aðstæður?  Hvernig á að ná til alls þessa fólks?

Ég tel að það sé mikilvægt að yfirstjórn kirkjunnar taki þátt í að byggja upp nýjar hefðir í sambandi við biskupskosningar sem hæfi nýju atkvæðalandslagi um land allt. Sóknarnefndarformenn í strjálbýli eiga trauðla eftir að geta farið um langan veg á eigin kostnað. Eiga þeir að fara á fimm fundi um 300 kílómetra veg til að hlusta á hugsanlega frambjóðendur? Eins getur það vafist fyrir mörgum þeim sem gefa kost á sér hvernig ná eigi sambandi við alla þessa kjörmenn.

Þess vegna tel ég mikilvægt að Þjóðkirkjan sinni lýðræðinu ekki bara með lagasetningum, heldur með því að móta nýjar hefðir. Þegar Kirkjuráð blæs til biskupskosninga á næstunni þyrfti að gera ráð fyrir einhverjum fjármunum til fundahalda um land allt. Ég legg til að haldnir verði fimm til sex kosningafundir á lykilsstöðum á landinu í marsmánuði og að Biskupsstofa leggi til fjarfundabúnað fyrir þá kjörmenn sem ekki geta komið á staðinn. Þessir fundir ættu að vera öllum opnir. Þar með væri það tryggt að einhver kynning færi fram á biskupsefnum um landið allt og að allir landsmenn sem áhuga hafa á biskupskosningunum geti fylgst með þeim. Á síðasta Kirkjuþingi var útvarpað beint á netinu frá fundum og gafst vel. Síðan voru upptökurnar settar á netið og hver og einn hefur getað hlustað á þær. Þetta fyrirkomulag þarf nauðsynlega að komast á í biskupskosningum, helst í formi vídeós frekar en hljóðskráa, þótt hið síðarnefnda sé að sönnu betra en ekkert.

Og síðan myndu biskupsefnin nota hvert sína leið við kynningu og að afla atkvæða.