Tag: biskupskjör

Að breyta kirkjusögunni

Nú er í fyrsta sinn í sögunni raunhæfur möguleiki á því að kona verði biskup Íslands. Konan sú heitir Agnes M. Sigurðardóttir. Hún var þriðja konan til að vígjast til prests á Íslandi og því sannkallaður brautryðjandi prestsvígðra kvenna. Emmið í nafninu hennar er nafn móður hennar Margrétar.

Agnes hefur langa og víðtæka reynslu sem prestur og prófastur. Hún hefur afburðaþekkingu á landsbyggðinni. Hún hefur aflað sér stjórnunarreynslu, staðið í erfiðum samskiptum og unnið að úrlausn erfiðra mála í starfi sínu sem prófastur sem myndi nýtast henni sérlega vel sem biskup Íslands.

Hún er einlæg trúkona og vakandi hirðir safnaðar síns.  Agnes Margrétar og Sigurðardóttir er góður þjónn Drottins og góð fyrirmynd trúaðra.

Hún hefur stundað framhaldsnám í guðfræði.

Hún skrifaði á sínum tíma undir stuðningsyfirlýsingu 90 presta, djákna og guðfræðinga þar sem þeir lýstu gleði sinni með ein hjúskaparlög í landinu og þannig sýnt það í verki að hún er hlynnt mannréttindum samkynhneigðra. Þessa yfirlýsingu má lesa hér.

Agnes er einlægur jafnréttissinni. Svör hennar við spurningum félags prestsvígðra kvenna um jafnréttisstefnu og jafnréttismál í þjóðkirkjunni má lesa hér.  Hún er fylgjandi því að komið verði á starfi jafnréttisfulltrúa þjóðkirkjunnar. Hún vill berjast fyrir því að sjónarmiðum jafnréttisstefnunnar verði fylgt.

Innan kirkjunnar er starfandi Jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar sem framfylgja á markmiðum jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar, sem er þessi:

 1. Að skapa forsendur fyrir konur og karla í kirkjunni til að njóta þess jafnréttis sem tryggt er í lögum.
 2. Að festa kynjasamþættingu í sessi á öllum sviðum kirkjulegs starfs og innan stjórnsýslu kirkjunnar.
 3. Að auðvelda leikum og lærðum að móta og skapa aðstæður sem gera jafnréttismál að viðfangsefni allra innan kirkjunnar.
 4. Að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar.
 5. Að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum.
 6. Að tryggja framkvæmd þessara markmiða með framkvæmdaráætlun.

Og nú spyr ég:  Í ljósi þess að 110 karlmenn hafa verið vígðir til biskups í íslensku þjóðkirkjunni og engin kona, hvernig hyggst jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar beita sér fyrir því í síðari umferð biskupskosninganna að markmið númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm nái fram að ganga?

Félag prestsvígðra kvenna var stofnað 30. júlí árið 2009.  Félagið á sér tvíþættan tilgang,

– Að efla samstarf og miðla reynslu meðal prestsvígðra kvenna.
– Að auka áhrif og þátttöku prestsvígðra kvenna í kirkjunni og samfélaginu.

Og nú spyr ég hvernig félagið hyggst beita sér í því að auka áhrif og þátttöku prestsvígðra kvenna í þjóðkirkjunni í þeim sögulegu kosningum sem við stöndum nú frammi fyrir?

Er það ekki með því að styðja við bakið á konunni sem á raunverulegan möguleika á að breyta stöðunni í 110-1?

Það verða alltaf þúsund ástæður til að kjósa ekki konu sem biskup. Þær eru of íhaldssamar, of róttækar, hárið á þeim er ekki í lagi, þær eru fráskildar eða eiga óheppilegan kall, þær sögðu eitthvað óheppilegt fyrir hundrað árum etc.

Og einn góðan veðurdag skiptir ekkert af þessu máli, heldur aðeins hvort við breytum kirkjusögunni eða ekki.

Áfram Agnes!

Kvöldið fyrir talningu

Á morgun verður talið í biskupskosningu og tíminn er dálítið lengi að líða.

Þá er upplagt að horfa yfir þessa tvo mánuði síðan ég lýsti því yfir að ég gæfi kost á mér. Ég er svo glöð yfir því að hafa tekið þátt í þessari kosningabaráttu. Þetta hafa verið stórmerkilegir og viðburðaríkir mánuðir, þar sem ég hef haft tækifæri til að kynnast mörgu áhugaverðu fólki, upplifa gestrisni þess og hlusta á viðhorf og kirkjusögur frá ólíkum stöðum. Mér finnst að sjónarhornið hafi dýpkað með hverri heimsókninni og hverjum keyrðum kílómetra. Við fengum líka mikið af góðum spurningum á fundum og á netinu, sem gaman hefur verið að svara og það hefur verið gefandi að standa í svona sterkum tengslum við söfnuðina og fólkið í landinu.  En jafnframt hefur það verið erfitt að ferðast svona mikið og reyna að láta prestakallið ekki láta mæta afgangi á meðan. Stundum hef ég verið yfir mig þreytt. Og gott fólk hefur stutt mig einmitt þegar ég þurfti þess mest með.

Kosningin nú er tímamótakosning og hún hefur hlotið allmikla athygli. Ég geri ráð fyrir því að það verði tvær umferðir í kosningunni. Það kæmi mér á óvart ef einhver einn fengi hreinan meirihluta þegar átta manns eru í kjöri. En allt skýrist þetta á morgun. Ég vona að kona komist í seinni umferðina, annað hvort ég sjálf eða sr. Agnes Sigurðardóttir, því það er kominn tími á að brjóta glerþakið og vígja konu biskup. Mér þykir kosningabaráttan hafa farið vel fram og ég þakka af hjarta þeim Agnesi, Gunnari, Kristjáni Val, Sigurði Árna, Þórhalli, Þóri Jökli og Erni fyrir ágætar samræður og samfylgd á kynningarfundunum.

En í kvöld langar mig til að þakka fleirum. Ég hef ástæðu til að vera glöð og þakklát hvernig svo sem kosningin fer og ég er æðrulaus gagnvart framhaldinu, þó að stundirnar séu lengi að líða. Ég þakka Rögnvaldi fyrir að hafa staðið við bakið á mér eins og hann gerir alltaf og keyrt mig um allar jarðir. Ég þakka strákunum mínum fyrir sprell og stuðning. Ég þakka mömmu og pabba sem hafa verið óþreytandi í að fylgjast með, koma á fundi og telja í stelpuna sína kjark og þor. Ég þakka þeim sem hafa staðið í kringum mig, ráðlagt og hvatt, Níelsi Árna, Kalla Matt, Svanhildi, Auði Ingu og Guðrúnu ásamt mörgum öðrum. Ég þakka Petrínu sem messaði tvisvar fyrir mig svo ég gæti betur einbeitt mér að kosningunni. Ég þakka Lovísu, sem hefur staðið vaktina, öllu starfsfólki og sjálfboðaliðum Guðríðarkirkju sem hafa möglunarlaust tekið því að presturinn væri oft fjarverandi og gjarnan í öðrum heimi og söfnuðinum öllum fyrir samstöðuna.  Ég þakka stuðningsgrúppunni á facebook sem telur 469 manns, guðfræðinemunum sem kusu mig í könnun í guðfræði- og trúarbragðadeild, öllum þeim sem sendu mér kveðju og hringdu, skrifuðu fallegar greinar, skoruðu á mig í DV og mæltu með mér sem biskupi í Gallupkönnuninni. Ég er ákaflega snortin yfir því að svo mörg ykkar hafið treyst mér fyrir þessu erfiða og vandasama embætti.

Kosningin til embættis biskups Íslands hefur verið mér tækifæri til að taka þátt í að móta framtíð íslensku þjóðkirkjunnar. Það er gleðiefni að fá að taka þátt í slíku verkefni. Ég er rík af þeim sem þykir vænt um mig og hafa sýnt mér umhyggju og hvatningu í þessari kosningu. Og þegar ég horfi til allra þeirra sem hafa sýnt kosningunni áhuga, þá finn ég hvað kirkjan er rík af þeim sem þykir vænt um hana. Takk öll fyrir allt!

Austfirðingur verður til

Fyrir mörgum árum meðan ég var enn í guðfræðinámi sinnti ég prédikunarþjónustu sumarlangt á Austurlandi. Fyrsta verkefnið mitt var að prédika í sjómannadagsmessu á Djúpavogi og til stóð að fara með rútu frá Reyðarfirði. Ég missti af rútunni og stóð eins og illa gerður hlutur við þjóðveginn þar til mér hugkvæmdist að fara á puttanum. Ung kona með ungbarn í burðarrúmi tók mig upp í bílinn. Hún var á leiðinni á Breiðdalsvík og tók þennan vesaling að sunnan upp á arma sína, sýndi mér Skrúð og lýsti staðháttum og örnefnum svo unun var að heyra. Svo var haldið áfram til Stöðvarfjarðar þar sem foreldrar hennar bjuggu. Þar var mér boðið í mat og af því að Steinasafn Petru var í næsta húsi var ég leidd þar um stiga og ganga til að sjá safnið, þótt húsráðandi væri ekki heima. Þegar við komum á Breiðdalsvík var þessi góða stúlka búin að finna far fyrir mig á Djúpavogi með fótboltaliðinu sem hafði einmitt att kappi við liðið á Breiðdalsvík þennan sama dag. Fótboltastrákarnir voru glaðir og reifir því þeir höfðu unnið leikinn, og sungu og staupuðu sig alla leiðina heim. Og þannig komst ég til Djúpavogs þrátt fyrir að hafa misst af rútunni.

Þetta var ég að rifja upp þegar ég þræddi austurströnd Íslands fyrr í vikunni. Ár og dagar hafa liðið frá því að ég keyrði síðast sunnfirðina og nú skyldi haldið í kosningaferð til embættis biskups Íslands á sömu slóðir og ég ferðaðist um á puttanum fyrir aldarfjórðungi .  Ég ók í einum rykk á Reyðarfjörð þar sem Hólmgrímur héraðsprestur og Guðlaug bauð í kvöldmat sem ferðamaðurinn þáði fegins hendi.  Strákarnir Árni og Bragi voru hressir, sögðu frá ferðalögum sínum í Bretaveldi, spiluðu á hljóðfæri og gáfu frambjóðandanum góð ráð í kosningabaráttunni.

Mér tókst eftir nokkrar tilraunir að komast á rétta veginn og rata á æskuslóðir ömmu minnar. Rúna Vigdís amma mín var fædd og uppalin í Vindheimi í Norðfirði, sjá hér og ég á fjölda ættingja fyrir austan. Það var hált í Oddskarðinu og konan á heilsársdekkjunum skildi vel hvers vegna Norðfirðingar berjast fyrir nýjum jarðgöngum. En upp komst ég og niður hinum megin, þar sem séra Sigurður Rúnar og Ragnheiður Kristín kona hans tóku vel á móti mér. Og svo var haldið heim til Jóhönnu frænku minnar og Guðjóns sóknarnefndarformanns þar sem ég ætlaði að gista um nóttina. Westie- hundurinn Tobbi var hinn blíðasti og lá ofan á fótunum á mér meðan við ræddum saman.

Þetta fyrsta kvöld mitt á Austfjörðum fékk ég nokkra innsýn inn í hinar nýju aðstæður eftir álver. Ég fræddist um hinar miklu breytingar á samfélaginu eftir að álverið kom, hvernig prestsþjónustan nýtist og velferðarþjónustan á hinum stóra vinnustað.  Fyrir umhverfisverndarsinnann Sigríði var athyglisvert að heyra „hina hliðina“ á hinum stóru umhverfismálum sem þjóðin hefur glímt við vegna Kárahnjúka og Fjarðaáls, um uppbygginguna, atvinnutækifærin, samvinnuna og félagsauðinn sem ræktaður er. Ég skrifaði bak við eyrað að nú þyrfti ég að taka upp sjálfbærnibækurnar hans Rögnvalds mannsins míns. Hann hefur mikinn áhuga á sjálfbærni í rekstri fyrirtækja og iðnaðarvistfræði (industrial ecology) og bloggar stundum um það á heimasíðunni sinni (sjá hér). Ég heyrði um baráttuna fyrir jarðgöngum og  byggðamálin í Fjarðabyggð. Og svo var rætt um stöðu Þjóðkirkjunnar, stjórnsýsluna, húsafriðun, hinn erfiða fjárhag kirknanna vegna niðurskurðar á sóknargjöldum og ýmislegt fleira.

Árla morguns var stefnan tekin á Eskifjörð þar sem prófasturinn Davíð tók á móti mér og sýndi mér hið fagra guðshús þar sem altarið er staðsett í helgidóminum miðjum . Séra Davíð hafði tekið mig undir sinn verndarvæng þegar ég var á prédikunarstyrknum forðum og kennt mér margt það sem síðar átti eftir að nýtast mér í prestsskap. Það var líka hann sem forðum daga sagði mér frá „bláu bókinni“, skýrslu á áttunda áratugnum sem geymdi hugmyndir um víðtæk samstarfssvæði á héraðsvísu. Það var áhugavert að koma aftur og tala um bláu bókina. Ég er ekki frá því að margar hugmyndir hennar séu núna loksins að komast í framkvæmd og er það vel. Frá Davíð hélt ég í útgerðarfyrirtækið Eskju til Jens Garðars sóknarnefndarformanns. Við áttum hið besta spjall um álver og umhverfismál, sveitastjórnarmál, presta og pólitík, lýðræði og framtíð kirkjunnar. Ég er að fara að halda erindi um kirkju og stjórnmál í þarnæstu viku og hef fengið margt að moða úr í erindið í ferðinni.

Reyðfirðingar eiga glæsilegt kaffihús og þar hafði ég mælt mér mót við Jónu Kristínu sóknarprest á Fáskrúðsfirði. Það var notalegt að sötra súkkulaði með rjóma með minni gömlu skólasystur og enn á ný stækkaði myndin af því sem er um að vera á Austfjörðunum. Björn sóknarnefndarformaður á Reyðarfirði tók síðan á móti mér ásamt konu sinni Guðríði. Í stórum og litlum söfnuðum sameinast menn um sömu áhyggjuna, niðurskurðinn á sóknargjöldunum, sem hefur rýrnað um fjórðung eftir hrun og gerir það að verkum að erfitt er að halda við húsunum og halda uppi lágmarks starfi. Björn ræddi líka mikilvægi þess að alls staðar sé hugsað vel um sjálfboðaliða sóknarinnar og ekki síst kórfólksins sem myndar hryggjarstykkið í kirkjusöngnum.

Sól var komin hátt á loft, ellefu gráðu hiti og ég gladdist yfir fegurð Austfjarðanna.  Stefnt var i í suðurátt í gegnum nýju göngin. Það eru víst tvær eftirlitsmyndavélar í þeim og ég vandaði mig mikið við að kitla ekki bensínpinnann að ráði. Eiríkur frændi minn, sóknarnefndarformaður á Fáskrúðsfirði var ekki heima svo ég lét mér nægja að horfa yfir fjallasalinn í Fáskrúðsfirði án þess að hafa þar viðkomu.

Séra Gunnlaugur Stefánsson sýndi mér Stöðvarfjarðarkirkju. Þar sem ég hef nýlega tekið þátt í kirkjubyggingu sjálf og veit hvílíkt grettistak það er fannst mér sérlega gaman að skoða þessi nýju og fjölbreyttu guðshús Austfirðinga. Síðan dreif ég mig á heilsugæslustöðina á Stöðvarfirði, þar sem sóknarnefndarformaðurinn Ingibjörg beið mín. Við höfðum samið um að ég mætti heimsækja hana í vinnuna, en það gæti alveg eins verið að hún hefði engan tíma til að hitta mig. Á heilsugæslustöðinni var líf og fjör. Ég kynnti mig og sagði til mín og fékk að heyra það í fyrsta sinn að ég væri Austfirðingur. Fyrir borgarbarn sem er ættað alls staðar að og hvergi var það mikið hrós að eignast nú nýjar rætur. Á heilsugæslustöðinni á Stöðvarfirði bar það við að Austfirðingur varð til.

Eftir fjörugar samræður um kirkjustarf og þjóðkirkju kvaddi ég Stöðvarfjörð og hélt í sparisjóðinn á Breiðdalsvík, þar sem sóknarnefndarformaðurinn Svandís vinnur. Enn á ný fjölluðum við um erfiðar aðstæður safnaðanna og hversu þungt það er að láta enda ná saman í núverandi árferði.

Útsýnið úr Heydölum yfir Breiðdalinn og víðáttur úthafsins er ægifagurt. Það var gott að sitja og spjalla við kirkjuþingsmanninn Gunnlaug um allt það sem er kirkjunni þungt og hvar sóknarfærin liggja Áherslur geta verið ólíkar en öll höfum við sama markmið. Ég kvaddi séra Gunnlaug eftir skemmtilegt spjall og hélt inn í prestakall séra Sjafnar Djúpavogsklerks.

Fyrsta stopp í syðsta prestakalli Austurlandsprófastdæmis var á Berunesi hjá Ólafi sóknarnefndarformanni og Önnu. Þar eins og víðar var mér tekið með kostum og kynjum. Ólafur hefur setið á kirkjuþingi og fylgist grannt með málum þaðan og enn bættist í reynslusarpinn hjá frambjóðandanum. Frá Berunesi hélt ég áfram inn Berufjörðinn og þaðan til Öldu á Eyjólfsstöðum í Fossárdal.  Það var orðið dimmt, en það var hlýtt og notalegt hjá Öldu. Við drukkum te og spjölluðum um aðstæður í litlum sóknum.

Ég á allsérstæð tengsl við Djúpavog, því að við hjónin giftum okkur í gömlu kirkjunni þar í guðfræðinemaferðalag. Upphaflega hafði staðið til að fara út í Papey, en veðrið var svo vont að hjónavígslan fór fram á Djúpavogi. Nú er þar risin mikil og myndarleg kirkja sem séra Sjöfn og sóknarnefndarformaðurinn Ásdís sýndu mér af miklu stolti. Það var gaman að fara heim á prestsetrið með Sjöfn, því að þangað hef ég ekki komið síðan á brúðkaupsdaginn minn. Og ekki spillt góða kjötsúpan sem Sjöfn dró upp úr pottinum fyrir gleði minni.  Ég hafði ætlað að hitta Hlíf sóknarnefndarformann í Hofssókn í Álftafirði á Djúpavogi þar sem hún vinnur, en dagskráin riðlaðist öll til svo ég varð að sleppa síðustu heimsókninni.

Allan tímann meðan ég var á ferð um Austfirðina lónaði sagan af fyrstu ferðinni minni á Austfjörðum í hugskotinu. Ég hef ekki hugmynd um hver unga konan var sem vann á mér kærleiksverkið forðum. Hún gaf mér far mestalla leiðina, reddaði mér fari með fótboltaliðinu, gaf mér að borða og var hinn besti leiðsögumaður sumarið 1986. Mér fannst gestrisni hennar stórkostleg og finnst það enn. En ég upplifði anga þessarar sögu aftur í vikunni þegar ég heimsótti Austfirði og nýr Austfirðingur varð til.  Ég er að læra svo mikið á þessum ferðalögum og fólk er að gefa mér svo mikið af mat, tíma, áhuga á kirkjunni, holl ráð og nýja fleti sem allir nýtast.

Ég er svo þakklát fyrir þetta nýja nesti. Kæru Austfirðingar, takk fyrir mig.

Undir Jökli

Á fimmtudagsmorguninn lögðum við séra Karl Valgarður Matthíasson land undir fót og fórum á Snæfellsnesið, en áður hafði ég farið í ferð um norðanverða Vestfirðina með Rögnvaldi mínum í janúar og síðan ein á sunnanverða Vestfirðina í byrjun febrúar. Báðar þessar ferðir voru mjög vel heppnaðar og ég hlakkaði mikið til ferðarinnar á Snæfellsnes. Ég var búin að hringja í alla presta og velflesta sóknarnefndarformenn á Nesinu og bjóða sjálfri mér í kaffi. Kalli kom með sem ekill og leiðsögumaður af því að hann þekkir svo vel til undir Jökli. Við fórum Heydal og vorum komin á Skógarströnd fyrir klukkan níu. Flughált var í Hvalfirðinum og við rétt mjökuðumst áfram, en ástandið lagaðist þegar við komum á malarveginn. Kalli keyrði og ég var stillt og prúð og dottaði í bílnum.

Við heimsóttum Jóel sóknarnefndarformann á Bíldshóli og heyrðum af frábæra aðventukvöldinu á Breiðabólsstað sem dregur að fjölda fólks á hverri aðventu. Við sáum bleika sólarupprásina yfir fjöllin, Kalli tók mynd og mér finnst hún vera eins og táknmynd fyrir bjarta framtíð. Við sóttum heim Hreiðar og Kristínu á Narfeyri og heyrðum þyt Íslands og kirkjusögunnar í frásögn Hreiðars. Við fórum í Stykkishólm, fengum höfðinglegar móttökur hjá sóknarprestinum Gunnari Eiríki og rifjuðum upp skemmtilegar minningar frá þeim tíma þegar við vorum öll prestar á Vestfjörðum. Svo lenti ég í skemmtilegum umræðum um kirkju og skóla og framtíð kirkjunnar á kennarastofunni í Stykkishólmi, þar sem sóknarnefndarformaðurinn Unnur vinnur og skoðaði nýja orgelið í Stykkishólmi. Við tókum hús á bóndanum á Hraunhálsi. Hann var sá eini sem ég hafði ekki náð í í síma og við bönkuðum upp á upp á von og óvon, en húsráðendur Jóhannes Eyberg og Guðlaug létu sér hvergi bregða og buðu til stofu. Frá Hraunhálsi var haldið til Hildibrands í Bjarnarhöfn þar sem við skoðuðum safnið og ræddum eilífðarmálin meðan fallegi íslenski hundurinn og kettirnir tveir hringuðu sig á gólfinu. Kalli var duglegri að borða hákarlinn en ég, en Hildibrandur leysti mig út með tvær dollur af hákarli, svo ég get æft mig.

Svo lá leiðin áfram í Grundarfjörð þar sem við spjölluðum við séra Aðalstein og sóknarnefndarformanninn Guðrúnu Margréti á prestsetrinu. Þegar við vorum á leiðinni í Ólafsvík var farið að snjóa allverulega og við heimsóttum bæði Baldvin Leif formann og Ragnheiði Karítas sóknarprest. Ragnheiður ætlar að flytja til Noregs og búið er að auglýsa prestakallið. Það er hugur í Ólsurum og Söndurum nú þegar prestsval stendur fyrir dyrum og að mörgu að hyggja sem gaman var að kynnast. Síðasta stopp á norðanverðu nesinu var hjá Sigrúnu sóknarnefndarformanni á Hellisandi sem gaf sér tíma í spjall um framtíð kirkjunnar meðan hrogn og lifur suðu á eldavélinni og sinna þurfti börnum og búi. Þegar við kvöddum Sigrúnu var ofankoman orðin mikil og ég var að velta því fyrir mér hvort við ættum kannski að drífa okkur í bæinn og aflýsa hinum heimsóknunum.  Karl Valgarður er hins vegar þrjóskari en ég og vildi halda áfram undir fyrir Jökul. Við settumst upp í bílinn og ókum áfram þótt við sæjum varla út úr augunum.

Það var óttalegt gjörningaveður undir jöklinum og ég varð fegin að komast í hús hjá Hafdísi Höllu á Arnarstapa. Þar biðu okkar gómsætar steiktar fiskibollur og öll sóknarnefndin, sem hafði fengið veður af heimsókninni. Við héldum síðan áfram til Sigrúnar á Kálfárvöllum sem líka hafði boðið heim sóknarnefndinni og spjölluðum um sóknarnefndarmál og borðuðum rjómapönnukökur. Veðrið hafði versnað mikið meðan við ókum frá Arnarstapa á Kálfárvelli en þegar við komum út aftur var komið logn og heiðskírt veður. Það var einstaklega fallegt að aka Ölduhrygg, stjörnurnar voru svo bjartar og tunglsljósið gult og alls staðar blasti víðáttan við. Séra Guðjón og frú Klara tóku á móti okkur þótt klukkan væri orðin meira en tíu og við spjölluðum um málefni kirkjunnar  góða stund. Svo var rennt í bæinn þangað sem við komum klukkan hálftvö um nóttina. Voanandi næ ég að heimsækja þær sóknir sem ég varð að skilja eftir af því að klukkan var orðin svo margt.

Ég var lengi að sofna þegar ég kom heim þótt dagurinn væri langur. Höfuð mitt var fullt af fólki, fólki sem hafði sýnt mér gestrisni og gefið mér tíma sinn í ólíkum heimsóknum yfir daginn.  Ég hugsaði um sögu, guðfræði, erfiðleika, kirkjupólitík og starfsmannamál, svo að hausinn í mér brakaði. Mér finnst það það besta við þessar biskupskosningar  að þær gefa tækifæri til nýs samtals og samskipta. Samskipti eru ekki áætlun á blaði eða excelskjal. Samskipti er það þegar fólk drekkur saman kaffi og te og ræðir um það sem gengur vel og það sem gengur illa, hver við erum og hvert við stefnum og hvað við erum sammála og ósammála um. Samskipti er að eiga allt í einu erindi á bæi og kynnast nýju, yndislegu fólki. Samskipti um kirkju er að komast að því hversu margt fólk er að gefa vinnu sína og ástúð til kirkjunnar sinnar. Í samtalinu kynnist maður nýjum hlutum og rifjar upp aðra sem eru gamlir. Og í bakgrunni tónar sagan sem er tengd kristninni á djúpan hátt og landið sem við eigum og á okkur.

Takk Kalli fyrir að koma með mér í ferðalag. Takk Snæfellingar, þið eruð frábært fólk. 

Kynningarfundir vegna biskupskjörs

Kirkjuráð ákvað í janúar að halda kynningarfundi með þeim frambjóðendum sem hafa boðið sig fram til biskupsþjónustu. Þeir eru nú orðnir sjö talsins. Framboðsfresturinn rennur ekki út fyrr en á hlaupársdag, svo einhverjir gætu bæst við enn.  Í gær kom fréttatilkynning á vef Þjóðkirkjunnar (sjá hér) um 6 kynningarfundi sem eru:

 1. Reykjavík föstudag  2.3. Háteigskirkja kl. 16. Fyrirhugað er að taka þennan fyrsta kynningarfund frambjóðenda upp á myndband og birta á vef kirkjunnar í framhaldinu til að auðvelda kjósendum að kynna sér frambjóðendur.
 2. Egilsstaðir laugardag 3.3. kl. 13.
 3. Selfoss mánudag 5.3. kl. 20.
 4. Borgarnes miðvikudag 7.3. kl 20.
 5. Ísafjörður fimmtudag 8.3. kl. 20.
 6. Akureyri laugardag 10.3.  kl. 13.

Ég er mjög ánægð með að þessir fundir skuli verða að veruleika og finnst að með þeim sé áfram haldið í átt til virkrar þátttöku, kynningar og lýðræðis, þótt auðvitað hefði ég viljað hafa fundina fleiri. Þetta er dýrmætt tækifæri til að sjá frambjóðendurna ræða saman og spyrja þá spurninga. Það er líka jákvætt að taka á fyrsta fundinn upp á myndband og sýna á vef kirkjunnar. Þar með geta þau sem eru tölvutengd og eiga ekki heimangengt á sinn fund fylgst með. Ég vona að allir fundirnir verði teknir upp, því að viðfangsefnin og spurningarnar geta verið mjög ólíkar eftir landssvæðum.

Í auglýsingunni kemur ekkert fram um að fundirnir séu opnir almenningi og að allir séu hvattir til að mæta. Ég ætla bara rétt að vona það að svo sé!