Category: Óflokkað

Messukosssúpa?

Messan á sunnudaginn verður síðasta messan mín í Grafarholti að sinni. Messan er líka útvarpsmessa. Ég á eftir að kveðja svo marga af vinum og vinkonum og góðu samferðafólki og kemst ekki yfir að kveðja alla með heimsóknum. Það er merkileg tilfinning að segja bless eftir tíu ár, ljúfsárt bland af væntingu eftir hinu nýja og söknuði vegna þess sem ég hef notið. Ég hef verið að blaða í prestsþjónustubókunum í dag og hugsa hlýtt til allra þeirra sem ég hef verið með athafnir fyrir og sinnt hér í Holtinu og áður á Norðurlandi og Vestfjörðum.

Mér þætti ákaflega gaman að sjá sóknarbörn og vini mína í messu á sunnudaginn kl. 11. Hrönn organisti og kórinn eru búin að æfa fallegt prógramm, Lovísa kirkjuvörður verður með súpu og það væri gott að geta kysst marga, af því að við hjónin fljúgum út á mánudaginn.

Viltu koma í messu? Faríseinn og tollheimtumaðurinn eru guðspjallið og ég ætla að rifja það upp þegar ég ætlaði að sætta Ísraela og Palestínumenn á Vesturbakkanum.

Himinblámi

Fyrir nokkrum misserum voru sýndir norskir þættir í sjónvarpinu sem báru nafnið Himinblámi, eða Himmelblå. Þættirnir sögðu frá fjölskyldufólki sem fluttust til Ylfingseyjar við strendur Norður-Noregs og nutu mikilla vinsælda bæði í Noregi og á Íslandi. Eitt af því sem gerði þættina svo ljúfa og skemmtilega var stórbrotið landslagið sem prýddi þættina, fallegar fjölskrúðugar strendur, tignarleg fjöll og blómlegar sveitir iðandi af mannlífi. Þættirnir voru teknir upp í eyjaklösum og við strandlengju Suður-Hálogalands, sem er syðsta sveit Norður-Noregs, nokkurra klukkustunda keyrslu norðan við Þrándheim. Stærsti þéttbýlisstaður Suður-Hálogalands er Brunneyjarsund (Brønnøysund) og yfir hann gnæfir hið sérstaka fjall Torghatturinn, sem lítur út eins og Napóleonshattur með gati í miðjunni. Um Torghattinn orti 18. aldar skáldpresturinn Petter Dass:

Um fjórðung frá Brunney ég Torghattinn tel,
sem tröll meðal kletta hann sómir sér vel
og starir með ósofnu auga;
og betur sá Argus hinn eldforni síst
með augunum hundrað þó kynni hann víst
að sjá gegnum hæðir og hauga.

Því skaparinn hefur það samið og sett
að sjá skuli gat í þann víðfræga klett
og greiðlega gegnum það rofa;
í gatinu bjarmar af birtu og sól
og blessuðum fugluðum verður það skjól
og geitinni girnileg stofa.
(Petter Dass (1977) Norðurlands Trómet (Kristján Eldjárn þýddi), Helgafell 107-108).

Sveitarinnar í kringum Torghattinn er líka getið í Eglu. Þar sagt er frá Þórólfi Kveldúlfssyni föðurbróður Egils Skallagrímssonar sem bjó stórbúi á Torgum við Brunneyjarsund við himinbláma fyrir þúsund árum. Og nú háttar svo til að þann 12. júní s.l. bauð biskupsdæmisráð stiftisins mér stöðu sem prófastur á Suður-Hálogalandi með aðsetur á hinum fornu slóðum Kveldúlfssonar og með Torghattinn sem útsýni. Það er fátítt að útlendingur gegni yfirmannsstöðu í norsku kirkjunni og hefur líkast til aldrei gerst áður að einhver hafi hoppað inn í slíka stöðu án þess að hafa þjónað norsku kirkjunni áður sem prestur. Stöðuveitingin er mér því sannur heiður og við hjónin hlökkum til að takast á við nýjar og skemmtilegar áskoranir á nýjum stað, læra nýtt tungumál og setja okkur inn í aðstæður í menningu og kirkju sem er bæði lík og ólík hinni íslensku. Prófastsembættin í Noregi eru töluvert ólík íslensku prófastsembættunum að því leyti að norskir prófastar gegna stjórnunarhlutverki í fullu starfi, en bæta því ekki aukalega ofan á verkahring sinn sem prestar. Norsku prófastarnir eru yfirmenn prestanna og stjórna öllu þeirra starfi og samvinnu. Þessi nýja vinna gerir mér þannig kleift að þjálfa upp hjá mér nýja styrkleika á sviði stjórnunar, mannauðs, leiðtogafærni, stefnumótunarfærni og skipulagsfærni sem vonandi mun nýtast íslensku kirkjunni í framtíðinni þegar við snúum aftur til Íslands.

Það hefur verið einstaklega gefandi að taka þátt í frumkvöðlastarfi í Grafarholti og fá að ala upp börn í náttúruperlunni við rætur Úlfarsfellsins. Sú eða sá sem nýtur slíkra gæða hefur ekki vistaskipti án umhugsunar. Það er því ekki auðvelt að snúa til nýrra starfa, jafnvel þótt ný og spennandi verkefni séu í boði. Ég hef starfað í Grafarholti sem sóknarprestur í áratug og tekið þátt í því með góðu fólki að byggja upp söfnuð, glæsilega kirkju og kraftmikið starf með góðu starfsfólki og sjálfboðaliðum sem ég er innilega þakklát fyrir. Ég hef fengið leyfi frá störfum í eitt ár og verður afleysingastaðan auglýst innan skamms.  Ekki hefur verið gengið frá því hvenær nákvæmlega við förum, en ég á ekki von á því að þessi breyting  á högum okkar hafi áhrif á þau embættisverk sem ég hef tekið að mér fyrir sóknarbörnin í sumar. Grafhyltingum og Úlfdælum þakka ég kærlega fyrir frábær ár í holtinu og dalnum, sem hafa styrkt mig og eflt sem prest.

Í þáttunum um himinblámann, kallaði stórbrotin náttúra Suður Hálogalands á borgarbúana. Og ég vona að bláminn taki vel á móti afkomendum Egils Skallagrímssonar sem vitja Torghattsins í haust eins og frændinn frægi. Megi þar bjarma af birtu og sól og heima í holtinu líka.

Greinin birtist líka í Grafarholtsblaðinu 12. júní 2014

Myndin sýnir Torghattinn og var tekin af þessari síðu: 

Torghatturinn

Drekkjandi umræða

Leiðari Fréttablaðsins í dag ber yfirskriftina „Að drekkja umræðu í umræðu“, sjá hér: http://www.visir.is/ad-drekkja-umraedu-i-umraedu/article/2014703189969.

Mér finnst leiðarinn vera blaðinu til skammar og að ritstjórar skuldi lesendum blaðsins afsökunarbeiðni vegna hans. Ég tel leiðarann ekki boðlegan í dagblaði vegna þess að hann gerir lítið úr þeim fjölmörgu sem senda inn greinar til blaðsins og þeirra sem setja fram skoðanir sínar í bloggi og greinum á netinu.

Það er furðulegt að heyra fjölmiðlafólk gera lítið úr frjálsri fjölmiðlun. Hverjum manni er frjálst að nota stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að viðra skoðanir sínar á þann hátt sem viðkomandi kýs helst. Þetta röfl leiðarahöfundar hljómar eins og óskilgreindur pirringur vegna einhvers tiltekins fólks sem hefur tekið óstinnt upp að fá ekki greinar birtar. Slíkur pirringur á frekar heima á ritstjórnarfundum en í leiðara blaðsins.

Áhugavert væri að vita hvað leiðarahöfundur telur að eigi að koma í stað ofgnóttar umræðunnar. Hver er andstæða umræðuofgnóttar?

Snowden

Árið 2004 sat Bobby Fischer í fangelsi í Japan. Hann var vegabréfslaus. Hann skrifaði Davíð Oddsyni og bað um landvistarleyfi á Íslandi. Og viti menn Fischer varð íslenskur ríkisborgari, vegna þess að vilji stóð til þess. Þjóð og valdhafar sýndu landflótta manni gestrisni og létu sig ekki þótt Bandaríkjamenn fyrtust við.

Nú hefur Edward Snowden setið á flugvelli í Rússlandi í heila viku og kemst ekki úr landi. Hann hefur verið sviptur bandarísku vegabréfi sínu. Hann hefur beðið um hæli á Íslandi og tuttugu öðrum löndum en hefur fengið allnokkrar neitanir á þeirri forsendu að hann verði að vera staddur í landinu til að sækja þar um pólitískt hæli. Íslensk stjórnvöld eru ekki að flýta sér. Hvers vegna getur Ísland galdrað fram ríkisborgararétt handa fyrrverandi skákmeistara, en ekki ungum, hugrökkum manni sem leyfði sér að sýna fram á njósnir Bandaríkjamanna? Þjóðir heims standa í þakkarskuld við Edward Snowden og í staðinn fyrir að taka stolt við honum, fer skrifræðismaskínan af stað.

Áfram Snowden, lýðræðið og gagnsæið og sýnum nú smá hugrekki líka.

Sumir blogga, aðrir orga

Ég fann mér nýja slóð fyrir heimasíðuna mína, http://www.sigridur.org. Gamla slóðin, abyssofgod.wordpress.com, virkar líka en þessi ætti að vera þægilegri í meðförum og auðveldari að muna.  Ég er líka búin að breyta heimasíðunni mikið. Áður var hún aðallega upplýsingasíða fyrir fræðastörf mín. Þær upplýsingar er enn hægt að nálgast undir flipanum „Fræði“, en nú er komið inn fullt af nýju efni, ættartalan mín og fleira skemmtilegt. Þið kíkið vonandi á þetta.

Það er hægt að fylgjast með blogginu mínu með því að smella á RSS feed og það væri frábært að fá viðbrögð. Veskú, sigridur.org. Mér finnst þetta org líka dálítið hressilegt. Sumir blogga, aðrir orga.