Category: Stjórnmál

Snowden

Árið 2004 sat Bobby Fischer í fangelsi í Japan. Hann var vegabréfslaus. Hann skrifaði Davíð Oddsyni og bað um landvistarleyfi á Íslandi. Og viti menn Fischer varð íslenskur ríkisborgari, vegna þess að vilji stóð til þess. Þjóð og valdhafar sýndu landflótta manni gestrisni og létu sig ekki þótt Bandaríkjamenn fyrtust við.

Nú hefur Edward Snowden setið á flugvelli í Rússlandi í heila viku og kemst ekki úr landi. Hann hefur verið sviptur bandarísku vegabréfi sínu. Hann hefur beðið um hæli á Íslandi og tuttugu öðrum löndum en hefur fengið allnokkrar neitanir á þeirri forsendu að hann verði að vera staddur í landinu til að sækja þar um pólitískt hæli. Íslensk stjórnvöld eru ekki að flýta sér. Hvers vegna getur Ísland galdrað fram ríkisborgararétt handa fyrrverandi skákmeistara, en ekki ungum, hugrökkum manni sem leyfði sér að sýna fram á njósnir Bandaríkjamanna? Þjóðir heims standa í þakkarskuld við Edward Snowden og í staðinn fyrir að taka stolt við honum, fer skrifræðismaskínan af stað.

Áfram Snowden, lýðræðið og gagnsæið og sýnum nú smá hugrekki líka.

Kosningadagur

Ég ólst upp við það að fara prúðbúin á kjörstað með mömmu og pabba. Þau innrættu mér virðingu fyrir þessum degi og þakklæti fyrir að hann skuli vera til. Kosningadagar eru hátíð lýðræðisins, þennan eina dag á fjögurra ára fresti þar sem kjósendur hafa öll ráð landsins í eigin hendi. Mér finnst kosningadagur líka vera hátíð kvenna og minnist formæðranna og forfeðranna sem börðust fyrir kosningarétti kvenna í upphafi síðustu aldar. Mér dettur ekki í hug að reyna að hafa áhrif á val ykkar um flokka eða hvort þið ákveðið að skila auðu. En mig langar til að biðja allt kosningabært fólk um að mæta á kjörstað því í dag er merkilegur dagur.

Myndir af atkvæðum

Ég er farin að sjá myndir á FB sem fólk tekur af utankjörstaðaratkvæðunum sínum og mér finnst það verulega slæmt.

Sjá 63. grein kosningalaga nr. 24/2000:

Að þessu loknu fær kjósandi afhent kjörgögn. Skal hann síðan aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái rita atkvæði sitt á kjörseðilinn á þann hátt er segir í 2. mgr. 62. gr. og setja atkvæðið í kjörseðilsumslagið…

85. gr.:

Kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði.“

Lagagreinin um að kjósandi gæti þess að enginn sjái hvernig hann ráðstafar atkvæði sínu er sett til að koma í veg fyrir að hægt sé að selja atkvæði sitt eða neyða fólk til að styðja tiltekinn stjórnmálamann eða flokk. Þessi regla skiptir máli fyrir lýðræðið.

Ég tek það fram að ég er ekki að tjá mig um að aðstoðarmenn fatlaðs fólks fái að fylgja þeim í klefa, heldur þessar fáránlegu snjallsímamyndatökur.

Oddvitarnir í R suður og þjóðkirkjuhugtakið

Áhugavert er að skoða Alþingiskönnun DV, því að þar lýsa langflestir frambjóðendur til Alþingis 2013 viðhorfum sínum til hinna fjölbreytilegustu mála.  Frambjóðendur voru m.a. spurðir þessarar spurningar:

Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að á Íslandi sé þjóðkirkja?

Spurningin virðist hafa vafist fyrir mörgum, enda ekki alveg augljóst hvað við sé átt. Hér virðist ekki vísað til Þjóðkirkjunnar með stóru Þorni, trúfélagsins sem heitir Hin evangelísk- lútherska Þjóðkirkja, heldur til þess hvort fólk sé hlynnt eða andvígt þjóðkirkju á Íslandi. En hvað er þjóðkirkja?

Þjóðkirkjur (national churches) tengjast tiltekinni þjóð og menningu hennar föstum böndum og gjarnan í gegnum aldagamla sögu. Hugmyndir um þjóðkirkjur voru mikið ræddar á 19. öldinni í tengslum við vaxandi áherslur á þjóðarhugtakið, þjóðtungu og aukna þjóðernistilfinningu. Þjóðkirkjur lúta innlendu valdi biskupa. Þær halda gjarnan úti þjónustu á landsvísu. Rómversk-kaþólska kirkjan er ekki þjóðkirkja, heldur alþjóðleg kirkja og einstakir staðbundir söfnuðir eru heldur ekki þjóðkirkjur.

Það gæti verið ástæða til að óttast þjóðkirkju sérstaklega ef stjórnmálamenn teldu að kirkjuhugsun hennar væri rasísk og ógnaði innflytjendum, eða vegna þess að þjóðarhugtakið sé í uppnámi. Nationalismi getur verið bæði þjóðarstolt og þjóðernishyggja  Mig fýsti að vita meira um viðhorf frambjóðenda til þjóðkirkjunnar og hvort stuðningur eða andúð á þjóðkirkju hefði eitthvað með afstöðu til þjóðernis, þjóðtungu og innflytjendamála að gera.Ég er kjósandi í Reykjavík suður og kannaði því hvað oddvitar hvers stjórnmálaflokks hafa um þetta að segja í svörum við fjórum spurningum könnunarinnar sem hafa með þjóðkirkju, þjóðerni, þjóðtungu og hælisleitendur að gera  (Flokk heimilanna, Regnbogann, Alþýðufylkinguna og Sturlu Jónsson vantar í könnunina). Þetta var niðurstaðan :

  • Róbert Marshall:  Mjög hlynntur þjóðkirkju, mjög andvígur því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, finnst spurningin um að það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu kjánaleg og vill ekki svara.
  • Hanna Birna Kristjánsdóttir: Frekar hlynnt þjóðkirkju, hvorki-né skoðun á rýmri reglum um hælisleitendur, hlutlaus gagnvart því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, ósammála því að það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Sigríður Ingibjörg Ingadóttir: Frekar andvíg þjóðkirkju, mjög andvíg því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, ósammála því að það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Vigdís Hauksdóttir: Mjög hlynnt þjóðkirkju, hvorki-né skoðun á rýmri reglum um hælisleitendur, mjög hlynnt því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, ósammála því að það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Svandís Svavarsdóttir: Mjög hlynnt þjóðkirkju, frekar andvíg því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur,   ósammála því að það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Þórður Björn Sigurðsson: Mjög andvígur þjóðkirkju, frekar andvígur því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, hefur ekki skoðun á því hvort það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Jón Þór Ólafsson: Mjög andvígur þjóðkirkju, mjög hlynntur því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, hefur ekki skoðun á því hvort það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Þórhildur Þorleifsdóttir: Frekar andvíg þjóðkirkju, frekar hlynnt því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, mjög sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, vill ekki svara hvort það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.
  • Jón E. Árnason: Hlutlaus í afstöðunni til þjóðkirkjunnar, mjög hlynntur því að gera íslenskukunnáttu að skilyrði ríkisborgararéttar, sammála rýmri reglum fyrir hælisleitendur, vill ekki svara hvort það sé kjánalegt að vera stoltur af föðurlandinu.

Það er ekki að sjá að afstaða fólks til þjóðkirkju á Íslandi hafi neitt með það að gera hvort það er stolt af föðurlandi sínu og uppruna, eða haldist í hendur við skoðanir á innflytjendum, hælisleitendum eða verndun tungumálsins. Verið getur að einhverjir hafi túlkað spurninguna á þann hátt að verið væri að meina hvort fólk væri hlynnt sambandi ríkis og kirkju. Það er hins vegar alls ekki sami hluturinn og að amast við þjóðkirkju í tilteknu landi.

Ætli þeir stjórnmálamenn sem eru andvígir eða mjög andvígir tilvist þjóðkirkju séu andvígir orþodoxakirkjunum í Austur-Evrópu sem allar eru þjóðkirkjur, þótt minnihluti landsmanna tilheyri þeim í flestum tilfellum? Eða er það bara hér á Íslandi sem má ekki vera þjóðkirkja?

Ólöf Nordal

Mér finnst Ólöf Nordal hafa komið vel fram með því að tilkynna um að hún muni ekki gefa kost á sér áfram. Hver og ein/n getur hætt í pólitík þegar henni sýnist og sagt af sér ábyrgðarstörfum. En það lýsir ábyrgðartilfinningu og umhyggju fyrir landi og eigin stjórnmálaflokki að hætta með góðum fyrirvara og taka þá ákvörðun átta mánuðum fyrir alþingiskosningar svo að nægur tími vinnist til að þétta raðirnar. Ég vona að umræðan um að mikilvægt sé að Sjálfstæðisflokkurinn endurspegli þverskurð samfélagsins haldi áfram. Þverskurður getur ekki verið af aðeins öðru kyninu og ómögulegt að allar silkihúfur flokksins séu karlkyns.

Nú er ég að vona að Jóhanna Sigurðardóttir tilkynni bráðum að hún gefi ekki kost á sér aftur sem formaður Samfylkingar. Ég ber virðingu fyrir Jóhönnu og tel að hún hafi tekið við erfiðu búi á ögurstundu. En ef hún metur flokkinn sinn ofar eigin egói, þá stígur hún til hliðar núna.

Myndin af Ólöfu Nordal er tekin af vef Alþingis.