Flokkur: Lýðræði

Biskupsvísitasía Guðna Ágústssonar

Í dag bárust fréttir af því að Guðni Ágússon fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins væri ósáttur vegna  óvæginnar umfjöllunar Davíðs Þórs Jónssonar guðfræðings um forsetann og sjálfan sig á bloggsíðu þess síðarnefnda fyrir viku.  Davíð Þór hefur lokið starfsþjálfun sem prestsefni og gegnir nú um stundir afleysingastarfi sem óvígður fræðslufulltrúi í Austurlandsprófastdæmi.

Grein Davíðs Þórs má lesa hér og hefur hún eflaust fengið talsverðan lestur í dag eftir að fréttist af biskupsheimsókn Guðna. Í greininni dregur Davíð Þór upp sjö atriði sem hann telur styðja það að forseti Íslands sé bæði lygari og rógtunga og hvetur kjósendur til að gefa honum ekki atkvæði sitt.  Ennfremur vísar Davíð Þór í yfirlýsingar tveggja formanna nýnasistahreyfingarinnar „Norrænt mannkyn“ um að Guðni hafi verið félagi í þeim samtökum.

Í viðtali við Morgunblaðið (sjá hér) greinir Guðni frá því að hann hafi gengið á fund biskups Íslands frú Agnesar M. Sigurðardóttur í gær fimmtudag og kvartað yfir Davíð Þór. Ennfremur kemur fram að Guðni íhugi það að höfða mál gegn Davíð Þór. Aðspurður að því sem rætt var á fundi hans og biskups segir Guðni:

Ég sagði við hana að mér þætti þetta vera ófær framkoma hjá hennar þjóni. Ég gerði kröfur til þess sem heiðarlegur maður og kristinn að þessi maður gjaldi fyrir orð sín bæði í minn garð og forsetans.

DV hefur líka haft samband við Guðna vegna málsins og biskupsgöngunnar (sjá hér). Í samtalinu við DV segir Guðni:

Ég tel hárrétt að ávíta þennan mann og að biskup og kirkja skoði gang sinn að vera með svona þjón sem kemur svona fram við almenna borgara og forseta landsins.

Ég ætla ekkert að ræða skoðanir Davíðs Þórs á forsetanum sérstaklega. Ég hef sjálf valið að kjósa ekki sitjandi forseta vegna gagnrýni rannsóknarskýrslunnar á hann og ólíkra skoðana um eðli forsetaembættisins (sem lesa má hér), en ég tek ekki undir skoðanir Davíðs Þórs á að hann sé lygari og rógtunga. Né heldur hef ég áhuga á að velta upp gömlum málum um meinta félagsaðild Guðna í „Norrænu mannkyni“ á fyrri hluta tíunda áratugarins. Mér þykir grein Davíðs heldur flækjast við þessa aðildarvenslan sem er ekki beinlínis tengd efni pistilsins um forsetann. En nú er ég víst ekki að skrifa ritdóm um grein Davíðs Þórs, heldur að velta fyrir mér hvort hann megi hafa þá skoðanir sem hann setti fram.

Ég tel að málfrelsi sé mikilvægt í nútímasamfélagi og veiti valdsstjórnum nauðsynlegt aðhald. Davíð Þór má sem almennur borgari í þessu landi hafa hvaða skoðun sem hann vill á því hvernig forseti Íslands situr Bessastaði á hverri tíð. Hann má líka hafa skoðun á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, Alþingi Íslendinga, þjóðkirkjunni, Hæstarétti og hverju því öðru sem hann langar til að tjá sig um.

En á að gera ríkar kröfur til kirkjunnar þjóna eins og Guðni lagði áherslu á í heimsókninni til biskupsins? Til eru siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar sem nálgast má í heild sinni hér.  Greinin sem umkvartanir Guðna gæti flokkast undir er væntanlega þessi hér:

13. Sýna ábyrg rafræn samskipti og netnotkun.

Og þá er það spurningin:  Flokkast það undir óábyrga netnotkun að vara kjósendur við frambjóðenda vegna þess að viðkomandi telur hann ekki trausts kjósenda verður?

Það vill svo merkilega til að texti næsta sunnudags fjallar um köllun Jeremía spámanns. Í textanum í upphafi spádómsbókar Jeremía vantreystir spámaðurinn sér þegar Guð kallar hann til að verða spámaður sinn. Guðdómurinn situr fastur við sinn keip og Jeremía lætur undan. Þessi tregi spámaður átti eftir að verða fleinn í holdi síðustu konunganna í Júda, þeirra Jósía, Jóahasar, Jójakíms, Jójakíns og Sedekía. Jeremía skammaði konungana stöðugt fyrir valdníðslu, hjáguðadýrkun og trúleysi. Annar spámaður, Jesaja, gekk um á lendaskýlu í þrjú ár í mótmælaskyni við valdhafa sem hann taldi óréttláta. Þegar lesið er í gegnum spámannaritin  kemur fram mikil samfélagsleg ádeila og spámennirnir eru óhræddir við að láta kónga og hirðslekti heyra það.

Ég velti því fyrir mér meðan ég les textann frá köllun Jeremía hvort hann hefði verið fyrirmynd í ábyrgum netsamskiptum ef rafrænir samfélagsmiðlar hefðu verið til á hans tíð.  Ég held ekki.

Vegna hinnar spámannlegu hefðar og hinnar ríku samfélagsgagnrýni sem einkennir hinn gyðing-kristna arf tel ég að Davíð Þór Jónsson hafi fullan rétt sem kirkjunnar þjónn til að segja að forsetinn sé lygari og rógtunga fyrst honum finnst það , færir fyrir máli sínu  allnokkur rök og gefur kost á lýðræðislegri umræðu um skoðanir sínar á vefsíðu sinni. Ég þarf ekki að vera sammála rökunum eða ályktuninni. En ég virði rétt hans til að hafa þessar skoðanir.  Að mínu viti á hann ekki að fá neina áminningu fyrir slíka gagnrýni, hann á ekki „að gjalda fyrir orð sín“ og ég tel ekki að rétt sé að kirkjan  „skoði gang sinn að vera með svona þjón.“

Kirkja sem hlypi upp til handa og fóta vegna þess að einn starfsmaður hennar lýsti yfir óánægju með einn af valdhöfunum væri ekki mjög spámannleg.

Á kosningadegi

Á sólbjörtum kosningadegi er ég eitthvað svo ánægð með lýðveldið Ísland.  Ég er stolt af lýðveldinu Íslandi þar sem kjósendum gefst kostur á að kjósa sér forseta á fjögurra ára fresti.

Undanfarna daga hef ég verið alveg að drepast úr leiðindum yfir karpinu í forsetakosningunum, stuðningsyfirlýsingunum á Facebook, rifrildinu í kommentakerfi dagblaðanna. Stundum hef ég verið að láta mig dreyma um það hvað það væri gott að fá bara danska konungsveldið aftur. Margréti drottningu með sígaretturnar, alla huggulegu prinsana og prinsessurnar og verðina með loðhúfurnar og byssustingina. Ekkert vesen, engar kosningar, engar pælingar um eðli forsetaembættisins eða hvernig almennilegur forseti á að vera. Margrét Þórhildur þarf ekkert að vera drottningarleg. Hún er ríkisarfi og með þetta í blóðinu.

En í dag reis lýðveldissinninn stoltur úr rekkju aftur. Ef við byggjum við konungsveldi sætum við uppi með sömu fjölskylduna í hundruð ára  hvort sem okkur líkaði hún eða ekki.  Það er eitthvað verulega andlýðræðislegt við að fólk sé fætt til valda og metorða, ekki síst þegar þau völd eru greidd úr ríkiskassanum.

Ég held að þessar kosningar marki að tvennu leyti skil í lýðveldissögunni. Í fyrsta lagi tel ég það mikilvægt að í ár komu fram alvöru framboð á móti sitjandi forseta. Og í öðru lagi tel ég að framboðsreynslan sýni að við þurfum að koma okkur upp nýjum kúltúr varðandi forsetakosningar.

ÞAÐ HÆFIR AÐ BJÓÐA SIG FRAM

Í ár hefur í fyrsta sinn þótt við hæfi að bjóða sig fram á móti sitjandi forseta. Mikil breyting hefur orðið á viðhorfi Íslendinga gagnvart framboðum móti sitjandi forseta. Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram á móti Vigdísi árið 1988, Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon árið 2004. Þessi framboð voru lítils megnug, kosningaþátttaka dræm og sitjandi forseti hlaut yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Langflestir Íslendingar töldu að ekki væri við hæfi að hrófla við sitjandi forseta og þessir frumkvöðlar fengu litla þökk fyrir að gera íslensku þjóðinni ónæði og draga hana að óþörfu á kjörstað fyrir milljónir króna.

Nú hins vegar er hiti í kosningunni, og þau sem hafa boðið sig fram hafa haft mikil áhrif á umræðuna. Skoðanakannanir benda til þess að Ólafur hafi þetta með allnokkrum mun, en það er enn ekki víst. Og það verður ekki með 94,6% atkvæða eins og Vigdís fékk 1988. Það verður heldur ekki með 67% atkvæða eins og Ólafur Ragnar fékk 2004. Þetta er alvöru barátta, með umræðum í sjónvarpi og hvaðeina. Ég túlka þessa kosningabaráttu sem upptakt af virkara lýðræði. Það er farið að rugga meira valdastólunum en áður var. Fáir tala um að það hafi ekki verið við hæfi að bjóða sig fram á móti sitjandi forseta að þessu sinni.

Þetta er gott.  Til hvers að hafa lýðveldi ef það hæfir ekki að kjósa forseta reglulega?

NÝR KÚLTÚR

Forsetakosningar eru langhlaup og þarfnast langs undirbúnings, jafnvel fjögurra ára. Við þurfum að efla þann anda að forsetakosningar séu sjálfsagðar og eðlilegar og að fólk megi takast á um þær. Kannski að efla með okkur þol fyrir umræðunni. (Kannski að pakka niður óljósum konungsveldisdraumum með engu veseni). Ég held líka að að sumir þeirra frambjóðenda sem hafa mælst með lítið fylgi í skoðanakönnunum séu að leggja mikilvæg lóð á vogarskálarnar sem forsetakosningar framtíðarinnar eiga að byggja á. Ég nefni sem dæmi kröfu Herdísar Þorgeirsdóttur um opið bókhald, sem Hannes og Andrea hafa tekið undir.

Eitt af því sem mér hefur þótt merkilegast við þessa kosningabaráttu er hversu ólíkar skoðanir fólk hefur á því hvað forseti eigi að gera. Sumir frambjóðendanna hafa haft hugmyndir um mjög sterkt forsetavald, sérstaklega Ólafur, Herdís og Andrea. Ég er mótfallin sterku forsetavaldi og tel mikilvægt að efla beint lýðræði, eins og má lesa í grein sem má lesa hér. Ari Trausti og Þóra lögðu hins vegar meira upp úr embættinu sem sameiningartákni og þjóðlegu menningar- og hvatningarafli, en sá málflutningur hefur ekki að öllu leyti náð eyrum þjóðarinnar. Það er eins við séum stödd í einhvers konar undarlegu tímarúmi, þar sem fólkið í landinu er að endurmeta gildi sín og afstöðu í mikilvægum málum. Hún getur ekki horfið aftur til tímans fyrir hrun og veit ekki almennilega hvert hún á að fara heldur. Og þetta rými er bæði áhugavert og óþolandi.

Stundum langar mig aftur til konungsveldis. Stundum velti ég því líka fyrir mér hvort við þurfum yfirhöfuð á þjóðhöfðingja að halda. Alda, félag um lýðræði og sjálfbærni ályktaði um forsetakosningarnar í byrjun júní og komst að þeirri niðurstöðu (sjá hér) að best væri að leggja embættið niður. Mér finnst það áhugaverður vinkill á umræðunni. Annað hvort finnum við þessu forsetaembætti merkingarbæran stað í stjórnkerfinu eða leggjum það niður.

En vegna þessara tveggja þátta, að nú hæfir að bjóða sig fram móti sitjandi forseta og að með slíkum framboðum hlýtur að koma krafa um nýjan kosningakúltúr, þá er ég mjög þakklát frambjóðendunum sex. Það er meira en að segja það að leggja líf og sál í kosningabaráttu. Og þau fimm sem ekki hljóta hnossið mega vera stolt að því að hafa átt þátt í að móta sögulegar kosningar landi og þjóð til heilla.

Lifi kosningarétturinn og svo sætum við niðurstöðu kjósenda hver sem hún verður.

Það eru nefnilega kosningar aftur eftir fjögur ár.

Þingræði-forsetaræði-lýðræði

Forsetakosningar á Íslandi árið 2012 eru markaðar atburðum haustsins 2008 og eftirmála þeirra.

Forsagan er þessi: Þingræðið varð fyrir gífurlegu áfalli í bankahruninu. Fólk missti trú á að stjórnmálamenn tækju upplýstar ákvarðanir til heilla fyrir þjóð og land. Það þurfti heila búsáhaldabyltingu og gífurlega borgaralega óhlýðni til að fella ríkisstjórnina og knýja fram kosningar á árinu 2009. Hin nýja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gerði síðan samkomulag við Hollendinga og Bretland um Icesave reikningana. Samkomulagið var staðfest í þinginu , en forseti Íslands synjaði lögunum staðfestingar í ársbyrjun 2010. Þjóðaratkvæðagreiðsla var síðan haldin í byrjun mars 2010. Á tímanum fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni höfðu Íslendingum boðist betri samningskjör og því var niðurstaðan ljós fyrirfram. Samningur ríkisstjórnarinnar frá haustinu 2009 var orðinn úreltur og lýðum ljóst að ríkisstjórnin hafði samið af sér. Við tók annað samningsferli sem þótti ólíkt betra hinu fyrra. Forseti Íslands neitaði einnig að staðfesta þessi lög, þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin í apríl 2011 og seinni samningurinn felldur með 60% atkvæða gegn 40%.  Þótti þá fullreynt um sættir og Bretar og Hollendingar kærðu Íslendinga fyrir eftirlitsstofnun EFTA fyrir brot á EES samningnum.

Ríkisstjórn Íslands hefði átt að biðjast lausnar í október 2008 þegar efnahagskerfið hrundi. Búsáhaldabyltingin tók af henni ómakið og knúði hana til lausnar. Ríkisstjórn Íslands hefði átt að biðjast lausnar árið 2010, þegar ljóst var að hún hafði samið af sér. Ríkisstjórn Íslands hefði átt að biðjast lausnar árið 2011 þegar henni og mikilvægum ákvörðunum hennar hafði verið hafnað í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Þessi tregða síðustu ríkisstjórna til að sjá að umboð til þeirra frá þjóðinni var fallið hefur veikt þingræðið.

Það sem eftir stendur er reiði almennings og tortryggni út í Alþingi og Stjórnarráð Íslendinga. Þingræðið stendur völtum fótum, fyrst og fremst vegna þess að fólkið í landinu á erfitt með að treysta dómgreind og heilindum þingmanna. Við slíkar aðstæður, slíkt áfall, verður til kjörlendi fyrir skapandi og slyngan stjórnmálamann. Ólafur Ragnar Grímsson er slíkur stjórnmálamaður. Og í miðri óreiðunni í ársbyrjun 2010 breytti hann forsetaembættinu, undirstrikaði völd forseta og bjó til mótvægi við þingið.  Fyrir vikið voru afdrifarík spor stigin til aukin forsetaræðis á Íslandi.

Íslenska þjóðin er reið og blórabögglana vantar hana ekki. Samfélagsheildir í uppnámi leita hins vegar ekki aðeins útrásar fyrir reiði sína, heldur líka einhvers afls sem þær geta treyst og litið upp til. Ólafi Ragnari Grímssyni hefur með undraverðum hætti tekist að snúa ímynd sinni frá því að vera klappstýra útrásarinnar með „Ain´t seen nothing yet“ myllustein um háls yfir í að verða mörgum Íslendingnum einkavinurinn sem hlustaði á þjóðina og stöðvaði Icesave. Ólafur Ragnar Grímsson er á góðri leið með að búa til sína eigin föðurlandserkitýpu. Erkitýpu sem er eina traust margra hverra sem steyta hnefann framan í hrunið og Icesave.

Og þess vegna held ég að flest verði þeim mótdrægt sem bjóða sig fram á móti sitjandi forseta í þessum kosningum. Öll andspyrna við hann er túlkuð á flokkspólitískan hátt og frambjóðendur til forseta eru útmálaðir sem handbendi stjórnmálaafla. Fólk vantreystir stjórnmálamönnunum og telur allt þeirra vafstur bera vott um spillingu eða dómgreindarleysi. Í staðinn velur það að hylla manninn eina, sem geti myndað mótvægi við valdið við Austurvöll. Og maðurinn eini biður um umboð fjögur ár í viðbót til á óvissutímum. Alveg eins og ríkisstjórn Geirs H. Haarde varð að sitja áfram á óvissutímum. Alveg eins og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur varð nauðsynlega að sitja áfram eftir að þjóðin hafði hafnað henni í tveimur dramatískum þjóðaratkvæðagreiðslum.

Það sem íslensk þjóð þarf á óvissutímum er ekki öxl forsetans til að halla sér á. Hún þarf að efla þingræðið og aga sína þingmenn. Hún þarf líka að sjá styrkinn í sjálfri sér og gera breytingar á stjórnskipan lýðveldisins sem eflir hið beina lýðræði. Hún þarf að horfa óhrædd inn í óvissuna og krefjast þess að ráðamennirnir skili inn valdi sínu þegar þeir standa ekki undir væntingum. Hún á ekki að horfa til hins eina, heldur til fjöldans, því við erum mörg og við erum sterk þegar við hugsum saman.

Það er valið á milli forsetaræðis og þingræðis, sem ég set spurningamerki við.  Hugmyndin um vald eins manns til að túlka hug þjóðar sinnar virðist vera vinsæl hugmynd um þessar mundir, einkum og sér í lagi vegna þess að það þurfti vald þessa eina manns til að stöðva Icesave samningana. Þriðji möguleikinn er sá að fólkið sjálft taki virkari þátt í stjórnun landsins.  Ég er fylgjandi auknu beinu lýðræði borgaranna og þar með tel ég þjóðaratkvæðagreiðslur hið ágætasta mál.  Ég vil hins vegar ekki eiga það undir dyntum og dómgreind forseta Íslands hvenær slíkar atkvæðagreiðslur eiga við. Ég er fylgjandi lýðræði en mótfallin ræði hins eina. Og þess vegna kýs ég ekki mann á forsetastól sem vill efla forsetaræðið. Allra síst þann sem vill sitja í 20 ár vegna óvissutíma.

Lýðræði og ný þjóðkirkjulög

Nýtt frumvarp um þjóðkirkjulög var lagt fyrir kirkjuþing 2011 og er hinum nýju lögum ætlað að koma í stað laganna um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá árinu 1997.  Þar sem ég hef gefið kost á mér til biskupskjörs og lýst því yfir sem sérstöku áhugamáli mínu að dreifa valdi og efla lýðræði innan þjóðkirkjunnar tel ég rétt og skylt að gera grein fyrir því hvernig ég telji hið nýja lagafrumvarp samrýmast þessu markmiði. Ég bendi einnig á grein sem ég hef skrifað um valddreifingu og valdeflingu innan Þjóðkirkjunnar og sem nálgast má hérFrumvarpið má nálgast hér og núgildandi lög hér.

Í athugasemdum með lagafrumvarpinu, III. kafla er áréttað orðalag fyrri laga um það að þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag fremur en stofnun. Andi frumvarpsins er sá að færa eigi þjóðkirkjuna til eins mikils sjálfstæðis og kostur er. Lagagreinarnar eru því flestar stuttar og vísa til nánari ákvæða í starfsreglum. Nokkur af þeim nýmælum sem fram koma í reglunum eru að a) biskup verði kjörinn til ákveðinna árafjölda, b) kirkjuþing fari með æðsta vald í fjármálum þjóðkirkjunnar og að skerpt skuli á því hvaða ábyrgð forseti kirkjuþings hafi á starfsemi þingsins, undirbúningi og eftirfylgd, c) samstaða þurfi að nást milli kirkjuþings og biskups Íslands um kenningarleg efni. Einnig vil ég nefna það nýmæli að kirkjuþingið setji starfsreglur sjálft um það hverjir eigi að eiga sæti á þinginu.

TAKMARKAÐUR TÍMI Á BISKUPSSTÓLI
Í 30. grein frumvarpsins er gert ráð fyrir að biskup sitji í takmarkaðan tíma á stóli. Ég hef lýst því yfir að ég gefi einungis kost á mér til biskupsembættis til skamms tíma og fái ég brautargengi muni ég beita mér fyrir nýjum biskupskosningum árið 2018. Ég vil með þessu sýna hug minn til þessara ákvæða frumvarpsins og vinna í anda þeirra, enda geri ég ráð fyrir að þau verði orðin að lögum innan sex ára. Ég tel að þjóðkirkjunni sé hagur í því að starfstími biskupa sé takmarkaður við tiltekið tímabil og hygg að sú tilhögun að biskup þurfi oftar að sækja umboð sitt til kjörmanna muni geta leitt til góðrar endurnýjunar og aukinna tengsla milli safnaðanna og biskupsstofu. Á síðasta kirkjuþingi voru samþykktar starfsreglur um að sóknarnefndarformenn um allt land fái atkvæðisrétt í biskupskosningum, svo og varaformenn í stærstu söfnuðunum. Ég er fylgjandi valddreifingu og fagna því þessum nýju kjörmönnum, en tel jafnframt mikilvægt að þeim verði fjölgað enn meira og að allir þjóðkirkjumenn megi kjósa í biskupskosningum. Ég tel að slíka grundvallarskipun lýðræðisins eigi að binda í lögin sjálf og tel því hið nýja frumvarp ekki ganga nógu langt í þessu efni.

AUKIN VÖLD KIRKJUÞINGS
Völd kirkjuþings eru aukin til muna í frumvarpinu og því fært fjárstjórnarvald þjóðkirkjunnar sem í núverandi lögum er í höndum kirkjuráðs undir forystu biskups Íslands (14. grein frumvarps, 27. grein laga). Ég fagna þessari fyrirhuguðu breytingu. Kirkjuþing fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar og eðlilegt að mínum dómi að það fari með fjárstjórnarvald. Ég er fylgjandi þeirri athugasemd í skýrslu Ríkisendurskoðunar (sjá hér), að dregið verði úr fjármálaumsýslu biskups Íslands. Ég tel slíka tilhögun ekki felast í því að afmarka veraldleg og andleg svið, en byggist öllu heldur á skynsamlegri verkaskiptingu innan stjórnsýslu þjóðkirkjunnar. Sömuleiðis styð ég það að skerpt sé á ábyrgð forseta kirkjuþings við undirbúning, starfsemi og eftirfylgd þingsins og tel að þessar lagabreytingar muni efla þingið (12. grein frumvarps).

KENNINGARLEG EFNI
Prestastefna er ráðgjafarsamkoma biskupsins í kenningarlegum efnum samkvæmt núverandi lögum. Í 28. grein núverandi laga er kveðið á um að prestastefna hafi tillögu- og umsagnarrétt um kenningarleg efni, þ.e. kenningu og játningu kirkjunnar, guðsþjónustuhald, prédikun, helgisiði og sakramenti. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir því að kenningarleg efni skuli sæta umfjöllun í kenningarnefnd og á prestastefnu og að til þess að samþykktir öðlist gildi um kenningarleg gildi þurfi samstöðu biskups Íslands og kirkjuþings (13. grein). Tvöfalt neitunarvald kirkjuþingsmanna og biskups Íslands í kenningarlegum efnum er nýmæli í íslenskum kirkjulögum og mér þykir það ekki stefna í lýðræðisátt. Biskup Íslands ber að sönnu mikla ábyrgð gagnvart kenningu kirkjunnar, en ég tel ekki rétt að einn maður hafi neitunarvald í svo veigamiklum málum. Biskup Íslands þarf á ráðgjöf presta, annarra biskupa og kenningarnefndar að halda nú sem fyrr um kenningarleg efni og því álít ég rétt sé að kenningarleg málefni þróist í lýðræðislegri umræðu vígðra og leikra fremur en með beitingu neitunarvalds.

ATKVÆÐISRÉTTUR
Í 11. grein frumvarpsins er kveðið á um að kirkjuþing skuli með starfsreglum setja ákvæði um kjör til kirkjuþings, seturétt á þinginu og þingsköp. Í núverandi lögum er hins vegar tilgreint í 21. grein hvaða aðilar eiga að eiga rétt til að kjósa til kirkjuþings. Hér þykir mér nýbreytnin ekki vera í þágu lýðræðisins. Þjóðkirkjulögin gegna á hverri tíð nokkurs konar formlegu „stjórnarskrár“-hlutverki og það er mikilvægt að í þeirri stjórnarskrá sé skýrt tekið fram hverjir það eru sem koma að því að ákvarða starfsreglurnar. Formið á að taka fram í lögum til þess að inntakið, starfsreglurnar, sem kirkjuþingið setur séu í anda lýðræðisins. Annars getur kirkjuþingið að mestu leyti sett sjálfu sér form og jafnvel staðið í vegi fyrir því að fleiri megi kjósa til þingsins. Með þessum varnaðarorðum er ég ekki að vantreysta lýðræðisást núverandi kirkjuþingsmanna. Öllu heldur vakir fyrir mér að benda á mikilvægar grundvallarreglur um form og lýðræði, sem gilda þurfa í nútímalegri kirkju. Ég vil að allir þjóðkirkjumenn fái að kjósa til kirkjuþings, bæði hina vígðu þingmenn og hina leiku. Þannig tel ég að best verði hægt að tryggja þátttökulýðræði í söfnuðum landsins og að fólk finni að það beri ábyrgð á framtíð Þjóðkirkjunnar.

Af ofangreindu má sjá að ég styð ýmis grundvallarviðmið hins nýja frumvarps um sjálfstæði þjóðkirkjunnar gagnvart ríkisvaldi og að völd lýðræðislegs kirkjuþings verði sem mest. Ég styð breytta verkaskiptingu milli biskups Íslands og kirkjuþings og að kirkjuþing fái fjárstjórnarvald. Ég er fylgjandi því að biskup Íslands sé kjörinn til tiltekins tíma og hef að eigin frumkvæði lýst því yfir að ég muni sitja skamma stund á stóli til þess að hægt sé að kjósa nýjan biskup að sex árum liðnum eftir nýjum lagaramma. Ég tel að greinin um neitunarvald sé skref afturábak, vegna þess að hún leggur of mikið kenningarlegt vald á hendur hinna fáu í stað þess að treysta umsögnum og ráðgjöf prestastefnu, kenningarnefnd og biskupafundar og síðan lýðræðislegri umræðu á kirkjuþingi. Ég álít að þjóðkirkjulagafrumvarpið nýja þurfi að ganga lengra í veigamiklum málum í átt til lýðræðis og nefni sérstaklega að binda þurfi í lög hverjir það eru sem hafa atkvæðisrétt á kirkjuþingi.

Í samfélaginu eru auknar kröfur uppi um gagnsæja og lýðræðislega stjórnarhætti, þar sem fjöldinn komi að ákvörðunum. Þjóðkirkjan er stærsta fjöldahreyfing á Íslandi og á að vera í fararbroddi hugsjóna um góða stjórnarhætti og stefnumótun. Það gerum við með því að byggja upp nútímalega kirkju þar sem stjórnsýsla og veigamiklar ákvarðanir eru bornar uppi af myndugu fólki.