Category: Prédikun

Hneyksli legsins

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 I.

Þingvellir eru furðulegur staður. Engu er líkara en að klettarnir hafi verið rifnir sundur af risavöxnum öflum og grasið vex í klettaskorunum. Við nemum staðar á þessum forna stað árið 1618 þegar Íslendingar eru að ganga danska einveldinu á hönd. Alþingi kemur saman á þessum sögufræga stað en þetta þing á lítið sameiginlegt með löggjafarsamkomu fyrri tíðar. Þar er minna gert af því að semja lög en bænaskrár en hins vegar er fylgt þar eftir hinum hörðu dómum sautjándu aldar.

Þingið þetta ár hefur verið óhemjuleiðinlegt, enheldur er að rætast úr því að athyglisvert mál hefur komið upp. Ung stúlka hefur eignast barn í lausaleik í Skagafirði. Hún neitar að segja nafn föðurins og harðneitar að hafa átt mök við nokkurn mann.   Hún klykkir út með því að segjast hafa orðið þunguð af völdum heilags anda.   Hin unga stúlka,  Þórdís Halldórsdóttir hefur ekki krafist neins guðlegs eðlis fyrir barn sitt, hún er einungis að verja það hvernig hún geti bæði verið móðir og hrein mey. Og nú klóra þingmenn sér í höfðinu, því að þessi kona hefur gert sig seka um guðlast og annað eins mál hefur aldrei komið upp á Íslandi. En með guðlastinu þá virðast menn líka geta velt sér upp úr máli Þórdísar Halldórsdóttur.  Hún er í hæðni kölluð María Skagfirðinga og menn skríkja yfir ófyrirleitni hennar.  Og svo er hún dæmd til dauða og henni drekkt í hylnum djúpa í Öxará.

II.

Árið er núll og staðurinn er Nasaret í Galíleu.

Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta.

 Ekki vera hrædd María. Þegar við hugsum til Maríu Skagfirðinga og örlaga hennar þá gerum við okkur grein fyrir hversu hættulegt það var á fyrri tíð að tala um Guð og líkama sinn í sömu andrá.  María Lúkasarguðspjalls hafði góða ástæðu til að vera hrædd, hrædd við að vera ásökuð um guðlast, hrædd við aðhlátur og hæðni, hrædd um að missa félagslega stöðu sína sem meyja. Sú meyjarstaða var eini heiður sem ógiftri konu í Nasaret gat boðist. Það sem er hneykslunarlegt við guðspjall dagsins í dag er ekki það að María skuli segjast lifa í nánu sambandi við Guð, heldur að það samband standi í samhengi við líkama hennar. Lúkas guðspjallamaður segir okkur nefnilega frá því að María hafi tengst Guði, ekki aðeins að anda og sál, heldur í líkama sínum. Hún verður þunguð, leg hennar ber þann þunga, blóð hennar nærir fóstur sem er hluti af líkama hennar og hjarta hennar slær taktinn sem markar tilvist hins verðandi barns.

Kannski er það gróft að stilla upp þessum tveimur konum Maríu Skagfirðinga sem líflátin var í Drekkingarhyl og Maríu móður Jesú. Önnur var blásnauð kona, sem grunuð var um að hafa átt barn með bónda í sveitinni og líflátin fyrir guðlast. Hin er sú kona sem mest er í hávegum höfð í gervöllum kristindómnum.

Ekki er það ætlun mín að vera með einhverjar guðfræðilegar útskýringar á þunga Þórdísar Halldórsdóttur. Hún vissi eflaust lítið um líffræði og ef Tómas mágur hennar á Sólheimum í Sæmundarhlíð var ekki faðir barnsins, þá getur þess vegna verið að einn af þeim sem dæmdi hana til dauða hafi verið sá sem barnið átti. Það sem fyrir mér vakir með því að taka ykkur með mér til Þingvalla ársins 1618, er að sýna ykkur fram á það hvað sagan af boðun Maríu í Lúkasarguðspjalli er mikið hneyksli.   Guðspjallssagan er svo þekkt og er venjulega pakkað inn í svo frómar umbúðir að við tökum varla eftir því hversu furðuleg sú krafa er að María hafi orðið þunguð af heilögum anda.

Þetta kviðartal, líkamstal, holdstal er eitthvað sem guðfræðin á mjög erfitt með að eiga við. Við gætum jafnvel kallað það móðursjúkt, hýsterískt, vegna þess að hysteria eða móðursýki er orð dregið af hysterion, legi. Móðursýki var fyrrum talinn sjúkdómur sem aðeins hrjáði konur vegna ójafnvægis í æxlunarfærunum.  Og guðfræðin, eins og flestar orðræður vestrænnar menningar hefur yfirleitt forðast allt slíkt tal um æxlunarfæri kvenna Í ljósi þessarar feimni og hræðslu við hið móðursjúka, kvenlega og holdlega, þá er það í merkileg staðreynd að kviður Maríu sé eitt af grundvallartáknum kristinnar hefðar og sé ein helsta fyrirmynd okkar í því hvernig við þekkjum Guð, upplifum Guð, tökum við Guði.

III.

Og samt.

Ég les texta boðunardagsins og hjarta mitt fyllist af undrun og andstöðu á sama tíma. Ég elska Maríu og eitthvað í mér berst á móti Maríu. Ég elska þetta undarlega og ótrúlega rúm sem að boðunardagurinn vekur með mér, söguna af kjarki Maríu og ást, að biðja um ekkert og að taka við öllu.

Ef María er helsta fyrirmynd kristinna kvenna á öllum öldum, þá gefa þessar túlkanir konum til kynna að þær eigi að vera mjög hlýðnar og fórna sjálfum sér og auðvitað eiga þær að vera mæður. Það er bæði gott og mikilvægt að geta gefið af sér og móðurhlutverkið er dýrmætt. En það er líka hægt að misnota þessar myndir af hinu hlýja og sjálfsfórnandi.

Margir og margar lifa við þær aðstæður að boðskapur um eigin myndugleika, réttlæti og að þær eða þeir geti ráðið sínu eigin lífi, styrkti sjálfið meir heldur en boðskapurinn um hlýðnina og sjálfsfórnina.   Þeim eða þeirri sem lifir í meðvirku sambandi vegna alkóhólisma eða ofbeldis gæti sú hlýðni og sjálfsfórn sem við tengjum við Maríu orðið að fjörtjóni. Eftir því sem við gerum meira úr óvirkni og viðtöku Maríu, þá verður hún eins og tóm kanna fyrir almættið að hella náð sinni í. Og sú Maríumynd hjálpar engum til þess frelsis sem Kristur frelsaði okkur til.

Önd mín miklar Drottinn
og andi minn hefur glaðst í Guði skapara mínum,

 segir guðspjallið. Og Lúther bætir um betur í skýringum sínum við Lúkasarguðspjall. Hann klykkir út með löngum kafla um það hvað María er opin fyrir Guði. Hann talar um undrun Maríu, um gjöfina sem henni er gefin, gjöf sem hún hafði ekki beðið um. Samkvæmt Lúther velti María ekki fyrir sér hvort hún væri verðug eða óverðug náðar Guðs. Það er öllu heldur sú tilfinning að veraframmi fyrir Guði sem fyllir Maríu gleði. Þetta eru stórkostlegar myndir hjá Lúther, sannkallaðir gleðibjarmar.

En þegar hann heldur áfram renna á mig tvær grímur. Hann segir:  “Hún gefur ekkert, Guð gefur allt.” 

Er það svo að María hafi ekkert gefið?

Gaf hún ekki eitthvað með því að taka við Guði?

Að gefa Guði rúm í líkama sínum?

Upplifði hún ekki kraftaverkið þegar sú sem gefur og sá sem tekur við eru hvorki andstæður né þau hin sömu

Þar sem Guð kemur til okkar

Þar sem við komum til Guðs

Þar sem við lofum Guð með veru okkar, sál, anda og líkama

Í styrkleika okkar og veikleika?

En er María bara um hlýðni og sjálfsfórn og tamningu móðurhlutverksins? Eða hefur táknið um Maríu meyju eitthvað að gefga okkur? Er táknið djúpt og sprungið eins og klettarnir á Þingvöllum þar sem grasið grær á ólíklegustu stöðum?

IV.

Árið er 2012 og staðurinn Grafarholt. Þegar við tölum um boðun Maríu hugsum við um holdtekju, þessa undarlegu þversögn að Guð hafi gerst maður. Og við veltum fyrir okkur hinu sístæða kraftaverki DNA og umlykjandi legs, veltum fyrir okkur næringu, hita, kærleika og takti þess að hvíla í móðurkviði.  Sagan af boðun Maríu er þannig saga af nánd, þar sem guðdómur og manndómur anda saman, saga af Guði sem er ofinn með mennskum þráðum, blóði, holdi. Postulinn Páll talaði einu sinni um hneyksli krossins. Kannski er enn stærra hneyksli falið á síðum helgrar bókar, hneyksli legsins.

Belgíski heimspekingurinn Luce Irigaray fjallar um boðun Maríu og segir:

Hver hlustar á það hvað María boðar?  Um það sem hún man og reyndi? Um guðdóm sem talar í gegnum hana? Um aðgang að hinu heilaga sem fer í gegnum hana? Hvernig gæti sá sem við köllum Jesú frá Nasaret hafa fæðst ef ekki fyrir þessa skynjun meyjarinnar- þessan hæfileika til að skilja og vera næm fyrir hinum hárfínasta titringi?

 V.

Og við hverfum aftur til dómsins yfir hinni íslensku stúlku. Þeir hafa fært hana að hylnum við öxará þar sem vatnið er hreint, kalt og tært. Hún hefur verið færð í poka með steinum í svo pokinn komi ekki upp á yfirborðið aftur. Einn poki fullur af holdi, minning af líkama sem ekki hlýddi reglum og dómum, sem hugsaði ófyrirgefanlegar hugsanir, fæddi barn og bjó til hneyksli.

Hvar passar poki holdsins sem er líkami okkar inn í hversdaginn okkar?

Og hvað hefur þessi líkami með Guð að gera?

Erum við eins og könnur, tóm ílát sem Guð hellir náð sinni í?

Eða gefum við með því að umlykja, styrkja og vera styrkt, með því að koma á óvart og undrast?

Og engillinn sagði: Guði er enginn hlutur um megn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:  Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.

Gras og brauð

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Óskiljanlegt er grasið:
maður treður það undir fótum sér
en það reisir sig jafnharðan við aftur.
Óskiljanlegt er grasið:
skepnurnar bíta það og renna því niður
og skila aftur hinu ómeltanlega
– en viti menn
á því nærist svo nýtt gras.
Já óskiljanlegt er það
hið græna gras jarðarinnar:
auðmýktin og uppreisnin í senn.

Þannig yrkir Jóhannes úr Kötlum um grasið sem er þolgott og rís upp að nýju þegar það er bælt. Grasið er í senn sveigjanlegt og seigt. Það lætur ekki beygja sig til lengdar, á sér alltaf endurkomu og undankomuleiðir og í úrgangi þess verður til nýtt gras.

Grasið er tákn lífsins sem gefst ekki upp þrátt fyrir mikla erfiðleika. Og guðspjall dagins tekur í sama streng þolgæðis og vonar í aðstæðum sultar og þrenginga.

II.

Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?

Andrés postuli ávarpar Jesú þegar lærisveinarnir höfðu velt fyrir sér vandamálum fólksins um hríð. Fólkið hafði komið til að hitta Jesú í eyðimörkinni og hlusta á hann. Og fólkið var svangt, svo svangt að það var ekki hægt að senda það allslaust til baka.

Risastórt vandamál og lausnin sem er í sjónmáli virðist ekki beysin:  Einn strákur með smábrauð og tvo litla fiska. Hvað er það handa svo mörgum?

Hversu oft höfum við sem hér erum staðið frammi fyrir samsvarandi aðstæðum? Risastórt vandamál og lausnin annað hvort ekki í sjónmáli eða þá svo vesöl að við örvæntum og reynum ekki einu sinni. Og samt er sagan ekki aðeins saga af vandamáli, heldur lausn, lausn sem er Jesús Kristur.

Sagan af því þegar Jesús mettaði fimm þúsund manns af fimm brauðum og tveimur fiskum er mörgum okkar hugstæð. Það góða við djúpa texta með mikilli túlkunarsögu er að við getum farið til þeirra aftur og aftur og alltaf rekist á nýjan flöt, eitthvað sem við höfðum ekki tekið eftir áður.  Textar eru þannig eins og málverk sem hanga á veggnum hjá okkur og við verðum vön og hættum að taka eftir. Einn góðan veðurdag göngum við að myndinni og tökum eftir einhverju sem aldrei hefur vakið athygli okkar áður, merkilegum blæbrigðum í málningunni, andliti sem fyrir ber eða manneskju sem er falin bak við trén.

Og það sem vekur sérstaka athygli mína við texta dagsins í dag er ungi pilturinn með brauðin og fiskana. Ég hef einhvern veginn aldrei almennilega velt honum fyrir mér fyrr. Hann er einhvern veginn alltaf þarna með nestisboxið sitt opið. Hvaðan skyldi hann hafa komið?  Hvað hét hann? Skyldi mamma hans hafi gefið honum þetta brauð?  Skyldi pabbi hans hafa veitt fiskana eða hann sjálfur? Hvers vegna átti hann mat en enginn annar í hópnum? Og hvers vegna valdi hann það að taka upp matinn sinn og gefa hann í þessum sársoltna hópi?

Þörfin var til staðar.
Þörfin var orðuð.
Einhver kom til hjálpar,
einhver sem við fyrstu sýn virtist hvortki stór né valdamikill
og bauð ekki upp á mikil bjargræði.
Aðeins fimm brauð og tvo fiska.
Hvað er það handa svo mörgum?
Þessi ungi maður er dálítið eins og grasið sem hann stóð í
Grasið sem Jóhannes úr Kötlum gerir að yrkisefni sínu,
Grasið sem er bæði auðmjúkt og í uppreisnarhug
Grasið sem bælist aðeins um stund áður en það réttir sig við aftur.

Kannski var nesti unga mannsins hvorki mikið né merkilegt.
En þetta brauð og þessir fiskar voru borin fram í trausti og trú
um að Guð myndi láta það nægja á erfiðum tíma
hversu hrikalega sem þetta allt leit út.

Við eigum ekki alltaf slíka trú þegar við stöndum frammi fyrir risastóru vandamáli.
Stundum virðast erfiðleikarnir algjörlega óyfirstíganlegir
Og ekkert sem við gerum og segjum virðist geta breytt því.
Svar Andrésar lærisveins ber vott um vonleysi.
Hvað er það handa svo mörgum?
Hér er komin lausn, en þessi lausn er ekki upp í nös á ketti virðist hann segja.
Ég veit ekki hvort er verra í slíkum aðstæðum,
að vænta of mikils eða vænta of lítils.
Sá eða sú sem væntir of mikils gerir sér óraunsæjar vonir, byggir upp hjá sér væntingar um að hlutirnir leysist einn, tveir og þrír, og þegar þeir gera það ekki er hætta á sveiflu í hina áttina, til hins algera vonleysis.
Sú eða sá sem væntir of lítils missir hæfileikann til að bjarga sér og nýta tækifærin sem bjóðast. Hún eða hann vill fá risalausn sem passar við risastóra vandamálið. Og risalausnin á helst að koma strax.

III.

Seinni ritningarlesturinn okkar fjallar um von þegar erfiðleikarnir virðast vera óyfirstíganlegir, þegar engin risalausn virðist í sjónmáli. Þar er fjallað um það að Guð elski okkur og hjálpi okkur á alla lund. Guð mun finna lausn á vanda okkar þegar við sjáum bara erfiðleika og þrengingar. En ritningarlesturinn segir okkur fleira því hann biður okkur um að gleðjast í erfiðleikum okkar miðjum, vegna þess að sá/sú sem aldrei hefur örvænt þekkir ekki vonina heldur tekur öllu sem sjálfsögðu.

Við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.

Við eins og fólkið í guðspjallinu þurfum brauð.
Fyrri ritningarlesturinn minnir okkur á það að við þurfum meira en brauð.
Við þurfum von og þolgæði og kærleika
OG brauð.
Við þurfum að opna hjörtu okkar og nestisbox
Til þess að hinum takmörkuðu auðlindir fjárins sé skipt milli hinna þurfandi.
Til þess að við getum miðlað trú, von og kærleik.

Og það er þetta þolgæði, vonin og kærleikurinn sem heilagur andi blæs okkur í brjóst sem að hjálpar okkur til að finna lausnir, finna bjargræði, finna hjálp þegar að erfiðleikarnir eru alveg að sliga okkur. Svo við getum rétt okkur við aftur hægt og sígandi, auðmjúklega en í stöðugri uppreisn gegn ofurefli vonleysisins. Eins og grasið.

IV.

Pilturinn í guðspjallinu var svo sannarlega engin risalausn.
Hann var bara drengur með brauð og fiska.
Hvað er það handa svo mörgum gæti verið svar okkar svo margra,
andvarp okkar þegar við sjáum ekki út úr því sem við erum að gera.
En dáð hans liggur ekki í því hversu margir fiskarnir voru eða brauðin.
Dáð hans liggur í því að hann treysti á Jesú Krist
Þótt hann hefði enga hugmynd um hvernig maturinn hans kæmi að notum.
Og það traust var nóg til að seðja marga.

Þetta hefur verið erfiður vetur fyrir marga og víða er erfitt að ná í brauðið nú um stundir. Bókamarkaður kirkjunnar hefur náð inn meira en 100 þúsund krónum og það hefur hjálpað til við að skapa smábjörg handa þeim sem hafa lítið á milli handanna núna. Baráttan um brauðið er raunveruleg barátta á Íslandi og ekki síst eftir hrun. Og við ættum að gera okkar besta til að hjálpa til á hvern þann hátt sem við getum. Baráttan um brauðið er nefnilega ekki aðeins baráttan um of lítil gæði, heldur miklu fremur baráttan fyrir því að gæðunum sé betur skipt. Og það er eitthvað sem við getum aðeins gert saman.

Eins og ungur piltur sem tók upp nestisboxið, þegar það skynsamlega í stöðunni hefði verið að bíða með að borða nestið þangað til að hann var kominn í skjól frá svöngu fólki.

Stundum bregst fólk við í von og kærleika frekar en örvæntingu. Er það ekki við slíkar aðstæður sem kraftaverkin gerast? Kraftaverkin þegar bjargráðin verða til og gæska mannanna kemur í ljós?

Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.

Jesús bað lærisveinana að láta fólkið setjast í grasið. Og þar fékk það að borða, þó að enginn skilji neitt í því hvernig brauðin og fiskarnir gátu nægt.

Þörfin var til staðar.
Þörfin var orðuð.
Einhver kom til hjálpar á sinn vanmegna hátt.
Og Jesús var þar,
Jesús sem breytir erfiðleikum, vonleysi og uppgjöf í þolgæði og von
Jesús sem gefur brauð og bjargræði
Jesús sem gefur von, réttlæti og kærleika
Jesús sem opnar hjörtu og nestisbox.

Og þegar við horfumst í augu við alla þá risastóru erfiðleika
Sem geta mætt okkur í lífinu
Þá skulum við setjast í grasið líka.
Því maðurinn lifir ekki á einu saman brauði
Heldur á þolgæði, von og kærleika líka
Því að við erum líkami, sál og andi og allir þrír þættirnir þurfa mettunar við.

Og það er í þessu grasi sem að gæðin verða til
Gæðin sem hjálpa okkur að kalla fram það besta í okkur sjálfum og náunganum
að skipta með okkur
að þora að leggja okkur fram
og rétta fram nestisboxið okkar litla
með öllum okkar hæfileikum, gjöfumog gáfum
til Jesú Krists sem gefur auðmýkt, uppreisn, þolgæði, von og kærleik
gras og brauð
þegar við mest þurfum þess með.

Já óskiljanlegt er það
hið græna gras jarðarinnar:
auðmýktin og uppreisnin í senn.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.

Paradís

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag, fyrsta sunnudag í föstu, er brugðið upp fyrir okkur mynd af Paradís, upphaflegu ástandi manneskjunnar. Paradís er draumstaður frumþarfanna, staðurinn þar sem nóg er til af fæðu og vatni og hreinu lofti, staður öryggis og hvíldar, unaðar líkamans og náinna tengsla.

Flest eigum við einhverjar hugmyndir til um slíka Paradís, ekki síst á tímaskeiðum þegar líf okkar er fullt af streitu og óöryggi, vanheilsu og baráttunni fyrir brauðinu. Flest okkar eigum okkur óræðan draum um hið fullkomna líf, þar sem enginn er svangur, þreyttur eða vansæll. Slíkar væntingar eru oft kallaðar útópíur. U topos þýðir enginn staður. Enginn staður uppfyllir allar þessar væntingar. En öll eigum við þær og þess vegna tilheyra þær líka öllum stöðum og öllum draumum.

„Adam var ekki lengi í Paradís“, segir máltækið. Og í dag erum við erum leidd inn í sögu sem hefur haft ríkari áhrif á vestræna kristnir og heimsmynd en flestar aðrar. Við horfum yfir græna dali setta friðsælum lendum, og frjósamar ár fullar af fiski. Í miðjum garðinum stendur tré lífsins og tré þekkingarinnar þar skammt frá. Drottinn Guð hefur nýlega skapað manneskjurnar og þær mega valsa um garðinn eftir hjartans lyst. Það eina sem þær mega alls ekki gera er að ná sér í ávöxt af tré þekkingarinnar. Og auðvitað er það niðurstaðan sem sagan leiðir okkur til, hún segir okkur frá freistingu og falli. Manneskjan má ekki lengur búa í Eden,heldur var henni komið fyrir austan Edenar þar sem hún þarf að strita allar götur sínar í sveita síns andlitis. Og Guð setti engil með logandi sverð til að gæta þess að Adam og Eva kæmust aldrei aftur inn í Eden.

Sagan af Adam og Evu fjallar um ástæður þess að þau óhlýðnuðust þessu einfalda boði og hvaða afleiðingar óhlýðnin hafði. Sagan af Adam og Evu verður ekki aðeins saga af tveimur manneskjum í garði, heldur grundvallandi saga fyrir okkar eigið líf, orsakir og tilgang. Þannig beinir sagan af fyrsta fallinu okkur leið inn í föstuna, inn í heim iðrunar og íhugunar sem undirbýr okkur fyrir gleði páskana.

II.

Þegar við veltum fyrir okkur boðskap sögunnar og hvað við getum tekið með okkur inn í næstu viku, skulum við staldra við textann sjálfan. Hvað getur þessi saga sagt okkur? Hvernig kemur hún okkur við? Hvað getum við tekið með okkur úr þessum texta sem mun nýtast okkur í hversdagslífinu?

Við getum kannski byrjað á því sem er ekki í sögunni. Ef þið berið saman söguna eins og hún kemur fyrir í þriðja kafla fyrstu Mósebókar saman við það sem þið munið af því að hafa heyrt hana þúsund sinnum í uppvexti ykkar, þá leiðir samanburðurinn fljótlega í ljós að einn grunsamlegan ávöxt vantar, þ.e. eplið. Það er ekki minnst á epli í sögunni um Adam og Evu! Hins vegar sá Eva ávöxt á trénu og át hann, en enginn veit hvers konar ávöxtur það var.

Annað sem vantar í þessa alþekktu sögu, og við höldum að sé þar er djöfullinn. Það er ekkert talað um djöfulinn í fyrstu Mósebók. Í sögunni er rætt um höggorm sem er slægur, en hann er ekki manngerður eða gerður að tælandi djöfli. Ef Adam og Eva standa fyrir manneskjuna í sköpuninni, er höggormurinn tákn þess sem stendur utan hins mannlega. Hann talar og beinir Evu að trénu og hún tekur eplið af trénu. En sjálfur er hann dýr sem skríður um í aldingarðinum. Höggormurinn er sköpun guðs og ein af skepnum guðdómsins og hvorki með horn né þrífork.

Það er alltaf áhugavert þegar við skoðum gamalkunna sögu í nýju ljósi að velta fyrir sér hvað það er sem við erum að lesa inn í söguna, það sem við höldum að sé þar en er ekki. Hitt er engu síður mikilvægt að líta eftir því sem á einhvern hátt hneykslar okkur við söguna. Kannski erum við búin að heyra hana og lesa svo oft að hún hættir að hneyksla okkur og ergja okkur. Kannski erum við orðin dofin fyrir þessari sögu. Og til þess að uppgötva eitthvað nýtt um okkur sjálf og þá ritningartexta sem okkur eru lesnir hvern sunnudag í kirkjunni, þurfum við að geta nálgast textana út frá nýju og fersku sjónarhorni.

Og það er alveg hægt að fá áfall við að lesa söguna um Adam og Evu. Þar er okkur greint frá eftirtöldum atriðum:

Að konur finni til við barnsfæðingar vegna þess að Eva lét glepjast af höggorminum.

Að snákar bíti manneskjur vegna syndafallsins.

Að karlmaðurinn eigi að drottna yfir konunni sem refsingu fyrir það að hún hlýddi höggorminum.

Að akurlendið sé bölvað vegna syndafallsins.

Að dauðann megi rekja til þess að Adam og Eva óhlýðnuðust.

Allt út af einu epli, sem er ekki einu sinni að finna í sögunni.

III.

Það eru þrjár ástæður fyrir því að þau atriði sem ég nefndi hér áðan gera mér erfitt fyrir að prédika út frá sögunum. Sú fyrsta fjallar um jafnrétti, önnur um stéttskiptingu og sú þriðja um umhverfismál.

Fyrsta ástæðan er sú að ég trúi því ekki að Guð vilji að annað kynið sé undirokað hinu. Ég trúi því ekki að stelpur eigi að vera undirskipaðar strákum á nokkurn hátt og ég trúi því ekki að Guði finnist það heldur. Í Nýja testamentinu er sagt að fyrir Guði séu allir jafnir, Gyðingar og Grikkir, þrælar og frjálsir menn, karlar og konur. Fyrir hvern þann sem trúir á það að allar manneskjur séu jafnar fyrir Guði er erfitt að lesa texta eins og þennan, sem finnur rökstuðning fyrir því að konur eigi að hlýða körlum í því að Eva hafi bitið í ávöxt og sagt manni sínum að gera slíkt hið sama.

Önnur ástæðan er sú að ég trúi því ekki að þrældómur austan Edenar sé endilega Guði þóknanlegur. Ég held að Guð geti alveg unnt öllum mönnum að hvílast og eiga frí. Þess vegna er hvíldardagurinn svo mikilvægur og að unna sér hvíldar einstöku sinnum. Það er auðveldlega hægt að nota þennan texta til að réttlæta þrældóm á fátæku fólki, með því að líta svo á að þrældómurinn sé okkar daglega hlutskipti allt frá syndafallinu.

Þriðja ástæðan fyrir því að mér finnst erfitt að lesa þennan texta fyrir ykkur í dag, er það viðhorf sem hann birtir gegn daglegu lífi á plánetunni jörð. Okkur er sagt að þjáningar kvenna við barnsburð séu refsing vegna óhlýðni Evu. Okkur er sagt að dauðinn sé afleiðing syndarinnar og þetta stef er endurtekið hjá Páli postula í Nýja testamentinu. Okkur er sagt að akurlendið sé bölvað vegna misgjörðar Adams. Ég hef sjálf fætt af mér þrjú börn og hef aldrei skilið neitt í þeirri hugsun að almættið geti refsað konum sérstaklega með hríðum og leggangaútvíkkunum. Og ég er hrædd um að hugmyndir um að akurlendið sé bölvað vegna syndar sé ekki til þess fallið að auka mönnum þá ást og umhyggju fyrir jörðinni sem við þurfum svo sárlega á að halda í nútímanum.

Hvað á að gera við jafn umdeildan og tvíbentan texta og þann sem hér er um að ræða? Eigum við að reyna að skauta hratt yfir verstu atriðin í sögunni um Adam og Evu, láta eins og þau séu ekki til? Eigum við ef til vill að líta svo á að sagan eigi ekkert erindi við almenning og taka hana út af borðinu? Eða eigum við að reyna þriðju leiðina, láta hana hneyksla okkur, glíma við hana og athuga hvort hún getur fært okkur eitthvað nýtt eftir allt saman?

IV.

Hugur minn ber mig út úr aldingarðinum og yfir í andstæðu hans, skraufþurra auðn þar sem hvergi er hægt að sjá stingandi strá. Þetta er staðurinn sem Jesús leitaði til þegar hann vildi vera einn með sjálfum sér. Í það skipti sem guðspjallið okkar segir okkur frá átti hann í erfiðri baráttu. Okkur er sagt að hann hafi mætt djöflinum. Og okkur er í sjálfsvald sett hvort við viljum setja þann djöful með horn og klaufir andspænis Jesú í frumspekilegu drama, eða hvort við sjáum það fyrir okkur að Jesús hafi barist inni í sjálfum sér.

Auðnin og staðurinn austan Edenar eru ólíkir staðir. Og þó eru þeir báðir staðir frelsunar, frelsunar sem kallar Adam og Evu til að vera frjáls og full þekkingar, frelsunar sem hjálpar Jesú að einbeita sér að ætlunarverki sínu sem er að boða guðsríkið og frelsa alla menn. Í þeim báðum er til dauði, hætta og sársauki sem hluti af lífinu. Og hvort tveggja eru staðir þar sem Guð mætir þér og mér, fyllir okkur kjarki, frelsi og friði og gerir okkur kleift að lifa lífinu á þann veg að það særi ekki aðra og byggi sjálf okkur upp.

Ég sé frelsarann fyrir mér, þar sem hann situr á jörðinni með krosslagða fætur og talar við fuglana, dýrin og jurtirnar um það sem framundan er. Í trú hans og baráttu sé ég Paradís. Ekki þá Paradís þar sem ekkert gerist, heldur Paradísina þar sem ungur maður verður fullorðinn og finnur þann mátt sem hann þarf til að vinna sitt góða verk. Hann berst við hindranir og þröskulda, hann langar mest af öllu inn í gömlu Eden, inn í draumsýnina þar sem hann þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu og ekki að hugsa um neitt. Djöfullinn sem talar við hann lofar honum völdum, öryggi og nægri fæðu. Og Jesús svarar: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns. Svo hverfur hið vonda honum sýnum, freistingin er farin og hann tekur til við að frelsa alla menn austan við Eden.

V.

Ég held að það væri gott að hugsa um söguna um Adam og Evu sem táknsögu, sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á kristnina en var ekki endilega rituð í því augnmiði. Sagan þarf ekki endilega að segja okkur allt. Hún er tilraun til að tala um og útskýra lífið á jörðinni, því að Eva merkir líf og Adam merkir jörð á hebresku.

Og ég hugsa um það hvað það væri gott að upplifa sögu þar sem sköpunin er ekki aðeins leiksvið fallsins, heldur staðurinn þar sem Drottinn frelsar.

Frelsun í slíkri sögu er ekki aðeins frelsun frá tilteknum stöðum og aðstæðum, heldur frelsun í tilteknum aðstæðum og á tilteknum stöðum. Ekki frá sköpun, heldur í sköpun. Í slíkri sögu eru þjáningar barnsburðarins eðlilegur hluti af því að koma nýju lífi í heiminn að gefa rými, opna göng og rembast fyrir þetta nýja líf. Þar er dauðinn sjálfsagður hluti af lífinu, ekki afleiðing syndarinnar eða andstæða lífsins. Og þar er vinnan hluti af því að vera til, ekki afleiðing óhlýðni eða refsing. Erfiði, sársauki og dauði eru ekki neikvæðir hlutir í sjálfu sér, heldur mikilvægir þættir í því að vera til í samfélagi annarra manneskja.

Íreneus kirkjufaðir á annarri öld eftir Krist talaði um Adam og Evu í aldingarðinum sem börn. Það var ákvörðunin um að eta ávöxtinn sem gerði þau fullorðin og gerði það að verkum að þau þurftu að finna sér klæði og felast fyrir Guði. Ef við fylgjum túlkun Íreneusar, þá lítum við ekki lengur á það sem Eva og Adam gerðu sem brotið sem ýtti okkur út úr aldingarðinum. Engin frjáls manneskja getur verið í aldingarðinum frekar en fóstur getur lengi þrifist í kviði móður sinnar. Einn dag tökum við til óspilltra málanna sem frjálsar, fullvalda manneskjur og við flytjum út. Þeirri ákvörðun fylgir sársauki, kvíði, dauði og erfiði. Það er líka hluti af því að vera manneskja. Og í því ástandi, austur af Eden mætir Drottinn okkur, ekki til að leiða okkur aftur inn í lundinn, heldur til að hjálpa okkur til að iðka frelsi okkar í kærleik til Guðs og til annars fólks og frelsa okkur til frelsis.

Og því er Paradís útópía, enginn staður og allur staður. Hún er allur staður vegna þess að frumþarfirnar eru okkur mikilvægar. Vatnið, andardrátturinn, fæðan, líkaminn eru undirstaða þess að við getum lifað heilbrigðu lífi. Og við gerðum vel í því á þessari föstu að velta því fyrir okkur hversu fá okkar hafa aðgang að slíkum gæðum. Það eru svo margir sem hafa helsta tengingu við náttúruna í óhreina pollinum á götunni, svo margir sem ekki eiga vatn og mat eða búa við sæmilegt öryggi. Í samanburði við þorra mannkyns búum við á Íslandi í Paradís, eða að minnsta kosti eins nálægt hliðinu sem engillinn gætir eins og kostur er. Paradís er hinn altæki staður vegna þess að öll látum við freistast eins og konan sem heitir Líf og maðurinn sem heitir Jörð.

Samt er Paradís líka staðurinn sem hvergi er til, staðurinn sem við þurfum að yfirgefa til þess að verða við sjálf, gera okkar mistök og þroskast til fullorðinsára. Án gelgjuskeiðsins yrðum við aldrei sjálfstæðar manneskjur, sem tökum sjálfstæðar ákvarðanir. Án göngunnar út úr Paradís væri ekki til neitt frelsi og enginn þroski.

Þannig verður sagan um Adam og Evu okkur uppspretta að hugleiðingu um okkur sjálf, freistingar okkar og þroska, Paradísir okkar og þann stað austan Edenar sem við þurfum að byggja sem myndugar manneskjur. Við þurfum ekki Guð til að bjarga okkur frá þeim stað og senda okkur aftur inn í Paradís. Við þurfum Guð til að frelsa okkur í þeim aðstæðum sem við lifum hvert og eitt með eplin okkar í hendinni, hjálpa okkur til að gera staðinn austan Edenar byggilegri og hlýlegri fyrir okkur sjálf og allar manneskjur. Í stað óendanlegrar fæðu, auðlinda og vatns, þurfum við að læra að skipta með okkur takmörkuðum gæðum. Dauðinn er ekki framar óvinur okkar heldur erum við mold og moldin er hluti af því sem við erum adamah, jörð.

Guð gefi okkur kærleika og réttlæti til að lifa sem jörð á jörðu,

í jafnrétti, án stéttskiptingar og í sátt við umhverfið.

Guð gefi okkur kjark og elju til að vinna að því

að þrár annarra um vatn, mat, öryggi og húsaskjól megi verða að veruleika

og að greina milli þess freistinga sem hamla okkur þroska

og hinna sem gera okkur að myndugum manneskjum.

Guð gefi okkur innihaldsríka og íhugandi föstu austan við Eden.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Trúarlíf mitt og fyrirmyndir

Ég hef fengið spurningu um mitt persónulega trúar- og bænalíf, hverjar séu fyrirmyndir mínar og áhrifavaldar og hver séu uppáhaldsvers mín í Biblíunni. Spurningarnar í heild má sjá hér:

Ég hef verið kristin frá því að ég man eftir mér. Mamma hengdi biblíumyndir í gylltum römmum fyrir ofan rúmin hjá okkur börnunum og það fyrsta sem ég sá þegar ég opnaði augun á morgnana og það síðasta þegar ég lokaði þeim á kvöldin var myndin af Maríu með litla Jesúbarnið í fanginu. Ég hef alltaf verið trúuð en á ólíkan hátt eftir aldri og þroska. Ég hef glímt við efa trúarinnar en hef aldrei komist að niðurstöðu um það hvers vegna ég er kristin. Ég einfaldlega er það og von trúarinnar hefur brotist sterkust fram þegar fátt annað virkar í mínu lífi.

Ég held að uppáhalds fyrirmynd í trú sé Sigurþór móðurbróðir minn. Siggi frændi minn er einstaklega góður maður, blíður og hjartahlýr og trúin er eitthvað sem batt okkur snemma saman. Ég sé Jesú Krist í því hvernig hann umgengst menn og málleysingja.

Ég hef orðið fyrir áhrifum af ólíku fólki á ævinni. Foreldrar mínir eru mér endalaus uppspretta ástar og virðingar. Ég var 15 ára þegar Vigdís Finnbogadóttir varð forseti Íslands, fyrst kvenna í heiminum til að vinna lýðræðislegar forsetakosningar. Ég var og er óendanlega stolt af Vigdísi og hún hefur alltaf verið mér fyrirmynd eins og móðurleg fjallkona sem vakti yfir þjóð sinni af greind og hlýju. Ég hef orðið fyrir sterkum áhrifum af persónu og prédikun Sigurbjörns Einarssonar biskups, sem setti svip sinn á jólakvöld bernsku minnar þegar hann hélt yfir okkur alvörugefnar jólaræður úr sjónvarpinu. Ég skrifaði doktorsritgerðina mína um guðfræði Paul Tillich og lá í verkum hans svo árum skipti.  Ég hef bæði glímt við texta Tillich og búið í þeim. Þeir hafa mótað guðfræði mína og trúarsýn. Og að síðustu vil ég nefna doktorsmóður mína Catherine Keller, sem er mér fyrirmynd í trú og guðfræðiiðkun þar sem trú og gagnrýnin skynsemi fallast í faðma.

Ég lifi reglulega bænalífi. Ég er þátttakandi í tveimur bænahópum. Annar stundar fyrirbænir en hinn íhugandi bæn. Þann síðarnefnda er ég nýbúin að uppgötva og báðir gera þeim mér og starfi mínu gott, þótt með ólíku móti sé. Í guðsþjónustu sunnudagsins rennur mitt persónulega bænalíf inn í bænir safnaðarins. Ég bið líka með fermingarbörnunum og á miðvikudögum syngjum við nóntíð í Guðríðarkirkju. Allt þetta hjálpar við að varða vikuna bænalífi og innri ró.

Ég á mér marga uppáhaldsritningartexta. Uppáhaldstextinn minn úr Davíðssálmum tengist doktorsverkefninu mínu um afgrunn guðdómsins (Abyss of God), vers úr 42. sálmi 8, abyssus abyssum invocat:

Eitt djúpið kallar á annað
þegar fossar þínir duna,
allir boðar þínir og bylgjur
ganga yfir mig.

Líkingin um Guð sem djúp eða flóð snertir við mér á djúpstæðan hátt. Ég á mér líka annan uppáhaldstexta úr Jesaja 43:1-2 sem ég myndi vilja gera að einkunnarorðum mínum í embætti. Það er ekkert að óttast þegar Guð er með í för:

En nú segir Drottinn svo,
sá sem skóp þig, Jakob,
og myndaði þig, Ísrael:
Óttast þú ekki því að ég frelsa þig,
ég kalla á þig með nafni,
þú ert minn.

Gangir þú gegnum vötnin
er ég með þér,
gegnum vatnsföllin,
þá flæða þau ekki yfir þig.
Gangir þú gegnum eld
skalt þú ekki brenna þig
og loginn mun ekki granda þér.

„Að sigra illt með góðu“ Prédikun í Ísafjarðarkirkju 22. janúar 2012

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
I.
Fyrir tæpum sautján árum stóð ég fyrir altari Ísafjarðarkapellu í Menntaskólanum. Þetta var fyrir tíma Ísafjarðarkirkju hinnar nýju á fimmta sunnudag eftir þrettánda og tæpar þrjár vikur liðnar frá snjóflóðinu í Súðavík.  Ég hafði tekið að mér að vera aðstoðarprestur á Ísafirði í tvo mánuði eftir hamfarirnar svo að sóknarpresturinn gæti einbeitt sér frekar að sálgæslunni og horfðist nú í fyrsta skipti í augu við söfnuðinn. Guðspjallið var sjálft Faðirvorið og það átti vel við að brýna fyrir söfnuðinum við þessar erfiðu aðstæður að biðja án afláts. Ég minnist vanmáttar míns við að flytja ræðuna, því að mér fannst erfitt að tala um bænina í kjölfar atburðanna.

Ég man þessa snjóþungu daga á Ísafirði í febrúar og mars 1995. Ég man dagana þar sem fólk gekk gjarnan niðurlútt og þungbúið í vetrarsnjókomunni, daga þar sem þungt var að tala við fermingarbörnin um bölið í heiminum sem þau höfðu nýlega kynnst sjálf og vildu helst af öllu gleyma, daga þar sem fátt var hægt að gera annað en að halda þétt hvert utan um annað.   Margsinnis síðan hefur Skutulsfjörðurinn hefur tekið á móti mér með glampandi sól og bláum fjöllum. Það er gott að koma hingað og fá að eiga stund í helgidóminum fagra, eiga kyrra stund þar sem Guð ríkir, hvort sem sólin skín eða kyngir niður snjó. Og um leið og við minnumst hinna miklu hörmunga í nágrannabyggðinni fyrir sautján árum, er líka gott að minnast samheldninnar og ákveðninnar við að halda lífinu og gleðinni til streitu þrátt fyrir áföllin.

Enn á ný er okkur færður ritningarlestur sem hefur verið valinn þessum tiltekna sunnudegi til að íhuga saman í húsi Drottins.  Orð seinni ritningarlestursins koma úr 12. kafla Rómverjabréfsins og hljóða svo:

Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.

Við getum ekki ráðið öllu því sem við verðum fyrir. En þessi orð um það hvernig við eigum að sigra hið illa minna okkur á það að við getum valið hvernig við bregðumst við því sem hendir okkur. Og kannski er ennþá meir um vert að þegar bölið er of mikið til þess að við getum skilið það eða brugðist við því, þegar við eigum fátt gott til að sigra hið illa með, og finnst við engra kosta eiga völ, þá eigum við Guð. Og það er nóg.

II.
„Lát ekki hið illa sigra þig, en sigra þú illt með góðu“ segir pistillinn og þar sem góð svör vekja nýjar spurningar, þá hljótum við að spyrja hvernig. Í guðspjalli dagsins réttir líkþrár maður hönd sína til Jesú og segir:  „Drottinn, ef þú vilt, þá getur þú hreinsað mig.“ Og Jesús svarar: Ég vil, ver þú hreinn.“ Mér finnast þessir tveir lestrar hljóma svo sterkt saman hér í dag, pistillinn um það að sigra illt með góðu og guðspjallið þar sem hinn þurfandi biður um hjálp. Og Jesús vill og hjálpar, líka þegar verkefnið er stórt og erfitt. Flest vildum við gjarnan sleppa við hið illa og upplifa líf sem væri laust við leiða, illkvittni, angist, hatur og hræðslu.  En ef við byggjum við slíkar aðstæður ættum við ekki heima í mannlegu samfélagi.

Hvernig getum við sigrað illt með góðu?  Hvernig getum við verið hreinsuð af hinu illa, arga, bitra og reiða? Er ekki það að sigra illt með góðu eitthvert alerfiðasta verkefni sem við getum staðið frammi fyrir? Sumt af bölinu sem hendir okkur í sambúð okkar við annað fólk og óblíða náttúru er þess eðlis að það er engum sérstökum að kenna. En það er líka til böl sem er af manna völdum og að því skulum við snúa okkur nú þegar við íhugum hvernig við getum sigrað illt með góðu.

Sumt böl verður til vegna þess að við vorum á röngum stað á röngum tíma. Annað verður til vegna þess að við vorum óheppin með foreldra, vini eða maka. Sumt böl er blandað okkar eigin sjálfskaparvítum sem vinda upp á sig og búa til nýjar óþolandi aðstæður. Annað getur verið fólgið í andstreymi, illvilja eða ofbeldi sem er beinlínis beint gegn okkur. Við getum auðveldlega lent í hinum verstu aðstæðum og mörg hver jafnvel án þess að hafa nokkuð um það að segja. Og þá er úr vöndu að ráða með úrvinnsluna.

Það er auðvelt að segja öðrum að þau eigi að sigra illt með góðu, erfiðara að fara eftir því sjálfur. Í ríkissjónvarpinu er einmitt verið að sýna vikulega framhaldsþætti sem heita Hefnd og fjallar um unga konu sem gerist refsinorn yfir þeim sem beittu föður hennar órétti.

Ætli slíkir þættir séu ekki vinsælir vegna þess að að það er stutt í hefndarþorstann og langræknina í okkur undir sléttu yfirborðinu? „Hefndin er sæt“ segir máltækið, hefndin er yfirleitt öflug freisting, eins og allir þekkja sem hafa einhvern tímann orðið reiðir og sárir. Hefndin er nærtæk freisting fyrir þann sem þráir endurgjald fyrir harma sína og reiði og hún getur orðið sterk, mikil og eyðandi hvöt.

Í lestrinum er mikil áhersla lögð á það að við eigum ekki sem kristnar manneskjur að hefna okkar. Þegar hefndin nær tökum á okkur, hefur hið illa unnið. Í hefndinni höfum við komið höndum yfir vald en það vald er ekki okkar eigið heldur Guðs. Við eigum ekki að hefna okkar en þar með er ekki sagt að við eigum ekki að láta óréttlæti okkur varða. Næsti kafli Rómverjabréfsins á eftir þessum ritningarstað talar um mikilvægi yfirvalda og að borgarinn eigi ekki að taka sér það vald sem dómaranum ber. Þetta samhengi textans segir okkur að Páll postuli er ekki að biðja fólk um að láta ofbeldi og alls kyns ólög malla undir yfirborðinu, heldur að láta lög og rétt ráða för. Á þeim stöðum sem fólk býr við sæmilegt réttarfar getur dómskerfið leyst úr mörgu málinu og endurreist heiður þeirra sem fyrir skaðanum hafa orðið. En svo er líka margur mannlegur sársauki sem aldrei hefur í réttarsal komið og á ekki þar heima.

Að sigra illt með góðu er ekki það sama og að sleppa því að hefna sín. Það er ekki nóg að bera harminn í hljóði til að hið góða hafi sigrað. Manneskja getur sleppt því að hefna sín en orðið bitur og reið inni í sér. Hún getur alið með sér gulgrænar eiturhugsanir og ljóta tungu sem eru litlu betri en hefndarhöndin reidd á loft.

Hvað er þá til ráða ef við megum hvorki hefna okkar né láta okkur nægja að næra reiði okkar í einrúmi? Hvernig í veröldinni eigum við að fara að því að sigra illt með góðu og sleppa því að leika í okkar eigin hefndarsjónvarpsseríu? Meðan við veltum því fyrir okkur hvernig við eigum að sigra og verða hrein eins og líkþrái maðurinn í guðspjallinu, þá langar mig til að segja ykkur dæmisögu.

III.
Einu sinni var drottning sem átti frægan og fagran demant. Dag hvern glitraði demanturinn eins og tærasta vatn og gladdi eiganda sinn.  Svo varð demanturinn fyrir hnjaski á einhvern óskýrðan hátt. Það myndaðist stór sprunga í hann og nokkrar ljótar rispur líka. Drottningin varð hnuggin yfir demantinum sínum sem var ekki svo fallegur lengur og hún leitaði til margra demantaslípara til að fægja steininn. En hvernig sem þeir hömuðust á steininum þá var engin leið að losna við rispurnar og sprungan var alveg jafn stór og áður. Drottningin hélt áfram að leita og að lokum frétti hún af manni sem var sérfróður um eðalsteina. Hún sýndi honum demantinn og maðurinn skoðaði hann í krók og kring. Eðalsteinsmiðurinn var lengi að vinna við steininn og hann vann af natni og elju. Þegar hann loksins sýndi drottningunni demantinn var steinninn gjörbreyttur. Steinsmiðurinn hafði grafið hárfínan rósaknúpp í kringum skemmdina og rispurnar og í sprungunni hafði hann greypt rósastilkinn. Þegar drottningin sá steininn fylltist hún gleði, því demanturinn hennar var ennþá fallegri en fyrir óhappið.

Inntak þessarar sögu er að við skulum ekki gefast upp fyrir hinu illa, heldur seiglast áfram með Guðs hjálp í átt til umbreytningar. Það er ekkert auðvelt að breytast, breyta ósigrum sínum og skipbrotum í sigra og löstum í kosti. Við erum þessi eðalsteinn í sögunni sem verður fyrir hnjaski og á okkur myndast sprungur og rispur.  Í hvert sinn sem við veljum að smakka hefndina eða látum reiðina sjóða inni í okkur þá bætist við ný rispa og nýr flekkur á steininn fagra. Kannski erum við ekki alltaf falleg undir yfirborðinu og það er hægara sagt en gert að pússa upp þessar rispur og fylla upp í sprungurnar. Og þá er svo gott að drottningin skuli aldrei gefast upp. Hún byrjaði á að tala við alla demantaslíparana í ríkinu og þegar þeir gáfust upp á demantinum hélt hún lengra uns hún fann þann sem gat breytt ljóta rispusteininum í fegursta rósaflúr.

„Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig,“ sagði líkþrái maðurinn. Og Jesús sagði: „Ég vil, verð þú hreinn.“ Það er eitthvað stórkostlegt við það þegar sprungnar skurnir verða að fegursta rósaflúri. Þegar vinir sættast. Þegar einhver biður fyrirgefningar. Þegar einhverjum tekst að reisa líf sitt úr rústum eftir margra ára villustigu. Þegar demantur verður heill. Þegar líkþrár maður verður hreinn. Þegar fólki tekst að byggja upp líf að nýju eftir hræðileg áföll. Þegar einhvern veginn tekst að umbylta öllu því ljóta og sára og raunalega sem skemmt getur líf okkar yfir í það sem er gott, vonarríkt og fallegt.

Það gerir Guð: Guð segir við okkur sem búum í leyni til okkar eigin hefndar og reiðisjónvarpsseríur:  „Ég vil, verð þú hrein/n.“ Það breytir því ekki að raunir og rispur eru á demantinum okkar. Eðalsteinsmiðurinn slípaði ekki rispurnar burtu eða múraði yfir sprunguna. Hann beitti list sinni til þess að skorurnar og sárin í steininum öðluðust nýja merkingu.

Það er líka merkilegt að ritningarlesturinn ber okkur út úr eigin hugskoti og yfir til þeirra sem við búum með. Í honum segir:

Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.

Þannig eru ávextirnir af því að hafa látið greypa rósir á hugann sinn í staðinn fyrir rispur. Sá sem er orðinn hreinn situr ekki lengur og horfir á eigin sáramerki, heldur horfir í kringum sig. Og þangað skulum við fara og sigra með Guðs hjálp illt með góðu.

IV.
Ég man það enn þegar ég stóð við altarið í Menntaskólanum og vissi ekki almennilega hvernig ég átti að tala um bænina eftir snjóflóðið. Það var erfitt að fjalla um það óvænta og ógnvænlega sem mannleg stjórn og hugvit ræður ekki við, erfitt að orða holt tómið og reyna að láta fagnaðarerindið hljóma í húsi sorgarinnar. Það er yfirleitt erfitt að hugsa um og orða það sem við ráðum ekki við. En þegar upp var staðið þurfti ég ekki að tala mikið um bænina í minni fyrstu guðsþjónustu á Ísafirði eftir snjóflóðið. Guð kom og dvaldi þessa stund í bænum okkar, orðum,  atferli og samfélaginu við Guðs borð.

Guð umbreytir. Guð hreinsar sára sorg og erfiðar tilfinningar. Guð lagar demantinn okkar og beinir okkur upp úr sprungunum yfir í að hugsa hvert um annað. Þangað streymir bænin. Þangað leitar hið góða. Og það er nóg, það er allt sem við þurfum til að verða hrein og sigra illt með góðu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.