Category: Prédikun

Unglingurinn Jesús: Prédikun 8. jan. 2012

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
I.
Áramótaskaup ársins 2011 endaði á kröftugum söng barna. Börnin í áramótaskaupinu eru orðin leið á árvissum axarsköftum fullorðna fólksins. Þau eru orðin þreytt á síendurteknu klúðri og vilja nýja veröld. Þau syngja:

Kannski gleymist stundum hverjir taka við
Við krakkarnir ykkar þetta pínulitla lið
Hlustum því á hjartað alla tíð
Högum okkur skynsamlega bæði ár og síð

Við kyndum bálið og berjumst áfram
við byggjum saman þetta dásamlega land
en hagfræðin og hamslaus græðgin
við hendum báðum.
Svo 2012…
Við tökum nýjan sið
Við hreinsum til í hólf og gólf
Og við byrjum upp á nýtt.

Það er kraftur í laginu um bálið sem kynt er, baráttusöng barnanna fyrir hið nýja ár 2012. Og um leið er þeim skilaboðum komið á framfæri við okkur fullorðna fólkið að við tökum okkur saman í andlitinu. Að við tökum upp nýjan sið, högum okkur skynsamlega, að við berum hag hins pínulitla liðs fyrir brjósti og hlustum á hjartað alla tíð.

II.
Meðan við rifjum upp lagið úr áramótaskaupinu með sjálfum okkur langar mig til að taka ykkur með mér inn í fermingartíma í Guðríðarkirkju.  Þegar við hófum umfjöllun um Jesú Krist í vetrarbyrjun var krökkunum rétt bleikt spjald þar sem þau áttu að skrifa það sem þau langaði til að vita um Jesú frá Nasaret. Hér koma sautján flottar spurningar úr fermingarfræðslunni:

Hvað gerði Jesús við gjafirnar sem vitringarnir gáfu honum?
Af hverju var hann settur í þessa jötu?
Átti hann systkini?
Átti hann börn?
Átti hann hús?
Átti hann mörg föt?
Hvernig leit hann út?
Hvernig var Jesús þegar hann var lítill?
Var hann líka smiður eins og Jósef?
Fór hann í skóla?
Gekk honum vel í skóla?
Hvar bjó hann?
Var Jesús með bólur þegar hann var unglingur?
Átti hann peninga?
Burstaði hann tennurnar?
Hver er hinn rétti afmælisdagur hans?
Klukkan hvað fæddist hann?
Af hverju hét hann Jesús?
Hver varstu Jesús?

Það er hægt að svara sumum þessum spurninga með nokkurri vissu með því að raða saman fróðleiksmolum úr elstu heimildunum um Jesú, samstofna guðspjöllunum Mattheusi, Markúsi og Lúkasi og með þeim upplýsingum sem við höfum um daglegt líf í Mið-Austurlöndum á dögum Jesú.

Jesús átti heima í Nasaret og bjó alveg örugglega í húsi. Það er líklegt að foreldrar hans hafi verið það vel stæð að hann hafi átt föt til skiptanna. Foreldrar hans hétu Jósef og María, pabbi hans var smiður og þar með hefur Jesús örugglega lært þá iðn líka. Markús og Mattheus nefna fjóra bræður Jesú með nafni og systur hans líka. Bræður hans hétu samkvæmt guðspjöllunum Jakob, Jósef eða Jóse, Júdas og Símon, en enginn veit hvað systurnar hétu eða hversu margar þær voru. Drengir voru yfirleitt í skóla til 12 ára aldurs á dögum Jesú og lærðu þá fimm fyrstu bækur lögmálsins, torah utan að. Hann hefur að líkindum verið hörundsdökkur, breiðnefjaður og svarthærður.  Hann talaði arameísku og hefur aldrei tannburstað sig, því tannburstinn var ekki fundinn upp fyrr en árið 1780. Lúkasarguðspjall segir að Jesús hafi verið látinn heita þessu nafni vegna þess að engillinn hafi beðið Maríu um það, en Jesúa á arameísku þýðir Guð frelsar.

Annað það sem krakkarnir spurðu um er sveipað þoku. Við vitum ekki hvaða dag Jesús fæddist, hvaða ár og þaðan af síður klukkan hvað. Ég á erfitt með að trúa því að unglingurinn Jesús hafi geymt gull, reykelsi og myrru undir koddanum sínum, enda ber vitringasagan á sér nokkuð ævintýralegan blæ. Eina sagan í Biblíunni sem gefur okkur einhverja mynd af bernsku- og unglingsárum Jesú er guðspjall dagsins í dag. Þar eru engin kraftaverk, engar glæstar ræður, engar dæmisögur.

Guðspjall dagsins birtir okkur Guð sem var unglingur
Pínulítið lið, svo vitnað sé í söngtextann.
Og það er dálítið gott að staðnæmast við þessa uppgötvun
um Guð sem ungling.
Mörgum okkar finnast unglingar ekkert sérstaklega guðdómlegir
og allra síst unglingunum sjálfum.
Unglingsárin eru umbrotaskeið þegar líkaminn er að breytast,
skapgerðin líka
og þörfin eykst á að eiga sitt eigið líf  óháð mömmu og pabba.
Slík umbreytingaskeið geta kallað á óteljandi uppgjör og reiðisköst,
líka vansæld og einmanakennd.
Sumir fara auðveldlega í gegnum unglingsárin,
öðrum reynast þau mjög erfið.
Og einmitt þess vegna er gott að hugsa til þess að ekkert tímaskeið
er öðru æðra eða síðra í því að geta borið Guð.
Guð varð barn, unglingur og fullorðin manneskja.
Hann hefði orðið gamall og hrumur líka ef hann hefði ekki verið drepinn á ofbeldisfullan hátt.
Guð varð unglingur og það segir okkur að unglingar eru mikilvægir í augum Guðs.
Elskum unglingana okkar og sýnum þeim virðingu.

Hlustum því á hjartað alla tíð
Högum okkur skynsamlega bæði ár og síð.

III.
Guðspjallið segir frá því þegar foreldrar Jesú fóru til Jerúsalem, en það gerðu þau á hverju ári í samræmi við lögmál Gyðinga. Þau tóku Jesú með sér þótt það væri heilt ár í það að hann væri orðinn fulltíða maður að þess tíma hætti. Ferðin til Jerúsalem hefur líklega tekið fjóra til fimm daga og þau ferðuðust með langri lest af fólki í svipuðum erindagjörðum. Kannski var þetta í fyrsta sinn sem Jesús var einn með foreldrum sínum eftir að systkini hans fæddust. Ferðalagið til hinnar öldnu borgar Jerúsalem hefur efalaust verið honum mikill viðburður.

Ekki segir af ferðum þeirra fyrr en María og Jósef eru komin eina dagleið aftur heim til Nasaret og uppgötva þá að þau eru búin að týna barninu sínu. Við taka hræðilegir dagar þar sem þau fara aftur til baka og leita í örvæntingu sinni að honum í öllum skúmaskotum sem þeim detta í hug. Að lokum fara þau í musterisgarðinn, þar sem Jesús situr innan um alla fræðimennina.

Það er athyglisvert að hugsa um staðinn sem Jesús hélt til í þrjá daga meðan foreldrar hans leituðu hans. Hann var í húsi Guðs og hann segir við þau undrandi þegar þau finna hann loksins: „Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ Stundum er þessi spurning þýdd með orðunum: „Vissuð þið ekki að mér ber að gera vilja föður míns?“

Sjálfsmynd okkar getur verið byggð upp af ólíkum hlutum
og suma þeirra nefna fermingarbörnin í spurningum sínum.
Sjálfsmynd okkar getur verið tengd því
hvort við eigum mörg föt og peninga
hvort okkur gengur vel í skólanum
og eigum marga vini
hvernig við lítum út.
Ég veit ekki hversu miklu þessir hlutir skiptu unglinginn Jesú.
Hitt veit ég eftir lestur þessarar sögu
að sjálfsmynd unglingsins Jesú
var fast bundin tengslum hans við Guð.
Guð skipti unglinginn Jesú miklu máli.
og hann gerði sér far um að gera vilja Guðs.
Enda segir síðasta vers guðspjallsins
að hann hafi vaxið að „visku og þroska og náð hjá Guði og mönnum“.

IV.
Kannski var unglingurinn Jesús með bólur. Við vitum ekki hvort hann átti vini. Fermingarbörnin í Guðríðarkirkju eru hins vegar ekki einu manneskjurnar sem hafa velt því fyrir sér hvernig unglingurinn Jesús hafi haft það. Raunar hafa menn velt þessu fyrir sér alveg frá fyrstu tíð. Og þegar heimildir vantaði urðu til sögur um barnið og unglinginn Jesú. Bernskuguðspjöll, sögur af bernsku Jesú og Maríu urður metsölurit á annarri og þriðju öld eftir Krist og þar var fléttað saman goðsögum og guðspjallaefni oft á listilegan hátt. Ekkert þessara rita var tekið inn í Biblíuna og smátt og smátt var þeim eytt eða þau týndu tölunni. Það er einungis á síðustu öldum sem þau eru að birtast á ný og rannsóknir á þeim hafa leitt í ljós áhugaverða sýn á þá mynd sem að fyrri tíðar fólk gerði sér af unglingnum Jesú.

Bernskuguðspjall Jakobs rekur fæðingu Maríu og Jesú miklu nákvæmar en Biblían og bætir við ýmsum athyglisverðum minnum til dæmis um ljósmóðurina sem annaðist Maríu í fæðingunni. Bernskuguðspjall hins falska Mattheusar segir meðal annars frá tímanum sem Jósef og María dvöldu í Egyptalandi.

Bernskuguðspjall Tómasar rekur fjölmörg minni frá æskuárum Jesú og sum æði goðsagnakennd.  Þar fer lítið fyrir hinum mennska Jesú, heldur er Jesú lýst sem yfirnáttúrulegum dreng með mikla hæfileika sem allir eru hræddir við því að hann getur gert hvað sem er. Hann getur orðið öskureiður og móðgaður og líka séð að sér þegar reiðin hefur hlaupið með hann í gönur. Hann bæði drepur fólk í bernskuguðspjallinu og reisir upp. Hann læknar bróður sinn Jakob af snákabiti og ber vatn heim til Maríu í kyrtlinum sínum af því að hann hafði brotið fötuna.

Ein arabísk saga af Jesú sem hefur varðveist í Kóraninum. Þar segir frá drengnum Jesú sem enginn vill leika við. Þegar hann biður þau um að koma með sér út, þá fela þau sig fyrir honum, en Jesús hefnir sín með því að breyta þeim öllum í geitur. Þegar mæður barnanna sjá að börnin þeirra eru öll orðin að geitum grátbiðja þær Jesú um að gefa sér börnin aftur, hann sér aumur á þeim og breytir þeim aftur í börn, sem þorðu ekki annað en að fara út að leika við Jesú.  Það þarf ekki eitt orð að vera satt í þessum bernskuguðspjallssögum, en það sem mér finnst áhugavert við þær er að þær draga upp mynd af pilti sem er vanur að þurfa að fara sínar eigin leiðir og treysta á sjálfan sig. Kannski var hann mikið einn. Kannski skildu hann fáir og hann kann að hafa átt erfitt að aðlagast öðrum börnum. Hann kann líka að hafa verið vinsælasti strákurinn í bekknum sem átti mikið af fötum og kærustu með. Við vitum það ekki, en við getum velt því fyrir okkur.

V.
Það er áhugavert að bera saman muninn á því hvernig Lúkasarguðspjall og bernskuguðspjall Tómasar segja frá unglingnum Jesú í musterinu. Í bernskuguðspjallinu segir að fræðimennirnir og prestarnir hafi allir setið í kringum hann. Þar rökræddi hann við þá og leysti ýmis álitamál úr lögmálinu og spámönnunum fyrir þá. Guðspjall Lúkasar lætur sér nægja að segja að hann hafi setið og hlustað og lagt fyrir þá spurningar.  Og þessi hæfileiki að hlusta vel og spyrja áleitinna spurninga, spurninga sem að breyttu lífi samferðafólks hans hefur fylgt Jesú eftir að hann varð fullorðinn.

Bernskuguðspjallið gerir ráð fyrir því að allir hafi verið að hlusta á Jesú.
Lúkasarguðspjall gerir ráð fyrir að Jesús hafi setið með þeim, hlustað og spurt.
Er ekki seinni leiðin uppspretta hinnar sönnu skynsemi, forsenda hins nýja siðar?
Sannir leiðtogar mæta ekki á staðinn með allar lausnirnar tilsniðnar og fínar.
Þeir þruma ekki bara yfir fólki.
Sannir leiðtogar hlusta vel og greina vel og spyrja krefjandi spurninga.
Sannir leiðtogar setjast niður með þeim sem þeir vilja eiga samneyti við.
Sannir leiðtogar hlusta með hjartanu
til þess að lausnirnar verði til í samræðunni og samvinnunni.
Svo hægt sé að taka nýjan sið
hreinsa til í hólf og gólf
Og byrja upp á nýtt.

Svo 2012…
Við tökum nýjan sið
Við hreinsum til í hólf og gólf
Og við byrjum upp á nýtt.

Við getum velt því fyrir okkur hvernig í ósköpunum við eigum að byrja upp á nýtt og hreinsa hólf og gólf og taka nýjan sið. Fólk þyrstir í siðbreytingar og þær breytingar syngja ekki aðeins til okkar úr áramótaskaupinu, heldur úr andlitum velflestra sem byggja landið okkar. Við þurfum von og kjark til að halda áfram, trúa því að hlutirnir verði betri og að hægt sé að breyta gömlu, slæmu venjunum um græðgi, einkavinavæðingu, ógagnsæi og spillingu til hins betra.

Og þá bæn á ég til handa Íslendingum á árinu 2012
að sjálfsmynd okkar verði heil og sterk
og í tengslum við það sem gerir okkur betri, glaðari og heilli,
að von okkar og trú á framtíðina eflist með degi hverjum
að við veljum okkur góðar fyrirmyndir og góða leiðtoga
og hreinsum til með djörfung á nýju ári
að við berum gæfu til að vaxa að visku og þroska og náð
eigum stundir í musterinu
þroskum okkar gáfur, trúarlegu þarfir og siðferði
og eigum líf hjá Guði og mönnum
Guði sem var unglingur
hugsaði með hjartanu
og varð eftir í Jerúsalem
til að gera vilja hins góða.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.

„Orðið, Öndin, Spekin, Tjaldið“ Prédikun á jóladag 2011 í Guðríðarkirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss,
fullur náðar og sannleika,og vér sáum dýrð hans,
dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Þannig hljóða upphafsvers jólaguðspjalls Jóhannesar um Orðið sem varð hold.

Hvernig túlkar maður Orð sem varð hold með mynd?
Spurningin er undarleg,
því ef það er eitthvað sem okkur skortir ekki um jólin,
þá eru það jólamyndir,
myndir af fjárhúsi og jötu
og öllu því fólki sem heimsótti það samkvæmt guðspjöllunum,
myndir af bjöllum, jólatrjám, klukkum og kertum.
En Orð sem varð hold, hvaða myndir á það?
Ég sat lengi við undirbúning jóladagsmessunnar
og velti fyrir mér mynd til að setja á messuskrána.

Orðið varð hold.
Það er einhver dýpt yfir orðum Jóhannesar,
eitthvað sem dregur mann til sín í kyrrð sinni og kunnugleika.
Og samt er jólaguðspjall Jóhannesar svo ólíkt þeim textum öðrum
sem við lesum á jólum.
Jólaguðspjall Lúkasar af litla barninu í jötunni
er lesið um jólin til jafns við frásögu Jóhannesar
og jólaguðspjall Mattheusar um vitringana sem gáfu Jesúbarninu gjafir
setur mark sitt á sunnudag milli jóla og nýjárs og þrettándann.
En hjá Jóhannesi er ekki að sjá neitt barn eða móður þess,
engin jata, engar gjafir,
engir vitringar, ekkert fjárhús
og engir hirðar úti í haga,
ekkert af því sem setur mark sitt á helgileiki okkar og hefðbundin jólatákn.
Mér er til efs að nokkur hafi saumað út jóladúk með orðinu sem varð hold.
Þess í stað er okkur gefinn texti
sem stingur í stúf við einfaldleika og frásagnargleði Betlehemsagna af jólabarninu.
Í upphafi var orðið og orðið varð hold og orðið bjó með okkur.

Jólaguðspjallið sem okkur er fært í dag
opnar öðruvísi aðgang að jólunum,
guðspjall sem segir ekki sögu,
Guðspjall sem talar um orð
Og þetta orð er ekki hægt að tákna eða teikna á jólakort,
orð sem streitist á móti hefðbundnum hugmyndum okkar um það
hvernig jólaguðspjall er
orð sem myndar mótvægi við hefðbundin orð um jólabarnið Jesú
orð sem leitar samtals.

Þetta jólaguðspjall byrjar ekki í sögulegum tíma,
ekki við jötuna
ekki fyrir botni Miðjarðarhafs
í upphafi tímatals okkar.
Það fjallar engu síður um tilvist hins þríeina Guðs
en tilvist Jesú frá Nasaret.
Jólaguðspjall Jóhannesar
ásamt nokkrum öðrum mikilvægum ritningartextum
liggur til grundvallar játningu kristinna manna
um leyndardóm þrenningarinnar.
Þegar Jóhannesarguðspjall talar um að orðið hafi verið í upphafi
vísar það þannig ekki til sköpunarinnar eða fæðingu Jesú
heldur til guðdómsins.
Það undirstrikar
að hversu miklar og háleitar hugmyndir sem við gerum okkur
um líf og dauða Jesú
þá byrjar og endar hið heilaga ekki þar.

II.
Hvaðan kemur þessi undarlega hugmynd um Orðið sem var til frá upphafi,
orðið sem varð hold?
Ég sagði áðan að í jólaguðspjalli Jóhannesar
væri engin móðir og ekkert barn.
En guðspjallið er að mörgu leyti
eins og myndin sem varð fyrir valinu á messuskránni.

Fyrst sá ég ekki neitt út úr þessari mynd.
Svo fannst mér ég sjá blaðsíður í bók.
Næst fannst mér ég sjá sitjandi konu
og við hlið hennar álúta veru sem leggur hönd sína í kjöltu hennar.
Stundum finnst mér ég sjá leg út úr þessari mynd.
Stundum sé ég barn sem er líka ljós í fangi konunnar.
Myndin er djúp og undarleg eins og jólaguðspjallið sjálft
og hún heitir “Orðið varð hold”.

Og nú ætla ég að segja ykkur sögu af orðinu
sem er svo erfitt að tjá með myndum,
Orði þar sem bæði móðir og barn leynast undir yfirborði textans.
Gríska orðið logos þýðir orð á íslensku
og það er einmitt orðið sem notað er í upphafi Jóhannesarguðspjalls
til að tákna frelsarann sem fæddist í heiminn.
Þetta er í eina skiptir í gjörvallri Biblíunni sem orðið er notað með þessum hætti.

Lógós er gamalt og virðulegt orð með langa sögu.
Þegar við notum orðið og hugsum um það,
er eins og við opnum hlemm á brunni
og horfum ofan í mikla og ævaforna dýpt.

Margir telja að þessi áhersla á orðið logos bendi til þess
að verið sé að vitna í gríska heimspeki í guðspjallinu.
Í hinni grísku stóuspeki var talað um lógósið
sem hið lífgefandi guðlega afl sem flæðir um alla veröldina.
Grísku heimspekingarnir höfðu að fornu
talað um logos sem gáfu og afl skynseminnar.
Þegar sagt er í upphafi Jóhannesarguðspjalls
Í upphafi er orðið,
er orðið, lógósinn
þannig sískapandi sköpunarmáttur guðdómsins
sem hefur verið til frá upphafi.
Og þegar sagt er að orðið hafi orðið hold,
þá er verið að segja að þessi sköpunarmáttur
hafi orðið manneskja í Jesú Kristi.

Lógósarhugsunin bendir þannig til að Orðið sé miklu eldra en Jesúbarnið
Orðið hefur verið til frá upphafi,
En það fæddist sem barn og lifði þrjátíu ár í heiminum að kristnum skilningi,
Á tíma þar sem sköpunarmáttur Guðs náði sérstökum hæðum.
Inn í ljóð Jóhannesar um orðið er skeytt myndum af Jóhannesi skírara.
Þessi undarlegi sambræðingur hinnar heimspekilegu hugsunar
og vitnisburðar Jóhannesar
segir okkur að guðspjallamanninum var ekki nóg
að útskýra Orðið sem var í upphafi.
Hann vill segja okkur að sá sem Jóhannes skírari vitnaði um
varð hold af Orðinu frá upphafi.
Og þannig tengjast hin altæka saga heims og guðdóms
Við ákveðna sögu á ákveðnum stað
sögu Jesú sem við nefnum Krist og frelsara.

Ég sagði áðan frá hinum gríska lógósi,
en Orðið sem okkur er fært á jólum er ekki aðeins grískt orð og grísk hugsun.
Við eigum fleiri djúpar lindir í þessum fáu orðum jólaguðpjallsins,
sem við skulum taka hlemminn ofan af og horfa niður í.
Þau eru gefin okkur í dag sem jólagjafir.
Og ef við rýnum nógu vel má finna þar myndir móður og barns.

Þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs á öldunum fyrir fæðingu Jesú
mynduðu sameiginlegan hellenískan menningarheim
þar sem grísk, rómversk, egypsk, mesópótamísk og gyðingleg áhrif
runnu saman eða mynduðu merkingarbær tengsl.
Út þessum frjóa jarðvegi varð til hugmyndin um Orðið frá upphafi.

Hin hebreska hefð geymir boðskap sem tengist lógósinu,
hugmyndir um speki og anda, hochmah og ruach á hebresku.
Bæði voru þessi orð í kvenkyni,
Andi Guðs sem sveif yfir vötnunum í sköpunarsögu Biblíunnar
var á hebresku önd Guðs.
Hinar hebresku orðshugmyndir fjallaði um sköpunar- og viskumátt
sem hafði verið með Guði frá því að sköpunin varð til,
eins konar guðleg og kvenkyns fylgitungl Jahves.

Þegar hebreska Biblían var þýdd yfir á grísku
breyttist öndin í hvorugkynsanda, pneuma,
en spekin varð sophia og hélt áfram að vera kvenkyns.
Bæði viskan og öndin
nutu mikillar virðingar í gnostískum hreyfingum,
sem höfðu mikil áhrif á þróun kristindómsins á fyrstu öld.
Þannig urðu líkast til fyrstu þrenningarhugmyndir kristinna manna til,
hugmyndir um hina heilögu fjölskyldu þrenningarinnar,
Guð föður, hina kvenlegu Speki eða önd og svo soninn sem varð hold.

Seinna hvarf kvenkynið endanlega úr tilbeiðslu kristinna manna.
Okkar norræna hefð á fáar minningar um þær systur ruach og hocmah,
sem eru faldar undir Orðinu sem var í upphafi hjá Guði.
En þær eru þarna undir yfirborðinu
kvenmyndir hins hebreska guðdóms
sköpunarmáttur hinnar grísku heimspeki
tákn guðlegrar elsku og visku.

Þegar við horfum ofan í djúpa lind Jóhannesarguðspjalls
segir guðspjallið að Orðið hafi orðið hold
Og að hinn holdtekni hafi búið með okkur sem Jesús Kristur.
Það getur þýtt að Orðið sé sama sem Sonur
og sú skýring hefur orðið ofan á í kristinni hefð.
Það getur líka þýtt að hin guðlega Speki hafi fætt Son í heiminum
þegar hið eilífa nam staðar í tímanum.
Eða hvað túlkar betur það sem er eitt og þó tvö,
eitt sem er að verða tvö,
tvö sem var einu sinni eitt,
en einmitt kona og barn hennar fætt og ófætt?
Hvar verður hið mannlega hold til ef ekki einmitt þar?

III.
Og Orðið varð hold og bjó með oss fullur náðar og sannleika.
Ég hef gengið með ykkur að brunnum orðs, speki og andar í dag.
Að síðustu langar mig til að opna einn brunn fornaldar enn
fyrir okkur á helgum jólum.
Það er dýptin sem leynist undir sögninni að búa
í versinu um Orðið sem bjó með oss.

Sögnin skenoó á grísku
sem er þýdd með sögninni að búa á íslensku
á sér nefnilega engu minni sögu í hebreskunni en lógósið í grískunni.
Skenoó þýðir eiginlega að tjalda,
að gera sér bústað
og er komið af sömu rót og tjaldið
sem Ísraelsmenn báru með sér í eyðimörkinni
þar sem örkin var geymd
og sem reist var á hverjum stað
til vitnisburðar um návist Guðs.
Þessi návist shekinah, á hebresku er enn eitt fylgitunglið
í líki konu
sem við finnumst
þegar við íhugum jólaguðspjall Jóhannesar
hebreskar guðamyndir í kvenkyni
sem við rekumst á hér og þar við lestur Biblíunnar,
sem færa okkur heim öryggi, sköpun og lífgefandi anda
þegar við þurfum mest á þeim að halda.

Kæri kirkjugestur
Sem hefur lesið með mér óræðar myndir í dag,
gengið að hebreskum og grískum brunnum frumkristninnar
hugleitt hversu erfitt það er að ímynda sér orð sem varð hold
og uppgötvað kvenmyndirnar sem standa undir hugmyndinni um Orðið

Ég óska þér þess
Að tjaldbúð Guðs nemi staðar í garðinum þínum
Og shekinah fylli þig af návist þinni
Í hverjum þeim aðstæðum, erfiðleikum og gleði sem þú finnur þig í.

Ég óska þér þess
að önd Guðs blási yfir vötnum þínum
og ruach fylli þig móði og sköpun þegar þreytan og vonleysið nær á þér tökum.

Ég óska þér þess
Að speki Guðs fæði barn í huga þínum og hjarta
hocmah gefi þér visku og frið til að lifa lífi þínu í sátt við Guð og menn.

Ég óska þér þess að þú finnir að Guð býr með þér í Jesú Kristi
að lindir jólanna ljúkist upp fyrir þér
á þann hátt sem þú þarfnast mest
að Guð, orð, önd og speki tjaldi hjá þér allt næsta ár og öll þau ár sem þú lifir

og að þú fáir séð dýrð barnsins sem þér er fætt í dag
í dag og alla daga.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

„Gæsir og englar“ Prédikun á aðfangadagskvöld í Guðríðarkirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Og gleðileg jól öll sömul!

Um daginn var kona á leið frá Ráðhúsi Reykjavíkur yfir á Lækjargötu. Hún gekk hratt, því nóg var að gera og snaraðist fyrir hornið á milli Iðnó og safnaðarheimilis Dómkirkjunnar. Þar mætti konan grágæs, sem var á vappi í snjónum og virti fyrir sér umferðina. Andartak virtu gæsin og konan hvor aðra fyrir sér, svo leit gæsin undan því gæsum er ekki vel við að horfa djúpt í augun á mannfólkinu. Konan og gæsin tvístigu nokkra stund eins og tvær kurteisar konur í Kringlunni, önnur í svörtum skóm og kápu, hin í fiðurpels, með hvítt brjóst og í grábleikum stígvélum. Svo rak gæsin upp hvellt garg, konan vék til hliðar og horfði á gæsina taka flugið út á Tjörnina.

Það er hægt að horfa á gæsir á margan hátt.
Gæsir hafa lengi verið taldar á Íslandi
og því er hægt að fylgjast með ferðum þeirra.
Grágæsir eins og sú sem mætti konunni við Tjörnina
verpa og halda sig nálægt sjó.
Flestar fljúga til Bretlandseyja yfir veturinn
en allnokkur hópur heldur sig
í nánd við Reykjavíkurtjörn allt árið.
Við getum horft á gæs og velt fyrir okkur hvaðan hún kemur,
hvort hún sé merkt,
hvort hún sé stygg,
hvort hún sé góð í matinn og hvar hún verpi.
Við getum velt því fyrir okkur
hvort hún muni drita á höfuðið á okkur
eða bíta okkur í nefið með gogginum sínum.
Allt eru þetta skynsamlegar ályktanir
af því sem fyrir augu okkar ber þegar við mætum gæs.
En lífið er meira en talningar,
matur í maga og iðbrögð við hugsanlegri árás.
Lífið er líka ljóð,
og í kvöld þegar við kyrrum hugann
og látum hann berast að lítilli jötu í Betlehem,
er tími til að láta ímyndunaraflið fljúga litla stund.
Eins og gæs, sem flýgur framhjá konu
og tekur strikið út á Tjörnina.

II.

Í þessari jólaprédikun langar mig til að tala um
fljúgandi engla,
eins og við hæfi er á helgri jólanótt.
Mig langar líka til að tala um
fljúgandi gæsir.
Mig langar til að tala við ykkur um englana
sem eru út um allt,
Að allir skapaðir hlutir
geti orðið okkur að engli,
ef við höfum augu á höfðinu
Og erum á höttunum eftir táknum um návist Guðs.

Þess vegna langar mig til að lesa fyrir ykkur
ljóð skáldkonunnar Mary Oliver um Villigæsirnar
í þýðingu Gyrðis Elíassonar:

Þú þarft ekki að vera góður,
þú þarft ekki að skríða á hnjánum
hundrað mílur yfir eyðimörkina, iðrandi.
Þú þarft aðeins að leyfa blíðu dýrinu
í þér að elska það sem það elskar.
Segðu mér frá örvæntingu þinni
og ég skal segja þér frá minni.
Á meðan heldur veröldin áfram.
Á meðan halda sólargeislar og tærar
glerperlur regnsins áfram að líða
yfir landslagið,
yfir slétturnar og djúpa skóga,
fjöllin og árnar.
Á meðan eru villigæsirnar,
hátt á bláum og tærum himni,
á heimleið á ný.
Hver sem þú ert, sama hve einmana
þú kannt að vera, þá býður heimurinn
sig fram fyrir þig og hugarflug þitt,
kallar til þín eins og gæsirnar,
hvellt og upplífgandi-
tilkynnir þér aftur og aftur
þinn stað í fjölskyldu alls
lífs.

Það eru komin jól og jólin þau kalla okkur til sín með ýmsu móti. Sum okkar lesa jólin úr augum barnanna, aðrir heyra klukkurnar kalla og finna hjartað svella í brjósti sér. Sum tengja komu jólanna við gamalkunna lykt eða skraut eða hefð. Sum hafa aldrei fundið fyrir jólum, kenna einungis tóms og pirrings yfir öllu jólaveseninu. Svo eru þau til sem jólin koma að óvörum, eins og gæs sem maður mætir við Tjörnina á annasömum degi.

Gæs er frábrugðin manneskju.
Og það er einmitt annarleiki dýrsins
sem tengir það og manneskjuna saman
í öllu því fjölbreytta hugarflugi sem heimurinn gefur
og í frið og gleði yfir því einu að vera til
ef þér tekst

að leyfa blíðu dýrinu í þér
að elska það sem það elskar

ef þér tekst að vera óhrædd og óhræddur
hefja þig upp yfir litla heiminn þinn sem þrengir að þér
og taka þátt í hinum stóra heimi

í fjölskyldu alls
lífs.

II.

Jólin koma með sinni gamalkunnu frásögn af barninu í jötunni í Betlehem. Lúkasarguðspjall segir frá hirðum úti í haga sem gættu hjarðar sinnar og vissu ekki til þess að neitt markvert hefði gerst í nágrenninu. Öllum að óvörum birtist þeim engill sem sagði að þeir skyldu ekki vera hræddir lengur, því að að frelsarinn væri fæddur í borg Davíðs. Og loftin öll fylltust af englum sem sungu Guði dýrð og fluttu fagnaðarboðskapinn um frið á jörðu.

Englar eru á listaverkum málaðir
eins og menn með geislabaug
Og stundum eins og lítil, þybbin börn.
Ég hef aldrei séð svoleiðis engil,
en ég hef fundið fyrir þeim og
þeir hafa komið mér að óvörum.
Englar gera menn stundum hrædda
en koma þeirra er gjarnan gagngert
tengd því að segja fólki
að það þurfi ekki lengur að vera hrætt.
Ég hef túlkað andartök og atvik
sem heimsóknir engla
og fundið ummerki um þá
þegar ég hef þurft á þeim að halda
jafnvel án þess að vita af þörf minni.
Á þessari aðventu hef ég hitt allnokkra engla,
sem leitast við að hjálpa þeim sem minna mega sín
og bera gleði-, uppörvunar- og friðarorð
þangað sem þörf er á.
Og ég hef líka hitt engil í fuglslíki.
Angelos á grísku merkir sendiboði
Sá sem kemur með merkilegar og óvæntar fréttir
Fréttir sem bæði vekja hræðslu
af því að þær eru óvæntar
Og hjálpa til við að lægja hræðslu
yfir öllu því sem steðjar að í einu lífi.
Merkur guðfræðingur hefur talað um
að englar séu fyrst og fremst táknmyndir
um návist, frið og forsjón Guðs.
Engill Drottins er birtingarmynd Guðs
á hverju því formi sem manneskjurnar
geta skilið og tengst.
Þess vegna eiga englarnir sér ekki
ævisögur og tilvist eins og mennirnir,
þótt sumir eigi nafn.
Þeirra hlutverk er að miðla ljósi,
skilboðum um birtu og gleði inn í heim
sem of oft gleymir sínu eigin hugarflugi,
sinni eigin birtu,
gleymir því að leyfa blíðu dýrinu í sér
að elska það sem það elskar
og finnur engan til að deila einmanaleika sínum,
erfiðleikum og örvæntingu með.

Engillinn er er þannig eins og ljóskristall
sem safnar í sig ljósinu
Og sendir það frá sér aftur
í nýjum, sterkum og ótrúlega fjölbreyttum myndum,
Engill sýnir okkur margbreytileika ljóssins
lætur okkur taka eftir ljósinu.

Engillinn er það sem hjálpar okkur
til að endurskoða aðstæður okkar
út frá nýju sjónarhorni
greina möguleika í erfiðri stöðu
finna æðruleysi, kjark og vit
til að halda áfram inn í nýtt ár.
Englarnir eru alls staðar og hvergi
Þeir mæta okkur í óteljandi atvikum
og við tökum oft ekkert eftir þeim.

Hirðarnir í sögunni tóku eftir englinum.
Þeir upplifðu englasönginn,
trúðu því að Messías hefði loksins fæðst
að Guð hefði vitjað Ísraelsþjóðarinnar
með barninu sem spáð hafði verið fyrir um.
Og uppgötvun þeirra leiddi þá að hrörlega fjárhúsinu
með nýfæddum frelsaranum í jötunni.
Ég velti því fyrir mér
hvort englarnir hafi farið víðar um Betlehem
þessa nótt.
Kannski voru fleiri þungbúnir einstaklingar
á kreiki í borg Davíðs
sem ekki tóku eftir englinum
lásu ekkert nýtt út úr skilaboðunum
voru hvorki hrædd
Né heyrðu að nú þyrftu þau aldrei að hræðast meir.
Kannski sáu þau aðeins gæsahóp
fljúga yfir hæðirnar í kringum Betlehem.
Kannski kom engillinn líka í heimsókn
til gistihúseigandans
og fjárbóndans
og konunnar sem bakaði brauðin
kannski voru það hirðarnir einir
sem voru nógu barnslegir í sér
til að sjá engil þar sem aðrir sáu ekki neitt
veittu enga athygli
og kærðu sig ekkert um.
Kannski fór fæðing frelsarans
gersamlega framhjá þeim.
Það voru hirðarnir sem uppskáru gleðina og friðinn
sem fylgir því að eiga Jesúbarn að annast um.
Það voru hirðarnir sem upplifðu helga nótt,
Sindrandi fegurð og dásamlegan englasöng,
Þar sem aðrir kunna að hafa séð
Einungis enn eina ískalda desembernótt í myrkrinu.

III.

Á meðan heldur veröldin áfram.
Á meðan halda sólargeislar og tærar
glerperlur regnsins áfram að líða
yfir landslagið,
yfir slétturnar og djúpa skóga,
fjöllin og árnar.
Á meðan eru villigæsirnar,
hátt á bláum og tærum himni,
á heimleið á ný.

Ég er á þeirri skoðun
að gæsin sem ég mætti við Tjörnina um daginn
hafi verið engill.
Ég veit ekki skilaboðin sem engillinn kom með
Kann engin skil á hvellu garginu sem lét mig hrökkva í kút.
Ég veit það eitt að eitthvað henti mig
við Tjörnina um daginn
og það sem gerðist var gott og öruggt
og hjálpaði mér að fela jólin Guði
hlæja að gæsinni í staðinn fyrir
að stressa mig yfir jólunum
eða erfiðleikum og önnum á nýju ári.
Ert þú að leita að hinu óvænta
í hinu gamalkunna í kvöld, kæri kirkjugestur?
Hefur þú húmor fyrir gæsum
Og finnst gott að horfa í augun á englum?

Ég er ekki að meina að gæsir
séu englar í dulargervi.
Ég er ekki að meina að allar gæsir
séu í rauninni englar.
Ekkert af þessu eitt og sér eru englar.
Allt, að þessu meðtöldu hefur möguleika
á að vera öðrum engill.
Tákn um návist Guðs
Og hugarflug heimsins sem gefur sig þér.

Stundum verða óvænt atvik svo dýrmæt og sterk
í einfaldleik sínum.
Eins og sú gjöf að horfa litla stund
í augu skepnu
Sem er allsendis ólík mér,
Sem aðeins gefst mér litla stund,
Áður en hún tekur flugið út á Tjörnina
og er mér tákn um heim
sem er stærri og meiri
en vangaveltur mínar um allt
sem ég þurfti að gera fyrir jólin.

Ég las í augum þessarar furðuveru í fiðurkápunni,
með brjóstið hvíta og í bleiku stígvélunum
eitthvað styrkjandi,
heilnæmt og gott um fjölskyldu alls lífs,
sem ég tilheyri
og sem þú tilheyrir
en hvorugt okkar stjórnar,
og um góða aflið
sem tengir saman þessa fjölskyldu.
Ég fann
hvernig jólin strukust við mig litla stund
Áður en þau flugu yfir Tjörnina.

Við eigum jól,
ekki af því að við séum svo góð og höfum afrekað svo mikið,
Heldur vegna þess að heimurinn og Guð gefa sig okkur
hugarflugi okkar
og hæfileikum til mennsku,
gefur okkur tækifæri til að hugsa málin upp á nýtt,
að ganga nýjan veg
upplifa og gefa nýja gæsku og ný tækifæri
sjá engla þar sem aðrir sjá bara skugga og svartnætti
eiga nýtt upphaf
og ný jól
taka á móti hinu óvænta
eiga frið
eiga barn
upplifa Guð í upphæðum og velþóknun yfir mönnunum
eins og forðum í bænum Betlehem.

„Verið óhrædd, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs.“

Og þessi boðskapur frá Betlehem
kallar til þín eins og gæsirnar,

hvellt og upplífgandi-
tilkynnir þér aftur og aftur
þinn stað í fjölskyldu alls
lífs.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Myndin er af grágæsum er tekin af Wikipedia og er eftir Michael Maggs, Wikimedia Commons

Mæðravernd og Meistari Eckhart

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

I.

Aðventan er runnin upp, þessi undursamlega og annasama tíð þegar við tökum á móti jólunum. Jólalögin taka öll völd í útvarpinu, hveitið og sykurinn hverfur af búðarhillunum og jólaljósin lifna hvert af öðru. Við erum ljósfíkin í svartasta skammdeginu og aðventan og jólin lýsa upp íslenskan vetur.

Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins,

segir í seinna ritningarlestri dagsins, og ljósastefið í upphafi aðventu er sannarlega engin tilviljun. Siðir og venjur breytast. Í bernsku minni var aðventan tími mikilla anna á heimili, baksturs og þrifa. Nú finnst mér meira lagt upp úr því að njóta aðventunnar sjálfrar, borða góðan mat, baka með börnum og taka þátt í uppákomum með þeim sem tengjast jólunum.

Hvað einkennir hinn trúarlega undirbúning aðventunnar? Hver eru hin kristnu hertygi ljóssins, hin kristnu jól? Fyrri ritningarlesturinn fjallar um undirbúning. Þar segir:

Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.

Þetta stef um hjálpræði Síonar er síðan endurtekið í guðspjalli dagins um konunginn Krist sem kemur til hennar. Síon er annað nafn á borginni Jerúsalem og í myndlíkingum biblíuskáldanna er Síon alltaf kona. Og enn hljómar stefið um borgarmúra Síonar í sálminum sem við sungum áðan, “Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt”.

Stef dagsins fjallar því um undirbúning í gleði og von,
að leggjast í vegagerð,
byggja nýjar brýr,
stækka dyrnar og hliðið
svo að frelsarinn komist inn til okkar á jólum.

Jólaundirbúningurinn, tónleikarnir og glaumurinn
lífga upp á svartasta myrkrið í desember.
En hertygi ljóssins, inntak aðventunnar bjóða og kalla fram meira en það.

II.

Um undirbúning og eftirvæntingu aðventunnar má ræða um með margvíslegu myndmáli. Sumt af því höfum við þegar séð í ritningarlestrum og sálmum, myndir af vegum, dyrum og hliðum, þar sem Síon tekur á móti hjálpræði sínu Jesú Kristi. Ein af líkingunum sem gefur mér mest á aðventunni er hugmyndin um að við hvert og eitt fæðum Krist á aðventu. Þessi hugmynd átti sérstaklega vinsældum að fagna á miðöldum.

Þannig talaði meistari Eckhart á þrettándu öld um að mikilvægasta hlutverk kristins fólks væri að bera Guð í heiminn. Eckhart kvengerði hina kristnu manneskju sem er þunguð af Kristi og sagði að hún væri

“frjáls og óháð, án nokkurs sem héldi henni niðri. Hún er jafnnærri Guði og sjálfri sér.”

En Eckhart gengur skrefinu lengra í kvengervingum sínum, því að sköpun og elska Guðs er líka dregin upp með fæðandi móðurlíkingum hjá honum. Eckhart segir:

“Öll gleði Guðs felst í því að fæða. Ekkert sem ég hef frá fæðingu notið verður frá mér tekið nema Guð taki það. Allt sem ég hins vegar nýt fyrir tilviljun og heppni get ég misst. Þess vegna fæðir Guð sjálfan sig í mér, til þess að ég glati Guði aldrei.”

Þannig gerir Eckhart meyfæðinguna að sístæðum atburði,
djúpu táknmáli um eftirvæntinguna eftir Kristi.
Í stað þess að við veltum því fyrir okkur hvort
meyfæðingin standist eftir lögmálum náttúrufræðinnar
þá hristir Eckhart upp í okkur og segir:
“Þið berið þetta barn, það er ykkar að koma því í heiminn.”

Í líkingamáli Eckharts skiptir engu máli
hvort við erum karlar eða konur, börn eða fullorðin,
okkur er öllum treyst fyrir því að fæða Krist inn í þennan heim á jólum,
að búa til rúm fyrir Krist,
að næra Krist
og finna Kristi stað
í okkar annasömu, æstu og undursamlegu veröld.

Og ástæða þess að okkur er treyst fyrir þessu hlutverki
er elska Guðs til okkar.
Guð veit að veröld okkar er ekki fullkomin
og stundum er hún full af óöryggi og synd.

Guð gefur okkur Krist
til þess að við vitum að við séum alltaf í Guðs hendi
og að ekkert geti gert okkur viðskila við þann kærleika.
Þannig heyrir það sem kemur okkur sjálfum vel
og það sem kemur öðrum vel saman.
Guð gefur okkur Krist vegna þess að Guð elskar okkur
og við fæðum Krist öðrum til heilla,
vegna þess að við endurgjöldum þessa ást.

Þungi Krists gerir okkur að betri og heilli manneskjum
í hlýrri tengslum við annað fólk.
Ef það er eitthvað sem jólin og aðventan geta kennt okkur,
Þá eru þær kennslustundir í von.
Ef jólin er fæðingarhátíð, þá er aðventan mæðravernd trúarinnar.

III.

Ég tala um þunga
og oft verður slík gjöf um að elska Guð og náungann þung.
Hún verður þung þegar við hugsum um þau sem líður illa á aðventunni
vegna sorgar, fátæktar og þunglyndis.
Burðurinn verður þungur þegar við kvíðum komandi degi,
kvíðum því að eiga ekki nóga peninga fyrir jólagjöfum, jólafötum og jólamat
og höfum áhyggjur af fólkinu sem við elskum.
Þá verður eftirvænting og hringiða aðventunnar erfið og ergjandi
og okkur langar til að slökkva á jólalögunum
og henda mandarínunum.

Byrðin verður þung þegar ég hugsa um hungrið í heiminum.
Um allan heim er Kristur fæddur á þessari aðventu og oft inn í mikla neyð.
Þess vegna er ég svo þakklát fyrir verk fermingarbarnanna
þegar þau söfnuðu fyrir vatni nú í nóvember.
Sjö og hálf milljón safnaðist, þar af 200 þúsund í Grafarholtinu á einni kvöldstund. Takk kæru krakkar fyrir verkin ykkar!
Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta,
þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka,
gestur var ég og þér hýstuð mig,
nakinn og þér klædduð mig,
sjúkur og þér vitjuðuð mín,
í fangelsi var ég og þér komuð til mín.
Kristur vitjaði ykkar í nóvember og þið gáfuð Kristi hreint vatn að drekka.

IV.

Guð gefur okkur nefnilega ekki Krist fyrir hressa stemmningu á aðventunni.
Hress stemmning er fín og jólaljósin gleðja,
en kristin jól eru meira en það.

Kristin jól eru fæðing Krists í heim og hjarta,
að minnast þess sem Guð hefur gefið okkur,
að tengjast þeim sem í kringum okkur eru
og ganga í von mót því sem framundan er.
Sú von stendur þrátt fyrir þunga, annir, peningaleysi og ergelsi.
Sú von er fyrir hendi
vegna þess að Guð kom auga á okkur fyrst
og það auga er fullt af elsku.

Þess vegna getum við gefið okkur eftirvæntingunni á vald
Og tekið þátt í fæðingu Jesúbarnsins á helgum jólum.
Hún á erindi við okkur öll,
erindi sem tengir okkur saman sem manneskjur
og gefur okkur þrótt til að lifa í krafti, von og trú.
Þess vegna fæðir Guð sjálfan sig í mér, til þess að ég glati Guði aldrei.

Og þannig gjörum við fæðandi dyrnar breiðar og hliðið hátt
inn í hjörtu okkar sjálfra og annarra.
Við leggjum veg og ryðjum grjótinu burt
svo að Kristur geti komið inn um borgarhliðin.
Við leggjum af skammdegið og tökum upp hertygi ljóssins.

Við gerumst “frjáls og óháð, án nokkurs sem heldur okkur niðri.
Við erum jafnnærri Guði og sjálfum okkur.”

Við erum Síon
og hjálpræði okkar kemur.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.