Category: Kirkjumál

Um falskar minningar

Um falskar minningar: Svar ellefu Þjóðkirkjupresta við grein sr. Kristins Jens Sigurþórssonar (Í Fréttablaðinu 29. október 2011)

Síðastliðinn fimmtudag birtist grein í Fréttablaðinu eftir sr. Kristin Jens Sigurþórsson þar sem hann fjallar um reynslusögu Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur. Í greininni segir:

„Það hlýtur að vekja spurningar með öllum þeim sem lesa um minningar Guðrúnar Ebbu hvernig hægt sé að gleyma áratugslangri kynferðismisnotkun og ofbeldi jafn rækilega og hún segist hafa gert.“

Sr. Kristinn Jens ræðir um fákunnáttu fagmanna sem leiði skjólstæðinga sína á villigötur og telur að eftir lestur um falskar minningar sé

„erfitt að verjast þeirri hugsun að Guðrún Ebba sé eitt fórnarlambið í viðbót.“

Okkur sem þetta ritum þykir miður hvernig greinin er sett fram og nefnum þrenns konar ástæður. Þau sem gera upp minningar af kynferðisafbrotum og sifjaspellum upplifa mikla höfnun og sársauka þegar orð þeirra eru sögð marklaus og þau dregin í efa. Við teljum að veigamiklar ástæður þurfa að liggja til grundvallar því að véfengja slíkan vitnisburð.

Í öðru lagi teljum við að þær „hugsanir“ sem sr. Kristinn Jens fær vart varist um að sálfræðingurinn Ása Guðmundsdóttir hafi gert fórnarlamb úr skjólstæðingi sínum nálgist atvinnuróg.  Að okkar mati þarf gild rök til að kasta rýrð á greiningar sálfræðings með þeim hætti sem hér er gert. Við álítum að umræða um sálfræðigreiningar þurfi að fara fram á faglegum nótum af til þess bærum sérfræðingum.

Í þriðja lagi er saga Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur sögð í skugga mistaka ýmissa kirkjunnar þjóna í kynferðisafbrotamálum tengdum nafni Ólafs Skúlasonar og sem eru tilgreind í skýrslu Rannsóknarnefndar Kirkjuþings. Þjóðkirkjan sem stofnun hefur misst traust sem hún áður naut. Því teljum við særandi að starfandi prestur í Þjóðkirkju Íslands skuli draga reynslu Guðrúnar Ebbu í efa í blaðagrein. Þjóðkirkjan þarf að endurvinna traust með faglegum vinnubrögðum og af nærgætni við það hugrakka fólk sem opinberar reynslu sína af kynferðisafbrotum. Við teljum grein starfsbróður okkar ekki gott veganesti á þeirri vegferð.

Auður Inga Einarsdóttir, Bjarni Karlsson, Guðmundur Örn Jónsson, Guðrún Karlsdóttir, Hólmgrímur E Bragason, Íris Kristjánsdóttir, Jóna Lovísa Jónsdóttir, Kristín Þórunn Tómasdóttir, Sigfinnur Þorleifsson, Sigríður Guðmarsdóttir, Svanhildur Blöndal.

Höfundar eru prestar í Þjóðkirkju Íslands

Undanlit, eftirlit og Guðrún Ebba

(Þessi grein birtist líka í DV í gær 12. október 2011).

Frásögn Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur  Ekki líta undan  kom á sunnudaginn og kallar á tvenns konar uppgjör. Í bókinni sem og Kastljósviðtali á dögunum segir hún frá af háttvísi, skýrleika og án hefndar. Guðrún Ebba segir sögu sína í forvarnarskyni.  Hún hefur leitað sér hjálpar hjá sálfræðingi,  fjölskylduráðgjafa og Stígamótum og það liðsinni hefur staðið allar götur frá því að hún hóf að gera upp sín mál fyrir átta árum. Saga Guðrúnar Ebbu kallar á persónulegt uppgjör um hvort lesandinn treysti sögu hennar og þeim stuðningsaðilum sem standa við bakið á henni og síðan í framhaldinu hvernig lesandinn muni taka á öðrum frásögnum af ofbeldi gegn börnum sem koma upp í umhverfi sínu.

Í lokaorðum bók sinnar segir Guðrún Ebba að kirkjan þurfi að horfast í augu við afleiðingar þess að hafa kosið föður hennar til æðstu metorða. „Ósk mín er sú að upp úr þeirri vinnu rísi ný kirkja með ný viðhorf og vinnubrögð. Ekki líta undan.“ (Elín Hirst:  Ekki líta undan: Saga Guðrúnar Ebbu dóttur Ólafs Skúlasonar biskups, 231). Seinna uppgjörið sem ég vísaði til við lestur bókarinnar er þannig uppgjör Þjóðkirkjunnar og presta sem stéttar til að endurheimta traust. Víða má sjá merki um andúð á kirkju og kirkjunnar mönnum á blogg- og samfélagssíðum þar sem jafnvel er haft á orði að prestar séu upp til hópa glæpamenn og barnaníðingar.  Mikill meirihluti presta vinnur verk sín af umhyggju og fagmennsku fyrir þeim sem þeim er trúað fyrir, en vígðir þjónar kirkjunnar njóta ekki lengur þess óskoraða trausts sem þeir áður höfðu. Önnur trúfélög búa einnig við svipaðar aðstæður og óorð eins flyst yfir á annan. Engin stofnun getur lengur látið eins og kynferðisofbeldi geti ekki þrifist innan vébanda hennar eða að starfsmenn hennar séu sjálfkrafa yfir slíkt hafnir.

Kirkjuþing skipaði nefnd í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Kirkjuþings í júní s.l.  Hefur Kirkjuþingsnefndin kallað ráðgjafa á sinn fund og staðið að sátt við konurnar sem kærðu biskup árið 1996. Eftir stendur hin stóra skuld Þjóðkirkjunnar við Guðrúnu Ebbu. Þjóðkirkjan tók að sönnu ekki þátt í ofbeldi föður gegn barni. Staða og ósnertanleiki þessa föður sem prests og kennara byggðist hins vegar á valdi hans sem kirkjuleiðtogi. Vald Ólafs undirstrikuðu og tvíefldu prestar Þjóðkirkjunnar og örfáir leikmenn með atkvæði sínu í biskupskjöri 1989.  Blett þennan á dómgreind kirkjunnar manna hefði yfirstjórn kirkjunnar getað kannast við og bætt fyrir árið 2009 með því að leiðbeina Guðrúnu Ebbu og hlutast til um það að hún fengi úrlausn mála sinna. Þess í stað sat biskup Íslands á málinu, hvatti til þess að hún skrifaði bréf og stakk svo bréfinu ofan í skúffu. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarnefndar kirkjuþings bar biskup Íslands ábyrgð á slælegri stjórnsýslu í málefni Guðrúnar Ebbu. Hann hefur ekki beðist afsökunar og vörn hans felst í að „það voru mistök við skráningu“ (DV 15. júní 2011). Vegna óhönduglegra afskipta sinna af Ólafsmálum 1996 og ekki síður vegna mistaka í meðförum máls Guðrúnar Ebbu 2009 hefur Karl biskup orðið eins konar stofnanaleg táknmynd vangetunnar við að gera upp kynferðisafbrot í huga almennings. Endurheimt trausts er stærsta viðfangsefni Þjóðkirkjunnar á komandi árum. Það verður ekki gert með Karl í brúnni og því er það mikilvægt að tilkynnt verði eigi síðar en á Kirkjuþingi í nóvember að nýrrar forystu Þjóðkirkjunnar sé að vænta.

Hið jákvæða við slíka krísu er að kirkjur sem og allar aðrar stofnanir samfélagsins geta endurheimt traust fólks með öflugu eftirliti með þeim sem sinna sálgæslu- og æskulýðsstarfi. Á þriðjudag og miðvikudag í næstu viku verða haldin málþing og námskeið um þetta málefni í Reykjavík, með heimsþekktum fyrirlesara Marie Fortune, en hún er sérfræðingur í kirkjulegu ofbeldi. Ætli Þjóðkirkjan ætli sér að endurheimta traust landsmanna eftir að sterkar vísbendingar hafa borist um að fyrrverandi leiðtogi hennar hafi verið barnaníðingur ætti sérhver kirkjuvörður, prestur, djákni, biskup, barnakórstjóri og æskulýðsfulltrúi á landinu að mæta á námskeiðið í boði sóknarnefnda og héraðssjóða. Það er ekki nóg að tala um að vera á móti kynferðisofbeldi, við verðum að þekkja birtingarmyndir þess og mýturnar sem leiða til þess að slík mál eru kæfð og bæld í fjölskyldum, stofnunum og samfélagi.  Aðeins með öflugum forvörnum getur ósk Guðrúnar Ebbu um nýja kirkju með ný viðhorf og vinnubrögð orðið að veruleika. Kirkju sem ekki lítur undan.

Að heyra til úlfynjum: Morgunblaðið 13. september 2010

Nýlega birtist pistilinn „Úlfar í prestahjörð“ eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur hér í Morgunblaðinu. Úlfarnir sem Kolbrún vitnar til eru framgjarnir prestar, sem reyna að klekkja á biskupi vegna óánægju með stöðuveitingar og rækta hvorki sannleika, samheldni né samstöðu. Mér að vitandi hefur aðeins einn starfandi prestur lýst því yfir að biskup Íslands eigi að stíga til hliðar. Sami prestur höfðaði mál gegn Þjóðkirkjunni vegna stöðuveitingar fyrir sex árum. Ég er sá prestur og álykta því að úlfarnir ónafngreindu rúmist flestir í minni persónu. Ég tel að biskup Íslands eigi að víkja úr embætti vegna þess að hann hefur verið borinn þungum sökum um þöggun. Kirkjuþing mun innan tíðar skipa rannsóknarnefnd til að skoða viðbrögð kirkjunnar þegar Ólafur Skúlason var sakaður um kynferðisbrot. Nefndin þarf svigrúm til þessarar vandasömu rannsóknar og því óheppilegt ef einn af þeim sem sætir rannsókn gegnir valdamesta embætti kirkjunnar á meðan. Ég tel einnig að biskup eigi að víkja vegna óheppilegra ummæla hans í fjölmiðlum þegar ásakanir á hendur fyrrum biskupi komu fram á nýjan leik. Ég hef ekki kallað eftir afsögn biskups, heldur beðið um að hann víki úr embætti. Því veldur ekki persónuleg óvild, eða þörf fyrir að ýlfra í fjölmenni, heldur vilji til þess að rannsóknarnefnd Kirkjuþings geti starfað með trúverðugum hætti.

Dómsmálið vegna stöðuveitingar sendiráðsprests í Lundúnum virðist í pistlinum haft til marks um hefnigirni úlfsins. Mál mín unnust á báðum dómstigum og má lesa dómana á heimasíðum Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar. Þjóðkirkjan var dæmd fyrir að brjóta jafnréttislög og gert að borga skaðabætur, en upphæð var ekki tilgreind í dómnum. Dómkvaddur matsmaður var því kallaður til og Biskupsstofa kallaði eftir yfirmati. Bótakrafa mín var byggð á matsgerðunum og vannst málið á varakröfunni. Hvorugur deiluaðila áfrýjaði seinni dómnum og voru mér greiddar skaðabætur í samræmi við hann. Dómurinn hefur þegar haft fordæmisgildi og áhrif á gang jafnréttismála innan kirkjunnar. Ég á ekki harma að hefna vegna stöðuveitingar í London, enda hefur tjón mitt verið viðurkennt af dómstólum og skaði minn greiddur.  Málareksturinn kostaði mig andvökunætur á sínum tíma, en hann gaf mér einnig sterkari rödd og mál til að berjast fyrir því sem ég tel í anda sannleikans.

Kolbrún telur að úlfarnir í prestahjörðinni elski ekki sannleikann og virði ekki samstöðu og samheldni. Ég hygg að samstaða stéttar minnar sé mikil, en hinum prestvígðu ber ekki aðeins skv.siðareglum að virða kollega sína, heldur ala önn fyrir þeim sem eru ung og órétti beitt. Til að mæta því skylduboði þarf stundum að taka sannleikshag alls úlfaflokksins fram yfir samheldni hinna ráðandi úlfa. Ég var ein ellefu presta sem rituðu Ólafi Skúlasyni bréf 1996 og báðu hann að fara í leyfi meðan mál hans yrði rannsakað og undirbjó með fleirum tillögu á Prestastefnu sama ár um að hann viki úr embætti. Ég vildi að ég hefði gert meira og sinnt konunum sem hann braut gegn. Ég hef síðustu fjórtán ár barist fyrir rétti samkynhneigðra til kirkjulegrar vígslu og tók þátt í baráttu 111 prests, djákna og guðfræðings fyrir einum hjúskaparlögum  í sumar. Ég hef talað fyrir umhverfisverndaráherslum og barist fyrir jafnrétti kvenna og karla á vettvangi kirkjunnar. Ég lýsti yfir stuðningi við biskup Íslands þegar hann vék Selfossklerki úr embætti síðastliðið haust vegna ósæmilegrar hegðunar þess síðarnefnda gagnvart ungum sóknarbörnum sínum. Ég vil að yfirstjórn kirkjunnar geri upp skuld sína við konurnar sem hún brást árið 1996.

Eitt megineinkenni úlfsins er tryggð og umhyggja fyrir öllum meðlimum flokksins, stórum jafnt sem smáum. Úlfur er tvíbent tákn í Biblíunni. Það vísar að sönnu til vargsins sem leggst á lambið (sem í líkingu Kolbrúnar virðist einkum vera biskup Karl). Úlfurinn er líka spámannlegt tákn fyrirmyndarríkisins og friðarins. Þegar úlfurinn liggur hjá lambinu kemur saman hin villta mergð og hin tamda hjörð í frelsi og friði. Í hinni messíönsku von er því ekki alvont að heyra til úlfynjum.

Sannleiksandi og sannleiksnefnd. Fréttablaðið 10. júní 2011

Hvítasunnan er hátíð heilags anda, sem er kærleiksönd, sannleiksandi, friðarband og einingarafl. Hildigerður frá Bingen (1098-1179) orðaði lofgjörð til heilags anda fagurlega í sálmi sínum: Ó Guð, kraftsins iða, sem streymir yfir allt/ þú tengir allar þjóðir./ Vindar hefja sig til flugs, steinarnir safna vætu/ og jörðin svellur af lifandi grænsemd. Hvítasunna er hátíð kirkjunnar og oft hefur það samfélag endurspeglað kraftsins iðu sem tengir það saman. Kirkja í sinni víðustu mynd er ekki stofnun og ekki hús, heldur hreyfiafl, knúið áfram af lifandi grænsemd. Stundum hafa menn gleymt að án sannleika verður enginn friður og að án kærleikans verður enginn eining.

Í dag kynnir rannsóknarnefnd um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana um kynferðisbrot fyrrverandi biskups niðurstöðu sína. Tilfinning mín gagnvart því sem koma skal einkennist jafnt af stolti og skömm. Ég er stolt yfir því að sannleiksnefnd og sannleiksskýrsla hafi orðið að veruleika, að Kirkjuþing sem skipað er að meirihluta leikmönnum sem eru fulltrúar safnaðanna hafi tekið forystu í málinu og að þingið komi saman af þessu tilefni 14. júní. Ég er líka full af skömm yfir því að þörf hafi reynst á slíkri nefnd og skýrslu.  Ég hef þær væntingar til þingsins að þar tali leikir og lærðir saman í anda og sannleika og í lifandi kirkju. Kirkjuþing hefur ekki agavald innan hins þjóðkirkjulega ramma, en raddir þær sem koma frá söfnuðunum og hinnar vígðu þjónustu geta hljómað af festu og yfirvegun um þetta mál og þannig haft mikil áhrif. Atburðir og orð næstu viku fá úr því ráðið hvort verði ofaná, stolt yfir framförum eða skömm yfir mistökum.

Hvítasunnan er hátíð helgrar andar, hátíð sannleiksandans. Á Íslandi í ár verður hún líka helgi sannleiksnefndarinnar, þar sem reynt verður að gera erfiðri sögu skil og þar sem hin veiku og smáu hafa rödd og mál til jafns við hin valdamiklu og vel tengdu.  Öll eru þau kirkjan, og á þeim gæti öndin í sannleika byggt lifandi grænsemd.

Höfundur er sóknarprestur í Reykjavík og doktor í guðfræði.