Flokkur: Jafnrétti og mannréttindi

Mamma Malaví

Ræða á aðfangadagskvöld jóla 2013 í Guðríðarkirkju

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Sólin er í hádegisstað og bíllinn skröltir eftir veginum á leiðinni til Mangoche suður af Malaví vatni. Ferðalangurinn horfir stóreygur á það sem fyrir augun ber. Hann vann leik í endaðan nóvember þar sem Malavíferðin var í verðlaun og er nú kominn yfir á suðurhvel jarðar í fyrsta sinn á ævinni í boði Vífilfells og Rauða krossins.

Í Malaví eru tvær árstíðir, hin þurra og hin raka og nú er hin raka tekin við. Það er allt morandi í geitum og maísökrum og ilmandi keimur berst frá mangó og bananatrjánum. Blómskrúð sumarsins er undarleg sjón fyrir Íslending um miðjan desember, sem er vanur skammdegi og snjó. Og áfram rennur bíllinn. Bílstjórinn hans er skemmtilegur maður, sem segir þeim ýmislegt frá sögu héraðsins og landsins síns. Hann á heima þarna rétt hjá og býður heim til sín. Hann sagði í bílnum að hann ætti tvö börn, en litlu börnin sem taka á móti Íslendingnum heima hjá leiðsögumanninum er fjögur. Það er vegna þess að tvö af börnunum eru börn systur bílstjórans sem dó úr AIDS ásamt manni sínum. Þetta segir bílstjórinn Íslendingnum eins og það sé venjulegt og sjálfsagt að börn missi báða foreldra sína og endi heima hjá ættingjum. Og það rennur upp fyrir ferðalangnum unga að á þessum slóðum geyma flestar fjölskyldur slíkar sögur.

Malaví sú sem hann sér í Mangoche er fallegt og fátækt land. Hann hrífst af þessu fólki sem er svo brosmilt og glatt þrátt fyrir örbirgð sína. Meðalaldur karla og kvenna í Malaví er 55 ár, en um og yfir 80 ár hjá okkur. Hann fær að heimsækja barnaskóla með þúsundum barna. Við barnaskólana hefur Rauði krossinn á Íslandi verið að byggja vatnsbrunna. Brunnarnir sjá börnunum fyrir hreinu vatni og verða til þess að stúlkurnar sem áður þurftu að bera vatn allan liðlangan daginn geta frekar farið í skóla en að bera brúsa á veikum herðum. Rauði krossinn er líka að byggja hreinlætisaðstöðu við skólann, svo að börnin geta farið á klósett. Þessi salernisaðstaða gerir það líka að verkum að stúlkurnar haldast í skólanum, því að þá þurfa þær sem eru orðnar kynþroska ekki lengur að halda sig heima þegar þær hafa blæðingar.

Hann ekur yfir ána Shire og klífur fjallið Namizimu austur af Mangoche með Brave leiðsögumanni. Af Namizimu er gríðarlegt útsýni yfir Malavívatn í norðvestri og Malombevatn í suðvestri. Svæðið kringum Namizimu er þjóðgarður og þar nýtur náttúran sín í allri sinni dýrð, eini hluti Malaví, sem er ekki þéttbyggður, því að Malavíbúar eru fimmtán milljónir talsins og lifa flestir í sveitum við kröpp kjör.

Og svo er hann kominn aftur til höfuðborgarinnar Lilongwe, þar sem Íslendingafélagið í Malaví heldur upp á litlu jólin. Alls staðar eru Íslendingar og þar sem Íslendingar eru þarf að halda upp á jól, þó að það sé 30 stiga hiti úti, eðla hangandi í loftinu og api í garðinum. Íslendingarnir í Malaví eru flestir tengdir þróunarverkefnum og vinna fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Rauða krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar. Sumir eru að kenna Malavímönnum nýja tækni við fiskveiðar, aðrir veita ráðgjöf um virkjun jarðhita í Malaví í samvinnu við norræna þróunarsjóði. Sumir eru að byggja brunna eða vinna að verkefnum í heilsugæslu og skólamálum . Og þennan dag koma þau saman og borða pönnukökur að íslenskum sið og spyrja frétta ofan af Íslandinu góða.

Hann afhenti gjöf upp á 250 þúsund sem að hluta til innihélt tombólufé frá krökkum og gjafafé frá Hafnafjarðardeild Rauða kross Íslands. Það eru margir krakkar sem halda tombólur fyrir Rauða krossinn og safnast þegar saman kemur. Ákveðið var að nota peningana til að ljúka við að leiða rafmagn á nýja fæðingarheimilið, sem einnig er byggt fyrir peninga frá Íslandi. Þannig verður góður hugur frá Íslandi til þess að konurnar þurfa ekki að fæða í myrkrinu og að hægt sé að koma við einhverri tækni til að auðvelda þeim stríðið. Þær eru mæður og flestar barnungar, og Malavíbúar tala líka um landið sitt sem móður. Þau syngja á chichewa  sem tungumál bantúmanna og opinbert tungumál í Malaví: Mlungu dalitsani Malaŵi

Ó Guð, blessaðu landið okkar Malaví
og láttu það vera land friðarins,
bæg burtu öllum óvinum
hungri, sjúkdómum og öfund.
Sameina hjörtu okkar
svo við verðum óttalaus.
Blessaðu alla leiðtoga okkar,
og móður Malaví. 

II.

Sameinaðu hjörtu okkar svo að við verðum óttalaus og blessaðu móður Malaví, syngja Malavíbúar. Láttu landið okkar vera land friðarins.

Tómas Guðmundsson orti eitt sinn um það hve hjörtum mannanna svipar saman
í Súdan og Grímsnesinu og eflaust mætti yfirfæra þau orð yfir á Grafarholt og Malaví. Hjörtu mannanna eru eins í margbreytileika sínum. Við þráum frið. Við viljum vera óttalaus og laus við hungur, sjúkdóma og öfund. Og á helgum jólum verður þessi tilfinning um samtengingu hjartnanna sterkari en oft áður. Við hugsum til þeirra sem horfnir eru og rifjum upp aldagamlar jólavenjur sem tengja okkur við fyrri tíma kynslóðir í þessu landi. Við hugsum til þeirra sem líða skort og ég hef fundið fyrir þessum hlýhug til nágrannanna síðustu vikur þegar við höfum verið að safna fyrir líknarsjóðinn hér í hverfinu. Og jólin eru líka sú hátíð þar sem við finnum til samkenndar með öllu fólki jarðar sem býr við hættur og neyð og skort. Jólin eru þannig hátíð sem samtengir hjörtun, fléttar saman fortíð og nútíð og vefur listilega saman hið þjóðlega og hið alþjóðlega.

Við syngjum sömu jólasálmana ár eftir ár. Sá elsti sem við syngjum er frá sextándu öld og hinir flestir ortir á nítjándu öldinni. Við rifjum upp það gamla og syngjum með orðum formæðra okkar og feðra um fátæka hreysið sem Jesúbarnið fæddist í og fátæku meyna sem að fæddi Guð. Sálmarnir voru ortir á öld sem hafði sterka skírskotun til fátæktar, þar sem Íslendingar bjuggu flestir í sveitum eins og Malavímenn nú, þegar við þekktum ekki leiðir til að virkja jarðhitann í iðrum jarðar, þegar tæknin við fiskveiðarnar var lítil sem engin, þegar holdsveikin var alvarlegt vandamál á Íslandi, þegar fólk dó úr hungri og flýði til Vesturheims undan fátæktinni heima. Þegar við íhugum aðstæður þeirra Íslendinga sem fyrst sungu jólasálmana okkar, þá vitum við að fátæktin er ekki eitthvað sem við getum stungið undir stól á jólunum. Hún er hluti af jólasögunni. Lífsbarátta fátæks fólks er hluti af sögu okkar sem þjóðar. Og kannski finnum við einmitt þessa tengingu við þjóðina okkar, það sem hún er og var og verður, þegar straumar hins þjóðlega og hins alþjóðlega falla saman í jólahaldi okkar.

Þessi samtenging hins þjóðlega og alþjóðlega á jólum kom einmitt sterkt fram í skemmtilegri frétt fjórum dögum fyrir jól. Þar var birt mynd af jólasveininum Skyrgámi á rauðum nærbuxum. Hann var að fara í jólabaðið með Jónasi Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfs Íslands. Jólasveinarnir hafa nefnilega verið að gefa mikið fé til líknarmála á undanförnum árum og á myndinni sést Skyrgámur afhenda Jónasi svarta tösku fleytifulla af peningum fyrir Hjálparstarfið. Kannski fara þessir peningar til þess að grafa brunna í Malaví og gefa litlum börnum hreint vatn og auknar lífslíkur eða til að styðja íslensk börn sem búa við bág kjör. Það er að segja ef þeir hafa ekki misst peningana ofan í heita pottinn! Stundum er maður þjóðlegastur þegar maður á hjarta fyrir allan heiminn og þetta vita jólasveinarnir.

Þegar við horfum til móður Malaví þekkjum við aftur Ísland fyrri tíðar, sem við tölum líka um sem móður, sem ber okkur á brjóstum sínum. Þessar tvær virðulegu mömmur, mamma Malaví og mamma Ísland, (stundum nefnd Fjallkonan) heilsa hvor annarri af norður og suðurhveli með börnin sín hangandi í pilsunum. Þær heilsa af virðingu, þekkja erfiða nýlendusögu hvor annarrar. Og þegar önnur berst í bökkum, þá hjálpar hin af því að hún veit hvað það er að líða skort.

III.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð.

Betlehem er borgin sem við stefnum til á jólum hverjum
staðurinn þar sem ævintýrin verða til
þar sem konan fæðir frelsarann og karlinn klippir á naflastrenginn
þar sem dýrin fagna
þar sem fátækir smalar og erfiðisfólk verður vitni að undri jólanna
þar sem könnuðir og hugsuðir gefa gull, reykelsi og myrru.
þar sem náttmyrkrið lýsist upp af skæru ljósi
og englarnir syngja í ljósinu:

Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.

Beit Lechem er hebreska og þýðir hús brauðsins.
Á jólum beinum við sjónum að húsi brauðsins
að húsi gnægtanna og leitum þangað eftir öryggi og gleði, friði á jörðu, jafnvægi, kærleika og ljósi.

Og þá er ekki úr vegi að við spyrjum hvert það fólk sé sem við kjósum að eyða með jólum, hverja við köllum til inn í fögnuð og frið og hverjum við gleymum og leiðum hjá okkur. Jólin eru bara einu sinni á ári en áhrif þeirra geta verið langvarandi, ef við leyfum þeim það. Þá tekur jólagleðin ekki enda á þrettándanum, þó svo að ljósin og trén séu tekin niður, heldur varir í janúar og febrúar og alla hina mánuðina líka.

Við varðveitum best fögnuð jólanna með gestrisni og opnum huga, með því að sameina hjörtu okkar, svo við verðum óttalaus og friðsöm. Og þess vegna skiptir þessi sameining hjartnanna á jólum svo óendanlega miklu máli. Við erum næmari fyrir neyð náungans á jólum en oft áður og fúsari til að koma henni og honum til hjálpar. Við skynjum hluti sem við erum oft lokuð fyrir eða leiðum hjá okkur, tilfinningar og sorgir annars fólks. Kannski erum við stundum betri manneskjur í desember heldur en hina dagana þrátt fyrir fýluköst í jólahreingerningum, skammdegisdrunga og ergelsi þegar við erum að setja upp allar seríurnar. Og einhvern veginn ættum við að finna leiðir til að viðhalda þessari meðlíðunarkennd. Við ættum að leita leiða til að viðhalda gestrisninni og gæskunni hina ellefu mánuði ársins líka.

Við sem manneskjur berum siðferðilega ábyrgð á öðrum manneskjum og við höfum ekki efni á örbirgð heimsins. Og þess vegna skiptir það máli, þegar við vegsömum frelsarann litla í jötunni sinni, innan um áburðardýr, flækingsforeldra og fátæka smala, að við upphefjum ekki fátæktina sem við syngjum um í sálmunum. Það er nefnilega ekkert krúttlegt við að vera fátækur. Það er í anda guðspjallsins að við berjumst á móti fátæktinni með gjafmildi, vandaðri þróunaraðstoð og samstillingu hjartnanna og horfumst í augu við þær manneskjur sem búa við sístu kjörin á jörðu. Þá fyrst skynjum við stráin í jötunni, götin á veggjunum, forina á gólfinu þar sem María fæddi barnið sitt og slitin klæði hirðanna, staðinn þar sem ljós jólanna birtist og englarnir sungu.

Það er vegna jólagleði sem tekur aldrei enda, sem við sinnum þróunarhjálp, vegna þess að jólin hjálpa okkur að horfast í augu við eigin mennsku og tengir okkur við mennsku annarra. Þessi þróunarhjálp byggist fyrst á fremst á forvörnum, að því að styrkja innviði og að hjálpa öðru fólki til sjálfshjálpar svo að það lendi ekki í vergangi. Hún byggir á því að leita leiða til þess að vandamálin verði viðráðanleg. En slík forvarnarverkefni njóta ekki alltaf athygli heimsbyggðarinnar og sumir telja ranglega að hún skili ekki neinu. En hún skilar miklu. Þjóðir heims hafa tekið höndum saman við að draga úr AIDS faraldrinum í Afríku og þannig sjá til þess að börn á borð við litlu systurbörn bílstjórans sem keyrði unga Íslendinginn í Malaví á dögunum, þurfi ekki að standa uppi foreldralaus og allslaus. Það hefur að miklu leyti tekist að draga úr eyðnismitun í Afríku. En fólk sem ekki fékk AIDS er ekki endilega frétt. Klósett við barnaskóla eru yfirleitt ekki frétt. Ljós í áður almyrkvaðri fæðingarstofu þykir yfirleitt ekki fréttnæmi- nema þeim sem eignast hreint vatn, salernisaðstöðu og ljós til að fæða við.

Íslendingurinn ungi kveður Malaví og flýgur yfir Mangochi á leiðinni aftur til baka. Hann vonar að Malavíbúar megi lifa óttalausir og í friði og lausir við hungur, Mlungu dalitsani Malaŵi. Og einn dag, af því að hann kom færandi hendi með gjafir úr norðri með tombólufé gjöfulla barna og gjafir frá fólki með stórt hjarta, einn dag ekki í ýkjalangri framtíð þá fæðir hún María barn í litlu og fátæklegu húsi. Það er dimmt í kringum hana og hún finnur fyrir hönd Jósefs í lófa sér sem hjálpar henni að þola sársauka hríðanna. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þau, vegna þess að vinafólk í norðri hefur reynst þeim engill Drottins. Þetta fólk sem þau þekkja ekki hafa leitt rafmagn í fæðingarstofuna svo að Betlehemsvellirnir lýsast upp. Þau hafa hitað upp kotið með jarðhita og grafið brunn fyrir utan fjárhúsið sem í vella lækir lifandi vatns.

Guð blessi mömmu Malaví og velgjörðarkonu hennar fjallkonuna og gefi þeim báðum kjark, styrk og gjafmildi til að samstilla hjörtun í baráttunni gegn fátækt. Guð gefi okkur jólagleði sem tekur aldrei enda.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.

Á myndinni stendur sonur minn Hjalti á Namizimufjalli í Malaví ásamt Brave leiðsögumanni. Myndin er tekin um miðjan desember 2013.Hjalti Namizimu

Frekja Freyju og minn eigin hæfismi

Það hefur komið mér á óvart hvað athugasemd Freyju Haraldsdóttur á Facebook 4. des. s.l. hefurvakið sterk viðbrögð. Þar gagnrýndi hún Vigdísi Finnbogadóttur fyrrum forseta fyrir að hafa notað orðasambandið að „Ríkisútvarpið væri nú fatlað“ um ástandið í kjölfar niðurskurðarins hjá RÚV. Vísir tók síðan stöðuuppfærslu Freyju upp sem frétt undir fyrirsögninni „Frú Vigdís móðgar fatlaða“ sem uppskar einar 70 athugasemdir, þar á meðal fræðslu (væntanlega til hins móðgaða fatlaða fólks) um það hvað orðið fötlun þýðir samkvæmt orðabók.  Freyja er samkvæmt „virkum í athugasemdum“ bæði frek og ofurviðkvæm.

Fyrir mér snýst þessi umræða aðeins um eitt og það er þetta:  „Getur ófatlað fólk tekið leiðbeiningum fólks með fötlun um það hvað því finnst vera viðeigandi og óviðeigandi orðræða um fötlun sína?“

Þetta er svona einfalt. Forræðishyggja og hroki gagnvart fólki með fötlun kallast hæfismi, á ensku ableism. Þetta er óvenjulúmsk kúgunaraðferð sem auðvelt er að flækja sig í.  Mig langar að nefna nýlegt dæmi um minn eigin hæfisma.

Það er ekki mjög langt síðan að ég ákvað að dusta rykið af gamalli prédikun sem ég hafði samið í árdaga í stað þess að semja nýja (Já, séra Sigvaldi lifir enn og ég flyt stundum gamlar ræður, sem ég tel eiga erindi aftur við fólk). Ræðan var skrifuð út frá texta í guðspjöllunum þar sem Jesús læknar daufdumban mann, þannig að hann getur skyndilega bæði heyrt og talað. Ég hef greinilega ekki lesið ræðuna nógu vel í gegn áður en ég fór með hana í stólinn, því að í miðri ræðu uppgötva ég það að ræðan fjallar um málefni döff einstaklinga í yfirfærðri merkingu um þann sem ekki hlustar um Guð og talar ekkert gott. Og þarna stóð ég í prédikunarstól Guðríðarkirkju og saup hveljur yfir því sem ég var í þann veginn að segja sóknarbörnunum og horfðist á meðan í augu við fólk með fötlun sem sat undir þessu. Ég endaði á því að skálda upp allan seinni hluta ræðunnar og flytja drynjandi tölu með öllu sem andinn blés mér í brjóst, því að ég uppgötvaði í miðri ræðu að þessi ágæta prédikun var fleytifull af hæfisma.

Það er ekki viðeigandi lengur að nota blindu sem tákn um andlega siðspillingu, þótt fólki hafi þótt það í fínu lagi á dögum Jesú. Það er ekki viðeigandi að tala um tregðu við að hlusta á boðskap Krists sem heyrnarleysi, þótt það hafi þótt sjálfsagt á fyrri öldum.

Það sem er hins vegar viðeigandi er að ófatlaðir einstaklingar eins og ég, Vigdís Finnbogadóttir og fleiri velmeinandi manneskjur hlustum á þau sem búa við fötlun og lærum af þeim að nota tungumálið á nýjan hátt.

Áfram Freyja „frekja“! Við þurfum á þessu að halda.

Ableism

Rómversk-kaþólska kirkjan greiðir „bætur“

Í DV í dag er sagt frá viðbrögðum ungs manns við skaðabótunum sem rómversk-kaþólska kirkjan greiddi honum, eftir að hann hafði lýst ofbeldi sem hann varð fyrir sem barn í Landakotsskóla og í sumarbúðum kirkjunnar af hendi starfsmanna skólans fyrir fagráði kaþólsku kirkjunnar. Fréttina má nálgast hér og þar kemur fram að hvorki hafi verið um að ræða skaða eða miskabætur frá kirkjunni, heldur hafi fjárins verið aflað með frjálsum framlögum.

Ekkibótagreiðslur rómversk-kaþólsku kirkjunnar til þeirra sem hafa ásakað séra Ágúst George, Margrét Muller og fleiri um misnotkun og einelti meðan þau störfuðu fyrir skólann eiga sér allnokkurn aðdraganda og mig langar til að rifja þann aðdraganda upp.

Árið 2011 var skipuð sjálfstæð rannsóknarnefnd sem skyldi rannsaka framkomnar ásakanir um ofbeldi innan Landakotsskóla og skilaði hún skýrslu sinni 2. nóvember 2012.  Skyldi hlutverk nefndarinnar vera tvíþætt, þ.e. í fyrsta lagi að rannsaka „hvort um mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun eða tilraun til þöggunar hafi verið að ræða af hálfu vígðra þjóna og starfsmanna kirkjunnar, eða annarra þeirra sem gegnt hafa trúnaðarstörfum í þágu kirkjunnar, eftir að ásakanir um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot voru komnar fram og hverjir kunni að bera ábyrgð á því,“ og í öðru lagi „að koma með ábendingar og tillögur um starfshætti kaþólsku kirkjunnar í þeim tilvikum þegar upp koma ásakanir um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot af hálfu vígðra þjóna eða starfsmanna hennar“ (bls. 13-14).

Hvað varðar fyrra verkefni nefndarinnar þá gerir hún „alvarlegar athugasemdir“ við að nánast engar skráningar um hagi nemenda hafi verið varðveittar frá þeim tíma sem skólinn var á ábyrgð kaþólsku kirkjunnar (bls. 96). Hún gerir þáverandi biskupa rómversk-kaþólsku kirkjunnar á Íslandi ábyrga fyrir því að gögnin voru ekki tryggð (bls. 96).  Rannsóknarnefndin telur líka rómversk-kaþólsku kirkjuna á Íslandi hafa brugðist seint við framkomnum ásökunum, og að hún hefði haft „fullt tilefni“ til þess að bregðast við með forvörnum, skráningu og góðum starfsháttum fyrr en gert var í ljósi allrar þeirrar umræðu sem fram fór um kynferðisbrot presta innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar á heimsvísu síðustu áratugi.

Rannsóknarnefndin hefur sem sagt rekið sig á vegg snemma í rannsókninni þar sem henni er ætlað að rannsaka meint mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun, þann vegg að annað hvort hafa gögn verið skráð og þeim síðan eytt, eða þá að gögnin voru aldrei skráð. Aðferðafræði nefndarinnar til að komast að niðurstöðu er að rekja hvernig og hvenær ásakanir voru settar fram. Síðan segir:

Í ályktunum sínum telur rannsóknarnefndin rétt að ganga út frá því að samkvæmt viðurkenndu verklagi kirkjunnar hafi prestum, nunnum og öðrum starfsmönnum borið að tilkynna biskupi um öll tilvik þar sem grunur lék á því að ofbeldi hafi átt sér stað. Það hafi þá verið á ábyrgð biskups að tryggja að mál yrði skráð og að það fengi réttláta og sanngjarna meðferð (bls. 98).

Rannsóknarnefndin tók viðtöl við fjölda fólks sem taldi sig hafa orðið fyrir kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi í Landakotsskóla og sumarbúðum kirkjunnar í Riftúni. Hún greinir frá því að fram komi í vitnisburðunum að komið hafi verið á framfæri kvörtunum og ásökunum og ofbeldi séra George, Margrétar og fleiri aðila allar götur frá 1964. Foreldrar og börn hafi rætt við nunnur, presta, biskupa, kennara og starfsfólk eða gert tilraunir til þess (bls. 99-107).  Vegna þess að skráningar vantar og þeir starfsmenn sem um ræðir séu meira og minna látnir ályktar rannsóknarnefndin almennt um þetta tímabil að „skort hafi á að starfsfólk kirkjunnar hafi sýnt dómgreind í verki“,  en telur að öðru leyti erfitt að álykta um umrætt tímabil og einbeitir sér að viðbrögðum eftir 1988 þegar heimildir og heimildarmenn eru frekar fyrir hendi.

Í ályktun nefndarinnar kemur fram að systir Immaculata og séra Patrick hafi vanrækt að tilkynna yfirmönnum sínum um ásakanir (bls. 108). Nefndin telur líka að biskup Jolson hafi sýnt alvarlega vanrækslu með því að bregðast ekki við tilkynningum sem honum var kunnugt um, auk þess sem hann hafi sýnt vanrækslu í að sjá til þess að upplýsingar um þessar ásakanir væru skráðar og varðveittar (bls. 109).  Biskup Gijsen hafi einnig gert mistök í að eyðileggja umslag sem talið er kann hafa innihaldið upplýsingar um óviðeigandi háttsemi séra George. Rannsóknarskýrslan telur biskup Gijsen sekan um alvarlega vanrækslu. Hún telur sitjandi biskup, biskup Burcher hafa vanrækt skyldur sínar (bls. 111). Nefndin telur séra George hafa vanrækt að bregðast við ásökunum um einelti Margrétar Muller (bls. 114). Hún telur að séra Hjalti hafi sem skólastjóri Landakotsskóla vikið sér undan því að taka á málum Margrétar (bls. 116).  Nefndin telur að biskuparnir Jolson, Gijsen og Frehen og skólastjórinn séra Hjalti hafi bælt niður ásakanir um andlegt ofbeldi Margrétar og þar með gert sig seka um þöggun (bls. 116).

Hvað varðar seinna hlutverk nefndarinnar þá gagnrýnir nefndin starfshætti rómversk kaþólsku kirkjunnar í meðferðum upplýsinga og ásakana um ofbeldisbrot og tekur hana ranga (bls. 119). Einnig er gagnrýnt að prestar og starfsfólk kirkjunnar fái enga fræðslu um íslensk lög og reglur og þá ekki síst vanþekking presta á barnaverndarlögum. Nefndinni finnst sérstakt áhyggjuefni hvernig rómversk-kaþólskum prestum sem hún ræddi við finnst nauðsynlegt að vega og meta vitnisburði barna áður en þeir ákveðið hvernig viðbragða verði gripið til (bls. 123) og kemur síðan með leiðbeiningar um fyrirmyndarvinnubrögð.

Fagráð rómversk kaþólsku kirkjunnar á Íslandi er síðan skipað 5. nóvember 2012, sem hefur eitt að meginviðfangsefnum sínum að meta bótarétt þolenda kynferðisofbeldis og annars ofbeldis. Í kjölfarið lýsti fagráðið eftir því að heyra í þolendum fyrir 1. júní 2013.  17 kröfugerðir bárust og birti fagráðið niðurstöðu sína 15. nóvember s.l. Niðurstaða hennar er sú að ein krafa sé bótaskyld. Kaþólska kirkjan send út fréttatilkynningu, sagðist hafa sent öllum þolendum bréf og almenna fyrirgefningarbeiðni , en öll málin væru fyrnd og kirkjan ekki bótaskyld. Þvínæst hrósar kirkjan sér í hástert fyrir að hafa varið tíma, orku og peningum í að upplýsa málið og lýsir sig reiðubúna til að annast sálusorgun, „enda sé það hlutverk hennar“.+

Ég gerði í upphafi viðtal við ungan mann í DV í dag að umtalsefni. Hann fékk 82.070 krónur af frjálsum framlögum af því að kirkjan taldi sig ekki bótaskylda gagnvart honum.

Eftir að hafa þrílesið fréttatilkynninguna óg farið í gegnum rannsóknarskýrsluna finnst mér mál þetta allt með ólíkindum. Gerendurnir í kynferðis-, ofbeldis og eineltismálunum eru látnir. Það sem hins vegar stendur eftir og rannsakað var var stjórnsýslan, viðbrögðin, starfshættirnir. Dómurinn sem eftir stendur er ótvíræður. Hann fjallar um að þau hafi höggvið sem hlífa skyldu, að valdamikið fólk í rómversk-kaþólsku kirkjunni hafi séð í gegnum fingur sér, gert mistök, sýnt vanrækslu, sýnt alvarlega vanrækslu, bælt niður og þaggað ásakanir um ofbeldi. Það er skömm að því, skömm sem rómversk-kaþólska kirkjan á Íslandi ber vegna þess að hún gætti ekki nógu vel að börnunum sem henni var treyst fyrir og hafði hag þeirra ekki í fyrirrúmi. Kirkjan hefði að horfast í augu við þessa skömm með því að greiða þolendunum myndarlegar miskabætur. Ekki vegna þess að þær bætur yrðu endilega sóttar með lögum, þar sem fyrningar og lagakrókar eru í fyrirrúmi, heldur vegna þess að kirkja sem vill njóta trúnaðar fólks skammast sín þegar hún hefur gert rangt. Hún skuldar fólki þann trúnaðarmiska.

Að lokum vil ég taka undir orð fréttatilkynningar. Sálusorgun er hlutverk kirkjunnar. Það var hlutverk hennar að hlusta á föðurinn sem kom 1964. Og börnin sem sögðu nunnunni frá árið 1985. Og prestinum árið 1989. Og biskupnum árið 1990. Og öllum hinum.

Myndin er tekin af vef Reykjavíkurborgar

landakotskoli (Large)

Mannréttindi og tvær leiksýningar

Ég hef átt því láni að fagna að sjá tvær leiksýningar í þessum mánuði. Sú fyrri er „Maður að mínu skapi“ í Þjóðleikhúsinu og sú seinni er sýning Borgarleikhússins á „Húsi Bernhörðu Alba“ í Gamla Bíói. Sýningarnar eiga það sameiginlegt að Jón Viðar Jónsson hefur rakkað þær niður í leikdómum sínum. Báðar eru þær eru umdeildar og umtalaðar. Það sem helst er sett út á við fyrri sýninguna er að aðalsögupersónan sé skrípamynd af vel þekktum íslenskum háskólaprófessor og að verið sé að gera grín að samkynhneigð hans í leikritinu. Það sem pirrar fólk hins vegar mest við seinni sýninguna, er að leikstjórinn hefur valið að skjóta inn í texta Lorca nokkrum frægum innslögum af femínískum tilsvörum og persónum. Þar ganga fram á sviðið Malala Yousafzai, Simone de Beauvoir, ein af Pussy Riot stelpunum og fleiri baráttukonur 20. og 21. aldar. Með öðrum orðum má segja að mannréttindamál séu það sem umræða um þessar tvær leiksýningar fjalli um, að of lítil virðing fyrir mannréttindum einkenni fyrri sýninguna en að í þeirri síðari sé mannréttindum beinlínis troðið upp á mann og trufli söguþráðinn.

Það er einkenni góðra leiksýninga að þær sitja eftir hjá manni. Þær láta mann ekki í friði. Og stundum sér maður í þeim nýtt samhengi hlutanna eftir að heim er komið og maður hefur náð að velta þeim betur fyrir sér. Það er af þessum ástæðum sem mér finnst bæði „Maður að mínu skapi“ og „Hús Bernhörðu Alba“ vera góðar leiksýningar sem ég hvet fólk til að sjá.

„Maður að mínu skapi“ greip mig ekkert sérstaklega í fyrstu. Mér fundust karakterarnir reyndar áhugaverðir en að það skorti mikið upp á söguþráðinn til þess að hann næði til mín. Ég nefni sem dæmi umræðu um fósturson einnar persónunnar og faðerni hans sem verið er að byggja spennu um alla sýninguna, en reynist svo efni sem lítið er unnið með og rennur einhvern veginn út í sandinn. Salurinn var þungur og það var eins og fólk biði í ofvæni eftir því að farið væri að klæmast á háskólaprófessornum. Í hléi heyrði ég konu fyrir aftan mig segja: „Þetta er bara miklu skárra en ég átti von á.“ Það var eins og hún hafi verið á leiðinni í endajaxlatöku. Leikmyndin er þung og mikil og byggð upp eins og leikritið sé hurðafarsi á borð við „Fló á skinni“, en textinn er of efnismikill til þess að hann virki almennilega sem farsi einn og sér. Mér fannst einnig skrýtið að ein sögupersónan klifrar öðru hvoru upp á leikmyndina og horfir niður á hana. Og endirinn er heldur ekki eins og í venjulegu leikhúsi. Þarna var heilmikið um að vera sem truflar öryggiskennd hins almenna leikhúsneytanda og viðhorf hennar um það hvernig leikarar eigi að hegða sér í leikhúsi.

En leikritið vann á eftir því sem ég hugsaði meira um það. Mér finnst leikritið merkilegt sem þjóðfélagsháðsádeila eftir hrun. Við lifum tíma þar sem menn eru í óðaönn að þrífa upp hrunið og breyta minningunum. Ég las viðtal við fjárfestinn Hannes Smárason í helgarblaði Fréttablaðsins þar sem hann sagðist að sönnu skulda Íslendingum afsökunarbeiðni, af því er virðist fyrir ekki neitt, því að hann hafi samt ekkert gert af sér. Þessu slá Íslendingar upp á forsíðu fimm árum eftir hrun. Karakterarnir í leikritinu eru spilltur stjórnmálamaður, spunameistari að baki hans sem við fyrstu sýn virðist hinn indælasti maður, en reynist vera siðblindur inn við beinið, hrekklaus og góð yfirstéttarkona sem meinar vel, harðduglegur ungur piltur sem í fyrstu lætur glepjast af spunameistaranum er lætur krók koma á móti bragði þegar hann upplifir svik, hin seiga og sívinnandi verkakona og síðan bróðir hennar sem er bitur og reiður og hefur rannsakað glæpi spillta ráðherrans. Ég get ekki séð að verið sé að gera grín að samkynhneigð tiltekins einstaklings. Það er ekki of lítið af mannréttindum í verkinu að mínu viti, heldur fjallar það um þau mannréttindi sem verið er að brjóta á venjulegu fólki á Íslandi alla daga með ójöfnuði og yfirklóri. Allir þessir karakterar eru prýðisvel leiknir og það er verkakonan sem öðru hvoru bregður sér upp á myndina og horfir á þetta leikhús sem er samfélagið hennar. Ekki kemur á óvart þótt einhver sakleysinginn sé drepinn í lokin og við áhorfendurnir klöppum eins og fífl. Þetta er góð sýning.

Það var stórkostleg upplifun að verða vitni að „Húsi Bernhörðu Alba“ í Gamla Bíói. Ég held að ég hafi aldrei heyrt svona margar konur öskra í leikhúsi og öskrið kom alveg neðan úr legi. Sjálfri voru mér þessi öskur úr frumdjúpunum einhver fró, vegna þess að mig langar oft til að öskra alveg neðan úr legi. Leikmyndin var stórkostleg, hún var köld og kallaði fram hjá manni innilokunartilfinningu. Hún kallaðist líka á við gráa kjólinn hennar Bernhörðu og minnti mann á hversu mikið af rimlum hugarfarsins voru fólgnir í persónu þessarar konu. Gólfið var alveg autt, sem gaf leikurunum tækfæri á að nýta líkamann og líkamsmálið til hins ítrasta. Leikurinn var frábær, en það truflaði mig að Bernharða skyldi vera leikin af karlmanni. Þetta er kvennasýning um tilfinningar, sturlun og valdbeitingu kvenna.

Hvað varðar femínísku innslögin fundust mér þau yfirleitt ekki vera til bóta, heldur truflunar. Það átti sérstaklega við fannst mér um ræðu Tawakkol Karman frá Yemen, friðarverðlaunahafa Nóbels 2011 sem hélt síma á loft og talaði um að konurnar í leikritinu væru fastar. Það þurfti ekki Tawakkol til að segja þeim sem urðu vitni að innilokun, ástríðum og afbrýði Albasystra að þær væru fastar og þarna þótti mér útskýringarnar orðnar helst til forræðislegar. Reyndar þótti mér innslag Simone de Beauvoir vera undantekning á þessu og setning hennar: „Hættið að segja ég, segið við“ þótti mér viðeigandi, því að það var sundurlyndið, hvernig systurnar ráku hnýflana hver í aðra sem studdi vald móðurinnar yfir þeim. Vinnukonan í Albahúsinu gegndi að sumu leyti svipuðu hlutverki eins og vinnukonan í „Maður að mínu skapi“, því að hún sá Simone og gat talað við hana, rétt eins og hin gat horft yfir leikmyndina.

Sem sagt, farið í leikhús elskurnar mínar, sjáið mokað yfir hrunið í Þjóðleikhúsinu og heyrið öskrað neðan úr legi í Gamla Bíói. Það er furðulega hressandi. Og í anda mannréttinda.

Glæstar vonir

Ræða flutt á Mannréttindahátíðinni Glæstar vonir í Þróttarhúsinu í Laugardal 28. september 2013

Dulræna eða mýstík er áhugaverð grein trúarbókmennta, ekki síst fyrir þær sakir að í henni kemur gjarnan fram andóf gegn ríkjandi trúarskoðunum. Í kristnum dul hefur til dæmis rödd kvenna hljómað á sama tíma og þær voru þaggaðar niður á öllum öðrum stöðum trúarkerfisins. Dulrænan getur þannig virkað eins undiralda, andóf og andhæris stroka. Hún beinis ekki endilega gegn ríkjandi trúarbrögðum, en truflar hina eintóna framsetningu forræðisins.

Mig langar að vitna til ljóðs eftir Sor Juana de la Cruz, eða systur Jóhönnu af Krossi, en eftir þá stórmerku konu liggja bæði leikrit, ljóð og guðfræðitextar. Af ástarbréfum hennar til valdamikilla kvenna í Mexíkó má milli lína lesa um samkynhneigð hennar sem hvorki kirkja né samfélag gátu samþykkt eða skilið á þeim tíma og geta varla enn. Viðhorf Jóhönnu til veruleikans einkennist af andófi gegn hinum fornu, skörpu andstæðum himins og jarðar, líkama og anda, hjarta og hugar. Í staðinn dregur hún upp myndir af guðlegum krafti, dansi, ást og blossa, sem er ekki óbreytanleg og frosin heldur tengd öllum okkar atburðum, öllum okkar sérstæða veruleika. Jóhanna yrkir um Jesúbarnið og frumefnin fjögur sem næra barnið, en að hennar tíma náttúrufræðiskilningi mynduðu frumefnin fjögur allt líf.

Þegar hríðin og hragglandinn geisa
og hrekja burt kærleikann,
hver kemur barni til bjargar?
Vatn!
Jörð!
Loft!
Nei, það mun Eldurinn gera.

Þegar barnið er veikt og vansvefta
og vart dregur andann lengur
hver kemur barni til bjargar?
Eldur!
Jörð!
Vatn!
Nei, það mun Loftið gera.

Þegar sækist að barninu sóttin
og safnast að glóð fyrir vitum
hver kemur barni til bjargar?
Loft!
Eldur!
Jörð!
Nei, það mun Vatnið gera.

Í dag þegar höfði á jörðu að halla á hvergi
himnanna barn án næturstaðar
hver kemur barni til bjargar?
Vatn!
Eldur!
Loft!
Nei, það mun Jörðin gera.

Í stað þess að tala um barnið og trúna, með orðræðu hins sterka og utanaðkomandi, sem reddar öllu ef allir fara að settum reglum, þá talar Jóhanna um kærleikann sem það sem þarf hjálp, hlýju, drykk og næturstað til þess að vaxa og dafna. Og til þess að slíkur mannkærleikur fái að lifa í samskiptum mannanna, þá sækir Jóhanna hjálp í frumefnin, í vatnið sem myndar þrjá fjórðu af líkamsmassa okkar, í eldinn sem brennur innra með okkur og milli okkar, í loftið sem við eigum sameiginleg og öndum saman að okkur, í jörðinni undir fótum okkar.

Jóhanna er fædd fyrir tíma nútíma mannréttindaorðræðu en samt má finna sterkan samhljóm milli þess sem hún segir og þess sem lesa má út úr mikilvægustu mannréttindabálkum nútímans. Það eru ekki girðingarnar sem gera okkur að manneskjum, ekki trúin sem við játum, liturinn á höndum okkar og andlitum, kyn okkar eða kyn þeirra sem við elskum af hjarta og sálu. Það er ekki aldur okkar sem ræður úrslitum um það hvort við séum manneskjur og elskuverð, ekki hæfi okkar eða fötlunarstig, ríkidæmi, þjóðerni eða stétt. Við erum einfaldlega öll manneskjur og óendanlega dýrmæt sem slík. Við höfum stjórnarskrárvarin réttindi til trúar og trúleysis á okkar eigin hátt, við eigum rétt á að njóta mannréttinda ferða-, félaga og tjáningafrelsis, að eiga kynverundarréttindi, að lifa án ótta við hatur og fordóma sem beint er gegn minnihlutahópum. Slík réttindi eru grundvallarréttindi, en þeim er víða gleymt í veröldinni og reisn allra manneskja er svo oft fótum troðin. Og þess vegna eru tiltekin mannréttindi ekki einhver einkamál þeirra sem mannréttindi eru brotin á og búa við undirskipun og kúgun. Þau eru líka málefni þeirra sem búa við forréttindi. Og kannski eru stærstu forréttindi lífsins þau að hafa enga hugmynd eða meðvitund um það að maður búi við forréttindi. Slíkt andóf gegn forréttindablindu og með mannréttindum þarf að eiga sér stað á öllum sviðum mannlífsins þar með talið Þjóðkirkjunni sem ég tilheyri. Þess vegna er ég glöð yfir framtaki Laugarneskirkju sem boðar til Regnbogamessu annað kvöld 29. september klukkan átta í nafni mannréttinda.

Fyrir rúmlega þúsund árum töldu menn að þeir þyrftu að velja á milli heiðni og kristni til að halda friði í landinu. Þúsöld síðar er þessi þörf til að vera eins og trúa eins ekki til staðar. Fjölbreytnin og fjölhyggjan leggur okkur flóknar og erfiðar skyldur á herðar, skyldur sem byggja á mannréttindum, manngæsku og mannvirðingu, Við viljum geta lifað saman í sátt. Við viljum geta glímt hvert við annað með því að takast á í rökræðu, gagnrýnt hvert annað, samið, eða ákveðið að vera ósammála um tiltekin atriði, í stað þess að beita valdi, útilokun, hatursorðræðu og fordómum. Þessar skyldur gera það að verkum að við verðum sem þjóð að þjálfa okkur í því að hlusta, greina og eiga saman glæstar vonir.

Mannréttindahátíðin Glæstar vonir er gott nafn. Það sem er best við nafnið er að von okkar er ekki ein, vegna þess að við erum vatn og eldur og loft og jörð og það barn sem við björgum undan hríð, sótt og þorsta kemur til okkar úr ólíkum áttum að sækja sér næturstað. Við eigum okkur ólíkar vonir og ólík viðhorf til lífsins og hjálp okkar fæðist með okkur sjálfum og í tengslunum okkar á milli. Sumir kjósa að líta á þau tengsl sem guðleg, önnur ekki. Og það er allt í lagi.

Hver kemur barni til bjargar? Megi vatnið í æðum okkar sem Jóhanna af Krossi yrkir um, eldurinn í brjóstum okkar, loftið sem við öndum að okkur og jörðin sem við stöndum á sem byggir með okkur glæstar vonir gegn lítillækkun, hatri og kúgun í sérhverri mynd.
cropped-regnbogi.jpg

Hinsegin Guð, neðan og utan frá

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I.

Mig langar til að hefja þessa ræðu á viðburði gærdagsins, gleðigöngunni, sem markar hápunkt Hinsegin daga í Reykjavík ár hvert. Mér var boðið að taka þátt í atriði Páls Óskar Hjálmtýssonar í gleðigöngunni í gær. Atriðið fólst í því að stillt var upp tveimur flöggum sem á stóð „Hatrið fór ekkert“ og „Hatrið er á ferðalagi“. Síðan komu fánar þjóðlanda þar sem hómófóbía er ríkjandi, þar sem er hættulegt að vera hinsegin og liggur jafnvel dauðarefsing við. Allt í kringum fólkið með fánana voru síðan kaðalberar, sem héldu svæðinu auðu í kringum þjóðfánana.

Í göngunni gekk ég með grænan fána Malasíu og horfði á skiltið „Hatrið er á ferðalagi“ meðan ég gekk. Í Malasíu má ekki sýna kvikmyndir með samkynhneigðum persónum, nema að þær iðrist eða deyi í myndinni. Þar hefur frá árinu 1994 verið í gildi bann við að samkynhneigt fólk komi fram í hinum ríkisreknu fjölmiðlum. Í Malasíu er í gildi refsilöggjöf sem gerir munnmök og sódómíu refsiverða með sektum, fangelsunum og jafnvel dauðarefsingum. Fáni Malasíu tók í og þunginn var ekki eingöngu fólkinn í vigt fánans sjálfs, heldur öllu því hinsegin fólki sem mannréttindi eru brotin á í því landi á degi hverjum. Fyrir framan mig mátti sjá fána Máritíu, Serbíu og Sádí-Arabíu og fyrir aftan mig blöktu fánar Hondúras, Íran, Rússlands, Súdan, Kamerún, Nígeríu og fleiri ríkja.

Ég hef mætt í gleðigönguna áður, dillað mér þar við skemmtilega tónlist meðan gengið er og fagnað fjölbreytileikanum. En í þessu atriði voru hvorki vagg né velta við hæfi.  Göngumenn voru látnir fá svarta gúmmíræmu sem bundnar voru fyrir munninn á þeim. Ég gat ekki brosað til fólksins í göngunni eða kallað til þeirra. Ég heyrði tónlistina frá hinum atriðunum, en þetta flot, þetta atriði göngunnar færðist áfram í þögn. Það er undarleg tilfinning að vera keflaður við þessar aðstæður, að vera slitinn úr samhengi við annað fólk og að hafa veruleika haturs og mannfyrirlitningar fyrir augum og í sinni.

Þess vegna eru Hinsegin dagar mikilvægir. Þeir vekja athygli á því misrétti og ofbeldi sem viðgengst í heiminum. Þeir rjúfa þögn og vekja til vitundar, ekki aðeins um aðstæður hinsegin fólks, heldur allra mannréttinda. Og Hinsegin dagar vekja þessa meðvitund á listrænan, gleðilegan og oft fyndinn, skrýtinn og skemmtilegan hátt. Þeir trufla gagnhneigðarhyggjuna sem við höfum verið forrituð með frá frumbernsku, hrista upp í hversdeginum okkar og hjálpa okkur til að sjá nýjar hliðar á veruleikanum. Megintákn hinsegin fólks er regnboginn, sem sýnir litróf hinna ólíku lita. Regnboginn er líka sterkt tákn í kristni og gyðingdómi um sáttmála á milli manns og Guðs, eins og sungið var fyrir okkur áðan. Hinsegin dagar eru þannig leið til þess að greina nýjar hliðar fjölbreytileikans, takast á við ögranir hans og minna okkur á það að það er hægt að mæta hatri með kærleika. Hinsegin dagar eru leið til þess að þroskast trúarlega í því að rækta sáttmálann við Guð sem er kærleikur og sprettur í tengslum milli lífvera.

II.

Í dag, á lokadegi Hinsegin daga og á 11. sunnudegi eftir þrenningarhátíð langar mig til að lesa fyrir ykkur hrafl úr hugleiðingu bandaríska hinsegin guðfræðingsins Virginíu Ramey Mollenkott þar sem hún fjallar um það hvernig hún fari að því að lesa Biblíuna sem lesbía. Mollenkott segir:

Ég er fædd árið 1932 og alin upp á fimmta og sjötta áratugnum. Ég er kristin lesbía og sem slík þurfti ég að læra að lesa hin hebresku og kristnu rit að neðan og utan frá. Ég þurfti að lesa neðan frá vegna þess að ég er kvenkyns. Konur nutu minni virðingar og voru stöðugt þaggaðar niður í kirkju æsku minnar. Þar voru konur og stúlkur látnar bera hatta til að tákna það að við heyrðum undir hið karllæga vald og okkur var ekki leyft að spyrja spurninga í Biblíuleshópnum. Ég þurfti að læra að lesa utan frá, vegna þess að vitund mín frá ellefu ára aldri um að ég væri lesbísk , tók frá mér lágmarks stöðu þess að ég gæti heyrt til í samfélagi sem nefndi ekki einu sinni slíkar syndir á nafn.

Einhver las fyrir mig Rómverjabréfið þegar ég var þrettán ára og sagði mér að ef ég héldi áfram að elska konur þá myndi sjást á mér að ég væri „guðlaus“ og „réttdræp“. Og þar sem ég var auðsveip og elskaði Guð reyndi ég, eins og svo margir hinsegin unglingar, að drepa mig. En verri en sú tilraun voru ár hins lifandi dauða sem ég átti í hjónabandi með manni, sem var sannfærður um að Guð hefði skapað mig til þess eins að þrífa upp eftir hann.

Ég varð að læra að lesa hin helgu rit að neðan og utan frá, vegna þess að ég hafði verið þjálfuð frá unga aldri við að samsama mig sjónarhorni hins hvíta, gagnkynhneigða og karllæga þegar ég las Biblíuna.

Mollenkott segir okkur að hún hafi sem kona og sem samkynhneigður einstaklingur þurft að þjálfa sig upp í að lesa Biblíuna með gleraugum sinnar eigin reynslu. Þar sem var alin upp við tvöfalda kúgun í kirkju sinni og samfélaginu öllu, þá þurfti hún að beita tveimur ólíkum aðferðum til að geta tekið trúarboðskapinn með inn í sitt daglega líf. Hún þurfti að lesa Biblíuna neðan frá vegna þess að hún bjó við undirskipan og kvenfyrirlitningu. Og hún þurfti að lesa Biblíuna utan frá vegna þess að hneigð hennar til kvenna gerði það að verkum að hún varð utangarðsmanneskja í samfélagi sem aðeins líður gagnkynhneigðar ástir og bælir aðrar niður með harðri hendi.

En hvernig les maður Biblíuna neðan og utan frá?  Mollenkott svarar því til að sá lestur sé fólginn í því að samsama sig ekki með hefðbundnum lestri á helgum texti, heldur að túlka þá texta í ljósi reynslunnar, í ljósi þeirra útskúfuðu og undirskipuðu. Hún bætir við:

Verkefnið framundan er þannig að nota allar þær leiðir sem tiltækar eru til að finna aftur raddir okkar innan hins biblíulega texta, innan stofnana trúarbragðanna og innan samfélagsins í heild. Og þegar við höfum fundið raddir okkar aftur, eigum við að nota þær til að flytja hinum fátæku fagnaðarerindið, leysa bandingana, gefa blindum sýn og hinum kúguðu frelsi.

Biblían er trúarbók rúmlega tveggja milljarða manna um heim allan. Þessi stóri hópur á það sameiginlegt að sækja huggun, styrk, sjálfsmynd og gildismat í helga trúartexta og túlka þá á ýmsa vegu. Sú túlkun tekur breytingum frá einni öld til annarrar og stundum er trúað fólk líka ósammála því sem tjáð er á síðum hinnar helgu bókar. Við tökum afstöðu til þess sem okkur finnst vera úrelt gildismat gamalla tíma og hvað það er sem við teljum hafa staðist betur tímans tönn. Og stundum koma þessir textar okkur á óvart þegar við sjáum þá í nýju ljósi, uppgötvum þá frá hliðum sem við höfðum ekki séð áður. Engin ein túlkun er hin rétta túlkun og enginn okkar hefur beinan aðgang að því sem guðdómurinn vill koma á framfæri við okkur. Þess vegna þurfum við gleraugu, ákveðið sjónarhorn sem við lesum frá og túlkum líf okkar með. Í ljósi ráðlegginga Mollenkott um Biblíulesturinn neðan og utan frá og orða hennar um raddir hinsegin fólks sem við verðum að finna til að flytja hinum fátæku og þjáðu fagnaðarerindið skulum við líta á texta dagsins með okkar nýfengnu hinsegin gleraugum neðan og utan.

II.

Fyrri ritningarlesturinn er einn af uppáhaldssálmum Ágústínusar og Lúthers og einn af iðrunarsálmum hinna hebresku rita. Þar er fjallað með ólíkum myndlíkingum um synd og sagt frá því að syndin leggist jafnt á andlega og líkamlega heilsu.

Syndinni í sálminum er líkt við þungt farg sem manneskjan er að sligast undan og skömm sem sálmaskáldið reynir í sífellu að fela. Og henni er ekki aflétt fyrr en Guð tekur af skáldinu syndabyrðina og flytur það burtu sem að ekki verður hulið með mannlegum gerðum. Í stað þess að varpa syndabyrðinni yfir á herðar hinsegin einstaklinga eins og tvö þúsund ára túlkunarhefð kristinnar kirkju hefur margsinnis gert, skulum við nota gleraugun hennar Mollenkott og horfast í augu við kerfislæga synd fóbíunnar.

Hómófóbía er kerfislæg synd. Hómófóbíunnar vegna situr ungur maður í fangelsi í Kamerún og afplánar þriggja ára dóm við hörmulegar aðstæður fyrir þær sakir að vera samkynhneigður. Hann heitir Jean-Claude Roger Mbede og Amnesty samtökin hafa nýlega sent út ákall til heimsbyggðarinnar til að leysa hann úr fangelsi. Ég hvet ykkur öll til að skrifa undir ákallið og hjálpa þannig til að draga úr áhrifum hómófóbíunnar á heimsvísu.

Bífóbía er kerfislæg synd. Hennar vegna búa tvíkynhneigðir einstaklingar við fordóma bæði frá samkynhneigðum og gagnkynhneigðum einstaklingum.

Transfóbía er kerfislæg synd. Hennar vegna ganga transexúal og transgender einstaklingar gegnum eld fordóma og niðurlægingar í velflestum samfélögum. Og við erum varla byrjuð að ræða aðstæður þeirra sem eru intersex einstaklingar, sérstakir og dýrmætir og skapaðir í Guðs mynd.

Vegna hómófóbíu, transfóbíu, bífóbíu og allra hinna kerfislægu villnanna sem við búum við sitja svo margar manneskjur inni í skápum sínum og ljúga til um það hverjar þær raunverulega eru. Og hennar vegna er heilsa, bein, lífsþróttur og frelsi hinsegin fólks um veröld víða í hættu.

Þú ert skjól mitt
verndar mig í þrengingum
bjargar mér, umlykur mig fögnuði.

segir sálmurinn og gengur þannig með okkur gönguna sem minnir á hómófóbíu og mannréttindabrot heimsins yfir til ástar, öryggis, verndar og umljúkandi fögnuðar.

Guðspjall dagsins er einnig góður vettvangur fyrir þann sem vill stilla lestrarlinsurnar neðan og utan frá. Þar segir frá konu einni sem kom í hús farísea, að því er virðist óboðin. Hún settist til fóta Jesú, smurði fætur hans, vætti þá tárum og þerraði með hári sínu, sem væntanlega hefur fallið frjálst og óbundið fram. Faríseinn og vinir hans höfðu af þessu hinn mesta ama, enda trufluðu kveinstafir konunnar þetta fína boð sem hann hafði kallað til í tilefni komu rabbíans frá Nasaret.

Á dögum Jesú lágu karlmenn útaf í borðhaldi en sátu ekki til borðs. Þeir hafa stungið upp í sig bita og bita og sopið á fínum veigum milli þess sem þeir lágu  hver upp við annan á mörgum lágum hægindum og spjallað um guð og náungann, og hvernig ætti að koma fram hver við annan. Þetta hefur eflaust verið hið ánægjulegasta veisluboð og auðvitað hafa umræður þeirra um Guð og manneskjurnar miðast við þeirra eigin þjóðfélagsstöðu, gildismat og sýn á lífið og tilveruna. Það er til dæmis mjög ólíklegt að þeir hafi velt fyrir sér konum og hinsegin fólki þegar þeir ræddu um synd, ábyrgð og samband við guðdóminn. Og mitt í þessari dýrlegu veislu með vínberjum og lambakjöti og ostum og ávöxtum og góðu víni sem faríseinn hafði reitt fram, mitt í þessu notalega spjalli í nánd og hlýju og gáfulegum samræðum við gestinn aðkomna frá Nasaret, þá er alltaf verið að trufla þá.

Það er kona til fóta Jesú, boðflenna í fína boðinu,
sem lítur upp til hans og til þeirra allra.
Og þessi kona les aðstæðurnar frá sinni eigin stöðu
sem kvenkyns vera og sem utangarðsmaður.
Þarna nýtur hún engrar virðingar og gestgjafinn vill ekki hafa hana.
Og það er ekki eins og þessi óboðna kona sitji einu sinni kyrr.
Hún gefur frá sér hljóð og er með óviðeigandi læti.
Hún grætur og snýtir sér.
Hún kyssir fætur Jesú með ósæmandi hætti.
Hún hefur rakið upp hárið.
Engin sómakær kona lætur sjá sig með hárið svona út um allt.
Og þessi ótilhlýðilegu hljóð
þessi óhæfilega snerting
þessir kossar
þetta flæðandi hár
þessi lykt af smyrslum í miðri matarveislu
eru náttúrulega alveg út úr kortinu.

Hún er ein stór truflun
og það man enginn lengur hvert hinar hátimbruðu samræður voru komnar.
Hún er eitthvað hinsegin, manneskjan
Og samt nær hún athygli Jesú óskiptri.
Kannski sá hún eitthvað hinsegin í honum líka,
eitthvað sem passaði ekki inn í fínu veisluna.
Kannski horfðist hún í augu við hinsegin Guð
sem skildi tvöfaldan utangarðsmann.
Og þess vegna, einmitt þess vegna
er alveg eins rétt að segja Jesús sé hommi og að segja að hann sé eitthvað annað.
Hommi er ekki skammaryrði
nema á vörum þeirra sem þjást af hómófóbíu.

Krossferli að fylgja þínum
fýsir mig Jesús kær

segir Hallgrímur í Passíusálmi sínum
og speglar þannig aðstæður sínar sem líkþrár og einangraður einstaklingur
í krossferli Jesú.

Engum í þrjúhundruð ára sögu íslenskrar kristni hefur þótt neitt athugavert við það eða velt því fyrir sér hvort hinn sögulegi Jesús frá Nasaret hafi þjáðst að líkþrá eða ekki. Það er vegna þess að hugmynd Hallgríms um líkindin milli krossferils síns og krossferils lausnarans fjallar um þann Krist sem við túlkum og endurtúlkum líf okkar og baráttu í öld eftir öld.

Barátta hinsegin fólks og andspyrnusögur þeirra í fortíð og nútíð eru dýrmætar og mikils virði. Og þær má spegla í lífsferli og krossferli lausnarans á sama hátt og við megum mála myndir af konunni Kristu á krossinum, hinum þeldökka Kristi og Kristi krossfestum í hjólastól.

Í þessum skilningi er Jesús hommi.
Jesús er kona.
Jesús er lesbía.
Jesús er transgender einstaklingur.
Jesús er intersex.
Jesús er transsexúal, heterósexúal, asexúal og pansexúal
og ef við ætlum að horfast í augu við gagnkynhneigðarhyggju heimsins og kirkjunnar
þurfum við að lesa lífið neðan frá og utan frá.
Vegna þess að Orðið varð hold
og holdið er fjölbreytt, truflandi, lifandi og sterkt.

Kannski truflaði konan í boðinu Jesú á kærkominn hátt
vakti hann til vitundar um að veröldin væri stærri
kannski hjálpaði hún honum að sjá heiminn
ekki bara út frá kósí karlasamfélagi með rauðvíni og ostum
heldur neðan frá og utan að.
Það er konan og utangarðsmaðurinn sem hann beinir orðum sínum til
ekki gestgjafinn og lærðu vinirnir hans
þegar hann segir:

Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.

IV.

Mitt í þessum hugleiðingum um hið ótilhlýðilega, óboðna og ósæmandi sem Jesús blessaði er ég aftur kominn í gleðigöngu með grænt flagg til merkis um hómófóbíu heimsins. Ég horfi til fánanna tveggja sem sögðu „Hatrið fór ekkert“. og“Hatrið er á ferðalagi.“

Hatrið er að sönnu á ferðalagi. Mannréttindi geta breyst og aðstæður minnihlutahópa eins og hinsegin fólks geta skyndilega versnað þegar fasísk afturhaldsöfl komast til valda í þjóðríkjum. Það skiptir miklu máli að við höldum ekki að vegna þess að aðstæður kvenna, hinsegin fólks, fatlaðra og annarra þeirra sem hafa búið við undirskipun, fordóma og kúgun hafa batnað mikið á síðustu áratugum, haldi framþróun mannréttinda, reisnar og virðingar sjálfkrafa áfram. Hatrið er á ferðalagi, og óttinn sem hatrið byggir á getur alltaf leitt til bakslags.  Hatrið stendur alltaf í stað. Hatrið er húmorslaust. Hatrið vill ekki láta trufla sig.

Þess vegna er svo mikilvægt að sofa ekki á mannréttindavaktinni. Þess vegna er svo mikilvægt að við truflum veislur og hátíðir þeirra sem völdin hafa, til þess að sjónarhornin verði fleiri og til að við verðum meðvituð um þjáningu og misrétti annars fólks. Við getum ekki lengur látið eins og hægt sé að pakka hinsegin fólki og öðrum minnihlutahópum niður í skúffu meðan við göngum um og prédikum kristilegan kærleik. Hluti kirkjunnar er samkynhneigður, tvíkynhneigður, transsexúal, transgender, intersex eða leitandi. Og á bak við hvern þann einstakling er fjölskylda og vinir sem ber áfram hann og hana og þau sem ekki tengja sig við eitt kyn frekar en annað. Boðflennan er til staðar í veislunni. Hún kyssir Jesú. Hún snertir hann og grætur við fætur hans. Með hennar hjálp lesum við að neðan og utan frá.

Það að við truflum slíkar veislur merkir ekki að við sem truflum, hristum okkur í gleðigöngu og berum mannréttindaspjöld séum „góða fólkið“ eins og að okkar sjónarhorn á veruleikann sé alltaf það eina rétta. Það er lífstíðarverkefni að læra að mismuna ekki öðrum og bera virðingu fyrir öðru fólki og öllu lífi. Og hluti af því lífstíðarverkefni er að reyna að nálgast veruleika annarra með því að hlusta vel, láta truflast svolítið, elska mikið og vera glöð. Guð veitir okkur skjól, Guð elskar okkur hvert og eitt alveg eins og við erum og við erum umlukin fögnuði.

Gangan liðast áfram, stöðvast um hríð og heldur svo áfram. Þegar fánarnir um hatrið og hómófóbíuna hafa liðið hjá og andlitin með kefluðum munnunum eru ekki lengur í sjónmáli, er einn fáni eftir. Á honum stendur:

Takk, Hinsegin Ísland fyrir að mæta hatri með kærleika.

Og þar eru læti. Þar eru sprengdar sprengjur fullar af skærum og gleðiþrungnum pappírsstrimlum sem þeytast út í loftið til merkis um það að ástin, engu síður en hatrið er á ferðalagi. Ástin og gleðin eru sterkari en hatrið. Hinni kerfislægu synd hómófóbíunnar mun af létta. Ástin hlær. Hún springur út í hatrinu og misréttinu miðju og hendir litríkum strimlum út í ágústloftið. Gleðin er truflandi, hún rýfur þögnina kringum ofbeldið og ógnina. Hún er ekki kefluð lengur. Hún truflar svæfandi lognmollu valdbeitingarinnar og einsleitninnar.  Hún kemur óboðin. Hún kyssir, hlær og grætur. Hún snertir hið ósnertanlega og smyr það dýrum smyrslum. Hún er ótilhlýðileg og brýtur af sér bönd siðvenjunnar. Hún horfir á hið heilaga neðan frá og utan frá og uppgötvar á því nýjar hliðar.

Hún er umlukin fögnuði
í hlífðarskjóli Guðs
á heimsins köldu strönd.

Dýrð sé Guði  föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
SG í Gay Pride
Á myndinni má sjá Sigríði ganga með Malasíufánann í Gay Pride, 10. ágúst 2013. Myndina tók Karen Ósk.

Tímalína Krossmála

Á þessari tímalínu er fréttum í fjölmiðlum, bloggfærslum og viðtölum um ásakanir kvenna á hendur fyrrum forstöðumanni trúfélagsins Krossinn raðað í rétta tímaröð. Mikið hefur verið skrifað um málið tveimur og hálfu ári og oft erfitt að átta sig á því hvaða fréttir eru upprunalegastar og hver ferillinn var í málinu. Á þeim dögum sem fréttir af málinu voru margar hef ég sett inn klukkustundina líka.

11. nóvember 2010: „Neyðarfundur í Krossinum: Gunnar svarar flökkusögum- Tengist hugsanlega bók Jónínu“
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/neydarfundur-i-krossinum-gunnar-svarar-flokkusogum—tengist-hugsanlega-bok-joninu

12. nóvember 2010: „Óttast að einhver birtist á forsíðu Vikunnar og saki Gunnar um óhæfuverk“
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/jonina-ottast-ad-einhver-komi-a-forsidu-vikunnar-og-saki-gunnar-i-krossinum-um-ad-hafa-brotid-a-ser

23. nóvember 2010: (09:20) „Alvarlegar ásakanir í Krossinum: Hópur kvenna segir Gunnar hafa brotið gegn sér- Sættir ekki tekist“
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/alvarlegar-asakanir-i-krossinum-hopur-kvenna-segir-gunnar-hafa-brotid-gegn-ser—saettir-ekki-tekist

23. nóvember 2010: (10:18) „Krossmaður kannast ekki við ásakanir“
http://www.visir.is/krossmadur-kannast-ekki-vid-asakanir/article/2010806383043

23. nóvember 2010:  (11:20)„Krossmaður:  Þetta er bara ekki rétt“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/23/krossmadur-um-frett-pressunnar-thetta-er-bara-ekki-rett/

23. nóvember 2010: (11:40) „Ásakanir í Krossinum: Gunnar heldur sjálfur utan um málið – Allt gert til að lægja öldurnar“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/asakanir-i-krossinum-gunnar-heldur-sjalfur-utan-um-malid—allt-reynt-til-ad-laegja-oldurnar

25. nóvember 2010: (16:06) „Gunnar í Krossinum hótar Pressunni lögsókn- Segir ásakanirnar uppspuna frá rótum“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/gunnar-i-krossinum-hotar-pressunni-logsokn—segir-asakanir-uppspuna-fra-rotum

25. nóvember 2010: (16:50) „Fyrrverandi mágkonur Gunnars í Krossinum saka hann um kynferðislega áreitni“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/fyrrverandi-magkonur-gunnars-i-krossinum-saka-hann-um-kynferdislega-areitni

25. nóvember 2010: (17:02) “Gunnar stefnir Pressunni: Hef engin önnur úrræði en dómstóla“ http://www.dv.is/frettir/2010/11/25/gunnar-stefnir-pressunni-hef-engin-onnur-urraedi-en-domstola/

25. nóvember 2010: (17:32) „Fyrrverandi mágkonur Gunnars saka hann um áreitni“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/25/fyrrverandi-magkonur-gunnars-saka-hann-um-areitni/

25. nóvember 2010: (18:02 uppfært 18:31) „Forstöðumaður Krossins sakaður um kynferðislega áreitni“
href=“http://www.mbl.is/frettir/innlent/2010/11/25/forstodumadur_krossins_sakadur_um_kynferdislega_are/“>http://www.mbl.is/frettir/innlent/2010/11/25/forstodumadur_krossins_sakadur_um_kynferdislega_are/

25. nóvember 2010: „Gunnar í Krossinum sakaður um kynferðislega áreitni“
http://gudmundsson.blog.is/blog/bjorgvin_gudmundsson/entry/1119996/

25. nóvember 2010: (18:49)  „Ég er niðurbrotinn maður“
http://www.visir.is/-eg-er-nidurbrotinn-madur-/article/2010557712835

25. nóvember 2010: (19:19) „Talskona kvenna veit um 16 fórnarlömb- Vísbendingum rignir inn- 25 ára tímabil“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/talskona-kvenna-veit-um-16-fornarlomb-visbendingum-rignir-inn—25-ara-timabil

25. nóvember 2010:  (20:22) „Gunnar í Krossinum:  Okkur Jónínu hefur verið hótað að líf okkar verði ekki farsælt“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/gunnar-i-krossinum-okkur-joninu-hefur-verid-hotad-ad-lif-okkar-verdi-ekki-farsaelt

25. nóvember 2010: (21:22) „Gunnar í Krossinum: Okkur Jónínu hefur verið hótað“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/25/gunnar-i-krossinum-okkur-joninu-hefur-verid-hotad/

25. nóvember 2010:  (21:30)„Jónína segir talskonu hafa daðrað við Gunnar“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/25/jonina-segir-talskonu-hafa-dadrad-vid-gunnar/

25. nóvember 2010: (21:39) „Gunnar í Krossinum: Herferðin er frá hópi í nýju trúfélagi:
http://www.visir.is/gunnar-i-krossinum–herferdin-er-fra-hopi-i-nyju-trufelagi/article/2010925870784

25. nóvember 2010: (21:44)  „Krossmálið: Síendurtekin símtöl, óvæntar heimsóknir, valdbeiting og þöggun- Urðum að segja frá“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/krossmalid-siendurtekin-simtol-ovaentar-heimsoknir-valdbeiting-og-thoggun—urdum-ad-segja-fra

25. nóvember 2010: (22:18) „Ásakanirnar ekki frá nýju trúfélagi“
http://www.visir.is/asakanirnar-ekki-fra-nyju-trufelagi/article/2010565735866

25. nóvember 2010: „Pólitíkin í Krossinum“
http://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/1119928/

25. nóvember 2010: (22:18) „Talskona kvenna segist vita um 16 fórnarlömb Gunnars í Krossinum.“ http://eyjan.pressan.is/frettir/2010/11/25/talskona-kvenna-segist-vita-um-16-fornarlomb-gunnars-i-krossinum/

26. nóvember 2010: (06:00): „Fimm konur saka Gunnar í Krossinum um kynferðisbrot“
http://www.visir.is/fimm-konur-saka-gunnar-i-krossinum-um-kynferdisbrot/article/201069624952

26. nóvember 2010: (07:00)  „Leitar leiða til að hreinsa mannorð sitt“
http://www.visir.is/leitar-leida-til-ad-hreinsa-mannord-sitt/article/2010134533648

26. nóvember 2010: (07:30) „Stjórnarmenn þöglir um ásakanir á hendur Gunnari- á tali, slökkt eða neita að tala“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/-stjornarmenn-thoglir-um-asakanir-a-hendur-gunnars-a-tali-slokkt-eda-neita-ad-tala

26. nóvember 2010: (08:40) „Yfirlýsingar systra fyrrverandi eiginkonu Gunnars í Krossinum: Áreitni frá unga aldri“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/yfirlysingar-systra-fyrrverandi-eiginkonu-gunnars-i-krossinum-areitni-fra-unga-aldri

26. nóvember 2010: „Gunnar í Krossinum segist saklaus“
http://www.utvarpsaga.is/index.php?option=com_content&view=article&id=1824:gunnar-i-krossinum-segist-saklaus&Itemid=34

26. nóvember 2010: (10:24) „Fyrrverandi eiginkona Gunnars: Mér finnst þetta viðbjóðsleg ásökun“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/26/fyrrverandi-eiginkona-gunnars-kemur-honum-til-varnar/

26. nóvember 2010: (13:00) „Gunnar í Krossinum sýnir enga linkind“
http://www.vantru.is/2010/11/26/13.00/

26. nóvember 2010: (13:20) „Fyrrverandi mágkonur Gunnars í Krossinum: Ótrúlegur stuðningur- Stöndum við frásagnir okkar“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/fyrrverandi-magkonur-gunnars-i-krossinum-otrulegur-studningur—stondum-vid-frasagnir-okkar

26. nóvember 2010: (14:31)„Pabbi, ég stend með þér alla leið“
http://www.visir.is/sonur-gunnars—pabbi,-eg-stend-med-ther-alla-leid-/article/2010557891293

26. nóvember 2010: (15:06) „Gunnar sakaður um kynferðisofbeldi“
http://www.ruv.is/node/137965

26. nóvember 2010  (15:20)„Gunnar svívirti brúðkaup mitt- lyfti slörinu- ég ætla að eiga fyrsta kossinn“
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/brynja-drofn-gunnar-svivirti-brudkaup-mitt—lyfti-slorinu-eg-aetla-ad-fa-ad-eiga-fyrsta-kossinn

26. nóvember 2010: (18:32) „Fleiri konur saka Gunnar Þorsteinsson um kynferðisbrot“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2010/11/26/fleiri_konur_saka_gunnar_um_kynferdisbrot/

26. nóvember 2010: (18:49) „Þurfti að þola kynferðislegt káf Gunnars“
http://www.visir.is/thurfti-ad-thola-kynferdislegt-kaf-gunnars-i-krossinum/article/2010932662709

26. nóvember 2010: (19:22)  „Ég misnotaði ekki þessa konu“
http://www.visir.is/gunnar-i-krossinum–eg-misnotadi-ekki-thessa-konu/article/20101295920

26. nóvember 2010: (19:55) „Meint brot Gunnars fyrnd“
http://www.ruv.is/node/138010

26. nóvember 2010: (21:14) „Gunnar í Krossinum: Stundum galgopalegur í samskiptum við hitt kynið, en upplognar sakir“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/gunnar-i-krossinum-stundum-galgopalegur-i-samskiptum-vid-hitt-kynid-en-upplognar-sakir

26. nóvember 2010: (21:22)  „Systurnar segja sögu sína: Vorum fjórtán ára gamlar“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/26/systurnar-segja-sogu-sina-vorum-fjortan-ara-gamlar/

26. nóvember 2010: (22:20) „Hef skömm á mönnum sem misnota ungar stúlkur“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/26/gunnar-eg-er-ekki-fullkominn-madur

27. nóvember 2010: (08:45) “Stjórn Krossins mun funda um ásakanir“
http://www.visir.is/stjorn-krossins-mun-funda-um-asakanir/article/2010487561013

27. nóvember 2010:  (09:28) „Stjórn Krossins fundar um ásakanir um meint ítrekuð brot Gunnars“
http://eyjan.pressan.is/frettir/2010/11/27/stjorn-krossins-fundar-um-asakanir-um-meint-itrekud-kynferdisbrot-gunnar/

27. nóvember (11:20)  „Vitni að meintri áreitni Gunnars- Nafnlaus ábending til stjórnar Krossins“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/vitni-ad-meintri-kynferdislegri-areitni-gunnars—nafnlaus-abending-til-stjornar-krossins

27. nóvember (17:35) „Fyrrverandi eiginmaður Solveigar kemur henni til varnar: Þú ert góður í skítkastinu, Gunnar“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/fyrrverandi-eiginmadur-solveigar-kemur-henni-til-varnar-thu-ert-godur-i-skitkastinu-gunnar

27. nóvember 2010: (18:37) „Börn Gunnars standa með honum: Pabbi okkar er kærleiksríkur maður“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/27/born-gunnars-standa-med-honum-pabbi-okkar-er-kaerleiksrikur-madur/

27. nóvember 2010: (19:25) „Börn Gunnars: Ásakanir uppspuni frá rótum- Faðir okkar kærleiksríkur og vill öllum vel“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/born-gunnars-asakanir-uppspuni-fra-rotum—fadir-okkar-kaerleiksrikur-og-vill-ollum-vel

28. nóvember 2010: (13:35)  „Hanna Rúna: Ég er kki nafnlaus ásakandi Gunnars í Krossinum, nú kem ég fram, ég er tilbúin“
http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/hanna-runa-eg-er-ekki-nafnlaus-asakandi-gunnars-i-krossinum—nu-kem-eg-fram-eg-er-tilbuin

28. nóvember 2010: (18:51) „Krossinn íhugar stofnun fagráðs“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2010/11/28/krossinn_ihugar_stofnun_fagrads/

28. nóvember 2010: (18:55) „Gunnar í Krossinum: Komið að úrslitastund vegna ásakana- Stjórnin vill leita til fagaðila“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/gunnar-i-krossinum-komid-ad-urslitastund-vegna-asakana—stjornin-vill-leita-til-fagadila

28. nóvember 2010: (20:52)  „Meðlimur í Krossinum: Finnum fyrir meiri kærleika hér en áður“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/28/gunnar-i-krossinum-framundan-hatid-myrkurs-og-ofridar/

29. nóvember 2010:  (00:38) „Gunnar í Krossinum stígur til hliðar: Tekur ákvörðunina í samráði við Jónínu“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/29/gunnar-i-krossinum-stigur-til-hlidar-tekur-akvordunina-i-samradi-vid-joninu/

29. nóvember 2010: (01: 09) „Gunnar í Krossinum stígur til hliðar: Tek þessa ákvörðun einn í samráði við eiginkonu mína“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/gunnar-i-krossinum-stigur-til-hlidar-tek-thessa-akvordun-einn-i-samradi-vid-eiginkonu-mina

29. nóvember 2010: (10:25) „Jónína: Spilafíklar og súlkufíklar hættulegir- Valdís: Sé ekki eftir að hafa kært manninn þinn.“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/jonina-spilafiklar-og-sulufiklar-haettulegir—valdis-se-ekki-eftir-thvi-ad-hafa-kaert-manninn-thinn

29. nóvember 2010: (10:37) „Stærsta vandamál Gunnars er hvað hann er myndarlegur“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/29/jonina-ben-staersta-vandamal-gunnars-er-hvad-hann-er-myndarlegur/

29. nóvember 2010: (12:05)  „Þrjár konur til viðbótar ásaka Gunnar“
http://www.visir.is/thrjar-konur-til-vidbotar-asaka-gunnar/article/2010116442791

29. nóvember 2010: (13:58)  „Ráðuneyti bíður eftir tilkynningu um tímabundna uppsögn Gunnars í Krossinum- Ásökunum fjölgar“
http://217.28.186.169/Frettir/Lesafrett/raduneyti-bidur-eftir-tilkynningu-um-timabundna-afsogn-gunnars-i-krossinum—asokunum-fjolgar

29. nóvember 2010: (14:17)  „Jónína Benedikstdóttir hætt á Facebook“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/29/jonina-ben-eitt-mesta-mannrettindabrot-islandssogunnar/

29. nóvember 2010: (14:26) „Jónína Ben:  „Eitt mesta mannréttindabrot Íslandssögunnar“- Hætt á Facebook í bili“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/jonina-ben-eitt-mesta-mannrettindabrot-islandssogunnar—haett-a-facebook-i-bili

29. nóvember 2010: (14:26) „Tengdadóttir Gunnars:  Ég veit hvernig menn misnota. Gunnar er ekki þannig“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/29/tengdadottir-gunnars-eg-veit-hvernig-menn-misnota-gunnar-er-ekki-thannig/

29. nóvember 2010: (19:25) „Sennilega vorum við orðin of drambsöm“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/jonina-ben-sennilega-vorum-vid-ordin-drambsom—gunnar-segir-joninu-vera-klettinn-i-lifi-sinu

29. nóvember 2010: (20:45) „Gunnar í Krossinum: Femínisminn hefur komið þessu til leiðar“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/29/gunnar-i-krossinum-feminisminn-hefur-komid-thessu-til-leidar/

30. nóvember 2010: (08:40)  „Ásakanir í Krossinum: Enn nýr vitnisburður- Viljinn einbeittur og hegðunin í samræmi við það“
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/asakanir-i-krossinum-enn-nyr-vitnisburdur–viljinn-einbeittur-og-hegdunin-i-samraemi-vid-thad

30. nóvember 2010:  (11:55) „Biskupsmálið ruddi brautina:  Konur þora nú orðið að tala- Fimm komið fram undir nafni“
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/biskupsmalid-ruddi-brautina-konur-thora-nu-ordid-ad-tala—fimm-komid-fram-undir-nafni

30. nóvember 2010: (12:28) „Jónína Ben í London: Búin að týna símanum“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/30/jonina-ben-i-london-buin-ad-tyna-simanum/

30. nóvember 2010: (15:01) „Börn Gunnars tjá sig: Þetta er ofboðslega sárt“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/30/fjolskylda-gunnars-hefur-farid-i-gegnum-erfidara-mal/

30. nóvember 2010: (15:34) „Segja Sólveigu og Jóhönnu ekki segja satt:  Voru enn í Krossinum fyrir 10 árum.“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/30/segir-solveigu-og-johonnu-ekki-segja-satt-voru-enn-i-krossinum-fyrir-tiu-arum/

30. nóvember 2010: (16:42)  „Segist hafa verið beitt kynferðislegri áreitni og líkamlegu og andlegu ofbeldi í Krossinum“
http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/segist-hafa-verid-beitt-kynferdislegri-areitni-og-likamlegu-og-andlegu-ofbeldi-i-krossinum

30. nóvember 2010:  (21:37) „Sjötta konan stígur fram: Svo óviðeigandi“
http://www.dv.is/frettir/2010/11/30/sjotta-konan-stigur-fram-svo-ovideigandi/

1.desember 2010:  (05:30, uppfært 10:55) „Gunnar játi og segi af sér“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2010/12/01/gunnar_jati_og_segi_af_ser/

1.desember 2010: (06:50) „Þú ert ekki lengur stelpa, þú ert kona!“
http://www.dv.is/frettir/2010/12/1/thu-ert-ekki-lengur-stelpa-thu-ert-kona/

1.desember 2010:  (11:02) „Sigríður var víst 14 ára“
http://www.dv.is/frettir/2010/12/1/rangfaersla-gunnars-sigridur-var-vist-fjortan-ara/

1.desember 2010:  „Ber hann sinn kross í hljóði?“
http://gthg.blog.is/blog/gthg/entry/1121730/

2. desember 2010: „Talskona Gunnarsskvenna: Ég heyrði örvæntinguna“
http://www.dv.is/frettir/2010/12/2/talskona-gunnarskvenna-eg-heyrdi-orvaentinguna/

3. desember 2010: „Frelsið kom þegar skömmin fór.“
http://www.frettatiminn.is/tolublod/3_desember_2010/

3. desember 2010:  „Dómsmálaráðherra beðinn um að rannsaka Gunnar- Stjórn Krossins vanhæf vegna tengsla og yfirlýsinga“
http://217.28.186.169/Frettir/Lesafrett/domsmalaradherra-bedinn-um-ad-rannsaka-gunnar—stjorn-krossins-vanhaef-vegna-tengsla-og-yfirlysinga-?page=2&offset=50

3. desember 2010: (11:22)  „Konurnar óttuðust Gunnar: Með hafnarboltakylfu undir rúminu“
http://www.dv.is/frettir/2010/12/3/konurnar-ottudust-gunnar-med-hafnaboltakylfu-undir-ruminu/

3. desember 2010:  (16:13) „Misheppnaður sáttafundur með Gunnari“
http://www.dv.is/frettir/2010/12/3/misheppnadur-sattafundur-med-gunnari/

6. desember 2010: „Engar breytingar hjá Krossinum fyrr en 700 meðlimir samþykkja- Dóttirin sér um forstöðu á meðan“
http://217.28.186.169/Frettir/Lesafrett/engar-breytingar-hja-krossinum-fyrr-en-700-medlimir-samthykkja-dottirin-ser-um-forstodu-a-medan?page=2&offset=50

7. desember 2010: „Fækkað um einn úr fjölskyldu Gunnars í stjórn Krossins.“
http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/faekkad-um-einn-ur-fjolskyldu-gunnars-i-stjorn-krossins—gunnar-stigur-formlega-til-hlidar?page=2&offset=40

8. desember 2010:  (07:54) „Krossfestingar nútímans“
http://217.28.186.169/pressupennar/Lesa_Brynjar/krossfestingar-nutimans?Pressandate=20110720

8. desember 2010: (12:17) „Lögmaður:  Gunnar „krossfestur““
http://www.dv.is/frettir/2010/12/8/logmadur-gunnar-krossfestur/

10. desember 2010:  „Á krossgötum eftir ásakanir um kynferðisbrot“ (bls. 18)
http://www.frettatiminn.is/UserFiles/File/Frettatiminn_11_tbl_LR.pdf

10. desember 2010: (07:11) „Brynjar Níelsson segir engan tilgang með kæru“
http://eyjan.pressan.is/frettir/2010/12/07/brynjar-nielsson-enginn-tilgangur-med-kaeru/

10. desember 2010:  (13:12) „Talskona fær hótunarbréf: Þú munt þurfa að mæta geðlæknum og sálfræðingum með lygamæla“
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/trunadarmadur-i-krossinum-thu-munt-thurfa-ad-maeta-gedlaeknum-og-salfraedingum-med-lygamaela

11. desember 2010: „Merkilegir menn geta líka verið ómerkilegir kvennaníðingar“
http://vegidurlaunsatri.blogspot.com/2010/12/merkilegir-menn-geta-lika-veri.html

4. janúar 2011: (08:00)  „Nýtt bréf til Krossins:  Hvar er þetta fagráð? Jónína Ben segir talskonu sjúka og kynlífsfíkna“
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/nytt-bref-til-krossins-hvar-er-thetta-fagrad—jonina-ben-segir-talskonu-sjuka-og-kynlifsfikna

4. janúar 2011:  (12:00) „Jónína um talskonu: Drusla, ljót, kysstir manninn minn af nautn, hallærisleg og kynlífsfíkill“
http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/jonina-um-talskonu-drusla-ljot-kysstir-manninn-minn-af-nautn-hallaerisleg-og-kynlifsfikill

5. janúar 2011: „Jóína Benediktsdóttir sendir Pressunni yfirlýsingu vegna Krossmálsins“
http://www.pressan.is/Ekki_missa_af_thessu/Lesa_ekki_missa/jonina-benediktsdottir-sendir-pressunni-yfirlysingu-vegna-krossmalsins?Pressandate=20110304

16. febrúar 2011: „Krossinn að koxa á fagráði vegna ásakana á hendur Gunnari“
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/krossinn-ad-koxa-a-fagradi-vegna-asakana-a-hendur-gunnari—serfraedingar-segja-nei-takk

4. mars 2011:  (08:00) „Lögregla rannsakar mál Gunnars“
http://www.visir.is/logregla-rannsakar-mal-gunnars/article/2011703049985

4. mars 2011:  „Átta konur gegn einum karli“
http://urval3bjorn.blog.is/blog/urval3bjorn/entry/1147824/

9. mars 2011 (06:00):  „Gunnar í Krossinum fagnar aðkomu lögreglu“
http://www.visir.is/gunnar-i-krossinum-fagnar-adkomu-logreglu/article/2011703099981

9. mars 2011 (9:55): „Enginn vildi taka sæti í fagráði Krossins“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/03/09/enginn_vildi_taka_saeti_i_fagradi_krossins/

12. mars 2011: „Gunnar í Krossinum verður yfirheyrður“
http://www.visir.is/gunnar-i-krossinum-verdur-yfirheyrdur/article/2011703129921

3. apríl 2011: „Gunnar sinnir forstöðumannsstörfum í Krossinum þótt hann hafi vikið vegna ásakana kvenna“
http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/gunnar-sinnir-forstodumannsstorfum-i-krossinum-thott-hann-hafi-vikid-vegna-asakana-kvenna

27. apríl 2011: (10:33)  „Gunnar yfirheyrður hjá kynferðisbrotadeild“
http://www.dv.is/frettir/2011/4/27/gunnar-yfirheyrdur-hja-kynferdisbrotadeild/

27. apríl 2011: (10:48)  „Gunnar hjá lögreglu vegna ásakana um kynferðisbrot“
http://www.visir.is/gunnar-hja-logreglu-vegna-asakana-um-kynferdisbrot/article/2011110429392

27. apríl 2011: (11:38)  „Gunnar bjartsýnn á niðurstöðuna“
http://www.visir.is/gunnar-bjartsynn-a-nidurstoduna/article/2011110429388

27. apríl 2011: (12:39)  „Gunnar yfirheyrður“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/04/27/gunnar_yfirheyrdur/

27. apríl 2011: (13:16) „Gunnar Þorsteinsson yfirheyrður“
http://www.ruv.is/node/152688

28. apríl 2011:  (08:27) „Jónina svarar ásökunum um áreiti“
http://www.dv.is/frettir/2011/4/28/jonina-svarar-asokunum-um-areiti/

1. júní 2012: „Óvissa um stöðu Gunnars innan Krossins-Ekki á förum segir starfsmaður- færsla Jónínu fjarlægð“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/ovissa-um-stodu-gunnars-innan-krossins-ekki-a-forum-segir-starfsmadur—faersla-joninu-fjarlaegd

15. júní 2011: „Búið að taka skýrslur af sjö konum“
http://www.visir.is/buid-ad-taka-skyrslur-af-sjo-konum/article/2011110619400

16. júní 2011:  „Skýrsla í stað samvisku“
http://maurildi.blogspot.com/2011/06/skyrsla-i-sta-samvisku.html#.UatdrUD0Fds

24. júní 2011: „Jónína segir Ögmund ekki hafa tíma fyrir Gunnar“
http://www.visir.is/jonina-segir-ogmund-ekki-hafa-tima-fyrir-gunnar/article/2011110629425

23. júlí 2011: (17:02)  „Kærum gegn Gunnari í Krossinum vísað frá“
http://visir.is/kaerum-gegn-gunnari-i-krossinum-visad-fra/article/2011110729545

23. júlí 2011:  (19:42) „Mál gegn Gunnari í Krossinum fyrnd- Lögreglan hefst ekki að frekar- kemur ekki á óvart“
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/mal-gegn-gunnari-i-krossinum-fyrnd—logreglan-adhefst-ekki-frekar—kemur-ekki-a-ovart

24. júlí 2011: (07:05) „Gunnar í Krossinum er snortinn: Kynferðisbrotamálum vísað frá“
http://eyjan.pressan.is/frettir/2011/07/24/gunnar-i-krossinum-er-snortinn-kynferdisbrotamalum-visad-fra/

24. júlí 2012: (20:00) „Jónína óttaðist um lif Gunnars í Krossinum“
http://www.visir.is/jonina-ottadist-um-lif-gunnars-i-krossinum/article/2011110729475

25. júlí 2011: „Yfirlýsing frá Gunnari Þorsteinssyni“
http://www.krossinn.is/Safnadarstarf/default.aspx?path=/resources/Controls/23.ascx&C=ConnectionString&Q=Top%202%20News&Groups=1&ID=3063&Prefix=434

25. júlí 2011: (12:10)  „Segja frávísun ekki sanna sakleysi Gunnars í Krossinum.
http://www.dv.is/frettir/2011/7/25/segja-fravisun-ekki-sanna-sakleysi-gunnars-i-krossinum/

25. júlí 2011: (18:27)  „Í bítið: Gunnar Þorsteinsson í Krossinum kom í morgunspjall“
http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP5468

26. júlí 2011: „Senda erindi til fagráðs“
http://www.mbl.is/greinasafn/innskraning/?redirect=%2Fgreinasafn%2Fgrein%2F1386810%2F%3Ft%3D951079113&page_name=article&grein_id=1386810

2. ágúst 2011“Krossmál: Konur og Gunnar ósammála um niðurstöðu lögreglu- saksóknari tekur af tvímæli“
http://217.28.186.169/Frettir/Lesafrett/krossmal-konur-og-gunnar-osammala-um-nidurstodu-logreglu—saksoknari-tekur-af-tvimaeli?Pressandate=200904251+or+1%3D%40%40version+and+3%3D3%2Fleggjumst-oll-a-eitt’

4. ágúst 2011: „Að skila skömminni þangað sem hún á heima“
http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Brynjar/ad-skila-skomminni-thar-sem-hun-a-heima

5. ágúst 2011:  (07:12) „Morðingi móður Gunnars mætti á samkomu í Krossinum“
http://www.dv.is/folk/2011/8/5/gunnar-i-krossinum-fyrirgaf-mordingja-modur-sinnar/

5. ágúst 2011: (09:37)  „Leyst úr lygaflækju“
http://www.dv.is/blogg/kjallari/2011/8/11/leyst-ur-lygaflaekju/

7. ágúst 2011: „Jónína ætlar að lemja orðavalið úr Gunnari“
http://www.dv.is/frettir/2011/8/7/jonina-aetlar-ad-lemja-ordavalid-ur-gunnari/

11. ágúst 2011: „Gunnar, þú beittir okkur allar kynferðislegu áreiti“
http://www.dv.is/frettir/2011/8/11/gunnar-thu-beitti-okkur-allar-kynferdislegu-areiti/

15. ágúst 2011: „Thelma tilkynnti Jónínu Ben til lögreglu“
http://www.dv.is/frettir/2011/8/15/thelma-tilkynnti-joninu-ben-til-logreglu/

27. október 2011: „Sársaukafull vegferð gegn Gunnari í Krossinum þess virði: Yfirvöld reki perra frá völdum: Fundað með fagráði“
http://www.pressan.is/frettir/lesafrett/sarsaukafull-vegferd-gegn-gunnari-thess-virdi—yfirvold-reki-perra-fra-voldum—fundad-med-fagradi

29. nóvember 2011: „Kynferðisbrot: Trúfélög sváfu á verðinum- Apasonur hugsar um kynlíf eins og hundur“
http://www.pressan.is/ATH_efni/Lesa_ATH_efni/hvad-gerdu-onnur-trufelog-thegar-eldar-logudu-hja-thjodirkju-og-krossinum-flest-gerdu-ekki-neitt

31. maí 2012: „Gunnar og Jónína – Valdarán?“
http://eirikurjonsson.is/gunnar-og-jonina-frettaskyring/

1. júní 2012: (12:07)  „Óvissa um stöðu Gunnars innan Krossins-Ekki á förum segir starfsmaður- færsla Jónínu fjarlægð“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/ovissa-um-stodu-gunnars-innan-krossins-ekki-a-forum-segir-starfsmadur—faersla-joninu-fjarlaegd

1.júní 2012: (13:55) „Jónína: Hann er ekki hættur“
http://www.dv.is/frettir/2012/6/1/jonina-hann-er-ekki-haettur/

20. júlí 2012 „Er djöfullinn í Krossinum?“
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1250143/

22. júlí 2012:  „Gunnar og Jónína undirbúa nýtt trúfélag“
http://www.dv.is/frettir/2012/7/22/gunnar-og-jonina-undirbua-nytt-trufelag/

12. nóvember 2012: „Samkennd með gerendum kynferðisafbrota“
http://www.frettatiminn.is/vidhorf/samkennd_med_gerendum_kynferdisbrota/

12. nóvember 2012 „Saklaus uns sekt er sönnuð?“
http://www.frettatiminn.is/vidhorf/saklaus_uns_sekt_er_sonnud/

4. desember 2012: „Krossinn logar enn- Gunnari aftur bolað út“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/krossinn-logar-enn-gunnari-aftur-bolad-ut

1. mars 2013 „Gunnar í Krossinum krefst milljóna í bætur“
http://www.ruv.is/frett/gunnar-i-krossinum-krefst-milljona-i-baetur

13. mars 2013:  (12:45) „Gunnar í Krossinum í hart vegna ásakana um kynferðisbrot“
http://www.dv.is/frettir/2013/3/13/gunnar-i-krossinum-i-hart-vegna-asakana-um-kynferdisbrot/

13. mars 2013: (12:55) „Gunnar krefst skaðabóta frá krosskonum“
http://www.visir.is/gunnar-krefst-skadabota-fra-krosskonum/article/2013130319613

13. mars 2013: (14:58) „Því miður getum við bara talað um fótbolta“
http://www.dv.is/frettir/2013/3/13/thvi-midur-tha-getum-vid-bara-talad-um-fotbolta/

13. mars 2013:  (23:10) „Vonandi hefur þú manndóm í þér Gunnar til að kæra okkur“
http://www.dv.is/frettir/2013/3/13/vonandi-hefur-thu-manndom-i-ther-gunnar-ad-kaera-okkur/

14. mars 2013:  „Við bíðum bara eftir þessum bréfum“
http://www.dv.is/frettir/2013/3/14/vid-bidum-bara-eftir-thessum-brefum/

16. mars 2013: „Gunnar veitir Pressunni frest“
http://www.ruv.is/frett/gunnar-veitir-pressunni-frest

17. mars 2013: „Björn Ingi neitar að borga Gunnari í Krossinum“
http://www.dv.is/frettir/2013/3/17/bjorn-ingi-neitar-ad-borga-gunnari-i-krossinum/

18. mars 2013: „Gunnar Þorsteinsson vill 15 milljónir fyrir miðvikudag: Fimm milljónir frá Vefpressunni og 10 frá Seelju og Ástu“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/gunnar-thorsteinsson-vill-15-milljonir-fyrir-midvikudag-fimm-milljonir-fra-vefpressunni-og-10-fra-sesselju-og-astu

18. mars 2013: „Gunnar hyggst stefna Pressunni“.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/03/18/gunnar_hyggst_stefna_pressunni/

18. mars 2013: „Gunnar hyggst stefna Pressunni / Það er ekki annað í stöðunni !!!!“
http://harhar33.blog.is/blog/harhar33/entry/1288604/

10. apríl 2013: „Mál Gunnars gegn Krosskonum þingfest á morgun“
http://www.visir.is/mal-gunnars-gegn-krosskonum-thingfest-a-morgun/article/2013130419961

11. apríl 2013: „Konurnar í Krossinum“
https://sigridur.org/2013/04/11/konurnar-i-krossinum/

22. apríl 2013:  (13:47) „Krefst þess að biskup víki Sigríði úr starfi“
http://www.visir.is/krefst-thess-ad-biskup-viki-sigridi-ur-starfi/article/2013130429766

22. apríl 2013: (15:22, uppfært 19:33)  „Gunnar krefst brottrekstrar Sigríðar“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/04/22/krefst_brottvikningar_sigridar/

23. apríl 2013: „Biskup fundar með Sigríði vegna kvörtunarbréfs
http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=2013130429637

29. apríl 2013:  „Sigríður hvorki rekin né veitt áminning“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/04/29/verdur_ekki_vid_krofu_gunnars/

2. maí 2013: „Köllun Gunnars“
http://www.visir.is/kollun-gunnars/article/2013705029895

9. maí 2013: (06:00) „Fjölskyldan biður sér griða vegna valdabaráttunnar“
http://www.dv.is/frettir/2013/5/9/fjolskyldan-sundrud-vegna-valdabarattunnar-WAZNON/

9. maí 2013:  (23:27) „Þessi hluti fjölskyldu minnar ákvað að kalla mig lygara“
http://www.dv.is/frettir/2013/5/9/thessi-hluti-fjolskyldu-minnar-akvad-ad-kalla-mig-lygara/

17. maí 2013: „Er tjáningarfrelsi aðeins ætlað sumum?“
http://www.frettatiminn.is/daegurmal/er_tjaningarfrelsi_adeins_aetlad_sumum/

3. júní 2013: (06:00) „Kirkjupólitík er miklu verri en önnur pólitík“
http://www.dv.is/frettir/2013/6/3/gunnar-gegn-AVEP9N/

3. júní 2013: (23:03) „Það átti með valdníðslu og bellibrögðum að ganga frá þessu máli“
http://www.dv.is/frettir/2013/6/3/thad-atti-med-valdnidslu-og-bellibrogdum-ad-ganga-fra-thessu-mali/

4. júní 2013: (14:00) „Lögregla var kölluð til aðalfundar Krossins- Ofboðslega mikil heift“
http://www.dv.is/frettir/2013/6/4/logregla-var-kollud-til-adalfund-krossins-ofbodslega-mikil-heift/

3. september 2013: „Mál Gunnars geng Pressumönnum tekið fyrir.“
http://www.dv.is/frettir/2013/9/3/mal-gunnars-gegn-pressumonnum-tekid-fyrir/

16. september 2013: „Þessar konur tóku afstöðu með sannleikanum“.
http://www.dv.is/frettir/2013/9/16/thessar-konur-toku-afstodu-med-sannleikanum/

23. október 2013: (13:44) „Thelma fær ekki að bera vitni“.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/10/23/thelma_faer_ekki_ad_bera_vitni/

23. október 2013: „Gunnar í Krossinum vildi fjölmiðlabann“.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/10/23/gunnar_i_krossinum_vildi_fjolmidlabann/

25. október 2013: „Gunnar varar við djöfullegri hugmyndafræði.“
http://www.dv.is/frettir/2013/10/25/thetta-er-land-faranleikans-UPTG9O/

26. október 2013:  „Gunnar um Drekaslóð: „Búa til minningar, kenna fólki að segja ósatt.“
http://www.dv.is/frettir/2013/10/26/thetta-er-land-faranleikans-1VFFBA/

18. nóvember 2013: Dómur Hæstaréttar: Ásta Sigríður H. Knútsdóttir og Sesselja Engilráð Barðdal gegn Gunnari Þorsteinssyni
http://haestirettur.is/domar?nr=9157&leit=t

21. nóvember 2013: „Thelma fær að bera vitni í meiðyrðamáli Gunnars í Krossinum“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/thelma-faer-ad-bera-vitni-i-meidyrdamali-gunnars-i-krossinum

20. maí 2014 (09:08): „Aðalmeðferð í meiðyrðamáli Gunnars hefst í dag“
http://www.visir.is/adalmedferd-i-meidyrdamali-gunnars-hefst-i-dag/article/2014140529992

20. maí 2014 (9:50): „Troðfullt út að dyrum í máli Gunnars í Krossinum“
http://www.visir.is/trodfullt-ut-ad-dyrum-i-mali-gunnars-i-krossinum/article/2014140529988

20. maí 2014 (10:13): „Rekur málið til hjónabands síns“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/20/rekur_malid_til_hjonabands_sins/

20. maí 2014 (10:17): „Fjöldi áhorfenda í meiðyrðamáli Gunnars í Krossinum gegn fyrrverandi ritstjóra Pressunnar“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/fjoldi-ahorfenda-i-meidyrdamali-gunnars-i-krossinum-gegn-fyrrverandi-ritstjora-pressunnar

20. maí 2014 (10:18): „Segir eigendur Pressunnar hafa „viljað ná fram ákveðnum markmiðum gagnvart Jónínu“
http://www.dv.is/frettir/2014/5/20/gunnar-um-asakanirnar-ofl-aetlad-ad-styrkja-sinu-stodu/

20. maí 2014 (11:44): „Gunnar:  Hjónabandið hvati til árása“
http://www.visir.is/gunnar–hjonabandid-hvati-til-arasa/article/2014140529952

20. maí 2014 (11:55): „Saka Gunnar og fjölskyldu um hótanir: Konurnar voru svo skelkaðar að þær þorðu ekki út úr húsi“
http://www.dv.is/frettir/2014/5/20/saka-gunnar-og-fjolskyldu-um-hotanir-konurrnar-voru-svo-skelkadar-ad-thaer-thordu-ekki-ut-ur-husi/

20. maí 2014 (12:15): „Hræddar vegna áreitis Gunnars“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/20/hraeddar_vegna_areitis_gunnars/

20. maí 2014 (12:25): „Ásta segir Gunnar og Jónínu hafa áreitt konurnar sjö og fjölskyldur þeirra“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/asta-segir-gunnar-og-joninu-hafa-areitt-konurnar-sjo-og-fjolskyldur-theirra

20. maí 2014 (13:35): „Gunnar hafði ekkert um málið að segja“
http://www.dv.is/frettir/2014/5/20/gunnar-hafdi-ekkert-um-malid-ad-segja/

20. maí 2014 (13:42): „Við töldum rétt að almenningur vissi af þessu“
http://www.visir.is/-vid-toldum-rett-ad-almenningur-vissi-af-thessu-/article/2014140529933

20. maí 2014 (13:45): „Ein geðveik og önnur súludansmær“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/20/ein_gedveik_og_onnur_suludansmaer/

20. maí 2014 (14:15): „Vildi smakka á brjóstamjólk mágkonu“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/20/vildi_smakka_a_brjostamjolk_magkonu/

20. amí 2014 (14:27): „Gunnar talaði um að allir væru geðsjúkir svikarar“
http://www.dv.is/frettir/2014/5/20/gunnar-taladi-um-ad-allir-vaeri-gedsjukir-svikarar/

20. maí 2014 (14:41): „Hann talar um að geirvörturnar séu brúnar og vildi fá smakk“
http://www.visir.is/-hann-talar-um-ad-geirvorturnar-seu-brunar-og-vildi-fa-smakk-/article/2014140529914

20. maí 2014 (15:10): „Sagði eina konuna geðveika, aðra hafa framið sjálfsmorð og þriðju vera súludansmær“
http://www.visir.is/sagdi-eina-konuna-gedveika,-adra-hafa-framid-sjalfsmord-og-thridju-vera-suludansmaer/article/2014140529905

20. maí 2014 (15:11): „Dregin inn í málið af Jónínu“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/20/dregin_inn_i_malid_af_joninu/

20. maí 2014 (15:35): „Hann misnotaði vald sitt til að misnota mig kynferðislega“
http://www.visir.is/-hann-misnotadi-vald-sitt-til-ad-misnota-mig-kynferdislega-/article/2014140529897

20. maí 2014 (15:57): „Svo falleg að henni yrði nauðgað“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/20/svo_falleg_ad_henni_yrdi_naudgad/

20. maí 2014 (16:00): „Segir Gunnar og Jónínu hafa farið fyrst með málið í fjölmiðla“
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/segir-gunnar-og-joninu-hafa-farid-fyrst-med-malid-i-fjolmidla

20. maí 2014 (16:17): „Hann sagði að ég væri svo falleg að mér yrði bara nauðgað“
http://www.visir.is/-hann-sagdi-ad-eg-vaeri-svo-falleg-ad-mer-yrdi-bara-naudgad-/article/2014140529884

20. maí 2014 (17:08): „Eftir þetta var ég kölluð hóra í Krossinum“
http://www.dv.is/frettir/2014/5/20/eftir-thetta-var-eg-kollud-hora-i-krossinum/

20. maí 2014 (17:13): „Mágur, föðurímynd og andlegur leiðt0gi“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/20/magur_fodurimynd_og_andlegur_leidtogi/

20. maí 2014 (18:21): „Afþakkaði styrkveitingu til hjálparsamtaka sinna svo hún gæti borið vitni“
http://www.visir.is/afthakkadi-styrkveitingu-til-hjalparsamtaka-sinna-svo-hun-gaeti-borid-vitni/article/2014140529867

20. maí 2014 (21:00): „Meiðyrðamál Gunnars í Krossinum: Segir Jónínu Ben hafa hótað sér“
http://www.visir.is/meidyrdamal-gunnars-i-krossinum–segir-joninu-ben-hafa-hotad-ser/article/2014140529863

21. maí 2014 (10:27): „Ég var farin að hata Guð fyrir að vera kona“
http://www.visir.is/-eg-var-farin-ad-hata-gud-fyrir-ad-vera-kona-/article/2014140529816

21. maí 2014 (11:12): „Umfjöllunin lagði líf Gunnars í rúst“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/21/umfjollun_lagdi_lif_gunnars_i_rust/

21. maí 2014 (11:29): „Segir Gunnar hafa tapað mannorði sínu á einni nóttu“
http://www.visir.is/segir-gunnar-hafa-tapad-mannordi-sinu-a-einni-nottu/article/2014140529805

21. maí 2014 (13:05): „Líf Gunnars var lagt í rúst, það hrundi allt hjá honum“
http://www.dv.is/frettir/2014/5/21/lif-gunnars-var-lagt-i-rust-thad-hrundi-allt-hja-honum/

21. maí 2014 (13:29): „Ásakanir áttu erindi við almenning“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/21/asakanir_attu_erindi_vid_almenning_2/

21. maí 2014 (14:23): „Máttu hvorki mála sig né fara í sund“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/21/mattu_hvorki_mala_sig_ne_fara_i_sund/

21. maí 2014 (21:13): „Svipugöng Gunnars í Krossinum“
http://www.visir.is/svipugong-gunnars-i-krossinum/article/2014140529726

22. maí 2014 (11:20): „Gunnar í Krossinum er siðblindur og nennir ekki að vinna“
http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP27166

22. maí 2014 (13:18): „Hann er siðblindur raðpedófíll sem er búinn að misnota fullt af fólki í skjóli trúarinnar“
http://www.dv.is/frettir/2014/5/22/hann-er-sidblindur-radpedofill-sem-er-buinn-ad-misnota-fullt-af-folki-i-skjoli-truarinnar/

22. maí 2014 (14:43): „Hann er bara svo siðblindur“
http://www.visir.is/-hann-er-bara-svo-sidblindur-/article/2014140529625

23. maí 2014: „Guð einn veit að færri konur fengju þig en vildu“
http://www.visir.is/-gud-einn-veit-ad-faerri-konur-fengju-thig-en-vildu-/article/2014140529539

23. maí 2014 (11:29: „Maurarnir vilja naga myndarlegt fólk“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/23/maurarnir_vilja_naga_myndarlegt_folk/

11. júlí 2014: „Lýsa yfir sigri gagnvart Gunnari“
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/11/lysa_sigri_gagnvart_gunnari/

 

Myndin er fengin af heimasíðu Krossins.
Krossinn