Flokkur: Jafnrétti og mannréttindi

Kolbrún fór í boltann

Kolbrún Bergþórsdóttir vakti athygli í síðustu viku fyrir umdeildan pistil um fréttaflutning af starfslokum Alex Ferguson hjá Manchester United. Hún uppskar hótanir í kommentakerfunum. En eru Manchester United aðdáendur ekki bara að lýsa skoðun sinni á Kolbrúnu, rétt eins og hún lýsti skoðun á aðdáendum fótbolta?

Mörk liggja á milli skoðanafrelsis og hatursorðræðu. Kolbrún Bergþórsdóttir fór niðrandi og alhæfandi orðum um fótbolta og fótboltaaðdáendur, sem sjálfsagt er að hafa skoðun á. Hún veittist ekki að kynferði þeirra sem hún ræddi um, kynhneigð, kyngervi, aldri, trúarskoðun eða þjóðerni. Hún ógnaði ekki því fólki sem hún skrifaði um eða hvatti það til sjálfsmeiðinga. Fólkið sem ógnar henni, segir henni að drepa sig og að hún sé belja í athugasemdum á samfélagsmiðlum, með tölvupóstum og smáskilaboðum er hins vegar ekki að lýsa skoðun sinni, heldur að taka þátt í hatursorðræðu . Þessi tiltekna hatursorðræða virðist beinast mjög að kynferði Kolbrúnar. Hún er kvenfjandsamleg. Hún er ógnandi.

Við eigum að standa vörð um að fólk fái að segja skoðanir sínar. En það er jafnmikilvægt í siðuðu samfélagi að líða ekki hatursorðræðu og rugla henni ekki saman við tjáningafrelsi. Öllum orðum fylgir ábyrgð, líka orðum aðdáenda Manchester United.

Konurnar í Krossinum

Gunnar Þorsteinsson áður forstöðumaður Krossins hefur stefnt konunum sem studdu konurnar sem ásökuðu hann um kynferðisbrot. Það er grundvallarréttur í lýðfrjálsu landi að þau sem telja sig hafa orðið fyrir kynferðisbrotum fái að segja sögu sína opinberlega án ógnunar. Það er líka grundvallarmál í réttarríki að hver maður fái að verja æru sína. Þversögnin liggur hins vegar í því að vilji maður sýna fram á að maður sé ekki ofbeldismaður er ekki hjálplegt ærunni að stefna fólki sem ásakar mann um ofbeldi. Ég styð rétt Krosskvennanna til að lýsa opinberlega ofbeldinu sem þær hafa orðið fyrir. Ég hef líka valið að trúa þeim og sögu þeirra. Þær eiga stuðningshóp á Facebook og slóðin er http://www.facebook.com/groups/126714100854993/.

Guðfræðingar krefjast svara

Í morgun var mér boðið að fylgjast með Facebook hópi sem ber yfirskriftina „Guðfræðingar krefjast svara: Vettvangur fyrir guðfræði og stjórnmál. Mér þátti verkefnið nýstárlegt og langaði til að vita meira um þessi svör sem guðfræðingarnir eru að krefjast. Þar rakst ég á bréf sem fimm guðfræðingar, Baldur Kristjánsson, Hjalti Hugason, Pétur Pétursson, Sigrún Óskarsdóttir og Sólveig Anna Bóasdóttir hafa sent forsvarsmönnum þeirra sem bjóða fram í vor. Spurningar þeirra lúta að innflytjendamálum, olíuleit á Drekasvæðinu og loftslagsmálum.

Ég hef saknað umræðu um þessi stóru mál, sem teygja sig langt út fyrir okkar litlu flokkapólitík og tengjast samfélagslegri ábyrgð okkar sem manneskjur. Ég hef líka verið hlynnt því að guðfræðingar spyrðu siðferðilegra spurninga um trú og pólitík og beittu sér meira í þeirri umræðu. Þess vegna finnst mér þetta afar gott framtak hjá fimmmenningunum.

Bréfið sem þau sendu hljóðar svona í heild sinni:

Ágætu viðtakendur

Það er mikil ábyrgð fólgin í að vera stjórmálamaður í upphafi 21. aldar. Það er von okkar að þið reynist þeim vanda vaxin. Til að sannfærast um það beinum við til ykkur eftirfarandi þremur spurningum með virðingu og vinsemd.
Því hefur verði haldið fram að sú loftslagsvá sem nú steðjar að jarðarbúum sé brýnasta áskorun sem mannkyn hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Við erum því sammála. Þessi staða kallar á bráða úrlausn á ýmsum vandamálum sem lúta að réttlátri skiptingu jarðargæða og heimsskipan, sem og friðsamlegri sambúð þjóða heims. — Þetta eru hin raunverulegu viðfangsefni stjórnmálanna á 21. öldinni. Eruð þið undir það búin að taka þátt í lausn þeirra?
Tími hefðbundinnar flokkspólitíkur, kjördæma- og hreppapólitíkur sem íslenskt stjórnmálafólk hefur hingað til helgað krafta sína er nú liðinn. Upp er kominn tími málefnalegra stjórnmálaátaka þar sem fengist er við viðfangsefni sem varða gjörvallt mannkyn. Eruð þið tilbúin að taka þátt í þeirri umræðu?
Undirrituð bera það traust til framboðs ykkar eða flokks að þið séuð marktækir viðmælendur í því samhengi sem að ofan greinir. Því berum fram eftirfarandi spurningar í trausti þess að þið veitið greið svör. Við munum gera svörin opinber ásamt því að greina frá þögn þeirra sem hugsanlega svara ekki. — Ef þið treystið ykkur ekki til að taka þátt í umræðu af þessu tagi hljótum við og önnur sem hugsum á viðlíka brautum að líta svo á að þið eigið ekki erindi í pólítíska umræðu.

Spurningarnar eru þessar:
* Hver er stefna framboðs/flokks ykkar varðandi olíuvinnslu á Drekasvæðinu? Hvaða rannsókna- og /eða öryggisaðgerða krefjist þið áður en olíuvinnsla hefst?
* Hvað mun framboð/flokkur ykkar leggja til að gert verði í loftslagsmálum? Hvað munuð þið leggja til að gert verði til að að vinna gegn þeim veðurfarsbreytingum sem búast má við í náinni framtíð?
* Hver er stefna framboðs/flokks ykkar í innflytjendamálum? Hvað munuð þið leggja til varðandi málefni flóttafólks sem leitar hingað?
Til frekari skýringa á ofangreindum spurningum vísast til meðfylgjandi greinargerðar.
Með virðingu.
Baldur Kristjánsson (bk@baldur.is)
Hjalti Hugason (hhugason@hi.is / 899 66 23)
Pétur Pétursson (petp@hi.is)
Sigrún Óskarsdóttir (sigrun@arbaejarkirkja.is / 863 19 10)
Sólveig Anna Bóasdóttir (solanna@hi.is / 849 33 38)
guðfræðingar

Spurningar til framboða til Alþingis vorið 2013
Greinargerð

* Hver er stefna framboðs/flokks ykkar varðandi olíuvinnslu á Drekasvæðinu? Hvaða rannsókna- og /eða öryggisaðgerða krefjist þið áður en olíuvinnsla hefst?
Líklega hafa mörg okkar glaðst þegar rannsóknaleyfum var nýlega úthlutað á Drekasvæðinu. Efnahagshörmungarnar í kjölfar Hrunsins eru teknar að þreyta, uppbyggingunni hefur miðað hægar en vonast var eftir. Samt hefur ýmislegt gott verið gert. Reynt hefur verið að standa vörð um kjör þeirra lakast settu og auka jöfnuð. Hingað til hafa stjórnvöld líka leitast við að láta náttúruna njóta vafans. Varanleg úrræði virðast þó fá. Komist Ísland í hóp olíuríkja virðist raunverulegt ríkidæmi aftur á móti handan við hornið.
Á næstu árum og áratugum setur olíuleit og hugsanlega olíuvinnsla mark sitt á samfélögin hér á norðurslóðum. Með bráðnandi heimsskautajökli og margefldri tækni verður hægt að bora á æ fleiri stöðum. Norðurslóðir verða tæpast mikið lengur það ósnortna víðerni sem þær eru nú. Þess vegna er mikilvægt að skoða málin ofan í kjölinn og hrósvert væri ef við Íslendingar reyndum að koma að þessum málum af yfirvegun og þekkingu á þeim siðferðilegu rökum sem skipta mestu þegar til lengri tíma er litið í stað þess að líta aðeins til gæða og magns olíu í lögsögu okkar.

Dauðans alvara
Olíuvinnsla er eftir sem áður dauðans alvara. Henni fylgir óhjákvæmilega nokkur mengun. Hún skapar hættu á umhverfisslysum sem erfitt mun að bæta á jafn fjarlægum slóðum og Drekasvæðið er. Þá er hið alvarlegasta ótalið: Með olíuvinnslu værum við fyrst og fremst að standa vörð um óbreytt ástand. Draumurinn um olíu í íslenskri lögsögu er fyrst og fremst draumur um að geta haldið áfram þeim orkufreku og mengandi lífsháttum sem við höfum tamið okkur — og auðgast á þeim að auki.
Hér er vissulega um skammgóðan vermi í bókstaflegri merkingu að ræða. Með þessu móti stuðlum við að áframhaldandi hlýnun jarðar, knýjum áfram þá umhverfisvá sem kölluð hefur verið stærsta áskorun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir.
Þetta var atvinnuvegaráðherra fullljóst þegar hann lagði áherslu á að með rannsóknaleyfum væri ákvörðun ekki tekin um olíuvinnslu. En er málið svona einfalt? Hver mun hafa siðferðilegt þrek til að setja lokið á þegar olíulindir hafa fundist í hafinu norður af landinu? Mun þjóðin samþykkja að ekki verið skrúfað frá krananum?
Það er einmitt núna sem umræðan um siðfræði olíuvinnslunnar verður að eiga sér stað. Það verður of seint að hefja hana þegar hið svarta gull er fundið og æðið rennur á fyrir alvöru.

Skyldur okkar sem heimsborgara
Við erum öll borgarar í einum og sama heiminum og höfum skyldum að gegna við hann en ekki aðeins okkar eigið samfélag eða þjóðríki.
Grunnskyldur okkar felast í að standa vörð um þau gildi á heimsvísu sem styðja við lífið í öllum margbreytileika þess. Hér í heimi er allt samtengt: náttúran, hafdjúpin, jörðin og lofthjúpurinn umhverfis hana. Gerðir okkar hér hafa áhrif á fjarlægum slóðum á ókomnum tímum.
Skipan heimsins í þjóðríki og skyldur okkar við þau koma númer tvö í þessu samhengi. Einstakar ákvarðanir þjóðríkja, t.d. um olíuvinnslu, þær reglur sem þau fylgja og aðgerðir einstakra stofnana innan þjóðríkja verður að gaumgæfa með tilliti til þeirra áhrifa sem þessi atriði hafa á heimsvísu.

Heimspekilegar og trúarlegar rætur
Hugmyndin um að mannlegt eðli sé eitt — að einhver kjarni sé sameiginlegur öllum mannverum — er mikilvæg forsenda þegar skyldur okkar við umheiminn eru til umræðu.
Í fornöld litu Stóumenn á sig sem borgara í hinum skipulega alheimi fremur en í borgríkinu. Þeir skilgreindu sig því sem heimsborgara. Hið sameiginlega siðferðilega samfélag alls mannkyns var þess vegna meginmálið.
Mismunandi útfærslur á þessum skilningi má finna í flestum nútímalegum framsetningum á siðfræði, sem og í mannréttindayfirlýsingum tuttugustu aldarinnar. Manngildið og mannhelgin eru undirstöður allra mannréttinda.
Trúarlegar rætur mannréttinda þarf vart að útlista. Að kristnum skilningi er hugmyndin um manneskjuna sem er sköpuð í mynd Guðs fyrirferðamikið stef. Í anda þeirrar hugsunar eigum við öll sömu mannhelgi óháð búsetu, tungu, húðlit eða trú. Enda eru mannréttindi hafin yfir einstök þjóðríki. Þau eru sameiginleg öllum íbúum jarðarinnar. Þau gilda jafnt um alla og ná meðal annars yfir réttinn til lífs óháð búsetu.
Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við mörkum okkur stefnu um olíunýtingu í þeim tilgangi að knýja áfram orkufreka og mengandi lífshætti okkar því þeir stofna lífsskilyrðum fjölda fólks og annarra lífvera í bráða hættu víða um heim.
Okkur ber skylda til að sýna samstöðu, stilla orkunýtingu okkar í hóf og leita nýrra vistvænni orkugjafa. Þannig sýnum við umhyggju fyrir jörðinni og þeim sem deila henni með okkur. Þetta er sjálfsögð og nauðsynleg sammanleg skylda eins og skyldan að sýna hógværð og auðmýkt gagnvart umhverfi okkar. (Byggt á grein í Fréttablaðinu 14. 2. 2013).

* Hvað mun framboð/flokkur ykkar leggja til að gripið verði til í loftslagsmálum? Hvað munuð þið leggja til að gert verði til að að vinna gegn þeim veðurfarsbreytingum sem búast má við í náinni framtíð?
Hér að framan vöruðum við sem þetta ritum við áformum um olíuvinnslu á Drekasvæðinu meðan ekki hefðu fundist raunhæfar mótvægisaðgerðir við þeirri loftslagsvá sem að jarðarbúum steðjar. Hér er um að ræða málefni sem varðar náungakærleika og umhyggju fyrir sköpun Guðs.

Við erum meðvituð um að þessi stefna getur haft þær afleiðingar fyrir þjóðarbúið að við verðum fremur að stefna að samdrætti en vexti. Af þeim sökum hljótum við að rökstyðja mál okkar nánar.

Mesta prófraun mannkyns
Alþjóðaloftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna spáir að verði ekkert að gert nú þegar muni hitastig árið 2100 hafa hækkað verulega frá því sem nú er. Því er spáð eð eftir þessi tæplega níutíu ár hafi hitastigið hækkað um 1,8°- 4°C. Enn svartari spár benda til þess að hlýnunin geti farið yfir 6°C.
Hlýnunin mun leiða til þess að hitabylgjur verða tíðari. Útbreiðsla skordýra mun aukast og þurrkasvæði jarðar stækka. Skert aðgengi að vatni mun valda landeyðingu og dauða búpenings. Úrhelli og steypiregn verða jafnframt algengari með tilheyrandi rofi og jarðvegsruðningi. Fellibyljum mun fjölga og þeir ásamt hlýnuninni valda flóðbylgjum og hækkun sjávar með aukinni seltu. Þá er því spáð að innan tíu ára geti landbúnaðaruppskera í Afríku hafa dregist saman um helming með tilheyrandi hungursneyð. Innan fimmtíu ára gætu fiskveiðar líka verið hrundar ef núverandi sókn heldur áfram.
Alþjóðanefnd um framtíð matvæla og landbúnaðar undir forystu baráttukonunnar Vandana Shiva hefur enda látið svo um mælt að loftslagsvandinn sé stærsta prófraun sem mannkyn hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir, enda munu örlög milljóna manna ráðast af hvort samfélög heimsins grípa nú þegar til sameiginlegra aðgerða eða ekki.

Viljum við ranglæti?
Sívaxandi orkuþörf samfélaga á borð við það íslenska er hvorki náttúrulögmál né hagfræðilögmál. Hér einvörðungu um pólitíska ákvörðun að ræða. Afleiðingar sífellt meiri orkunotkunar móta lífskjör fólks á fjarlægum slóðum sem í engu mun njóta góðs af ávinningnum. Áður en ákvarðanir um orkuöflun og orkunýtingu eru teknar ber því að grafast fyrir um áhrif þeirra — ekki einvörðungu á íslenskt þjóðarbú til skamms tíma heldur á lífsskilyrði mannkyns alls til lengri tíma litið.
Með olíuleit og –vinnslu á nýjum svæðum erum við ekki að leita varanlegra lausna á sameiginlegri orkuþörf mannkyns. Með því er fyrst og fremst verið að standa vörð um óbreytt lífskjör okkar og þeirra þjóða annarra sem best eru settar. Sama máli gegnir um stórfellda ræktun jurta sem nýta má til framleiðslu lífefnaeldsneytis í stað þess að rækta korn, maís eða hrísgrjón til matar og fóðurs. Framleiðsla lífefnaeldsneytis viðheldur ranglætinu í heiminum frekar en að draga úr því. Á þetta bendir Alþjóðanefnd um framtíð matvæla og landbúnaðar er hún segir í skýrslu sinni: „Meira en 850 milljónir manna í heiminum búa við hungursneyð og enn fleiri líða næringarskort. Því meir sem lönd eru nýtt til ræktunar fyrir lífefnaeldsneyti í stað matar… þeim mun minna verður matvælaöryggið og hungrið eykst. Öflun nægilegrar fæðu er réttlætismál og eins konar prófsteinn á manngæsku okkar; að matur sé látinn víkja fyrir eldsneyti svo unnt sé að viðhalda iðnvæddum og neyslufrekum lífsstíl hinna fáu er einfaldlega siðlaust“ (Ákall til mannkyns, 2011. Reykjavík, Salka, bls. 95).
Aukin framleiðsla eldsneytis eftir hvorri leiðinni sem farin er tryggir fyrst og fremst betur settum íbúum heims möguleika á óbreyttu lífsformi á kostnað þeirra sem skortir lífsnauðsynjar. — Við hljótum að spyrja hvort við Íslendingar viljum viðhalda því ranglæti. Vissulega eru þetta dökkar spár sem erfitt er að horfast í augu við. Því miður er um að ræða ískaldan raunveruleika og sífellt fleiri farin að átta sig á að um raunverulega sviðsmynd er að ræða.

Fólk á flótta
Þar sem loftslagsváin er einkum sprottin af ranglátri skiptingu jarðargæða verðum við að vera við því búin að hún leiði til efnahagslegs, félagslegs og pólitísks óstöðugleika þegar þeir hlutar mannkyns sem verst verða út taka að krefjast — ef ekki réttlætis — þá a.m.k. réttar síns til að lifa af. En það gefur augaleið að við sem betur erum sett munum standa vörð um núverandi lífsform okkar sem byggist á ranglátri skiptingu jarðargæða.
Afleiðingar þess ranglætis sem hér hefur verið rætt eru þegar farnar að koma í ljós. Síaukinn fjöldi flóttamanna m.a. hingað til lands ber glöggt vitni um það. Þar er ekki alltaf um að ræða fólk á flótta undan óréttlátum yfirvöldum eða hernaðarátökum. Sífellt fleiri eygja ekki von um líf í heimahögum sínum vegna breytinga á veðurfari eða sökum þess að hefðbundin ræktarlönd þeirra hafa verið tekin til annarra nota.
Hér á eftir munum við fjalla um ábyrgð okkar gagnvart þeim sem knýja á dyr okkar Íslendinga og annarra vesturlandabúa í leit að betri lífsskilyrðum. (Byggt á grein í Fréttablaðinu 4. 4. 2013).

• Hver er stefna framboðs/flokks ykkar í innflytjendamálum? Hvað munuð þið leggja til varðandi málefni flóttafólks?
Viðbrögð við takmörkuðum fjölda flóttafólks til landsins benda til þess að töluverður fjöldi landsmanna sé andsnúinn komu þess hingað. Það er umhugsunarvert og ástæða til að auka þekkingu og færni okkar að mæta þeim sem á aðstoð þurfa að halda. Ljóst er að verði ekki staldrað við mun hópur flóttafólks sem hingað leitar margfaldast.

Orka og hlýnun
Hún er ekki fögur myndin sem blasað gæti við af olíuríkinu Íslandi sem byggði tilveru sína enn frekar en þegar er orðið á þessum orkugjafa og stuðlaði þannig að hlýnun, þurrki, svelti og eymd barna sem fullorðinna annars staðar í heiminum. Við erum ekki bara að tala um nokkur hundruð þeirra heldur tugþúsundir, jafnvel hundruðir þúsunda. Ísland gæti hæglega rúmað margfaldan þann mannfjölda sem hér býr nú en spurningin er sú hvort það sé æskileg þróun að hingað streymi fólk á flótta vegna breytinga á lífsskilyrðum sem við bærum ábyrgð á.
Fólk á flótta
Á öllum tímum hefur fólk flutt á milli landa og heimshluta. Við Íslendingar þekkjum það vel. Forfeður og formæður okkar flúðu það sem þau töldu ofríki og mynduðu þetta þjóðríki hér. Tíunda hver manneskja flúði svo héðan til Ameríku um næst síðustu aldamót. Um tíunda hver manneskja á Íslandi nú er aðflutt og Íslendingar nútímans eru duglegir við að setjast að hér og þar um heiminn. Við segjum stundum með stolti að sama hvar í heiminum sé borið niður, alls staðar sé Íslendinga að finna.

Undanfarna áratugi hafa gífurlegir fólksflutningar átt sér stað frá löndum Afríku, Asíu og Suður-Ameríku til Vesturlanda, með öðrum orðum: frá fátækari heimshlutum til hinna ríkari. Dæmið hefur snúist við frá nýlendutímanum þegar vesturlandabúar fluttu í leit að landi, góðmálmum og ódýru vinnuafli. Munurinn á veraldlegum lífsgæðum milli þessara svæða er gífurlegur. Hann byggist ekki síst á þeirri orkunotkun sem nú ógnar lífríki jarðar. Fólk hefur flutt sig til í leit að vinnu og sest að í nýju landi einkum sem ódýrt vinnuafl. Svo eru þau sem flýja heimaslóð, koma sem flóttafólk og sækja um hæli, biðja um landvist. Ekki er að efa að þessir aðfluttu vestrænu borgarar hafa styrkt og eflt efnagskerfi vesturlanda.

Réttindi flóttafólks
Gangi spár eftir verða gríðarlega mikil landssvæði þar sem tugmiljónir manna búa nú illbyggileg og jafnvel óbyggileg í framtíðinni. Hreyfing fólks til betur settra svæða í heiminum mun því aukast til muna. Það er nokkuð fyrirsjáanlegt að ef við breytum ekki lífsháttum okkar stöndum við Íslendingar eins og aðrir vesturlandabúar frammi fyrir alvarlegum siðferðilegum spurningum. Með hvaða rökum ætlum við að meina eða torvelda því fólki að flytja til okkar þegar við höfum með lífsháttum okkar kynt svo hressileg undir að þeirra heimaslóðir verða ófýsilegur kostur að búa á, ef ekki óbyggilegar með öllu?

Grundvallarspurningin er þessi: Er mannkynið, já lífið allt á jörðinni, undir sama hatti? Verðum við ekki að meta lífshætti okkar út frá hagsmunum allra í veröldinni? Hvaða rétt höfum við til þess að haga okkur eins og annað fólk skipti ekki máli? Hvaða rétt höfum við til þess að mæta ekki af sanngirni því fólki sem til okkar leitar eftir betra lífi, samferðafólki okkar í dag og fólki framtíðarinnar? Sannast sagna höfum við Íslendingar ekki uppfyllt skyldur okkar í samfélagi þjóðanna þegar kemur að móttöku flóttafólks.
Við þurfum að gera betur, miklu betur. Menning okkar, saga, trú og reynsla kennir okkur að við eigum að koma vel fram við aðkomumanninn. Við eigum að sjá systur og bræður, ekki eingöngu í fólki af okkar þjóðerni eða sömu trúar, heldur einnig í fólki af ólíkum uppruna. Við deilum mennskunni með öllum manneskjum og mennskan býður okkur að elska jöfnuð og réttlæti. Okkar gyðing-kristna hefð kennir að Guð skapaði okkur öll í sinni mynd og jörðina fyrir okkur öll. Sem siðferðilegar verur getum við sett okkur í annarra spor. Það gæti allt eins verið við sem værum á flótta. Við köllum eftir siðfræðilegri umræðu um fólk á flótta og mannúð og aðgerðum þar sem réttlæti og jöfnuður eru sett í öndvegi.

Ég bíð spennt eftir svörum stjórnmálaflokkanna og er að sjálfsögðu komin í grúppuna. Hana er að finna hér:  http://www.facebook.com/krefjastsvara

Trú, siðfræði, innflytjendamál, loftslagsmál og olíuleit. Meira svona!

Loftslagsbreytingar

Okkar eigin Steubenville

Nýlega hafa fréttir af nauðgun í Steubenville í Ohio verið áberandi í fréttum. Tveir ungir menn í bænum nýttu sér neyð ungrar stúlku í ágúst 2012, tóku verknaðinn upp og dreifðu á You tube. Myndbandið sýnir svo ekki verður á móti mælt að piltarnir tveir voru sekir um nauðgun. Eftirmál atburðanna í Steubenville urðu þau að meirihluti bæjarbúa stóð með ungu mönnunum sem voru upprennandi íþróttamenn í amerískum háskólafótbolta og þessi mikla samúð með ofbeldismönnunum breiddist út. Sjónvarpsstöðin CNN flutti fréttir af því þegar dómur var kveðinn upp og miðaðist fréttaflutningurinn fyrst og fremst við sjónarhorn þeirra sem ofbeldinu ollu, tilfinningar þeirra og foreldra þeirra og fjölskyldu en ekki aðstæður stúlkunnar sem var nauðgað. Fluttar voru fréttir af brostnum vonum ofbeldismannanna um skólagöngu og bjarta framtíð. Fjölmiðlar fluttu fréttir og vorkenndu drengjunum. Twitter fór af stað með athugasemdum eins og “þeir gerðu það sem flestir í þeirra aðstöðu hefðu gert,” og “þetta er ekki nauðgun og þú ert lauslát, full drusla.” Aðrir notuðu tækifærið til ráðlegginga eins og t.d. : “Takið ábyrgð á ykkur sjálfum stelpur, svo að ykkar drykkjuóðu ákvarðanir eyðileggi ekki saklaus líf.“

Laurie Penny skrifar í vikuritinu New Statesman um Steubenville réttarhöldin:

Myndirnar frá Steubenville sýna ekki aðeins stúlku sem er nauðgað. Þær sýna að það er horft framhjá nauðgunum, hvatt er til þeirra og þær eru í hávegum hafðar.  Hvers konar menning getur mögulega framleitt slíkar birtingarmyndir?  Það getur aðeins gerst í samfélagi þar sem sjálfræði kvenna og réttur þeirra til öryggis þykir svo lítilmótlegur að nauðgararnir og þeir sem héldu á myndavélunum upplifðu athæfi sitt sem “fullkomlega réttlætanlegt”.

Spyrja má hvort samfélag þar sem sjálfræði kvenna og réttur til líkamlegs, andlegs og kynferðislegs öryggis er fyrir borð borinn sé sérbandarískt fyrirbrigði, eða hvort Steubenville, Ohio fyrirfinnist á fleiri stöðum. Til dæmis á Húsavík.

Í kvöld var sýnt viðtal í Kastljósi við unga konu sem kærði nauðgun á Húsavík á vormánuðum 1999, en hún var 17 ára þegar jafnaldri hennar braut gegn henni. Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Norðurlands í árslok 1999 stúlkunni í vil. Hæstiréttur staðfesti síðan héraðsdóminn í apríl 2000, en hækkaði miskabætur til stúlkunnar, „með hliðsjón af því, að framangreint brot hefur valdið henni óvenju mikilli félagslegri röskun,“ eins og segir í dómnum.

Áhorfendur Kastljóss fengu nokkurn nasaþef af því í kvöld hvers konar „félagslega röskun“ stúlkan hafði búið við á Húsavík eftir að hún kærði nauðgunina. Þessi félagslega röskun fólst í því að fólk hætti að heilsa henni á götu. Það hringdi í hana og gagnrýndi hana fyrir að hafa kært nauðgunina. Það dró ofbeldið í efa. Það talaði illa um hana. Ein kona vatt sér að dansfélaga hennar á balli og sagði: „Passaðu þig, að vera ekki nauðgað!“ Og síðan tóku 113 bæjarbúar sig til og birtu í bæjarblaðinu Skráin stuðningsyfirlýsingu við hinn dæmda unga mann, nafngreindu hann, slógu því upp að þeir vonuðu og trúðu því að réttlætið næði fram að ganga, „vegna þess að mæður eiga líka syni“.

Ef „móðirin“ í þessu tilfelli er Húsavík, samfélagið og heimkynnin sem stóðu að þessum tveimur ungu manneskjum á ógæfukvöldi árið 1999, hvers vegna skipta þá aðeins hagsmunir, tilfinningar og afdrif sonanna máli? Hvers vegna skiptu dætur mæðranna ekki máli í Steubenville? Eiga mæður, feður og samfélög ekki líka dætur? (Með þessu er ég vitanlega ekki að segja að allir Húsvíkingar hafi tekið þátt í hinni „félagslegu röskun“. En stúlkan missti heimkynni sín og félagslegt öryggi sem þeim heimkynnum og samfélagi tengdust.)

Í Kastljósviðtalinu kom einnig fram að sóknarpresturinn á Húsavík hafi komið að málinu með þrennum hætti. Hann hafi reynt að fá stúlkuna til að hætta við að kæra málið. Hann hafi reynt að fá þau sem rituðu undir yfirlýsinguna til að birta hana ekki og birti sjálfur yfirlýsingu í Skránni þar sem hann hvatti söfnuð sinn til að sýna stillingu, taka tillit til fjölskyldna og tilfinninga hvers annars og koma hver fram við aðra á þann hátt sem Gullna reglan segir . (Þessi yfirlýsing er birt í heilu lagi í frétt DV, en Skrána hef ég ekki fundið á netinu). Í þriðja lagi lét hann þau orð falla í viðtali við DV að hann tryði á sáttargjörð, og hefði íhugað „hvort rétt væri að leita aðstoðar fagaðila eins og sálfræðinga í þeim efnum“, eins og segir í frétt DV.

Mér þykir vænt um að starfsbróðir minn skyldi berjast fyrir því í sínum söfnuði að nafnalistinn væri ekki birtur. Ég get tekið undir hvert orð sem hann sagði í yfirlýsingu sinni frá 2000 og tel að ónauðsynlegri þjáningu hefði verið afstýrt ef sóknarbörnin hefðu hlustað á þau orð hans. Það eru hins vegar önnur afskipti hans af málinu sem ástæða er til að staldra við, nú þegar málið er rifjað upp að nýju. Sóknarpresturinn hefur í viðtali við Fréttablaðið sem kemur út á morgun, en hefur verið birt á netinu tekið fram að hann rengi ekki orð stúlkunnar, en muni þau illa og hafi ætlað þau til stuðnings. En á hvaða hátt getur það verið til stuðnings fyrir þau sem fyrir ofbeldi verða að dregið sé úr þeim að kæra?

Nauðgun er glæpur.

Ég veit að þetta virðist augljóst, en það er samt nauðsynlegt að segja það oft: Nauðgun er glæpur og heyrir undir hegningarlög. Nógu oft til þess að einn daginn trúum við því nógu vel til þess að þessi vitneskja hafi áhrif á orð okkar og gjörðir.

Ég velti því fyrir mér hvað hefði gerst ef ekki hefði verið um nauðgun að ræða, heldur ölvunarakstur, þar sem ungi maðurinn hefði valdið ungu konunni stórum skaða með sannanlegum hætti. Allur bærinn hefði tekið þátt í sorg foreldranna og endurhæfingu stúlkunnar. Hann hefði líka tekið þátt í sorg unga mannsins og stutt fjölskyldu hans. Bænum hefði þótt sjálfsagt að málið færi fyrir lögreglu og dómara. Dómur í héraðsdómi og Hæstarétti hefði engu breytt í því efni og það er stjarnfræðilega ólíklegt að unga stúlkan á hjólastólnum hefði verið flæmd úr bænum fyrir að láta keyra á sig, eða hún ásökuð fyrir að vera að flangsast þetta í umferðinni.

Ölvunarakstur er glæpur. Af hverju virðast stundum önnur lögmál gilda um nauðganir en aðra glæpi í samfélaginu, sbr. Steubenville réttarhöldin?  Getur það verið vegna þess að undir niðri er sú skoðun enn ríkjandi að brot gegn kynverund kvenna séu engin sérstök brot, heldur minni háttar ávirðingar, sem hægt sé að leysa með öðrum hætti og valkvætt við hegningarlögin?

Mig langar að lokum að segja nokkur orð um sáttargjörð. Ég trúi nefnilega líka á hana og veit að hún skilar oft miklum árangri. Sáttargjörð er samin á hverjum degi í hjónaböndum, milli barna og foreldra og milli vina og starfsfélaga sem hafa orðið ósáttir. Sáttargjörð er einstakt dýrmæti sem hjálpar til að græða sár og mistök. Sáttargjörð er iðkuð í vaxandi mæli í forræðisdeilum. Í átökum landa þar sem borgarastyrjöld og ofbeldi hefur ríkt hefur stundum tekist að koma á sáttargjörð í stað blóðsúthellingar. Dæmi um það eru í Suður-Afríku og í Rwanda. Sáttargjörð er ekki valkvæð við hegningarlögin, heldur eitthvað sem gripið er til þegar önnur úrræði eru ekki til, til dæmis í samskiptum hversdagsins, mikilvægum samskiptum þar sem dómstólaleiðin er ekki endilega fýsileg og vegna þjóðarharmleiks sem engin réttur nær að rúma og orða. Sáttargjörð er aðeins möguleg ef fólk vill koma að borði, segja frá mistökum sínum og öðlast fyrirgefningu.

Konan sem sagði sögu sína af yfirvegun og æðruleysi í Kastljósviðtalinu hefur byggt upp gott líf í Noregi. Það er enn sárt fyrir hana að koma heim, vegna þess að móðirin Húsavík sinnti bara sonum sínum þegar á reyndi og dóttirin þurfti hennar með.  Ef hún vill og kærir sig um, þá er eflaust tækifæri til sáttargjörðar á Húsavík. Sú sáttargjörð er ekki endilega við þann sem braut á ungu konunni vorið 1999, því að það mál var rekið fyrir dómstólum og sökin og miskinn voru viðurkennd. Hin sorgin er eftir, eineltið, misskildi stuðningurinn, fólkið sem skrifaði á listann, en sér eftir því núna, samfélagið sem tekur synina fram yfir dæturnar.

Því að mæður eiga líka dætur og samfélög geta brugðist víðar en í Steubenville. Og það er gott að biðjast fyrirgefningar á því sem maður hefur gert rangt.

Týndur Drottinn, tapað fé?

Prédikun í Guðríðarkirkju á páskadag 31. mars 2013

Að hverjum leitar þú? Jóh. 20:15b

Kristur er upprisinn!

Einu sinni voru hjón sem áttu tvo litla og óþekka drengi, sex og átta ára. Þessir ágætu strákar voru alltaf að lenda í vandræðum og foreldrarnir gátu alltaf verið vissir um að ef eitthvað fór úrskeiðis í þorpinu þar sem þau bjuggu, væru synir þeirra með einhverjum hætti ábyrgir. Ástandið var orðið þannig að foreldrarnir voru alveg að gefast upp á öllum prakkarastrikunum. Þau fóru því og hittu prestinn sem var sagður hafa lag á börnum. Þegar presturinn hafði heyrt af öllum stráksskap þessara ungu herramanna þá samþykkti hann að koma í heimsókn og tala við þá um að Guði þætti leiðinlegt hvernig þeir höguðu sér. Hann vildi hitta þá sinn í hvoru lagi. Fyrst var sex ára strákurinn leiddur fyrir prestinn í borðstofunni. Presturinn bauð stráknum að setjast niður við borð, settist síðan á móti honum, starði af mikilli alvöru í augun á drengnum og sagði síðan: „Hvar er Drottinn?“ Það heyrðist ekki múkk frá drengnum, svo að klerkur ræskti sig og sagði með aðeins strangara tóni: „Hvar er Drottinn?“ Stráksi deplaði ekki auga og starði fram fyrir sig. Enn bætti presturinn í röddina og nú rak hann fingurinn ógnandi framan í drenginn og sagði: „HVAR ER DROTTINN?“

Við þessi læti rauk drengurinn út, hljóp upp í herbergi og læsti sig inni í skáp. Stóri bróðir hljóp inn í herbergið á eftir honum og sagði: „Hvað gerðist eiginlega þarna inni?“

Rödd litla bróður hljómaði úr skápnum: „Við erum í rosalega vondum málum núna. Drottinn er týndur og þau halda að við höfum tekið hann!“

II.
Hvar er Drottinn? Að hverjum leitar þú?

Hina fyrstu kristnu páska voru allir lærisveinarnir að leita að Drottni. Gröfin var tóm þegar að var komið í árdagsbirtu páskadagsins og steininum hafði verið velt frá. Og rétt eins og í sögunni sem ég sagði ykkur hér áðan jafnframt verið að leita að sökudólgum og samsæri, vegna þess að einhver hlaut að hafa stolið líkama hins látna. Ein af þessum vinum Jesú var María Magdalena og Jóhannesarguðspjall segir okkur frá því að hún hafi staðið úti fyrir gröfinni og grátið meðan Pétur og annar lærisveinn leituðu að líki Jesú. Þá kemur til hennar maður sem lesandi og heyrandi guðspjallsins veit að er enginn annar en Jesús upprisinn. María hins vegar veit ekki neitt og sér ekki neitt. Hún þekkir ekki Jesú hinn upprisna, heldur að hann sé garðyrkjumaður og reynir að þröngva honum til að segja sér leyndarmálið um það hver hafi tekið Drottin. „Að hverjum leitar þú?“ segir hinn meinti garðyrkjumaður við Maríu. Merkilegt má telja að fyrstu orðin sem Jesús frá Nasaret segir í guðspjalli Jóhannesar skuli enduróma í fyrstu orðum hans eftir upprisuna. „Hvers leitið þér?“ voru orðin sem hann beindi til fyrstu lærisveinanna sem á vegi hans urðu. Það er eins og þessi leit að týnda Drottni rammi inn allt guðspjallið, marki þrá þeirra sem guðspjallið fjallar um og guðspjallið lesa og heyra, þrá í leit að tilgangi lífsins. Að vera lærisveinn Jesú er að leita Jesú, leita að týndum Drottni.

Þessi misskilningur Maríu þegar hún ruglaðist á garðyrkjumanninum og hinum upprisna, þessi leit að þeim sem er fyrir augunum á henni er hjarta páskaboðskapar Jóhannesar til okkar í dag. María sá Drottin. En hún þekkti hann ekki. Hjarta hennar var fullt af sorg yfir atburðum föstudagsins langa. Hún gat ekki horfst í augu við þá hugmynd að Drottinn væri alls ekki týndur. Hún hljóp allt í kringum hann og leitaði að honum. Hún spurði hann jafnvel sjálfan um það hver hefði tekið Drottin. Og þannig hefur sagan á sér furðulegt og jafnvel kómískt yfirbragð, páskahlátur inn í páskaguðspjallinu sjálfu vegna þess að við vitum góðu fréttirnar sem María veit ekki. Týndi Drottinn er fundinn. Og það voru hvorki krakkarnir í sögunni, Gyðingar né Rómverjar sem tóku hann.
Það er ekki fyrr en þessi dularfulli garðyrkjumaður kallar Maríu með nafni sem hún þekkir hann fyrir hinn upprisna Drottin. Jesús hinn upprisni segir Maríu að fara út og finna „bræður sína“. „Bræðurnir“ , eða adelfoí í gríska frumtextanum vísa ekki aðeins til nokkurra karlmanna í kringum Jesú, heldur til hins gjörvalla samfélags fólksins sem hafði safnast saman í kringum Jesú. Það er eitthvað merkilegt við þessa áherslu guðspjallsins. Það kallar okkur til tómrar grafar, til þess eins að snúa okkur burtu aftur frá gröfinni, til samfélagsins sem þarf á hinum týnda Drottni að halda. Það kallar okkur til að leita að hinum týnda Drottni, til þess eins að komast að því að Guð hefur ekki týnst og ætlar okkur verk meðal annars fólks.

III.
Hvar er Drottinn? Að hverjum leitar þú? Hvar þekkjum við Drottin og hvaða verk er okkur ætlað að vinna glöðu fólki sem er snúið frá tómri gröf? Hvar er samfélagið sem okkur er ætlað að sinna og ala önn fyrir?

Í síðustu viku upphófust miklar umræður um þróunaraðstoð í íslensku samfélagi í kjölfar þess að Alþingi Íslendinga samþykkti með þingsályktunartillögu að auka smám saman þróunaraðstoð Íslands úr 0,26 hundraðshluta af vergum þjóðartekjum í 0,4 hundraðshluta á næstu þremur árum. Stefnt skuli að því að árið 2019 verði talan komin upp í 0,7, en sú tala er einmitt í samræmi við það sem þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna gerðu ráð fyrir að ætti að vera það sem að iðnvæddar þjóðir greiddu að lágmarki til hjálpar fátækum þróunarlöndum. Alþingi hefur sem sagt ákveðið að uppfylla rúmlega helminginn af þúsaldamarkmiðunum árið 2016. Umræðurnar í samfélaginu snérust um það hvort réttlætanlegt væri að borga svona mikla peninga til útlanda, þegar fólk væri þurfandi hér heima. Þróunaraðstoðin sé þess vegna tapað fé, sem betur væri ráðstafað annars staðar og nær okkur sjálfum.

Og víst er fólk þurfandi hér heima. Það sem hins vegar er skakkt við þessa umræðu er stilla fólki upp við vegg eins og það þurfi að velja á milli þess að hjálpa samlöndum sínum og öðrum þjóðum, að einmitt nákvæmlega þessum hluta þjóðarkökunnar og öðrum ekki skuli beint að svöngum munnum og að okkar sé valið um það hvort skeiðin lendi í íslenskum eða afrískum munni. Fjármununum sem að Ísland ætlar að nota í þróunaraðstoð á næstu árum verður varið til ýmiss konar verkefna. Þeir fara m.a.í menntastofnanir sem að mennta fólk í þróunarlöndum til vaxandi atvinnuþáttöku og í að bæta innviði stjórnkerfa. Þar eru framlög til friðargæslu, til umhverfis og loftslagsmála, til mannúðarmála, jafnréttis og neyðaraðstoðar, til Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Þetta eru framlög sem tengjast ábyrgð okkar sem snerta okkur sem jarðarbúa sem bera ábyrgð á öðrum jarðarbúum, mönnum, dýrum og öðrum lifandi verum. Þessi framlög nýtast á veraldarvísu og þannig öllum manneskjum, en þeim ekki síst sem minnst mega sín í veröldinni, fátækasta og allslausasta fólki jarðar. Það á ekki að vera val fyrir okkur hvort við hjálpum þeim eða ekki. Það er sjálfsögð skylda okkar sem manneskja og mannvina hverrar trúar sem við erum og hvort sem við erum trúuð eða ekki.

Við sem játum kristinn sið hljótum að túlka kröfuna um þróunaraðstoðina á okkar eigin hátt og í ljósi okkar eigin kristnu tákna. Hinn kristni boðskapur leggur okkur skyldur á herðar. Upprisan, eilíft líf , sigur lífs yfir dauða, gleði yfir sorg, fjallar líka um dauða fátæktar og vonleysis. Baráttan við slíkan dauða getur aldrei verið tapað fé. Þessar manneskjur, þetta loftslag, þessar lífverur eru verkefni okkar þegar okkur er snúið frá kaldri gröf fátæktar og örbirgðar og aftur til „bræðranna.“

Kristur er upprisinn! Lífið lifir og það er heilög skylda okkar að greiða því veg á hvern þann hátt sem við getum. Nýlega kom út stór skýrsla á vegum Lútherska heimssambandsins, sambandi allra lútherskra kirkna í heiminum, um kirkjulegt hjálparstarf og kærleiksþjónustu. Þessi merka skýrsla hefur komið út á íslensku og hana má nálgast á heimasíðu Þjóðkirkjunnar. Þar er okkur sagt að kærleiksþjónustan sé ekki aðeins eitt af verkunum sem kirkjan framkvæmir á stórum gátlista. Öllu heldur er kærleiksþjónustan eitt af því mikilvægasta sem skilgreinir okkur sem kristnar manneskjur. Biblían svarar okkur þegar við spyrjum um hinn týnda Drottin og segir að við finnum hann hvar sem við hjálpum hinum þurfandi og reisum þau til þeirrar mennsku og reisnar sem hver sköpun Guðs á skilið.

Konungurinn mun þá svara þeim: „Sannlega segi ég yður, það allt sem þér gjörðuð einum mínum minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér. Matt. 25:40

Hinn týndi Drottinn sem birtist okkur í þurfandi systrum og bræðrum fer ekki í manngreinarálit. Hann sést ekki bara á hvítum, norrænum andlitum. Hann talar ekki bara íslensku. Hann sést á hælisleitendum frá hrjáðum löndum, á ásjónu hungraðs fólks af fjölbreyttum kynþáttum, trúarbrögðum og litarhætti. Fjarri fer því að skýrslan sem ég nefni láti sér nægja að mæla með því að iðnvæddar þjóðir greiði þá þróunaraðstoð sem sæmileg er. Ábyrgð okkar á okkar minnstu bræðrum og systrum hérlendis og erlendis er ekki lokið þegar við höfum greitt skattinn okkar, eins virðingarvert og það nú annars er og sem útheimtir miklar fórnir af hálfu okkur margra. Ábyrgð okkar sem kristnar manneskjur sem fögnum hinum upprisna, týnda Drottni birtir okkur boðskapinn um að kirkjan í heiminum verði að sinna kærleiksþjónustunni á grundvallandi hátt, hætta að líta á hana sem valkvæð góð verk og viðurkenna hana sem órofa þátt í því að vera kristin manneskja. Kærleiksþjónustan, þjónustan við hinn þurfandi mann á einstaklingsvísu, innan hins staðbundna samfélags, á landsvísu og á heimsvísu er þannig ófrávíkjanlegur þáttur í því að leita að hinum týnda Drottni og finna hann, vegna þess að hann er alls ekki týndur.

Kristur er upprisinn! Drottinn lifir og ástin, gjafmildin, auðmýktin, hjartagæðin sem tengd eru nafni hans lifa og ríkja.
Við sjáum hins vegar ekki nógu skýrt. Og við skynjum ekki veruleika upprisunnar, gleðinnar og ólgu bjartsýninnar fyrr en við þekkjum Krist í þeim sem á vegi okkar verða og þurfa á okkur að halda.

IV.
„Hvar er Drottinn?“ spurði presturinn strákinn forðum og hann hljóp og faldi sig inni í skáp. „Hvar er Drottinn?“ spurði María Magdalena hinn upprisna. Hún sá hann ekki og leitaði þó út um allt. Hún fór til vina Jesú og tilkynnti þeim: „Ég hef séð Drottin.“

Förum nú og sjáum hann líka.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

jesus-appears-to-mary-magdalene-fontana-lavinia

Friðrika og farísearnir

Friðrika Benónýs skrifar bakþanka í morgun undir yfirskriftinni „Femínistar og farísear“ og vísar í orð Krists úr Matt. 23:13: „Vei yður fræðimenn og farísear, hræsnarar!“ Pistilinn má nálgast hér.

Friðrika hefur pistil sinn á að ræða um atburðina í Steubenville þar sem tveir unglingspiltar báru dauðadrukkna stúlku á milli partýja, nauðguðu henni ítrekað undir fagnaðarlátum veislugesta, tóku verknaðinn upp á myndband, settu á You tube og uppskáru mikla samúð á bæjar og landsvísu þegar stúlkan tók upp á að kæra þá fyrir dómstólum. Þessa hryggilegu atburði í Steubenville og reiðina yfir meðvirkni með ofbeldismönnum tengir Friðrika síðan við klámvæðinguna og fagnar nýframkomnu frumvarpi innanríkisráðherra.

Ég vil taka undir þessa meginpunkta greinar Friðriku. Það eru sterk tengsl á milli menningar sem lítur fram hjá og jafnvel fagnar nauðgunum og klámvæðingar, tengsl sem byggja á hlutgervingu kvenlíkamans og virðingarleysi fyrir öryggi og hamingju kvenna. Og líklega eru fáir hópar í veröldinni sem hafa barist jafn einarðlega fyrir því að benda á tengslin  milli nauðgunarmenningar og klámvæðingar og einmitt femínistar. Ég bendi t.d. á yfirlýsingu  nú í vikunni á femíníska vefmiðlinum knúz.is þar sem femínistar um heim allan og úr ýmsum áttum lýsa yfir stuðningi sínum við aðgerðir innanríkisráðherra.

Það vekur því undrun mína hvernig Friðrika snýr pistli sem að stofni til fjallar um nauðgunarmenningu og klámvæðingu yfir í gagnrýni á femínisma.  Friðrika vísar í að einhvað „fólk“ sem hún nafngreinir ekki sé á móti höftum á tjáningafrelsi. Síðan vitnar hún í orð Maríu Lilju Þrastardóttur í gær í Morgunblaðinu um að Íslendingar séu betur meðvitaðir um nauðgunarmenningu en áður var og sætti sig að stórum hluta ekki lengur við meðvirknina. Friðrika er að vitna í þennan bút úr Morgunblaðinu:

María Lilja Þrastardóttir, talskona Druslugöngunnar á Íslandi, sagði að sem betur fer virtust þau viðhorf sem þarna birtast ekki endurspegla viðhorf Íslendinga. „Við fundum það mjög sterkt með Druslugöngunni að hlutirnir hafa breyst. Íslendingar eru almennt mjög vel upplýstir þó svo að þessi viðhorf kunni að leynast einhversstaðar. Þú þarft ekki að leita lengra en á kommentakerfi vefmiðlanna til að sjá að það er enn fólk þeirra skoðunar að fórnarlömb nauðgana, langoftast konur, geti sjálfum sé um kennt,“ segir María Lilja.

Orð Maríu Lilju um að Íslendingar séu á leið til meiri upplýsingar skapa sumsé þáttaskil í grein Friðriku, þar sem hún hættir að tala um tengsl nauðgana og kláms og yfir í hvað femínistar séu miklir hræsnarar.

Steininn tók þó úr í umræðunni í gær þegar forsvarskona Druslugöngunnar fullyrti í samtali við mbl.is að það að taka afstöðu með gerendunum og kenna fórnarlambinu um væri ekki vandamál hérlendis og að „sem betur fer virtust þau viðhorf sem þarna birtast ekki endurspegla viðhorf Íslendinga“. Í hvaða heimi býr hún?

Ég get ekki séð að María Lilja hafi í orðum sínum gert lítið úr nauðgunarviðhorfum hér á landi. Hún nefnir einmitt kommentakerfin og að enn sé til fólk sem telur að fórnarlömb nauðgana geti kennt sjálfum sér um. Hún hins vegar leyfir sér að vera bjartsýn, að trúa því að umræða og barátta undanfarinna ára hafi breytt einhverju og muni halda áfram að breyta Íslandi og vonandi heiminum. Ef slík von og bjartsýni flokkast undir faríseisma, þá bið ég um meira af slíku.

Eftir að hafa rassskellt einn femínista fyrir að leyfa sér að benda á breytingar á þjóðarsálinni, og vitnað í óskilgreindan hóp af „sama fólki“ sem mótmælir Steubenville en er á móti frumvarpi innanríkisráðherra límir Friðrika síðan titil á greinina sína:  „Femínistar og farísear“ og endar greinina á að bæta þurfi kynlífsfræðslu en tjá sig minna „um eigið ágæti“.

Grein Friðriku byggist einhvern veginn svona upp.

1. Steubenville réttarhöldin opinbera nauðgunarmenningu

2. Nauðgunarmenning helst í hendur við klámvæðingu.

3. Innanríkisráðherra vill setja lög sem sporna gegn klámvæðingu.

4. Einhvað „fólk“ er ekki sammála þessu frumvarpi.

5. Einn femínisti segir að sem betur fer sé umræða um nauðganir að batna á Íslandi, en á því séu því miður stórar undantekningar þar sem brotaþolum er kennt um.

6. Niðurstaða:  Femínistar eiga að tala minna um eigin ágæti.  Bíddu, ha?

Getur einhver útskýrt fyrir mér þessa röksemdafærslu?

P.S. Glöggur lesandi bloggsins benti mér á að umræðan um takmörkunina á klámi er ekki orðið að frumvarpi ennþá og réttara væri að tala um hugmyndir innanríkisráðherra. Því er hérmeð komið á framfæri.

Hugmyndafræðilegt aðgengi

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
I.
Ríkissjónvarpið birti áhugaverða frétt síðasta miðvikudagskvöld Þar var sagt frá því að Öryrkjabandalag Íslands hafi haldið fund með forsvarsmönnum allra stjórnmálaafla sem bjóða fram í vor. Efni og erindi fundarins hafi verið það að ræða um sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland undirritaði árið 2007 og spyrjast fyrir um það hvort og þá hvernig og hvenær samningurinn verði fullgiltur eða lögfestur hér á landi.

Í tilefni þessa fundar var rætt við Evu Þórdísi Ebenezardóttur sem hefur kynnt sér þennan málaflokk rækilega. Í viðtalinu ræddi Eva Þórdís um að það væri mikilvægt að bæta aðgengi fatlaðs fólks í samfélaginu. Síðan bætti hún við að aðgengi væri meira en þröskuldur, tröppur eða lyftur. Aðgengi fjallaði ekki síður um það sem ætti sér stað inni í höfðinu á okkur sjálfum. Aðgengi væri þannig „spurning um viðhorf, hugarfar og hugmyndafræði.“

En hvað er hugmyndafræðilegt aðgengi? Það er ekkert erfitt að átta sig á því að fatlað fólk þurfi á lausnum að halda til þess að komast klakklaust um byggingar. Það getur verið nokkurt verk að endurhanna gamlar byggingar til að auka aðgengi fatlaðra, en verkið sjálft er býsna augljóst. Það snýst einmitt um þröskulda, tröppur og lyftur og þegar okkur hefur tekist að koma þessu á, öndum við flestöll léttar. Hvað er þá hugmyndafræðilegt aðgengi, til hvers meira er hægt að ætlast af ófötluðu fólki til að ala önn fyrir þeim sem búa við fötlun?

Sáttmálinn sem öryrjabandalagið kallaði stjórnmálamenn saman til að ræða svarar þessari spurningu. Sáttmálinn hefst á því að kalla þjóðir heims til ábyrgðar með því að „a) minnast meginreglna, sem kunngerðar eru í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem meðfædd göfgi og verðleikar og jöfn og óafsalanleg réttindi allra manna eru viðurkennd sem hornsteinn frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.“ Sáttmálinn ræðir síðan í nokkru máli hvernig þessar meginreglur um göfgi, verðleika og jafnrétta allra manneskja, fatlaðra jafnt sem ófatlaðra hafi áhrif á viðhorf til fatlaðs fólks. Þar er viðurkennd sú alvarlega staða að mannréttindi fatlaðra eru þverbrotin víða um heim og þar með með víðtækum hætti gengið gegn hugmyndum um reisn og virðingu alls fólks. Vakin er sérstök athygli á fátækt fatlaðs fólks um veröld víða. Kallað er eftir því að stjórnvöld um heim allan virði mannréttindi og göfgi fatlaðs fólks. Og síðan bendir sáttmálinn á ábyrgð allra einstaklinga í hverju samfélagi. Samkvæmt sáttmálanum er það málefni okkar allra að berjast fyrir þessum bættu aðstæðum og ganga eftir því að reisn fatlaðs fólks sé virt.

Það er hugmyndafræðilegt aðgengi, aðgengi sem lætur sér ekki nægja að gera ráð fyrir fatlaðrabílastæði, hjólastólalyftu og rennibraut, þó að þessi hjálpartæki séu vitaskuld mikilsverð. Hugmyndafræðilegt aðgengi lýtur að jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra við allar aðstæður daglegs lífs. Vegna þess að við erum öll jöfn og óendanlega mikilvæg.

Út frá kristnu sjónarmiði erum við undursamleg sköpun Guðs, einstök hvert og eitt. Sálmaskáld Biblíunnar orðar vel þessa áherslu á göfgi hverrar manneskju þegar það segir í 139 sálmi:

Ég lofa þig fyrir það
Að ég er undursamlega skapaður,
Undursamleg eru verk þín,
Það veit ég næsta vel.
Beinin í mér voru þér eigi hulin
Þegar ég var gjörður í leyni
Myndaður í djúpum jarðar.
Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni,
Ævidagar voru ákveðnir
Og allir skráðir í bók þína,
áður en nokkur þeirra var til orðinn.

Undursamleg sköpun erum við,
augu Guðs sjá okkur, hvert og eitt
og þekkja lífssögu okkar.
Og þess vegna er mannréttindabarátta eitthvað sem trúað fólk og trúlaust getur sannmælst um. Forsendur geta verið ólíkar, en viðmiðin, baráttan og skilningurinn á mikilvægi aðgengis er einn og hinn sami. Af því að við erum dýrmæt og reisn okkar allra er mikilvæg og aðgengi okkar að öllum þáttum samfélagsins er það líka.

II.
Samkvæmt guðspjalli dagsins er Jesús á ferð rétt fyrir utan borgina Jeríkó. Þar við veginn situr blindur beiningarmaður, einn af þeim ótalmörgu körlum og konum sem dæmdur var til fátæktar og útskúfunar vegna fötlunar sinnar. Þessum blinda beiningamanni hafa engin úrræði borist, engin hjálpartæki, engin sjóntæki, lækningar, hvítir stafir, hljóðgerflar eða sérbyggðar tölvur. Hans beið ekkert annað en útskúfun og samferðamenn hans litu á hann sem úrhrak og úrþvætti. Guðfræði þeirra margra hverra gerði líka ráð fyrir því að fötlun hans væri honum sjálfum að kenna eða foreldrum hans og því væru honum aðstæður sínar mátulegar. Við vitum fátt um blinda manninn annað en nafnið. Hann hét Bartímeus Tímeusarson og þennan dag sat hann við veginn og kallaði á Jesú. Hann kallaði á son Davíðs.

Mörg þeirra sem túlka Biblíuna segja að titillinn sonur Davíðs sé Messíasartitill. Þegar Bartímeus hinn blindi kallar á son Davíðs, þá viðurkennir hann Jesú frá Nasaret sem Messíasinn, Krist, sem þjóðin öll hafði beðið eftir í hundruð ára. Hann sér eitthvað í Jesú, sem hin sjáandi sáu ekki. Og Messíasinn nemur staðar hjá Bartímeusi, hlustar á hann, talar við hann, læknar hann og opnar honum aðgengi til Guðs.

Við getum alveg tekið okkur til og borið saman aðstæður Bartímeusar og aðstæður fatlaðs fólks á Íslandi. Víða um heim býr fólk við aðstæður sem eru ekki hótinu betri en þær sem Bartímeusi var forðum boðið upp á, aðstæður fátæktar, útskúfunar og félagslegrar einangrunar. Sem betur fer hafa aðstæður fatlaðra breyst mikið á Íslandi, fatlaðir Íslendingar búa við velferðarkerfi sem gerir aðstæður þeirra ólíkar lífi Bartímeusar.

Og samt höfum við ekki fullgilt samninginn um jafnan rétt fatlaðra og ófatlaðra.
Samt lítum við ekki enn á hugmyndafræðilegt aðgengi sem sjálfsagt baráttumál allra einstaklinga samfélagsins.
Samt eru aðstæður öryrkja á Íslandi víða mjög erfiðar, bæði félagslega og efnahagslega.
Samt er fatlað fólk á Íslandi gert ósýnilegt og við gleymum að gera ráð fyrir þeim.

Þar með má segja að við sem þjóðfélag og einstaklingar séum slegin sjónskekkju sem er erfiðari og lúmskari en það dimma sjónarhorn sem Bartímeus lifði við um sína daga. Þessi skekkja sjónar okkar er lúmsk vegna þess að hún gerir fatlaða einstaklinga ósýnilega augum okkar og kallar fram fordóma og hörð hjörtu í garð fólks sem eru öryrkjar.

Og þess vegna er það gott og hollt þegar við göngum inn í guðspjallssöguna og sláumst í för með Jesú þennan dag í Jeríkó að horfast í augu við Bartímeus, Bartímeus sem sá ekki, en sá þó betur en flest okkar, því að hann sá „son Davíðs“, Jesú sem er Kristur og Messías þeirra sem játa trú á hann. Einn af fyrstu mönnunum sem sá Jesú og það sem Jesús stóð fyrir var fatlaður maður, einn þeirra sem samfélagið mismunaði og smættaði á dögum Jesú og enn í dag.

III.
Síðasta sumar var sýnd frönsk bíómynd í íslenskum bíóhúsum. Myndin ber nafnið „The Intouchables“ og segir frá ríkum manni Philippe sem er bundinn við hjólastól. Hann þarf mikla hjúkrun og er að leita sér að aðstoðarmanni. Til hans kemur ungur atvinnulaus maður af afrískum uppruna sem heitir Driss og sækir um stöðuna án nokkurra vona eða væntinga. Hann er orðinn vanur að vera atvinnulaus og dettur ekki í hug að nokkur taki upp á því að ráða hann. Driss fær stöðuna, ekki vegna þess að hann sýni nokkra tilburði til að vera hæfur aðstoðarmaður. Hann kann ekkert fyrir sér í hjúkrun, hann er kæruleysislegur og virðist líklegur til vandræða á öllum sviðum. En hann hefur einn hæfileika, ákveðna sýn á veruleikann sem gerir hann óendanlega mikilvægan. Þessi hæfileiki er algerlega hulinn unga manninum sjálfum og fólkið sem að Philippe stendur skilur ekkert í því hvers vegna hann hefur Driss í vinnu. Hæfileiki unga mannsins, viðhorf hans er það að hann tekur ekki eftir fötlun ríka mannsins. Driss vorkennir ekki hinum fatlaða manni. Hann kemur fram við hann á nákvæmlega sama hátt og hann kemur fram við allar aðrar manneskjur. Og það er einmitt þessi „byltingarkennda“ hugsun, þessi sýn á jafnrétti fatlaðra og ófatlaðra sem er svo undureinföld, falleg og skynsamleg, sem gerir unga manninn að mikilvægum aðstoðarmanni og enn mikilvægari vini.

Ungi maðurinn glímir við alls konar erfiðleika sjálfur, kynþáttamismunun, stéttaskiptingu, félagslega erfiðleika í fjölskyldunni. Þessir tveir verða vinir, þar sem hvor um sig yfirstígur girðingar samfélagsins í garð þeirra sem eru öðruvísi á einhvern hátt.Þeir sjá hver annan. Þeir læknast af samfélagslegri sjónskekkju.

Hvað skyldi Jesús hafa hugsað þegar hann horfði á Bartímeus?

Skyldi hann hafa þurft að kafa gegnum sína eigin fordóma, fordóma sem samfélagið hefur innrætt honum frá blautu barnsbeini?
Og ég vil túlka söguna á þann hátt að Jesús hafi líka séð Bartímeus, Bartímeus Tímeusarson. Hann sá ekki Bartímeus blinda, þann Bartímeus sem er skilgreindur út frá fötlun sinni, heldur miklu fremur manninn Bartímeus sem er einstök sköpun Guðs með öllum öðrum manneskjum án tillits til fötlunar eða ófötlunar. Það er sá Bartímeus sem Jesús spjallar við sem jafningja, sá Bartímeus sem Jesús vill gera eitthvað fyrir, þjóna og þykja vænt um. Og þess vegna kallar Bartímeus Jesú Rabbúní, meistara sinn, því að meistarinn hafði séð hann og skilið. Jesús var trúr þeirri hugsun að allar manneskjur væru dýrmætar og að við ættum að þjóna og hjálpa hvert öðru í stað þess að vorkenna eða labba framhjá. Hann opnaði Bartímeusi hugmyndafræðilegt aðgengi. Aðgengi að samfélaginu. Aðgengi að öðru fólki. Aðgengi að Guði.

Við tökum þátt í slíkri baráttu fyrir reisn og göfgi hvers annars með því að berjast fyrir slíkum sáttmálum og ganga eftir því að þeir séu virtir. En baráttan fyrir virðingu og reisn náungans er ekki aðeins byggð á opinberum skjölum og reglugerðum. Hún er líka einstaklingsbundin og persónuleg, vegna þess að virðingin fyrir öðru fólki er ekki aðeins altæk, heldur sértæk, beinist að tilteknu fólki á tilteknum tíma í tilteknum aðstæðum. Við getum sagt öll réttu orðin, aðhyllst allar réttu skoðanirnar en samt brugðist öðru fólki þegar við mætum því, vorkennt í stað þess að standa með, verið köld og harðbrjósta þegar umhyggju var þörf, sokkið í meðvirkni og undanlátssemi þegar við þurftum að setja öðrum mörk. Reyndar erum við alltaf að klúðra einhverju, því ekkert okkar lifir fullkomnu lífi eða sýnir af sér hina fullkomnu breytni. Það leysir okkur ekki undan því að reyna og reyna aftur að sýna öðru fólki virðingu og elska það eins og okkur sjálf og Guð með, eins og tvöfalda kærleiksboðorðið segir okkur. Það leysir okkur ekki undan því að rækta með okkur hugmyndafræðilegt aðgengi, því í því felst virðing fyrir öllu fólki án tillits til fötlunar, kyns, litarháttar, kynhneigðar, stéttar, aldurs, efnahagsstöðu eða allra annarra girðinga sem mismunandi samfélag setur upp í heila okkar.

Á þeirri Jeríkógöngu, þeim krossferli sem elskan til Guðs og náunga markar dag hvern gengur Jesús með okkur. Hann opnar okkur aðgengi, breytir viðhorfi okkar og hugarfari. Hann horfir í augun á Bartímeusi Tímeusarsyni, Philippe, Driss sem er ég og þú og segir: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig, þig kæra mannvera sem ert undursamlega sköpuð og ert dýrmæt í augum Guðs, þig sem ert fötluð og ófötluð og Guðs útvalda barn?“. Og við svörum:

„Rabbúní, að við fáum aftur sjón.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.