Category: Kirkjumál

Dagur kvenna í kirkjunni

Nú liggur fyrir niðurstaða í kosningum til biskups Íslands. Agnes M. Sigurðardóttir fékk 131 atkvæði, Sigurður Árni Þórðarson 120 atkvæði, ég sjálf 76 atkvæði, Örn Bárður Jónsson 49 atkvæði, Kristján Valur Ingólfsson 37 atkvæði, Gunnar Sigurjónsson 33 atkvæði, Þórhallur Heimisson 27 atkvæði, Þórir Jökull Þorsteinsson 2 atkvæði og Arnfríður Guðmundsdóttir 1 atkvæði.

Það fyrsta sem að ég rek augun í er hversu hár og mikill hlutur kvenna er í þessari kosningu. Konurnar þrjár sem fá atkvæði fá samtals 208 atkvæði, en karlmennirnir sex skipta með sér 241 atkvæði. Kona trónir í efsta sætinu og kona er líka í þriðja sæti. Þetta er ánægjuleg niðurstaða fyrir þau sem unna jafnrétti í kirkjunni og sýnir að það er kominn tími á að bæði kyn gegni biskupsþjónustu.

Þau tvö sem keppa um stólinn í seinni umferðinni eru góðar manneskjur, tryggar kirkju sinni og einlægar í trú sinni á Jesú Krist. Agnesi þekki ég vel sem prest, því að hún er sóknarprestur tengdaforeldra minna og ég hef af henni góða og hlýja reynslu. Sigurður Árni hefur verið samherji minn í mörgum erfiðum deilumálum í kirkjunni. Ég tel þau bæði til vina minna og treysti þeim báðum fyrir embættinu. Þau verða góðir fulltrúar kirkjunnar í þessum mikilvægu kosningum.

Ég er sjálf svo stolt yfir mínum 76 atkvæðum. 16 prósent fylgi í biskupskosningum fyrir yngsta og um margt róttækasta frambjóðandann er dýrmætt og sýnir að þjóðkirkjan er á leið til breytinga.  Ég þakka stuðningsmönnum mínum um land allt fyrir meðbyrinn og ekki síst þeim sem að ákváðu að krossa við nafnið mitt á þessum seðli og treysta mér fyrir þessu mikla og erfiða starfi. Ég er snortin yfir því.

Góður dagur fyrir konurnar í kirkjunni og fyrir framtíðina.

Kvöldið fyrir talningu

Á morgun verður talið í biskupskosningu og tíminn er dálítið lengi að líða.

Þá er upplagt að horfa yfir þessa tvo mánuði síðan ég lýsti því yfir að ég gæfi kost á mér. Ég er svo glöð yfir því að hafa tekið þátt í þessari kosningabaráttu. Þetta hafa verið stórmerkilegir og viðburðaríkir mánuðir, þar sem ég hef haft tækifæri til að kynnast mörgu áhugaverðu fólki, upplifa gestrisni þess og hlusta á viðhorf og kirkjusögur frá ólíkum stöðum. Mér finnst að sjónarhornið hafi dýpkað með hverri heimsókninni og hverjum keyrðum kílómetra. Við fengum líka mikið af góðum spurningum á fundum og á netinu, sem gaman hefur verið að svara og það hefur verið gefandi að standa í svona sterkum tengslum við söfnuðina og fólkið í landinu.  En jafnframt hefur það verið erfitt að ferðast svona mikið og reyna að láta prestakallið ekki láta mæta afgangi á meðan. Stundum hef ég verið yfir mig þreytt. Og gott fólk hefur stutt mig einmitt þegar ég þurfti þess mest með.

Kosningin nú er tímamótakosning og hún hefur hlotið allmikla athygli. Ég geri ráð fyrir því að það verði tvær umferðir í kosningunni. Það kæmi mér á óvart ef einhver einn fengi hreinan meirihluta þegar átta manns eru í kjöri. En allt skýrist þetta á morgun. Ég vona að kona komist í seinni umferðina, annað hvort ég sjálf eða sr. Agnes Sigurðardóttir, því það er kominn tími á að brjóta glerþakið og vígja konu biskup. Mér þykir kosningabaráttan hafa farið vel fram og ég þakka af hjarta þeim Agnesi, Gunnari, Kristjáni Val, Sigurði Árna, Þórhalli, Þóri Jökli og Erni fyrir ágætar samræður og samfylgd á kynningarfundunum.

En í kvöld langar mig til að þakka fleirum. Ég hef ástæðu til að vera glöð og þakklát hvernig svo sem kosningin fer og ég er æðrulaus gagnvart framhaldinu, þó að stundirnar séu lengi að líða. Ég þakka Rögnvaldi fyrir að hafa staðið við bakið á mér eins og hann gerir alltaf og keyrt mig um allar jarðir. Ég þakka strákunum mínum fyrir sprell og stuðning. Ég þakka mömmu og pabba sem hafa verið óþreytandi í að fylgjast með, koma á fundi og telja í stelpuna sína kjark og þor. Ég þakka þeim sem hafa staðið í kringum mig, ráðlagt og hvatt, Níelsi Árna, Kalla Matt, Svanhildi, Auði Ingu og Guðrúnu ásamt mörgum öðrum. Ég þakka Petrínu sem messaði tvisvar fyrir mig svo ég gæti betur einbeitt mér að kosningunni. Ég þakka Lovísu, sem hefur staðið vaktina, öllu starfsfólki og sjálfboðaliðum Guðríðarkirkju sem hafa möglunarlaust tekið því að presturinn væri oft fjarverandi og gjarnan í öðrum heimi og söfnuðinum öllum fyrir samstöðuna.  Ég þakka stuðningsgrúppunni á facebook sem telur 469 manns, guðfræðinemunum sem kusu mig í könnun í guðfræði- og trúarbragðadeild, öllum þeim sem sendu mér kveðju og hringdu, skrifuðu fallegar greinar, skoruðu á mig í DV og mæltu með mér sem biskupi í Gallupkönnuninni. Ég er ákaflega snortin yfir því að svo mörg ykkar hafið treyst mér fyrir þessu erfiða og vandasama embætti.

Kosningin til embættis biskups Íslands hefur verið mér tækifæri til að taka þátt í að móta framtíð íslensku þjóðkirkjunnar. Það er gleðiefni að fá að taka þátt í slíku verkefni. Ég er rík af þeim sem þykir vænt um mig og hafa sýnt mér umhyggju og hvatningu í þessari kosningu. Og þegar ég horfi til allra þeirra sem hafa sýnt kosningunni áhuga, þá finn ég hvað kirkjan er rík af þeim sem þykir vænt um hana. Takk öll fyrir allt!

Organistar og kirkjutónlist

Félag íslenskra organista hefur sent okkur biskupskandítötum spurningar um kirkjutónlist og menntun organista. Þær eru svona:

1. Hvaða gildi telur þú að Tónskóli Þjóðkirkjunnar hafi fyrir þjóðkirkjuna og hvernig sérðu fyrir þér framtíð skólans?

2. Hvaða gildi telur þú að embætti Söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar hafi fyrir þjóðkirkjuna og hvernig sérðu fyrir þér framtíð embættisins?

3.Finnst þér breytinga þörf á sviði kirkjutónlistarmála? Ef svo er þá hvaða breytingar?

4. Finnst þér að það þurfi að endurskoða kirkjutónlistarstefnuna?

Ég tel það vera bráðnauðsynlegt að kirkjan haldi úti starfsemi Tónskólans, því hann er eini tónlistarskólinn á landinu sem annast menntun organista. Þar sem menntunin miðast sérstaklega við starf í kirkju, eins og  orgelleik, litúrgiskan orgelleik, kórstjórn og raddþjálfun og kirkjusöngfræði væri torsótt að ég held að fá aðra tónlistarskóla til að taka yfir organistanámið.  Orgeltónlistin, kór- og safnaðarsöngur er mikilvægur þáttur í okkar kirkjumenningu og við eigum að standa vörð um það. Undir þetta sjónarmið tók kirkjuþingið 2011 sem ályktaði að ekki skyldi fella niður fjárframlag til „Tónskóla þjóðkirkjunnar og til embættis söngmálastjóra því mikilvægt er að hlúa að tónlistarstarfi kirkjunnar svo að halda þarf einnig úti starfi söngmálastjóra til að liðsinna organistum og kórum og sinna endurmenntun ásamt með Tónskólanum. “ Ég tek undir þetta sjónarmið með kirkjuþinginu.

Íslenska þjóðkirkjan hefur haldið úti söngmálastjóraembætti í sjötíu og eitt ár.  Sögu embættisins má lesa hér. Á þeim tíma hefur grettistaki verið lyft í að virkja íslenska þjóð í kórastarf á vegum þjóðkirkjunnar. Kórastarfið er líklega öflugasta og fjölmennasta sjálfboðaliðastarf sem rekið er á vegum þjóðkirkjunnar og það skiptir miklu að því sé haldið áfram af myndarskap og framsýni. Í seinni tíð hefur einnig verið sterk áhersla á að efla hinn almenna safnaðarsöng og er það vel.

Tónlistarstefnan er frá 2004 og eins og aðrar stefnur þarf að endurskoða hana reglulega. Hana má finna hér. Starfshópur er að vinna tillögur um Tónskólann og söngmálastjórann og á að skila af sér bráðlega. Ég tel best að bíða eftir niðurstöðu starfshópsins og vinna endurskoðunina út frá henni.

Ég tel að það verði mikil lyftistöng fyrir safnaðarstarfið þegar nýja sálmabókin kemur út. Vonandi tekst að gefa hana út fljótlega. þar eru á ferðinni margir nýir sálmar og endurskoðun sálmaarfsins sem byggir á vinnu stórs ráðgjafahóps í kirkjunni. Grasrótin er góð og nýsköpunin líka.

Barna- og æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar

Mig langar til að tala um barna og æskulýðsstarfið sem mér er mjög annt um.

Síðustu tvo áratugi hefur barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar vaxið fiskur um hrygg. Söfnuðirnir hafa ráðið mikið af guðfræði- og uppeldismenntuðu starfsfólki og djáknar verið vígðir til æskulýðsstarfs. Eftir hrunið hefur hins vegar allt þetta starf dregist saman. Nú þegar fjárráð verða lítil og söfnuðir þurfa í vaxandi mæli að skipta því sem ekkert er, fara fjármunirnir að mestu í að borga af lánum og halda uppi lágmarks helgihaldi. Víða hafa launaðir starfsmenn í fastri vinnu vikið fyrir verktökum í takmarkaðan tíma. Og barnastarfi kirkjunnar hrakar eftir því sem minna er lagt í það og haldið utan um það.

Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar sendi biskupskandídötum kveðju sína í dag og þrjár spurningar með. Þær eru svona:

1. Ætlar þú að beita þér fyrir því sem biskup að sá niðurskurður sem æskulýðsstarf hefur orðið fyrir verði leiðréttur?
2. Ætlar þú sem biskup að beita þér fyrir því að viðunandi æskulýðsstarf verði í boði í öllum sóknum landsins?
3. Ætlar þú sem biskup að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilstöðum í haust, 26. – 28.október 2012?

Svar mitt við fyrstu spurningunni er það að biskup geti liðsinnt barna-og æskulýðsstarfinu á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi þarf hún/hann að beita sér fyrir því að sóknargjöldunum verði skilað. Þar þarf að myndast breiðfylking kirkjufólks sem að orðar vandann opinberlega og leggst á eitt við að rétta hlut safnaðanna. Það er frumforsenda þess að niðurskurðurinn í æskulýðsstarfinu verði leiðréttur.  Jafnframt vísa ég á grein mína „Búrlyklar biskupsins“ sem nálgast má hér.  Greinin fjallar um að við núverandi aðstæður sé óábyrgt að gefa kosningaloforð sem fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar, vegna þess annars vegar að við lifum á niðurskurðartímum og hins vegar vegna þess að allar líkur eru á því að fjárstjórnarvaldið sé að færast frá biskupnum og kirkjuráðinu yfir til kirkjuþingsins. Leiðréttingar nást aðeins fram ef okkur tekst að leiðrétta þá skerðingu á sóknargjöldum sem við höfum orðið fyrir. Og þá er það líklegt að fjárstjórnarvald hinna sameiginlegu sjóða verði á forræði kirkjuþingsins fremur en biskupsins og spurningin um það hvernig á að deila út fjármunum til barna og æskulýðsstarfs verður þeirra. En biskupinn á að hafa yfirsýnina og hún/hann á að tala máli barna og unglinga og benda á þá stefnumótun og fræðslustefnu sem þjóðkirkjan hefur sett sér. Orð biskups og áhrifavald getur haft mikil áhrif í að rétta hlut barna og ungmenna í þjóðkirkjunni.

Í öðru lagi getur biskupinn beitt sér fyrir lýðræðisumbótum sem miða að því að ungt fólk komist til áhrifa í kirkjunni, með því að tryggt sé í lögum að ákveðinn hluti þingsæta á kirkjuþingi sé eyrnamerktur kirkjuþingsmönnum yngri en 30 ára. Biskupinn getur talað fyrir því að laða ungt fólk til setu í sóknarnefndum. Um leið og aldurssamsetning þeirra sem ákveða hvernig fjármunum er varið á safnaðarvísu breytist, þá breytist gjarnan forgangsröðunin líka. Það er að segja ef eitthvað er í buddunni til að skipta niður.

Svar mitt við annarri spurningunni er þjóðkirkjan hefur sett sér stefnu um barna og æskulýðsstarf og henni á að sjálfsögðu að fylgja.Til þess eru stefnur að fara eftir þeim. Í stefnumótun þjóðkirkjunnar 2004-2010 var m.a. birt framtíðarsýn þjóðkirkjunnar fyrir barna og æskulýðsstarf sitt. Þar segir:

Við viljum móta heildstæða fræðslustefnu og sinna fræðslustarfi sem leggur
áherslu á samfylgd frá vöggu til grafar.

  • Í öllum sóknum kirkjunnar sé boðið upp á barnastarf, unglingastarf og fullorðinsfræðslu.
  • Skilgreindar séu skyldur Þjóðkirkjunnar varðandi fræðslu um trú og  hefðir í ljósi þeirrar fræðslu sem veitt er í skólakerfinu.

Fræðslustefna þjóðkirkjunnar er byggð á stefnumótunarvinnunni og hana má nálgast hér: Þar segir að bjóða eigi upp á fræðslu í hverri sókn þjóðkirkjunnar frá vöggu til grafar. Áherslur stefnumótunarvinnunnar og fræðslustefnunnar eru bjartsýnar, glaðar og víðsýnar. En þær byggja á kirkjusýn sem enn er ekki til um þjónustu og fræðslu fyrir alla og raunhæfum markmiðum í þá átt. Við þurfum að gera slíka sýn að raunveruleika í strjálbýlinu jafnt sem þéttbýlinu. Og þessu á biskupinn að vinna að með hagsmuni allra í fyrirrúmi.

Svarið við þriðju spurningunni er að mér væri heiður þiggja boð um að mæta á Landsmót æskulýðsfélaga á Egilsstöðum í októberlok.

Jafnréttisstefna og 110-0

Félag prestvígðra kvenna bað um að biskupskandídatar svöruðu spurningum um jafnrétti. Mér er það bæði ljúft og skylt, því ég hef mikinn áhuga á að bæta jafnrétti innan kirkjunnar.

Núverandi jafnréttislög í landinu eru frá árinu 2008 og þau má finna hér. Nýmæli í þeim lögum voru hugmyndir um kynjasamþættingu,  „að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu“, svo vitnað sé í orðskýringar jafnréttislaganna. Núverandi jafnréttisstefna kirkjunnar byggist á þessum lögum og var samþykkt á kirkjuþingi 2009. Hana má finna hér. Jafnréttisstefnan geymir fjölþætt markmið, um að skapa forsendur til þess að karlar og konur njóti þess jafnréttis sem þeim á að vera tryggt með lögum, að festa kynjasamþættingu í sessi í kirkjustarfi og stjórnsýslu kirkjunnar, að gera jafnréttismál að viðfangsefni allra í kirkjunni, að bæta stöðu kvenna og karla í þeim stöðum þar sem hallar á annað kynið, að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í áhrifastöðum í kirkjunni og að síðustu að tryggja framkvæmd markmiðanna með framkvæmdaráætlun. Árið 2010 bættist síðan nýr liður við jafnréttisstefnuna, þar sem það verður liður í jafnréttisáætlun kirkjunnar að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni, sjá hér. Jafnréttisnefnd kirkjunnar á sér sérstakan vef og hann er að finna hér.

Samkvæmt framkvæmdaáætluninni á að endurskoða jafnréttisstefnuna 2013 og leggja fyrir kirkjuþing það haust. Safna á upplýsingum um stöðu kvenna sem birta á í ágúst 2012. Allar valnefndir eiga að vera skipaðar amk 40% konum og 40% körlum (þeirri endurskoðun átti að vera lokið haustið 2011).  Búið átti að vera að jafna hlut kynjanna í stjórnunarstöðum innan kirkjunnar í júní 2011 og stuðla að bættri samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs fyrir júníbyrjun 2012. Auk þess átti að gera sérstakan skurk varðandi málfar beggja kynja í hinni nýju sálmabókarútgáfu og handbók, jafna laun starfsfólks (skýrslur áttu að liggja fyrir á héraðsfundum og kirkjuþingi 2010, 2011 og 2012) og vinna að jafnréttisfræðslu fyrir árslok 2010.

Hér koma spurningar prestsvígðra kvenna um jafnréttisstefnu og jafnréttismál.

1.   Munt þú beita þér fyrir því að markmið Jafnréttisstefnu kirkjunnar nái fram að ganga? Hver telur þú brýnustu forgangsverkefni stefnunnar?

Ég mun beita mér fyrir því að markmið jafnréttisstefnunnar nái fram að ganga og það er mér hjartans mál. Þegar stefnumál eru skoðuð er alltaf mikilvægt að ætla sér ekki að finna upp hjólið, heldur byggja á þeirri vinnu sem farin er í gang. Þegar lesið er yfir tímaáætlun stefnunnar virðist ljóst að hin metnaðarfulla framkvæmdaáætlun sé ekki að ná fram að ganga, amk ekki innan þeirra tímamarka sem sett voru í stefnunni. Ég fletti upp í málaskrá kirkjuþings og sé hvergi merki um að skýrslur um jöfn laun og kjör starfsfólks þjóðkirkjunnar hafi verið lögð fyrir kirkjuþing árin 2010 og 2011. (Ef einhver getur bent mér á þessar skýrslur væri það vel þegið). Ég fann fundargerð frá jafnréttisnefndinni frá desember s.l. , sjá hér, þar sem kemur fram að starf nefndarinnar hafi legið niðri í heilt ár vegna veikinda fyrrverandi formanns, nefndarmenn séu ekki vissir um það hver gegni starfi jafnréttisfulltrúa og að brýnt sé að setja téðum fulltrúa erindisbréf. Samkvæmt fundargerðinni telur nefndin brýnast að safna upplýsingum um laun starfsfólks kirkjunnar og taka saman tölulegar upplýsingar um kynjafhlutföll ofl. Nefndin hefur því sett sér markmið og áhersluatriði og er það vel.

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt þykir mér brýnasta verkefnið að ráða jafnréttisfulltrúa til biskupsstofu sem geti framfylgt markmiðum jafnréttisstefnunnar. Verkefnin virðast svo viðamikil að nefnd sem hittist öðru hvoru geti varla innt þau af hendi nema að hafa starfsmann í föstu starfi með sér. Hygg ég að þar með skapist líka meiri festa kringum starf nefndarinnar og hún geti sett sér nýja framkvæmdaráætlun með uppfærðum dagsetningum. Og að sjálfsögðu á að setja jafnréttisfulltrúanum erindisbréf.

En…hvar á að finna peninga til að hrinda jafnréttisáætlun kirkjunnar í framkvæmd í niðurskurðinum miðjum?  Ég hef lagt til mikla endurskipulagningu á biskupsstofu í samræmi við tillögur ríkisendurskoðunar frá síðasta hausti. Ég tel þó að starfsmannamál séu svo brýn og knýjandi í kirkjunni að ekki sé hægt að bíða með að ráða starfsmannastjóra kirkjunnar. Ég legg því til að best sé að bíða með að ráða biskupsritara meðan þessar stjórnsýslubreytingar ganga yfir og ráða þess í stað starfsmannafulltrúa sem einnig gegnir starfi jafnréttisfulltrúa og hafi einhverja sérmenntun á því sviði. Þar með er hægt að hafa jafnréttisfulltrúa í amk 30% launuðu starfi án þess að bæta auknum útgjöldum á biskupsstofu.

2.   Finnst þér ástæða til að setja á stofn launaða stöðu jafnréttisfulltrúa kirkjunnar?

Já, sbr. ofanskráð.

3.    Nú situr engin vígð kona í Kirkjuráði annað kjörtímabilið í röð. Hver er þín afstaða til þess?

Óneitanlega er það einkennilegt að vígðir þjónar kirkjunnar skuli ekki leggja sig meira fram um að framfylgja jafnréttisstefnunni fyrir sitt leyti með því að kjósa konu í kirkjuráð. Alvarlegt má telja að af fimm kirkjuráðsmönnum og fimm til vara skuli aðeins vera ein kona aðalmaður. Hér er ekki unnið í samræmi við þá jafnréttisstefnu sem þingið samþykkti sjálft. (Þrír af fjórum varamönnum í kirkjuráði eru reyndar konur, en það er ekki nóg að vinna upp kynjahallann með því að raða konum á varamannabekk.) Bent hefur verið á að enginn gegni stöðu varamanns fyrir biskup Íslands. Hér koma hin bestu rök fyrir því að kona ætti að gegna embætti biskups Íslands, þá lagast strax kynjahallinn á kirkjuráði! Og svo kjósum við aðra konu til Hólastóls sem getur leyst biskup Íslands af :).

4.    Í nokkrum söfnuðum landsins, þar sem fleiri en einn prestur þjónar, eru eingöngu karlar í embætti prests. Hver er þín skoðun á því?

Ef fleiri en einn prestur af sama kyni þjónar við söfnuð og enginn af hinu kyninu, er kynjasamsetningin klárlega ekki í samræmi við hugmyndir jafnréttisstefnu og jafnréttislaga um kynjasamþættingu í stjórnsýslunni allri.  Þessu þarf að breyta.

Íslenska þjóðkirkjan á að fara að sinni eigin jafnréttisstefnu. Auglýsum stöður, bætum stjórnsýslu, förum að lögum og stefnum! Þetta er ekki mjög flókið.

Í gær 8. mars hélt ég ræðu á Ísafirði þar sem ég taldi öll þau sem vígð hafa verið biskupsvígslu til þjónustu á Íslandi frá 1056. 110 biskupar hafa verið vígðir til þjónustu á Íslandi á tæpum þúsund árum. 55 í Skálholti, 45 á Hólum og 10 sem biskup Íslands (3 biskupar voru fyrst vígðir biskupsvígslu sem vígslubiskupar áður en þeir urðu biskup Íslands og þurfti því ekki að vígja þá aftur). 110 biskupar- allt karlar. Er ekki kominn tími á að breyta og gera konu að biskup númer 111? Jafnrétti á að ganga gegnum öll lög kirkjunnar, líka þá efstu og táknrænar breytingar eru líklega þær erfiðustu í framkvæmd. Konur geta, mega og eiga að birta einingu kirkjunnar til jafns við karla. Og það er villandi að gera greinarmun á milli þess að kjósa annað hvort hæfasta einstaklinginn eða konu, sjá flotta grein séra Guðrúnar Karlsdóttur um þetta efni. Það getur nefnilega vel verið svo að hæfasti einstaklingurinn sé einmitt kona. Byrjum þar.

Hver verður staðan eftir þessar kosningar? 111-0…..eða 110-1?  Einhvers staðar verður kynjasamþættingin að byrja. Hví ekki að byrja á toppnum? Það er hún/hann sem er ábyrgur fyrir jafnréttisstefnunni. Stendur ekki í jafnréttisstefnunni að gera eigi jafnréttismál að viðfangsefni ALLRA?

P.S. Gleðilegan 8. mars öll!