Category: Kirkjumál

Draumurinn um miðaldakirkjuna

Nýlega var greint frá því í fréttum að kirkjuráð hefði ákveðið að ganga til samstarf um að miðaldakirkja verði endurreist í Skálholti og að vinna við deiliskipulag sé hafin. Fundargerð kirkjuráðs um miðaldakirkjuna má lesa hér.

Draumurinn um miðaldakirkju í Skálholti er mjög táknrænn fyrir stöðu kirkju á krossgötum. Hvað gera menn þegar kirkjan glímir við ímyndarvanda, pólitískt andstreymi, slaka stjórnsýslu, stirt stjórnkerfi og margháttaða óánægju? Hvað á að gera þegar kirkjan þarf á sama tíma að bregðast hratt við fjölhyggju hins vestræna heims í öllum sínum víddum trúarflóru og trúleysis?

Við slíkar aðstæður dreymir marga um miðaldakirkjuna, þar sem allir voru kristnir, þar sem agavald kirkjunnar var sterkt og alþjóðlegt, þar sem kirkjuhöfðingjarnir voru engu valdminni en hinir veraldlegu höfðingjar. Miðaldakirkjan er táknmynd gullaldar kirkjuvaldsins þegar staðamálin voru í höfn á Íslandi og kirkjan naut óvenjuhárra tíundargreiðslna. Miðaldakirkjan er veröld þar sem fólk bjó við þriggja hæða heimsmynd með guð almáttugan á efri hæðinni, jarðlífið á jarðhæðinni og ógnir glötunarinnar í kjallaranum. Miðaldakirkjan er heimur þar sem allir skilja og taka við táknmáli kirkjunnar og virða kennivald þjóna hennar.

Við þurfum hins vegar mjög á því að halda að byggja upp fjölhyggjulega nútímakirkju, þar sem virðing, umburðarlyndi, samtal, líknarstarf og mannréttindi eru í fyrirrúmi. Og við þurfum ekki deiliskipulag til þess.

Miðaldakirkjan er liðin undir lok. Sumum okkar finnst það allt í lagi.

Saga sóknargjaldanna

Sóknargjöld hafa nokkuð verið í umræðunni undanfarin ár. Sumir telja að sóknargjöldin séu styrkur ríkisins til trúfélaganna á meðan aðrir telja þau vera félagsgjöld.

Í dag rakst ég á vef héraðsskjalasafna á Íslandi. Þar hefur verið tekið saman safn  hlekkja á fyrri lög um sóknarnefndir og sóknargjöld, sjá hér. Ég  rak nefið í þessi gömlu lög og langar í þessum pistli að rekja sögu sóknargjaldanna.

Sóknargjöld eiga upphaf sitt í tíundargreiðslunum 1096, fyrstu skattalöggjöf á Íslandi. Skyldi fjórðungi tíundargreiðslna varið til viðhalds kirkju, fjórðungi til prests, fjórðungi til biskupsstóls og fjórðungi til þurfamanna. Ari fróði segir í tíunda kafla Íslendingabókar frá því að tíund hafi ólíkt ýmsum öðrum löndum verið tekin upp með miklum friði á Íslandi:

Gizurr byskup var ástsælli af öllum landsmönnum en hverr maðr annarra, þeira er vér vitim hér á landi hafa verit. Af ástsælð hans ok tölum þeira Sæmundar, með umbráði Markús lögsögumanns, var þat í lög leitt, at allir menn tölðu ok virtu allt fé sitt ok sóru, at rétt virt væri, hvárt sem var í löndum eða í lausaaurum, ok gerðu tíund af síðan. Þat eru miklar jartegnir, hvat hlýðnir landsmenn váru þeim manni, er hann kom því fram, at fé allt var virt með svardögum, þat er á Íslandi var, ok landit sjálft ok tíundir af gervar ok lög á lögð, at svá skal vera, meðan Ísland er byggt.

Lengi var fjárhagur kirkna og prests í höndum höfðingja sem héldu presta á jörðum sínum, en deilt var um forræði yfir kirkjunum í Staðamálunum fyrri og síðari á tólftu og þrettándu öld.  Deilurnar voru hatrammar en lauk með sáttargjörðinni í Ögvaldsnesi 1297. Þá fluttust jarðir sem kirkjan átti að meira en helmingi yfir á forræði biskups, sem afhenti þær prestunum til léns. Áttu eignir brauðsins að standa undir framfærslu prestsins og viðhaldi og rekstri kirkjunnar. Bændur héldu hins vegar þeim jörðum sem þeir áttu að meirihluta.

Sóknarnefndir verða til með lögum nr. 5/1880 og áttu fyrst í stað að vera sóknarprestinum til aðstoðar um að efla reglu, siðsemi og uppfræðslu ungmenna. Tveimur árum síðar voru samþykkt lög nr. 20/1890 um að söfnuðurinn geti tekið að sér að innheimta tekjur kirkju. Ef greiðendur gátu ekki goldið í peningum gátu þeir reitt kirkjugjaldið af hendi í „sauðfénaði, hvítri ull, fisk eða dúni.“

Fyrstu lög um sóknargjöld eru nr 5/1909. Síðan hefur sóknargjaldanafnið festst við kirknaféð.  Sóknargjöldin voru á árinu 1909 lögð á allt þjóðkirkjufólk 15 ára og eldra og skyldi hver sóknarmaður greiða 75 aura á ári til umsjónar og fjárhalds kirkju. Um leið voru afnumin fyrri gjöld svo sem „ljóstollur, legkaup, lausamannagjald og skilduvinna sóknarmanna við kirkjubyggingu“. Með lögum nr. 29/1929 er upphæðinni breytt í 1 krónu og 25 aura og með lögum nr. 72/1941 er „rúmfast fólk 67 ára og eldri“ undanþegið sóknargjöldum.

Með lögum um sóknargjöld nr. 36/1948 er ákveðið að fólk sem tilheyrir öðrum trúfélögum en þjóðkirkjunni skuli greiða trúfélagsgjöld til síns félags sem nemi sóknargjöldum að lágmarki. Þau sem ekki tilheyra neinu trúfélagi eiga hins vegar að greiða gjald í prófgjaldasjóð Háskóla Íslands. Sóknarnefndirnar eiga sem fyrr að annast innheimtu sóknargjaldanna og í lögunum 1948 kemur fram að sóknarnefndirnar fái 6% sóknargjalda í innheimtuhlut. Sóknargjöldin voru nefskattur. Þó er það nýmæli í lögunum frá 1948 að ef tekjur sóknar hrökkva ekki fyrir útgjöldum er sóknarnefndum leyfilegt að jafna niður því sem á vantar sem hundraðshluta af útsvari skv. 3. grein, ef safnaðarfundur heimilar slíka ráðstöfun.

Sóknarnefndirnar voru innheimtuaðilar sóknargjaldanna allar götur frá lögunum 1909 og í mörgum tilfellum tóku þær við fjárhaldi kirknanna 1890, eins og áður sagði. Sóknarnefndirnar gátu líka falið oddvitum eða innheimtumönnum þinggjalda að innheimta sóknargjöldin og geta lögin frá 1948 þess að þessir tilkvöddu innheimtuaðilar eigi þá líka að innheimta gjöldin fyrir þau sem standa utan þjóðkirkju. Lögin nr. 24/1954 og 40/1964 fjalla um upphæð þá sem greiða skuli og er hún komin í allt að 100 krónur á ári en má í sérstökum tilfellum fara upp í kr. 250 á ári. Þar með hafa sóknarnefndir fengið ákveðið svigrúm til að ákveða sóknargjöld í sínum söfnuðum sjálfir eftir stöðu kirknanna.

Með lögum nr. 80/1985 voru gerðar miklar breytingar á sóknargjöldunum. Í stað þess að sóknarnefndirnar annist innheimtu nefskattsins eins og áður var, eru sóknargjöldin felld inn  sem hlutfall af útsvari allra gjaldskyldra manna 16 ára og eldri.  Sóknarnefndin skuli ákveða hversu hátt hlutfallið skyldi verða innan ákveðinna marka og á grundvelli fjárhagsáætlunar. Prófgjaldasjóður Háskólans hefur verið lagður niður og því runnu gjöld þeirra sem stóðu utan trúfélaga til Háskólasjóðs. Í lögunum frá 1985 er það nýmæli að lögbundin innheimta þeirra sem standa utan trúfélaga færist til sveitarfélaganna, en sóknarnefndirnar og forstöðuaðilar trúfélaga geta valið hvort þau rukka sóknargjöldin inn sjálf eða fela gjaldtökuna innheimtuaðilum sveitarfélaga.

Núverandi lög eru númer 91/1987 og voru sett samhliða nýjum skattalögum sem byggðu á staðgreiðslu. Frumvarpið um sóknargjöldin var lagt fram sem stjórnarfrumvarp af dómsmálaráðherra Jóni Sigurðssyni og skýrir hann anda laganna í framsöguræðu sinni sem nálgast má hér. Horfið var aftur til nefskatts frekar en hlutfalls. Lagður er á sérstakur tekjuskattur til að standa undir tekjustofnum þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga og ríkissjóður á að standa skil á tekjustofnum sóknanna. Í staðinn fyrir að sóknarbörnin greiði beint til sóknanna eins og verið hafði allar götur frá 1909, fá sóknirnar, önnur trúfélög og Háskólinn hlutdeild í tekjuskattinum.  Þrjú meginsjónarmið laganna eru tekin fram í athugasemdum með frumvarpinu (sem nálgast má hér). Fyrsta sjónarmiðið laganna er að að kirkjan haldi tekjustofnum sínum óskertum, í öðru lagi að reglurnar „tryggi stöðugleika á tekjustofnum sókna“ og í þriðja lagi að regluramminn verði þannig úr garði gerður að “ framkvæmd verði sem einföldust“.

Í greinargerðinni með frumvarpinu var aðferðafræðinni við útreikning sóknargjaldanna lýst á svohljóðandi hátt:

Þessari fjárhæð er deilt niður á alla sem hafa náð 16 ára aldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári miðað við 31. desember 1986 og síðan fundin út grunntala sem er mánaðarleg greiðsla sem ríkissjóði ber að skila fyrir hvern mann 16 ára og eldri. Grunntala þessi breytist einu sinni ári er samsvarar þeirri hækkun er verður á tekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan gjaldári.

Þannig hafa sóknargjöld verið innheimt frá árinu 1909 og kirkjuskattur og tíund fyrir þann tíma. Lengst af voru sóknargjöldin innheimt beint frá sóknarbarni, en frá 1987 hefur ríkið annast innheimtuna. Í stað hins beina gjaldsambands milli sóknarbarna og sóknarnefndar var prósenta tekjuskattsins hækkuð 1987 og sóknargjöldin síðan greidd úr ríkissjóði til sóknanna.

Að framansögðu má sjá að sóknargjöldin eru ekki styrkur úr ríkissjóði til safnaðanna. Ríkið tók yfir innheimtu sóknargjalda, annarra trúfélagsgjalda og greiðslu manna utan trúfélaga í Háskólasjóð af sóknarnefndunum og hækkaði tekjuskattinn til að mæta þessum lið. Þessi tekjuskattur sem lagður var á til að standa undir viðhaldi og fjárhalds kirkju og annarra bæn- og guðshúsa er innheimtur að fullu í skattheimtu ríkisins.

Samviskufrelsi

Umræðan um hjúskap samkynhneigðra hefur skekið dönsku þjóðkirkjuna að undanförnu í kjölfar þess að nýtt frumvarp hefur verið lagt fram í þinginu um ein hjúskaparlög.  Samkvæmt fréttum politiken.dk er gert ráð fyrir að prestar geti neitað því að vígja samkynhneigð pör í hjónaband á grundvelli samviskufrelsis, sem er samsvarandi við núgildandi lög á Íslandi. Í greininni er því einnig haldið fram að þriðjungur danskra presta sé á móti því að gefa samkynhneigð pör í hjónaband og að mjög sé um það rætt innan dönsku þjóðkirkjunnar að þjóðkirkjan afsali sér valdi til að framkvæma hjónavígslur að lögum. Greinina í Politiken má lesa hér.

Tvennt þykir mér áhugavert við þessar fréttir frá Danmörku. Í fyrsta lagi virðist mikill munur vera á afstöðu til hjónabands samkynhneigðs fólks meðal íslenskra og danskra presta. Í öðru lagi tel ég að danska umræðan um framsal vígsluvaldsins sé eitthvað sem getur skotið upp kollinum á Íslandi aftur í umræðu um samviskufrelsi presta.

En á hverju byggi ég það að íslenskir prestar séu almennt meiri homma- og lesbíuvinir en hin dönsku starfssystkin þeirra?

5. júlí 2008 gerði dagblaðið 24 stundir könnun meðal presta þjóðkirkjunnar um afstöðu þeirra til blessunar staðfestrar samvistar og birti niðurstöður með nöfnum presta og dreifingu um landið. Greinina má lesa hér og hér. Þar kom fram að þrír af hverjum fjórum prestum þjóðkirkjunnar var tilbúinn að taka að sér vígslur, nokkur hópur vildi ekki gefa upp viðhorf sitt og níu prestar sögðust ekki taka að sér slíka vígslu, þar af sex sem eru enn í embætti.

Stór hópur íslenskra presta, djákna og guðfræðinga vann til mannréttindaverðlauna Samtakanna 78 árið 2010 fyrir að hafa lagt lóð á vogarskálarnar við umfjöllun og afgreiðslu einna hjúskaparlaga á Íslandi. Texta viðurkenningarinnar og nöfn þeirra sem hana fengu má lesa á þessari síðu hér. Á grundvelli þessara upplýsinga úr 24 stundum og lista þeirra sem fengu mannréttindaverðlaunin er hægt að draga ályktanir af viðhorfum velflestra íslenskra presta til hjúskapar samkynhneigðra.

Niðurstaða yfirgnæfandi meirihluta íslenskra þjóðkirkjupresta er sú að þeir gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband til jafns við gagnkynhneigð pör. Þess má líka geta að presturinn sem samdi nýtt kynhlutlaust hjónavígsluritúal handa þjóðkirkjunni í tilefni einna hjúskaparlaga 2010 er orðinn biskup í Skálholti og að báðir biskupskandídatarnir sem kosið er um til embættis biskups Íslands voru í hópi þeirra sem samtökin 78 verðlaunuðu 2010. En er það nóg að velflestir prestar taki að sér að gefa samkynhneigð pör í hjónaband og að hjónaband homma og lesbía njóti velvildar og skilnings hjá biskupum? Er samkynhneigðu fólki ekki enn mismunað í íslensku þjóðkirkjunni meðan prestar geta neitað að vígja það í hjónaband?

Séra Baldur Kristjánsson skrifaði stuttan pistil á heimasíðu sinni fyrir skömmu þar sem hann taldi að tími væri kominn til að valkvæða ákvæðið í hjúskaparlögunum frá 2010 væri numið úr gildi. Þar með yrði það ekki lengur á valdi einstakra presta að ákveða hvort þeir taki að sér hjónavígslu samkynhneigðra eða ekki, heldur sé það sameiginleg ákvörðun trúfélagsins þar sem þeir þjóna. Séra Baldur segir:

Kirkjan ætti auðvitað að taka af skarið sjálf  og sýna að hún giftir ekki samkynhneigt fólk með hangandi hendi, allir þjónar hennar geri það með sama geði og um gagnkynhneigt fólk væri að ræða eða leyni lund sinni ella.

Ég er sammála sr. Baldri í því að þjóðkirkjan á að fjalla um valkvæða ákvæðið í stað þess að bíða eftir því að einhver ákveði að taka af skarið á þingi. Guðfræðileg umræða tekur langan tíma og þjóðkirkjan getur ekki sinnt þessari umræðu á eigin forsendum nema að hún taki frumkvæði. Ég var hlynnt þessu ákvæði á sínum tíma og tel að það hafi átt sinn þátt í að hjálpa til við að koma lögunum á og skapa rými til aðlögunar. Svo er önnur spurning hvort valkvæða ákvæðið eigi að gilda um eilífð og aldur. Umræðan í Danmörku virðist komin miklu styttra áleiðis en á Íslandi, en kannski verður hún til að ýta við umræðu í íslensku þjóðkirkjunni í þessu máli.

Ef farið verður að hrófla við valkvæðisákvæðinu í lögunum, eru tvær leiðir færar. Sú fyrsta væri sú að allir vígðir þjónar þjóðkirkjunnar tækju að sér  hjónavígslu samkynhneigðra. Hin leiðin væri sú að íslenska þjóðkirkjan afsalaði sér vígsluvaldinu á sama hátt og danska kirkjan er að velta fyrir sér að gera.

Er hægt að fá alla presta til að taka að sér að vígja samkynhneigða í hjónaband?  Á að knýja þessa fáu sem eru á móti til að annast vígslurnar, eða „leyna lund sinni“? Hvað nákvæmlega leysist við það að kirkja afsali sér vígsluvaldi?  Breytir það ábyrgð kirkjunnar gagnvart samkynhneigðum sóknarbörnum sínum?

Hvað felst í samviskufrelsi og á samviskufrelsi sér takmörk? Ég ætla að pæla í þessu áfram í öðrum pistli um samviskufrelsið á morgun m.a. út frá 18. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

(Innskot viku síðar:  Það tók mig reyndar viku að skrifa grein númer tvö. Hana er hægt að lesa með því að smella hér).

Að breyta kirkjusögunni

Nú er í fyrsta sinn í sögunni raunhæfur möguleiki á því að kona verði biskup Íslands. Konan sú heitir Agnes M. Sigurðardóttir. Hún var þriðja konan til að vígjast til prests á Íslandi og því sannkallaður brautryðjandi prestsvígðra kvenna. Emmið í nafninu hennar er nafn móður hennar Margrétar.

Agnes hefur langa og víðtæka reynslu sem prestur og prófastur. Hún hefur afburðaþekkingu á landsbyggðinni. Hún hefur aflað sér stjórnunarreynslu, staðið í erfiðum samskiptum og unnið að úrlausn erfiðra mála í starfi sínu sem prófastur sem myndi nýtast henni sérlega vel sem biskup Íslands.

Hún er einlæg trúkona og vakandi hirðir safnaðar síns.  Agnes Margrétar og Sigurðardóttir er góður þjónn Drottins og góð fyrirmynd trúaðra.

Hún hefur stundað framhaldsnám í guðfræði.

Hún skrifaði á sínum tíma undir stuðningsyfirlýsingu 90 presta, djákna og guðfræðinga þar sem þeir lýstu gleði sinni með ein hjúskaparlög í landinu og þannig sýnt það í verki að hún er hlynnt mannréttindum samkynhneigðra. Þessa yfirlýsingu má lesa hér.

Agnes er einlægur jafnréttissinni. Svör hennar við spurningum félags prestsvígðra kvenna um jafnréttisstefnu og jafnréttismál í þjóðkirkjunni má lesa hér.  Hún er fylgjandi því að komið verði á starfi jafnréttisfulltrúa þjóðkirkjunnar. Hún vill berjast fyrir því að sjónarmiðum jafnréttisstefnunnar verði fylgt.

Innan kirkjunnar er starfandi Jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar sem framfylgja á markmiðum jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar, sem er þessi:

  1. Að skapa forsendur fyrir konur og karla í kirkjunni til að njóta þess jafnréttis sem tryggt er í lögum.
  2. Að festa kynjasamþættingu í sessi á öllum sviðum kirkjulegs starfs og innan stjórnsýslu kirkjunnar.
  3. Að auðvelda leikum og lærðum að móta og skapa aðstæður sem gera jafnréttismál að viðfangsefni allra innan kirkjunnar.
  4. Að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar.
  5. Að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum.
  6. Að tryggja framkvæmd þessara markmiða með framkvæmdaráætlun.

Og nú spyr ég:  Í ljósi þess að 110 karlmenn hafa verið vígðir til biskups í íslensku þjóðkirkjunni og engin kona, hvernig hyggst jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar beita sér fyrir því í síðari umferð biskupskosninganna að markmið númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm nái fram að ganga?

Félag prestsvígðra kvenna var stofnað 30. júlí árið 2009.  Félagið á sér tvíþættan tilgang,

– Að efla samstarf og miðla reynslu meðal prestsvígðra kvenna.
– Að auka áhrif og þátttöku prestsvígðra kvenna í kirkjunni og samfélaginu.

Og nú spyr ég hvernig félagið hyggst beita sér í því að auka áhrif og þátttöku prestsvígðra kvenna í þjóðkirkjunni í þeim sögulegu kosningum sem við stöndum nú frammi fyrir?

Er það ekki með því að styðja við bakið á konunni sem á raunverulegan möguleika á að breyta stöðunni í 110-1?

Það verða alltaf þúsund ástæður til að kjósa ekki konu sem biskup. Þær eru of íhaldssamar, of róttækar, hárið á þeim er ekki í lagi, þær eru fráskildar eða eiga óheppilegan kall, þær sögðu eitthvað óheppilegt fyrir hundrað árum etc.

Og einn góðan veðurdag skiptir ekkert af þessu máli, heldur aðeins hvort við breytum kirkjusögunni eða ekki.

Áfram Agnes!

Mikilvæg biskupstákn innan kirkju og utan

Fyrri umferðin í biskupskosningunum er búin og ég sit og hugsa um framtíð kirkjunnar.

Um daginn rakst ég á viðtal við Irju Askola sem er biskup í Helsinki. Lútherska kirkjan í Finnlandi er íhaldssamasta kirkja á Norðurlöndum og sú síðasta þeirra til að heimila vígslu kvenpresta. Sænska kirkjan var fyrst til að veita konum prestsvígslu og hefur vígt konur til prestskapar síðan 1958 og það liðu þrjátíu ár þar til Finnarnir fylgdu í kjölfar hinna frjálslyndu nágranna sinna. Irja Askola var einmitt í hópi hinna fyrstu finnsku kvenna sem hlutu prestsvígslu árið 1988 og hafði beðið þrettán ár eftir því að fá vígsluna. Í ljósi þess að konur höfðu aðeins verið prestar í rúma tvo áratugi var það í raun stórmerkilegt að Irja Askola skyldi vera vígð biskupsvígslu í september 2010. Það er ekki síður mikilvægt í ljósi þess að Irja Askola er mjög frjálslyndur guðfræðingur. Hún styður hjúskap samkynhneigðra. Hún talar óhindrað um jafnréttismál og mikilvægi kvennabaráttunnar. Hún leggur mikið upp úr samtali við samtímann. Hún orðar misrétti og berst gegn því.

Viðtalið sem ég nefndi er tekið stuttu eftir að Irja Askola hefur verið kjörin biskup. Viðtalið má sjá hér. Þar er hún spurð að því hvaða gildi það hefur að vígja konur sem biskupa. Irja segir tvennt sem mér finnst eiga erindi við þann tíma sem við lifum nú, tímann þar sem í fyrsta sinn er eygt raunverulegt tækifæri á að kona verði biskup Íslands. Hún segir að vígsla kvenbiskups hafi mikla þýðingu innan kirkjunnar og einnig utan hennar. Og svo segir hún að vígsla konu til biskups sé „viktigt symbol“ , mikilvægt tákn.

Ég les athugasemd Irju Askolu um að vígsla kvenbiskups hafi mikil áhrif innan kirkjunnar sem og utan á þann hátt að þar með sé sýnt með áþreifanlegum hætti að lútherska þjóðkirkjan í Finnlandi hafi raunverulegan áhuga á að rétta hlut kvenna í kirkjunni. Jafnrétti karla og kvenna er mikilvægur þáttur í mannréttindaumræðu nútímans og mannréttindi eru mál málanna á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld.

Jöfn réttindi kvenna og karla eru ríkur þáttur mannréttinda og mannréttindi eru mál málanna á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld, málefni sem fólk hefur sterkar skoðanir á og berst saman fyrir þvert á trúarviðhorf. Þess vegna er vígsla kvenna til biskups í finnsku þjóðkirkjunni ekki aðeins innanbúðarmál í stjórnkerfinu heldur tækifæri til að breyta kirkjusögunni og samfélagsmynstrinu í átt til nútíma. Hið sama hef ég upplifað í þessum sögulegu kosningum í íslensku þjóðkirkjunni. Þær hafa vakið mikla athygli þeirra sem unna mannréttindum og sú athygli er ekki endilega eingöngu bundin við þjóðkirkjufólk. Mannréttindi eru efni sem ólíkt fólk hefur sterkar skoðanir á og ekki síst ungt fólk. Og það er tilbúið til að berjast fyrir slíkum hugsjónum þvert á trúar, stéttar og kynjamörk.

Margir hafa áhuga á kosningum til biskups Íslands og ekki síst vegna jafnréttissjónarmiða. Þjóðkirkjan hefur sett sér glæsilega og metnaðarfulla jafnréttisstefnu og er það vel. Hana má nálgast hér. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að þó að þjóðkirkjan samþykki hinar ítarlegustu jafnréttisáætlanir og haft uppi stór orð um jafnrétti og mannréttindi, þá talar það hærra ef yfirstjórn kirkjunnar er að mestu skipuð karlmönnum, f jafnréttisáætluninni er ekki fylgt og ef andlit kirkjunnar og sameiningartákn hennar er alltaf karlkyns. Orð eru raunar til alls fyrst, en orð eru ekki nóg. Ég hef þegar rætt um glerþakið í íslensku þjóðkirkjunni í þessari grein hér. Einnig var mikið skrifað fyrir biskupskosningarnar í Skálholti um mikilvægi þess að jafna hlut kynjanna í biskupskjöri. Grein Arnfríðar Guðmundsdóttur má lesa hér, grein Kristínar Þórunnar Tómasdóttur má lesa hér og grein Guðrúnar Karlsdóttur hér.  Ég tek undir það sem allar þessar góðu konur hafa að segja um jafnréttismál og táknræn gildi þess að vígja konu biskupsvígslu.

Og þar með erum við komin að seinni athugasemd Irju Askolu við upphaf biskupsferilsins. Hún sagði að biskupsvígsla konu væri mikilvægt tákn. Kaþólska nunnan og femíníski guðfræðingurinn Elizabeth Johnson sagði eitt sinn:  „The symbol functions“ og ég held að það sé alveg rétt. Trúarleg tákn eru sterk og þau hafa áhrif á undirmeðvitund okkar, gildi og samfélagsskoðanir á ýmsan hátt sem við erum ekki endilega meðvituð um. Þegar spurt er um til hvers biskupsembættið er þá svara margir því til að biskupinn sé sameiningartákn kirkjunnar. Þetta er ekki sérskoðun íslensku þjóðkirkjunnar, heldur sameiginleg niðurstaða samkirkjulegra samþykkta svo sem Porvoo samkomulagsins milli anglikönsku safnaðanna á Bretlandseyjum og hinna norrænu lúthersku kirkna, svo og Limaskýrslu Alkirkjuráðsins um skírn, máltíð og þjónustu.

Ef biskupsembættið er að stofni til táknrænt embætti um einingu,  og ef táknin hafa áhrif , þá hefur karleinokun biskupsembættisins í þúsund ár áhrif á það hvernig við hugsum um kirkjuna sem stofnun og hreyfingu. Ákvarðanir okkar núna eru ekki síst mikilvægar fyrir það að vera táknrænar ákvarðanir, ákvarðanir sem geta sýnt raunverulegar breytingar á stöðu kvenna í íslensku þjóðkirkjuna.

Tákn eru „viktig“

Biskupstákn og þau skilaboð sem þau senda út í samfélagið og innan raða kirkjunnar manna eru mikilvæg.

Gleymum því ekki þegar við göngum til seinni umferðar.