Category: Jafnrétti og mannréttindi

Netsorg, knúz og liðleskjur

Ný vefsíða um jafnrétti hefur litið dagsins ljós. Síðan er opnuð 29. september á afmælisdegi Gunnars Hrafns Hrafnbjargarsonar sem lést af slysförum í Svíþjóð í ágústmánuði. Gunnar Hrafn var afkastamikill bloggari og Facebókarmaður og hélt lengi úti hinu snarpa bloggi „Sigurbjörn femínisti“ sem flest þau sem hafa áhuga á jafnréttisumræðu hafa lesið og deilt á netinu.

Ég hitti Gunnar Hrafn aldrei í eigin persónu, þótt ég hafi skrifast á við hann og mörg hliðarsjálf hans á Facebók og google plús og lesið hann dyggilega. Ég var lengi vel ekkert viss um að Gunnar Hrafn væri til, heldur aðeins gríma á einhverri enn annarri persónu. Það er óendanlega skrýtin þversögn fólgin í því að missa vin og samherja sem maður hefur þó aldrei hitt og er ekki einu sinni viss um að komi fram undir réttu nafni. Netsorg er nýtt fyrirbrigði í tilfinningarófi mínu og Gunnar Hrafn er fyrsti vinurinn sem ég þekki eingöngu í netheimum og syrgi þar. Ég dáðist að honum fyrir það hvað hann var snjall penni og gat sett það á blað margt það sem mig langaði til að segja um málefni líðandi stundar. Og ég syrgi hann, finnst skarð fyrir skildi í netheimum, finn til með fjölskyldu hans og vinum.

Vinir Gunnars Hrafns fengu þá góðu hugmynd að opna vef um jafnrétti og samfélag í minningu hans. Vefurinn heitir auðvitað www.knuz.is, vegna fleygrar athugasemdar Gunnars Hrafns á netinu skömmu fyrir andlát sitt:

Alnetið þarf knúz miklu oftar. Annars breytist það í vígvöll.

Ég á mér þá von að knúzið verði vefur þar sem fólk úr ólíkum áttum skrifar um jafnrétti og tekst á um jafnrétti. Það er þannig ekki markmið að skrifa pistla sem allir eru sammála, heldur eru umræðurnar oft merkasti hluti þráðarins. Ég vona að margir lesi greinarnar og að um þær spretti umræða sem er hlý, sanngjörn en jafnframt gagnrýnin, knúz í stað vígvallar.

Ég á eina grein á knúzinu, „Liðleskja íhugar staðalímyndir“. Það er alveg nýtt fyrir mér að skrifa á vefmiðil eins og knúzið (yfirleitt þegar ég er að skrifa er ég að svara því sem einhver annar hefur skrifað og þá gjarnan í dagblöð) og ég veit ekki alveg hvort ég kem því til skila sem ég ætlaði mér. Það er þannig áhugavert fyrir mig að takast á við nýtt form og nýja tegund orðræðu. Umræður og komment eru því vel þegnar.

Friðriki Schram svarað

Í Fréttablaðinu 20. september 2011 birtist stutt grein eftir Friðrik Schram prest íslensku Kristskirkjunnar undir yfirskriftinni „Hafður fyrir rangri sök“. Í greininni átelur Friðrik Fréttablaðið fyrir að hafa skrumskælt boðskap sinn varðandi samkynhneigð. Ennfremur gagnrýnir Friðrik mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar í grein sinni vegna nýafstaðinnar úthlutunar úr Kirkjubyggingarsjóði Reykjavíkurborgar, þar sem umsókn íslensku Kristskirkjunnar var hafnað á grundvelli afstöðu safnaðarins til samkynhneigðar, en þessa afstöðu má lesa út úr pistlum Friðriks sjálfs, til dæmis „Nú er ráð að gæta að sér“, „Sorgardagur hjá þjóð og kirkju“, og „Foreldrar, gætið barnanna ykkar fyrir Samtökunum 78“ sem finna má á heimasíðu Íslensku Kristskirkjunnar. Í þriðja lagi telur Friðrik að hann og söfnuður hans verði fyrir aðkasti fólks vegna afstöðu sinnar til samkynhneigðar. Friðrik álítur að ef samkynhneigt fólk hafi áður orðið fyrir mismunun vegna kynhneigðar sinnar hafi dæmið nú snúist við. Þannig sé gagnkynhneigðu fólki sem er í nöp við samlíf fólks af sama kyni nú mismunað og umburðarlyndi skorti fyrir skoðunum þeirra.

Í þessari grein hyggst ég hvorki svara fyrir ritstjórn Fréttablaðs eða mannréttindastjórann heldur beina sjónum mínum að þriðju umkvörtun greinarhöfundar, sumsé þeirri að hann og söfnuður hans verði fyrir fordómum, umburðarleysi og misrétti vegna afstöðu sinni til samkynhneigðar.

Friðrik Schram tekur það skýrt fram að hann beri engan kala til samkynhneigðs fólks og telji hneigð þess til sama kyns hvorki til syndar né glæps. Hann gerir þannig skýran greinarmun á hneigð og „framkvæmd“, svo vitnað sé í pistil hans „Nú er ráð að gæta að sér“. Í sama pistli biður Friðrik fólk um að lasta ekki þá „sem eru afbrigðilegir á einhvern hátt“. Vegna þessarar tvískiptingar skilur Friðrik ekkert í því að menn væni sig um fordóma gagnvart samkynhneigðu fólki, því að hann er ekki á móti samkynhneigðu fólki, aðeins kynlífi þess.

Tvískipting kynverundarinnar í kynlíf annars vegar og hneigð hins vegar hefur reyndar fyrir löngu gengið sér til húðar og er að engu leyti í samræmi við þær tegundir kristinnar siðfræði sem láta sig nútíma þekkingu á kynlífi, kynferði og kyngervi einhverju skipta. Siðfræðingurinn Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent við guðfræðideild Háskóla Íslands, sem er fróðust kristinna guðfræðinga um kynlífssiðfræði bendir á í bók sinni Ást, kynlíf og hjónaband (Salka, Reykjavík, 2008, bls. 79-86) á fimm viðhorfum til samkynhneigðar þar sem dregnar eru upp hliðstæður við „siðferðisskort“, „sjúkdóm“,“blindu“ „litblindu“ og „örvhendni“ eftir því hversu neikvætt viðhorfið er til samkynhneigðar. Þeir sem hafa hliðstætt viðhorf til samkynhneigðar og sjúkdóma telji að fólki sé vorkunn sem „þjáist“ af samkynhneigð, því þau geti ekki að raun sinni gert. Eina ráðið við þessum harmkvælum í greiningu Sólveigar Önnu sé þannig það sama og hjá alkóhólistum, þ.e. að halda sig frá skaðvaldinum, gerast óvirkir hommar og lesbíur.

Ég get ekki lesið út úr pistlum Friðriks neina tilraun til að útskýra samkynhneigð eða draga hliðstæður við aðstæður á borð við sjúkdóma eða áfengisböl. Ég tel hins vegar að hliðstæðan við sjúkdóminn og áfengisbölið hjá Sólveigu Önnu falli vel saman við málflutning Friðriks, þar sem samkynhneigt fólk er talið „afbrigðilegt á einhvern hátt“ og þennan afbrigðileika verður að umbera og koma á hann einhverjum böndum. Sólveig Anna segir frá því að þau sem hafa þetta viðhorf til samkynhneigðar telji sig ekki alls ekki hafa fordóma gagnvart hommum og lesbíum. Þetta einkenni „sjúkdómshópsins“ í greiningunni getur skýrt sárindi Friðriks yfir því hvernig honum finnst Fréttablaðið og í raun allur almenningur vera að fara með sig og söfnuð sinn sem þó vilji „hinum afbrigðilegu“ allt hið besta.

Niðurstaða Sólveigar Önnu er þessi:

Endurskoðuð kristin kynlífssiðfræði leggur áherslu á gæði hins líkamlega, sem er ekki andstæða hins andlega. Kynverund (e. sexuality) er eitthvað sem sérhver manneskja hefur hlotið að gjöf frá Guði og verður þar með að skilja sem eitthvað stórt og mikilvægt fyrir manneskjuna. Hugmyndin, sem oft hefur verið færð fram af guðfræðingum, að fólk megi vera kynverur en ekki lifa sem slíkar er guðfræðilega óásættanleg og órökrétt. (bls. 89).

Undir þau orð Sólveigar Önnu vil ég taka, því kynverund er ríkur og mikilvægur þáttur í því að vera manneskja. Þær manneskjur eru ekki allar eins og elska ekki allar á sama hátt. Gloppan í röksemdafærslu Friðriks felst í því að telja að hægt sé að greina með skörpum hætti á milli kynhneigðar og kynlífs, en hvort tveggja hneigðin og kynlífið eru ríkur þáttur kynverundar. Þessar niðurhólfanir kynverundarinnar bera með sér viðhorf um að kynlíf sé almennt varasamt og megi aðeins nálgast undir stífri og þóknanlegri stjórn. Slík viðhorf til kynlífs, kyns, kyngervis og kynhegðunar hafa að sönnu sett mark sitt á kristna hjónabandssiðfræði síðustu 2000 árin, eins og Friðrik bendir á, en það er villandi að setja fram kristna siðfræði sem einhvers konar óbreytilegan staðal óháðan stað og stund. Kristin siðfræði hefur á öllum öldum verið í samræðu við líðandi stund, til dæmis um stríð og frið, túlkanir á boðorðunum, samskipti kynja og viðhorf til barna. Það er kominn tími til að hið gamla vígi kynlífshræðslunnar og gagnkynhneigðarhrokans falli líka innan kristninnar.

Að lokum vil ég víkja að þeirri fullyrðingu Friðriks að gagnkynhneigt fólk sem hefur andúð á kynlífi samkynhneigðra búi nú við fordóma sem séu sambærilegir við fordóma þá sem samkynhneigðir verða fyrir. Þessi fullyrðing er að mínu viti gersamlega út í hött.

Það er raunar athyglisvert að Friðrik getur ekki einu sinni viðurkennt að samkynhneigt fólk verði fyrir fordómum, heldur segir hann í áðurnefndri Fréttablaðsgrein: „Samtök samkynhneigðra töldu fyrir nokkrum áratugum að þeir úr þeirra hópi sem vildu lifa eftir hneigð sinni væru beittir misrétti af gagnkynhneigðum.“ Ofbeldi á hommum og lesbíum og fordómar í þeirra garð sem viðgangast um víða veröld og einnig hér á litla og frjálslynda Íslandi virðast þannig í munni Friðriks vera eitthvað huglægt mat sem Samtökin 78 hafa tekið í sig og sem tíðkaðist fyrir langa löngu. Þessi fullyrðing er í ósamræmi við fyrri skrif hans eins og í „Nú er ráð að gæta að sér“ þar sem hann hefur pistil sinn á samúðarorðum til samkynhneigðs fólks vegna þeirrar fyrirlitningar og fjandskapar sem það hefur orðið fyrir.

Andúð í garð samkynhneigðra einstaklinga og andúð í garð þeirra sem hafa andúð á kynlífi fólks af sama kyni er eru ekki sambærilegir for-dómar. Í fyrra tilfellinu er um að ræða andúð á minnihlutahópi og kynlífi þess. Það eru fordómar, en ágætis skilgreiningu á fordómum má finna á vef Háskóla Íslands, http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2386. Í seinna tilfellinu er um að ræða andúð á fólki vegna andúðar þeirra á minnihlutahópi. Slík andúð verður til vegna gagnrýnnar skoðunar á hleypidómum annarra og sú gagnrýni er grundvölluð á þeirri mannréttindahugsjón sem vestræn nútímamenning byggir á.

Sá sem elskar innflytjandann en þiggur ekki verkin hans og vill halda honum fjarri sér er haldinn fordómum. Sá sem elskar konuna en hleður á hana staðalímyndum og ann henni ekki fullrar mennsku er haldinn fordómum. Sá sem elskar hommann en mótmælir því að homminn lifi í samræmi við kynverund sína er haldinn fordómum.

Andúð á fordómum er ekki fordómur.

Mig langar að lokum til að vitna í orð Friðriks Schram í pistlinum „Nú er ráð að gæta að sér“ og taka undir orð hans um kærleikann:

Kærleikur er ekki eingöngu sæt tilfinning í hjartanu. Kærleikur er miklu fremur það að gera rétt, mæta þörfum annarra og gera þeim gott. Tilfinningar koma og fara, en sá sem er knúinn af kærleika spyr ekki hvað honum sjálfum þykir best, heldur hvernig hann geti mætt þörfum þess sem hann er skuldbundinn, ber ábyrgð á og elskar.

Þetta eru orð að sönnu. Og það er vegna meðsystra okkar og bræðra sem við erum skuldbundin, berum ábyrgð á og elskum, sem okkur ber að hafa mannréttindi í heiðri.

Að heyra til úlfynjum: Morgunblaðið 13. september 2010

Nýlega birtist pistilinn „Úlfar í prestahjörð“ eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur hér í Morgunblaðinu. Úlfarnir sem Kolbrún vitnar til eru framgjarnir prestar, sem reyna að klekkja á biskupi vegna óánægju með stöðuveitingar og rækta hvorki sannleika, samheldni né samstöðu. Mér að vitandi hefur aðeins einn starfandi prestur lýst því yfir að biskup Íslands eigi að stíga til hliðar. Sami prestur höfðaði mál gegn Þjóðkirkjunni vegna stöðuveitingar fyrir sex árum. Ég er sá prestur og álykta því að úlfarnir ónafngreindu rúmist flestir í minni persónu. Ég tel að biskup Íslands eigi að víkja úr embætti vegna þess að hann hefur verið borinn þungum sökum um þöggun. Kirkjuþing mun innan tíðar skipa rannsóknarnefnd til að skoða viðbrögð kirkjunnar þegar Ólafur Skúlason var sakaður um kynferðisbrot. Nefndin þarf svigrúm til þessarar vandasömu rannsóknar og því óheppilegt ef einn af þeim sem sætir rannsókn gegnir valdamesta embætti kirkjunnar á meðan. Ég tel einnig að biskup eigi að víkja vegna óheppilegra ummæla hans í fjölmiðlum þegar ásakanir á hendur fyrrum biskupi komu fram á nýjan leik. Ég hef ekki kallað eftir afsögn biskups, heldur beðið um að hann víki úr embætti. Því veldur ekki persónuleg óvild, eða þörf fyrir að ýlfra í fjölmenni, heldur vilji til þess að rannsóknarnefnd Kirkjuþings geti starfað með trúverðugum hætti.

Dómsmálið vegna stöðuveitingar sendiráðsprests í Lundúnum virðist í pistlinum haft til marks um hefnigirni úlfsins. Mál mín unnust á báðum dómstigum og má lesa dómana á heimasíðum Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar. Þjóðkirkjan var dæmd fyrir að brjóta jafnréttislög og gert að borga skaðabætur, en upphæð var ekki tilgreind í dómnum. Dómkvaddur matsmaður var því kallaður til og Biskupsstofa kallaði eftir yfirmati. Bótakrafa mín var byggð á matsgerðunum og vannst málið á varakröfunni. Hvorugur deiluaðila áfrýjaði seinni dómnum og voru mér greiddar skaðabætur í samræmi við hann. Dómurinn hefur þegar haft fordæmisgildi og áhrif á gang jafnréttismála innan kirkjunnar. Ég á ekki harma að hefna vegna stöðuveitingar í London, enda hefur tjón mitt verið viðurkennt af dómstólum og skaði minn greiddur.  Málareksturinn kostaði mig andvökunætur á sínum tíma, en hann gaf mér einnig sterkari rödd og mál til að berjast fyrir því sem ég tel í anda sannleikans.

Kolbrún telur að úlfarnir í prestahjörðinni elski ekki sannleikann og virði ekki samstöðu og samheldni. Ég hygg að samstaða stéttar minnar sé mikil, en hinum prestvígðu ber ekki aðeins skv.siðareglum að virða kollega sína, heldur ala önn fyrir þeim sem eru ung og órétti beitt. Til að mæta því skylduboði þarf stundum að taka sannleikshag alls úlfaflokksins fram yfir samheldni hinna ráðandi úlfa. Ég var ein ellefu presta sem rituðu Ólafi Skúlasyni bréf 1996 og báðu hann að fara í leyfi meðan mál hans yrði rannsakað og undirbjó með fleirum tillögu á Prestastefnu sama ár um að hann viki úr embætti. Ég vildi að ég hefði gert meira og sinnt konunum sem hann braut gegn. Ég hef síðustu fjórtán ár barist fyrir rétti samkynhneigðra til kirkjulegrar vígslu og tók þátt í baráttu 111 prests, djákna og guðfræðings fyrir einum hjúskaparlögum  í sumar. Ég hef talað fyrir umhverfisverndaráherslum og barist fyrir jafnrétti kvenna og karla á vettvangi kirkjunnar. Ég lýsti yfir stuðningi við biskup Íslands þegar hann vék Selfossklerki úr embætti síðastliðið haust vegna ósæmilegrar hegðunar þess síðarnefnda gagnvart ungum sóknarbörnum sínum. Ég vil að yfirstjórn kirkjunnar geri upp skuld sína við konurnar sem hún brást árið 1996.

Eitt megineinkenni úlfsins er tryggð og umhyggja fyrir öllum meðlimum flokksins, stórum jafnt sem smáum. Úlfur er tvíbent tákn í Biblíunni. Það vísar að sönnu til vargsins sem leggst á lambið (sem í líkingu Kolbrúnar virðist einkum vera biskup Karl). Úlfurinn er líka spámannlegt tákn fyrirmyndarríkisins og friðarins. Þegar úlfurinn liggur hjá lambinu kemur saman hin villta mergð og hin tamda hjörð í frelsi og friði. Í hinni messíönsku von er því ekki alvont að heyra til úlfynjum.

Sannleiksandi og sannleiksnefnd. Fréttablaðið 10. júní 2011

Hvítasunnan er hátíð heilags anda, sem er kærleiksönd, sannleiksandi, friðarband og einingarafl. Hildigerður frá Bingen (1098-1179) orðaði lofgjörð til heilags anda fagurlega í sálmi sínum: Ó Guð, kraftsins iða, sem streymir yfir allt/ þú tengir allar þjóðir./ Vindar hefja sig til flugs, steinarnir safna vætu/ og jörðin svellur af lifandi grænsemd. Hvítasunna er hátíð kirkjunnar og oft hefur það samfélag endurspeglað kraftsins iðu sem tengir það saman. Kirkja í sinni víðustu mynd er ekki stofnun og ekki hús, heldur hreyfiafl, knúið áfram af lifandi grænsemd. Stundum hafa menn gleymt að án sannleika verður enginn friður og að án kærleikans verður enginn eining.

Í dag kynnir rannsóknarnefnd um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana um kynferðisbrot fyrrverandi biskups niðurstöðu sína. Tilfinning mín gagnvart því sem koma skal einkennist jafnt af stolti og skömm. Ég er stolt yfir því að sannleiksnefnd og sannleiksskýrsla hafi orðið að veruleika, að Kirkjuþing sem skipað er að meirihluta leikmönnum sem eru fulltrúar safnaðanna hafi tekið forystu í málinu og að þingið komi saman af þessu tilefni 14. júní. Ég er líka full af skömm yfir því að þörf hafi reynst á slíkri nefnd og skýrslu.  Ég hef þær væntingar til þingsins að þar tali leikir og lærðir saman í anda og sannleika og í lifandi kirkju. Kirkjuþing hefur ekki agavald innan hins þjóðkirkjulega ramma, en raddir þær sem koma frá söfnuðunum og hinnar vígðu þjónustu geta hljómað af festu og yfirvegun um þetta mál og þannig haft mikil áhrif. Atburðir og orð næstu viku fá úr því ráðið hvort verði ofaná, stolt yfir framförum eða skömm yfir mistökum.

Hvítasunnan er hátíð helgrar andar, hátíð sannleiksandans. Á Íslandi í ár verður hún líka helgi sannleiksnefndarinnar, þar sem reynt verður að gera erfiðri sögu skil og þar sem hin veiku og smáu hafa rödd og mál til jafns við hin valdamiklu og vel tengdu.  Öll eru þau kirkjan, og á þeim gæti öndin í sannleika byggt lifandi grænsemd.

Höfundur er sóknarprestur í Reykjavík og doktor í guðfræði.

Síðan mín

Velkomin á síðuna mína. Þar er á aðgengilegan hátt hægt að fletta upp fræðilegum ritsmíðum mínum, prédikunum og blaðagreinum. Þar birti ég líka það sem mér dettur í hug að segja um lífið og tilveruna.