Flokkur: Jafnrétti og mannréttindi

42 metrar til Sahel

Prédikun í Guðríðarkirkju á páskadaginn 2012

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I.

Sahel. Landssvæðið sunnan Saharaeyðimerkurinnar teygir sig eins og þunnur borði yfir meginland Afríku, allt frá Atlantshafi til Rauðahafs. Það er nefnt einu nafni Sahel, sem þýðir strönd á arabísku, jaðar eyðimerkurinnar. Við Sahelsvæðið hafa risið stórveldi sem áður réðu verslun og ferðum um eyðimörkina í norðri. Nú orðið er nafnið helst tengt löndum Vestur-Afríku sunnan Sahara. Þar varð mikill uppskerubrestur fyrir tveimur árum og ástandið er engu betra nú. Á Sahelsvæðinu eru viðkvæm svæði að þurrkast upp og jaðar eyðimerkurinnar færist til.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur undanfarnar vikur og mánuði vakið athygli á ástandinu í Sahel og lagt áherslu á forvarnir. Samkvæmt upplýsingum barnahjálparinnar eru 15 milljónir manna í hættu í átta ríkjum, Máritaníu, Malí, Tsjad, Búrkína Fasó, Níger, Senegal, Nígeríu og Kamerún. Meira en ein milljón barna á Sahel geta þjáðst af alvarlegri vannæringu í ár ef ekkert verður að gert.  Það er um það bil einni milljón barna of mikið.

Neyðin er að taka völdin í Sahel. Þessi neyð er ekki neyð náttúruhamfaranna þar sem auga heimsins beinist að fólki við erfiðar aðstæður skamma stund. Neyðin í Sahel hefur ekki skollið á í kjölfar jarðskjálfta, eldgoss eða flóðbylgju, heldur leggst hún rólega yfir eins og skuggi, hægt og hljótt. Slíku svæði og slíkum þjáningum er auðvelt að gleyma.

II.

Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,
fögnum og verum glöð á honum.

Fögnum og verum glöð, segir lexían okkar í dag á sjálfan páskadaginn.  Kannski finnst ykkur undarlegt að ég nefni Sahel við ykkur í dag á höfuðhátíð kristninnar, degi gleði, birtu og hamingju, degi sem fagnar sigri lífs yfir dauða. En páskarnir halda saman skugga og birtu, gleði og sorg. Gleði páskanna brýst fram úr skuggahliðum og vonleysi hversdagsins og erfiðleikarnir í Sahel eru þar ekki undanskilin.

Við fögnum ekki og erum glöð vegna þess að allt er í lukkunnar velstandi, eða til þess að breiða yfir erfiðleika heimsins. Við fögnum á páskum vegna þess að við trúum því að Guð muni eiga einhver ráð við vanda okkar. Það hjálparráð fæddist í heiminn, dó á krossi og skildi eftir gröfina opna handa hinum sorgbitnu og örvæntingarfullu vinum sínum. Þess vegna er við hæfi að nefna Sahel á hæstum páskum og fela vanda Sahel sem er einnig vandi okkar góðum Guði. Og þess vegna getum við tekið undir gleðihróp Saltarans:

Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,
fögnum og verum glöð á honum.

Páskar eru minning um forna atburði og forna gleði, vandlega markaðir á dagatöl og gersamlega fyrirsjáanlegir að lokinni sjö vikna föstu. Og samt er eitthvað ófyrirsjáanlegt við páskana líka, eitthvað sem ekki er hægt að reikna út og skrúfa frá, eitthvað sem verður til í hvert skipti sem við göngum inn í gleði páskanna. Þannig er líka gleði, alvöru gleði. Hún á sér engin mörk og engin yfirráðasvæði heldur. Henni verður ekki svo auðveldlega haldið frá hinu harmræna og sorglega. Það er einmitt þar sem hún birtist, í svartnættinu, ógeðinu og veruleikanum sem gleymdist. Gleðin birtist á furðulegustu stöðum og aldrei sterkar en þar sem enginn á hennar von.

Sahel þarf þess með að umheimurinn taki eftir þörf hennar, vannæringu og brostnum vonum um uppskeru. Sahel þarf þess með að börn hennar séu ekki látin tærast upp af vannæringu.

Og svo er víðar um hinn byggða heim. Heimurinn og mannfólkið allt þarf á von, athygli og umhyggju að halda. Hann þarfnast þess með að við kennum til mennsku okkar og meðlíðunar með öðrum manneskjum og sættum okkur ekki við að þær gleymist eða standi utan við gleði okkar. Og þess vegna eiga páskar og Sahel saman, vegna þess að gleði og vonar er þörf í Sahel.

III.

Ég velti því fyrir mér hvernig þeim er innanbrjósts sem stendur frammi fyrir tómri gröf. Frásögnunum um þau sem komu að gröf Jesú Krists ber ekki saman í Biblíunni en þær eiga allar ákveðna þætti sammerkta. Öll þau sem urðu vitni að upprisu Drottins urðu undrandi og ringluð yfir því óvænta sem gerst hafði. Sum eru hrædd, önnur hissa eða skammast sín fyrir að hafa ekki reynst Jesú betri vinir. Öll standa þau ráðþrota gagnvart veruleik sem er stærri og dýpri en þeirra eigin útskýringar af orsökum og afleiðingum í heiminum. Þau standa frammi fyrir gleði sem er stærri en þeirra djúpu sorgir, frammi fyrir því sem þau skilja ekki og geta ekki reiknað út.

Kristnir ákalla Jesú Krist krossfestan og upprisinn. Og það er vegna þessa andrýmis hins krossfesta og upprisna sem við fögnum páskum með hinu forna hrópi, Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn. Hann hefur afmáð dauðann!

Tóm gröf er það sama og opin gröf, gröf sem hefur verið merkt dauðanum og þar sem hinn dauði hefur gist, en er horfinn þaðan. En tóm gröf er líka merkt tóminu, hinu auða rúmi í hjarta okkar. Að horfa inn í tóma gröf getur þannig meint að horfa inn í tómið, leiðann, inn í allt sem rænir okkur merkingu og hlýju. Tómið læðist að okkur eins og uppskerubrestur á Sahelsvæðinu. Hægt og hljótt rænir tómið okkur gleðinni.

Og þess vegna eru páskarnir andstæða þessa hljóða og tóma niðurbrots þar sem eyðileggingin vinnur sitt stöðuga verk.

Páskarnir eru óvæntir og truflandi.
Páskarnir bresta á þegar minnst varir.
Páskarnir eru glaðir og bjartir og hlæja framan í heiminn.
Páskarnir eru ekki andstæða sorgarinnar, en þeir eru möguleg útkoma tómsins.
Þeir eru tóm gröf og gröf sem er meira en tóm.
Þeir tákna gröf sem er full af Jesú, náð og návist Guðs í heiminum.

IV.

Yfirlitssýning á verkum sjón og hreyfilistakonunnar Rúríar stendur núna yfir í listasafni Íslands. Beint á móti dyrum eins af sýningarsölunum hangir stórt verk fyrir miðju. Það heitir 42 metrar og er sett saman úr 42 metrum af gulum tommustokkum sem er raðað á víxl í stóran hring.

Tommustokkur getur táknað kerfin sem við notum til að mæla veröld okkar, skipta henni upp í skiljanlegar skipuheildir, forgangsraða og setja í flokka. Tommustokkur er fyrirtaks tákn línulegrar hugsunar, sem mælir frá einum metra til annars og síðan í fermetra og rúmmetra. Tommustokkarnir okkar og kerfin eru mikilvæg mælitæki til að meta skynjun okkar og reynslu. En þau mæla aldrei allt. Í verki sínu leikur Rúrí sér með þetta virðingarverða mælikerfi og leggur það fram á nýjan hátt og nýjan veg. Birtan skín í gegnum tommustokkinn, alla 42 metrana, hring eftir hring eftir hring. Og innan þessa hrings rúmast alheimurinn, allt og ekkert, loft og rúm og ljós.

Ég stóð lengi fyrir framan þetta verk fyrir nokkrum dögum. Og mér fannst ég standa frammi fyrir opinni gröf. Þar með er ég ekki að segja að verkinu sé endilega ætlað að túlka trúarlegan veruleika, en öll góð og djúp listaverk hafa möguleika því að dýpt þess sé túlkuð trúarlega. En ég sá í hringnum gröf, tóma gröf sem mig langaði að stíga inn í eins og konurnar gerðu á fyrsta kristna páskadaginn.  Um hið hringlaga op hinna 42 metra lék ekki skuggi og sorg, heldur villt gleði sem steig upp af tommustokkunum.

Gröfin var tóm, en hún var engu að síður full af ljósi og lífi. Tommustokkarnir skaga út frá veggnum, leggjast hver yfir annan og mynda ótal krossa. Ljósið skín í gegnum krossana. Ljósið skín í myrkrinu. 42 metrar af ljósi og gleði.

V.

Það er ekki langt á milli hinnar opnu grafar og alla leið til Sahel. Það eru ekki nema 42 metrar á milli Sahel og páskanna okkar.

42 metrar af því sem við getum mælt og reiknað af lífslíkum barnanna þar,
barna sem við getum bjargað, ef við bregðumst nógu snemma við,
42 metrar af lífi sem getur umbreyst ef við bara veitum því athygli og umhyggju.
Og Sahel er víða, Sahel er á hverjum þeim stað sem þarf á hjálp okkar að halda,
hvar sem myrkur dauðans, hungursins, óréttlætisins og vanlíðunarinnar grúfir yfir.

Í vinsælli bók og ennþá vinsælli bíómynd „The Hitchhiker´s Guide to the Galaxy“ var spurningunni um það hver væri hinsta spurningin um lífið, alheiminn og allt svarað með einni tölu. 42 er svarið við spurningunni. Og enginn veit hvað það þýðir. En við vitum hvar Sahel er. Og við vitum að vonin skiptir okkur öllu máli sem manneskjur. Án vonar og gleði erum við illa stödd. Inn í þennan veruleik talar táknmál páskanna.

Páskarnir blása hugrekki í brjóst vina sem ganga að gröf.
Páskarnir greina frá Guði sem opinberaðist í Jesú frá Nasaret.
Páskarnir segja frá frelsara sem þjáðist og dó á krossi eins og mennirnir.
Páskarnir gefa okkur Krist sem reis upp og gefur okkur líf, gleði og von þegar tómið og skugginn syrtir að.
Páskarnir birta okkur eilífa hljómkviðu lífsins sem heldur áfram þrátt fyrir allt.

Páskarnir gefa okkur kjark til að horfa inn í tómið og sjá þar rými sem er fullt af ljósi heimsins. Þetta ljós er okkur ætlað að bera áfram inn í líf allra þeirra sem sjá bara tóm og gröf í lífi sínu.

VI.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur sent út neyðarkall til heimsbyggðarinnar um að gleyma ekki Sahel einmitt nú. Neyðarkall er ekki sent út nema mikil þörf sé á. Hungursneyð er ekki skollin á í Sahel og það er sameiginlegt verkefni heimsins að sjá til þess að svo verði ekki.

Guð gefi okkur það verkefni á þessari páskatíð að hreinu vatni og lyfjum verði komið til barnanna á Sahel svæðinu, þau verði bólusett og fái mat.

Guð gefi það að við getum tekið fram tommustokka okkar mælanlega lífs og þanið þá út í mynstur gleði og friðar.

Guð gefi rúm í hjarta okkar fyrir páska, gleði og birtu.

Og kannski er svarið við öllum okkar spurningum um alheiminn og lífið þá einmitt 42.

42 metrar af sólarljósi sem skín í gegnum krossana á leið okkar og gefur okkur kjark til að horfast í augu við skuggahliðar heimsins.

Ein tóm gröf. Einn upprisinn Guð. Einir páskar af því að Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn!

Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,
fögnum og verum glöð á honum.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:  Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.

Samviskufrelsi

Umræðan um hjúskap samkynhneigðra hefur skekið dönsku þjóðkirkjuna að undanförnu í kjölfar þess að nýtt frumvarp hefur verið lagt fram í þinginu um ein hjúskaparlög.  Samkvæmt fréttum politiken.dk er gert ráð fyrir að prestar geti neitað því að vígja samkynhneigð pör í hjónaband á grundvelli samviskufrelsis, sem er samsvarandi við núgildandi lög á Íslandi. Í greininni er því einnig haldið fram að þriðjungur danskra presta sé á móti því að gefa samkynhneigð pör í hjónaband og að mjög sé um það rætt innan dönsku þjóðkirkjunnar að þjóðkirkjan afsali sér valdi til að framkvæma hjónavígslur að lögum. Greinina í Politiken má lesa hér.

Tvennt þykir mér áhugavert við þessar fréttir frá Danmörku. Í fyrsta lagi virðist mikill munur vera á afstöðu til hjónabands samkynhneigðs fólks meðal íslenskra og danskra presta. Í öðru lagi tel ég að danska umræðan um framsal vígsluvaldsins sé eitthvað sem getur skotið upp kollinum á Íslandi aftur í umræðu um samviskufrelsi presta.

En á hverju byggi ég það að íslenskir prestar séu almennt meiri homma- og lesbíuvinir en hin dönsku starfssystkin þeirra?

5. júlí 2008 gerði dagblaðið 24 stundir könnun meðal presta þjóðkirkjunnar um afstöðu þeirra til blessunar staðfestrar samvistar og birti niðurstöður með nöfnum presta og dreifingu um landið. Greinina má lesa hér og hér. Þar kom fram að þrír af hverjum fjórum prestum þjóðkirkjunnar var tilbúinn að taka að sér vígslur, nokkur hópur vildi ekki gefa upp viðhorf sitt og níu prestar sögðust ekki taka að sér slíka vígslu, þar af sex sem eru enn í embætti.

Stór hópur íslenskra presta, djákna og guðfræðinga vann til mannréttindaverðlauna Samtakanna 78 árið 2010 fyrir að hafa lagt lóð á vogarskálarnar við umfjöllun og afgreiðslu einna hjúskaparlaga á Íslandi. Texta viðurkenningarinnar og nöfn þeirra sem hana fengu má lesa á þessari síðu hér. Á grundvelli þessara upplýsinga úr 24 stundum og lista þeirra sem fengu mannréttindaverðlaunin er hægt að draga ályktanir af viðhorfum velflestra íslenskra presta til hjúskapar samkynhneigðra.

Niðurstaða yfirgnæfandi meirihluta íslenskra þjóðkirkjupresta er sú að þeir gefa samkynhneigð pör saman í hjónaband til jafns við gagnkynhneigð pör. Þess má líka geta að presturinn sem samdi nýtt kynhlutlaust hjónavígsluritúal handa þjóðkirkjunni í tilefni einna hjúskaparlaga 2010 er orðinn biskup í Skálholti og að báðir biskupskandídatarnir sem kosið er um til embættis biskups Íslands voru í hópi þeirra sem samtökin 78 verðlaunuðu 2010. En er það nóg að velflestir prestar taki að sér að gefa samkynhneigð pör í hjónaband og að hjónaband homma og lesbía njóti velvildar og skilnings hjá biskupum? Er samkynhneigðu fólki ekki enn mismunað í íslensku þjóðkirkjunni meðan prestar geta neitað að vígja það í hjónaband?

Séra Baldur Kristjánsson skrifaði stuttan pistil á heimasíðu sinni fyrir skömmu þar sem hann taldi að tími væri kominn til að valkvæða ákvæðið í hjúskaparlögunum frá 2010 væri numið úr gildi. Þar með yrði það ekki lengur á valdi einstakra presta að ákveða hvort þeir taki að sér hjónavígslu samkynhneigðra eða ekki, heldur sé það sameiginleg ákvörðun trúfélagsins þar sem þeir þjóna. Séra Baldur segir:

Kirkjan ætti auðvitað að taka af skarið sjálf  og sýna að hún giftir ekki samkynhneigt fólk með hangandi hendi, allir þjónar hennar geri það með sama geði og um gagnkynhneigt fólk væri að ræða eða leyni lund sinni ella.

Ég er sammála sr. Baldri í því að þjóðkirkjan á að fjalla um valkvæða ákvæðið í stað þess að bíða eftir því að einhver ákveði að taka af skarið á þingi. Guðfræðileg umræða tekur langan tíma og þjóðkirkjan getur ekki sinnt þessari umræðu á eigin forsendum nema að hún taki frumkvæði. Ég var hlynnt þessu ákvæði á sínum tíma og tel að það hafi átt sinn þátt í að hjálpa til við að koma lögunum á og skapa rými til aðlögunar. Svo er önnur spurning hvort valkvæða ákvæðið eigi að gilda um eilífð og aldur. Umræðan í Danmörku virðist komin miklu styttra áleiðis en á Íslandi, en kannski verður hún til að ýta við umræðu í íslensku þjóðkirkjunni í þessu máli.

Ef farið verður að hrófla við valkvæðisákvæðinu í lögunum, eru tvær leiðir færar. Sú fyrsta væri sú að allir vígðir þjónar þjóðkirkjunnar tækju að sér  hjónavígslu samkynhneigðra. Hin leiðin væri sú að íslenska þjóðkirkjan afsalaði sér vígsluvaldinu á sama hátt og danska kirkjan er að velta fyrir sér að gera.

Er hægt að fá alla presta til að taka að sér að vígja samkynhneigða í hjónaband?  Á að knýja þessa fáu sem eru á móti til að annast vígslurnar, eða „leyna lund sinni“? Hvað nákvæmlega leysist við það að kirkja afsali sér vígsluvaldi?  Breytir það ábyrgð kirkjunnar gagnvart samkynhneigðum sóknarbörnum sínum?

Hvað felst í samviskufrelsi og á samviskufrelsi sér takmörk? Ég ætla að pæla í þessu áfram í öðrum pistli um samviskufrelsið á morgun m.a. út frá 18. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

(Innskot viku síðar:  Það tók mig reyndar viku að skrifa grein númer tvö. Hana er hægt að lesa með því að smella hér).

Að breyta kirkjusögunni

Nú er í fyrsta sinn í sögunni raunhæfur möguleiki á því að kona verði biskup Íslands. Konan sú heitir Agnes M. Sigurðardóttir. Hún var þriðja konan til að vígjast til prests á Íslandi og því sannkallaður brautryðjandi prestsvígðra kvenna. Emmið í nafninu hennar er nafn móður hennar Margrétar.

Agnes hefur langa og víðtæka reynslu sem prestur og prófastur. Hún hefur afburðaþekkingu á landsbyggðinni. Hún hefur aflað sér stjórnunarreynslu, staðið í erfiðum samskiptum og unnið að úrlausn erfiðra mála í starfi sínu sem prófastur sem myndi nýtast henni sérlega vel sem biskup Íslands.

Hún er einlæg trúkona og vakandi hirðir safnaðar síns.  Agnes Margrétar og Sigurðardóttir er góður þjónn Drottins og góð fyrirmynd trúaðra.

Hún hefur stundað framhaldsnám í guðfræði.

Hún skrifaði á sínum tíma undir stuðningsyfirlýsingu 90 presta, djákna og guðfræðinga þar sem þeir lýstu gleði sinni með ein hjúskaparlög í landinu og þannig sýnt það í verki að hún er hlynnt mannréttindum samkynhneigðra. Þessa yfirlýsingu má lesa hér.

Agnes er einlægur jafnréttissinni. Svör hennar við spurningum félags prestsvígðra kvenna um jafnréttisstefnu og jafnréttismál í þjóðkirkjunni má lesa hér.  Hún er fylgjandi því að komið verði á starfi jafnréttisfulltrúa þjóðkirkjunnar. Hún vill berjast fyrir því að sjónarmiðum jafnréttisstefnunnar verði fylgt.

Innan kirkjunnar er starfandi Jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar sem framfylgja á markmiðum jafnréttisstefnu þjóðkirkjunnar, sem er þessi:

  1. Að skapa forsendur fyrir konur og karla í kirkjunni til að njóta þess jafnréttis sem tryggt er í lögum.
  2. Að festa kynjasamþættingu í sessi á öllum sviðum kirkjulegs starfs og innan stjórnsýslu kirkjunnar.
  3. Að auðvelda leikum og lærðum að móta og skapa aðstæður sem gera jafnréttismál að viðfangsefni allra innan kirkjunnar.
  4. Að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar.
  5. Að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum.
  6. Að tryggja framkvæmd þessara markmiða með framkvæmdaráætlun.

Og nú spyr ég:  Í ljósi þess að 110 karlmenn hafa verið vígðir til biskups í íslensku þjóðkirkjunni og engin kona, hvernig hyggst jafnréttisnefnd þjóðkirkjunnar beita sér fyrir því í síðari umferð biskupskosninganna að markmið númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm nái fram að ganga?

Félag prestsvígðra kvenna var stofnað 30. júlí árið 2009.  Félagið á sér tvíþættan tilgang,

– Að efla samstarf og miðla reynslu meðal prestsvígðra kvenna.
– Að auka áhrif og þátttöku prestsvígðra kvenna í kirkjunni og samfélaginu.

Og nú spyr ég hvernig félagið hyggst beita sér í því að auka áhrif og þátttöku prestsvígðra kvenna í þjóðkirkjunni í þeim sögulegu kosningum sem við stöndum nú frammi fyrir?

Er það ekki með því að styðja við bakið á konunni sem á raunverulegan möguleika á að breyta stöðunni í 110-1?

Það verða alltaf þúsund ástæður til að kjósa ekki konu sem biskup. Þær eru of íhaldssamar, of róttækar, hárið á þeim er ekki í lagi, þær eru fráskildar eða eiga óheppilegan kall, þær sögðu eitthvað óheppilegt fyrir hundrað árum etc.

Og einn góðan veðurdag skiptir ekkert af þessu máli, heldur aðeins hvort við breytum kirkjusögunni eða ekki.

Áfram Agnes!

Hneyksli legsins

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 I.

Þingvellir eru furðulegur staður. Engu er líkara en að klettarnir hafi verið rifnir sundur af risavöxnum öflum og grasið vex í klettaskorunum. Við nemum staðar á þessum forna stað árið 1618 þegar Íslendingar eru að ganga danska einveldinu á hönd. Alþingi kemur saman á þessum sögufræga stað en þetta þing á lítið sameiginlegt með löggjafarsamkomu fyrri tíðar. Þar er minna gert af því að semja lög en bænaskrár en hins vegar er fylgt þar eftir hinum hörðu dómum sautjándu aldar.

Þingið þetta ár hefur verið óhemjuleiðinlegt, enheldur er að rætast úr því að athyglisvert mál hefur komið upp. Ung stúlka hefur eignast barn í lausaleik í Skagafirði. Hún neitar að segja nafn föðurins og harðneitar að hafa átt mök við nokkurn mann.   Hún klykkir út með því að segjast hafa orðið þunguð af völdum heilags anda.   Hin unga stúlka,  Þórdís Halldórsdóttir hefur ekki krafist neins guðlegs eðlis fyrir barn sitt, hún er einungis að verja það hvernig hún geti bæði verið móðir og hrein mey. Og nú klóra þingmenn sér í höfðinu, því að þessi kona hefur gert sig seka um guðlast og annað eins mál hefur aldrei komið upp á Íslandi. En með guðlastinu þá virðast menn líka geta velt sér upp úr máli Þórdísar Halldórsdóttur.  Hún er í hæðni kölluð María Skagfirðinga og menn skríkja yfir ófyrirleitni hennar.  Og svo er hún dæmd til dauða og henni drekkt í hylnum djúpa í Öxará.

II.

Árið er núll og staðurinn er Nasaret í Galíleu.

Og engillinn sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta.

 Ekki vera hrædd María. Þegar við hugsum til Maríu Skagfirðinga og örlaga hennar þá gerum við okkur grein fyrir hversu hættulegt það var á fyrri tíð að tala um Guð og líkama sinn í sömu andrá.  María Lúkasarguðspjalls hafði góða ástæðu til að vera hrædd, hrædd við að vera ásökuð um guðlast, hrædd við aðhlátur og hæðni, hrædd um að missa félagslega stöðu sína sem meyja. Sú meyjarstaða var eini heiður sem ógiftri konu í Nasaret gat boðist. Það sem er hneykslunarlegt við guðspjall dagsins í dag er ekki það að María skuli segjast lifa í nánu sambandi við Guð, heldur að það samband standi í samhengi við líkama hennar. Lúkas guðspjallamaður segir okkur nefnilega frá því að María hafi tengst Guði, ekki aðeins að anda og sál, heldur í líkama sínum. Hún verður þunguð, leg hennar ber þann þunga, blóð hennar nærir fóstur sem er hluti af líkama hennar og hjarta hennar slær taktinn sem markar tilvist hins verðandi barns.

Kannski er það gróft að stilla upp þessum tveimur konum Maríu Skagfirðinga sem líflátin var í Drekkingarhyl og Maríu móður Jesú. Önnur var blásnauð kona, sem grunuð var um að hafa átt barn með bónda í sveitinni og líflátin fyrir guðlast. Hin er sú kona sem mest er í hávegum höfð í gervöllum kristindómnum.

Ekki er það ætlun mín að vera með einhverjar guðfræðilegar útskýringar á þunga Þórdísar Halldórsdóttur. Hún vissi eflaust lítið um líffræði og ef Tómas mágur hennar á Sólheimum í Sæmundarhlíð var ekki faðir barnsins, þá getur þess vegna verið að einn af þeim sem dæmdi hana til dauða hafi verið sá sem barnið átti. Það sem fyrir mér vakir með því að taka ykkur með mér til Þingvalla ársins 1618, er að sýna ykkur fram á það hvað sagan af boðun Maríu í Lúkasarguðspjalli er mikið hneyksli.   Guðspjallssagan er svo þekkt og er venjulega pakkað inn í svo frómar umbúðir að við tökum varla eftir því hversu furðuleg sú krafa er að María hafi orðið þunguð af heilögum anda.

Þetta kviðartal, líkamstal, holdstal er eitthvað sem guðfræðin á mjög erfitt með að eiga við. Við gætum jafnvel kallað það móðursjúkt, hýsterískt, vegna þess að hysteria eða móðursýki er orð dregið af hysterion, legi. Móðursýki var fyrrum talinn sjúkdómur sem aðeins hrjáði konur vegna ójafnvægis í æxlunarfærunum.  Og guðfræðin, eins og flestar orðræður vestrænnar menningar hefur yfirleitt forðast allt slíkt tal um æxlunarfæri kvenna Í ljósi þessarar feimni og hræðslu við hið móðursjúka, kvenlega og holdlega, þá er það í merkileg staðreynd að kviður Maríu sé eitt af grundvallartáknum kristinnar hefðar og sé ein helsta fyrirmynd okkar í því hvernig við þekkjum Guð, upplifum Guð, tökum við Guði.

III.

Og samt.

Ég les texta boðunardagsins og hjarta mitt fyllist af undrun og andstöðu á sama tíma. Ég elska Maríu og eitthvað í mér berst á móti Maríu. Ég elska þetta undarlega og ótrúlega rúm sem að boðunardagurinn vekur með mér, söguna af kjarki Maríu og ást, að biðja um ekkert og að taka við öllu.

Ef María er helsta fyrirmynd kristinna kvenna á öllum öldum, þá gefa þessar túlkanir konum til kynna að þær eigi að vera mjög hlýðnar og fórna sjálfum sér og auðvitað eiga þær að vera mæður. Það er bæði gott og mikilvægt að geta gefið af sér og móðurhlutverkið er dýrmætt. En það er líka hægt að misnota þessar myndir af hinu hlýja og sjálfsfórnandi.

Margir og margar lifa við þær aðstæður að boðskapur um eigin myndugleika, réttlæti og að þær eða þeir geti ráðið sínu eigin lífi, styrkti sjálfið meir heldur en boðskapurinn um hlýðnina og sjálfsfórnina.   Þeim eða þeirri sem lifir í meðvirku sambandi vegna alkóhólisma eða ofbeldis gæti sú hlýðni og sjálfsfórn sem við tengjum við Maríu orðið að fjörtjóni. Eftir því sem við gerum meira úr óvirkni og viðtöku Maríu, þá verður hún eins og tóm kanna fyrir almættið að hella náð sinni í. Og sú Maríumynd hjálpar engum til þess frelsis sem Kristur frelsaði okkur til.

Önd mín miklar Drottinn
og andi minn hefur glaðst í Guði skapara mínum,

 segir guðspjallið. Og Lúther bætir um betur í skýringum sínum við Lúkasarguðspjall. Hann klykkir út með löngum kafla um það hvað María er opin fyrir Guði. Hann talar um undrun Maríu, um gjöfina sem henni er gefin, gjöf sem hún hafði ekki beðið um. Samkvæmt Lúther velti María ekki fyrir sér hvort hún væri verðug eða óverðug náðar Guðs. Það er öllu heldur sú tilfinning að veraframmi fyrir Guði sem fyllir Maríu gleði. Þetta eru stórkostlegar myndir hjá Lúther, sannkallaðir gleðibjarmar.

En þegar hann heldur áfram renna á mig tvær grímur. Hann segir:  “Hún gefur ekkert, Guð gefur allt.” 

Er það svo að María hafi ekkert gefið?

Gaf hún ekki eitthvað með því að taka við Guði?

Að gefa Guði rúm í líkama sínum?

Upplifði hún ekki kraftaverkið þegar sú sem gefur og sá sem tekur við eru hvorki andstæður né þau hin sömu

Þar sem Guð kemur til okkar

Þar sem við komum til Guðs

Þar sem við lofum Guð með veru okkar, sál, anda og líkama

Í styrkleika okkar og veikleika?

En er María bara um hlýðni og sjálfsfórn og tamningu móðurhlutverksins? Eða hefur táknið um Maríu meyju eitthvað að gefga okkur? Er táknið djúpt og sprungið eins og klettarnir á Þingvöllum þar sem grasið grær á ólíklegustu stöðum?

IV.

Árið er 2012 og staðurinn Grafarholt. Þegar við tölum um boðun Maríu hugsum við um holdtekju, þessa undarlegu þversögn að Guð hafi gerst maður. Og við veltum fyrir okkur hinu sístæða kraftaverki DNA og umlykjandi legs, veltum fyrir okkur næringu, hita, kærleika og takti þess að hvíla í móðurkviði.  Sagan af boðun Maríu er þannig saga af nánd, þar sem guðdómur og manndómur anda saman, saga af Guði sem er ofinn með mennskum þráðum, blóði, holdi. Postulinn Páll talaði einu sinni um hneyksli krossins. Kannski er enn stærra hneyksli falið á síðum helgrar bókar, hneyksli legsins.

Belgíski heimspekingurinn Luce Irigaray fjallar um boðun Maríu og segir:

Hver hlustar á það hvað María boðar?  Um það sem hún man og reyndi? Um guðdóm sem talar í gegnum hana? Um aðgang að hinu heilaga sem fer í gegnum hana? Hvernig gæti sá sem við köllum Jesú frá Nasaret hafa fæðst ef ekki fyrir þessa skynjun meyjarinnar- þessan hæfileika til að skilja og vera næm fyrir hinum hárfínasta titringi?

 V.

Og við hverfum aftur til dómsins yfir hinni íslensku stúlku. Þeir hafa fært hana að hylnum við öxará þar sem vatnið er hreint, kalt og tært. Hún hefur verið færð í poka með steinum í svo pokinn komi ekki upp á yfirborðið aftur. Einn poki fullur af holdi, minning af líkama sem ekki hlýddi reglum og dómum, sem hugsaði ófyrirgefanlegar hugsanir, fæddi barn og bjó til hneyksli.

Hvar passar poki holdsins sem er líkami okkar inn í hversdaginn okkar?

Og hvað hefur þessi líkami með Guð að gera?

Erum við eins og könnur, tóm ílát sem Guð hellir náð sinni í?

Eða gefum við með því að umlykja, styrkja og vera styrkt, með því að koma á óvart og undrast?

Og engillinn sagði: Guði er enginn hlutur um megn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:  Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen.

Mikilvæg biskupstákn innan kirkju og utan

Fyrri umferðin í biskupskosningunum er búin og ég sit og hugsa um framtíð kirkjunnar.

Um daginn rakst ég á viðtal við Irju Askola sem er biskup í Helsinki. Lútherska kirkjan í Finnlandi er íhaldssamasta kirkja á Norðurlöndum og sú síðasta þeirra til að heimila vígslu kvenpresta. Sænska kirkjan var fyrst til að veita konum prestsvígslu og hefur vígt konur til prestskapar síðan 1958 og það liðu þrjátíu ár þar til Finnarnir fylgdu í kjölfar hinna frjálslyndu nágranna sinna. Irja Askola var einmitt í hópi hinna fyrstu finnsku kvenna sem hlutu prestsvígslu árið 1988 og hafði beðið þrettán ár eftir því að fá vígsluna. Í ljósi þess að konur höfðu aðeins verið prestar í rúma tvo áratugi var það í raun stórmerkilegt að Irja Askola skyldi vera vígð biskupsvígslu í september 2010. Það er ekki síður mikilvægt í ljósi þess að Irja Askola er mjög frjálslyndur guðfræðingur. Hún styður hjúskap samkynhneigðra. Hún talar óhindrað um jafnréttismál og mikilvægi kvennabaráttunnar. Hún leggur mikið upp úr samtali við samtímann. Hún orðar misrétti og berst gegn því.

Viðtalið sem ég nefndi er tekið stuttu eftir að Irja Askola hefur verið kjörin biskup. Viðtalið má sjá hér. Þar er hún spurð að því hvaða gildi það hefur að vígja konur sem biskupa. Irja segir tvennt sem mér finnst eiga erindi við þann tíma sem við lifum nú, tímann þar sem í fyrsta sinn er eygt raunverulegt tækifæri á að kona verði biskup Íslands. Hún segir að vígsla kvenbiskups hafi mikla þýðingu innan kirkjunnar og einnig utan hennar. Og svo segir hún að vígsla konu til biskups sé „viktigt symbol“ , mikilvægt tákn.

Ég les athugasemd Irju Askolu um að vígsla kvenbiskups hafi mikil áhrif innan kirkjunnar sem og utan á þann hátt að þar með sé sýnt með áþreifanlegum hætti að lútherska þjóðkirkjan í Finnlandi hafi raunverulegan áhuga á að rétta hlut kvenna í kirkjunni. Jafnrétti karla og kvenna er mikilvægur þáttur í mannréttindaumræðu nútímans og mannréttindi eru mál málanna á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld.

Jöfn réttindi kvenna og karla eru ríkur þáttur mannréttinda og mannréttindi eru mál málanna á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld, málefni sem fólk hefur sterkar skoðanir á og berst saman fyrir þvert á trúarviðhorf. Þess vegna er vígsla kvenna til biskups í finnsku þjóðkirkjunni ekki aðeins innanbúðarmál í stjórnkerfinu heldur tækifæri til að breyta kirkjusögunni og samfélagsmynstrinu í átt til nútíma. Hið sama hef ég upplifað í þessum sögulegu kosningum í íslensku þjóðkirkjunni. Þær hafa vakið mikla athygli þeirra sem unna mannréttindum og sú athygli er ekki endilega eingöngu bundin við þjóðkirkjufólk. Mannréttindi eru efni sem ólíkt fólk hefur sterkar skoðanir á og ekki síst ungt fólk. Og það er tilbúið til að berjast fyrir slíkum hugsjónum þvert á trúar, stéttar og kynjamörk.

Margir hafa áhuga á kosningum til biskups Íslands og ekki síst vegna jafnréttissjónarmiða. Þjóðkirkjan hefur sett sér glæsilega og metnaðarfulla jafnréttisstefnu og er það vel. Hana má nálgast hér. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að þó að þjóðkirkjan samþykki hinar ítarlegustu jafnréttisáætlanir og haft uppi stór orð um jafnrétti og mannréttindi, þá talar það hærra ef yfirstjórn kirkjunnar er að mestu skipuð karlmönnum, f jafnréttisáætluninni er ekki fylgt og ef andlit kirkjunnar og sameiningartákn hennar er alltaf karlkyns. Orð eru raunar til alls fyrst, en orð eru ekki nóg. Ég hef þegar rætt um glerþakið í íslensku þjóðkirkjunni í þessari grein hér. Einnig var mikið skrifað fyrir biskupskosningarnar í Skálholti um mikilvægi þess að jafna hlut kynjanna í biskupskjöri. Grein Arnfríðar Guðmundsdóttur má lesa hér, grein Kristínar Þórunnar Tómasdóttur má lesa hér og grein Guðrúnar Karlsdóttur hér.  Ég tek undir það sem allar þessar góðu konur hafa að segja um jafnréttismál og táknræn gildi þess að vígja konu biskupsvígslu.

Og þar með erum við komin að seinni athugasemd Irju Askolu við upphaf biskupsferilsins. Hún sagði að biskupsvígsla konu væri mikilvægt tákn. Kaþólska nunnan og femíníski guðfræðingurinn Elizabeth Johnson sagði eitt sinn:  „The symbol functions“ og ég held að það sé alveg rétt. Trúarleg tákn eru sterk og þau hafa áhrif á undirmeðvitund okkar, gildi og samfélagsskoðanir á ýmsan hátt sem við erum ekki endilega meðvituð um. Þegar spurt er um til hvers biskupsembættið er þá svara margir því til að biskupinn sé sameiningartákn kirkjunnar. Þetta er ekki sérskoðun íslensku þjóðkirkjunnar, heldur sameiginleg niðurstaða samkirkjulegra samþykkta svo sem Porvoo samkomulagsins milli anglikönsku safnaðanna á Bretlandseyjum og hinna norrænu lúthersku kirkna, svo og Limaskýrslu Alkirkjuráðsins um skírn, máltíð og þjónustu.

Ef biskupsembættið er að stofni til táknrænt embætti um einingu,  og ef táknin hafa áhrif , þá hefur karleinokun biskupsembættisins í þúsund ár áhrif á það hvernig við hugsum um kirkjuna sem stofnun og hreyfingu. Ákvarðanir okkar núna eru ekki síst mikilvægar fyrir það að vera táknrænar ákvarðanir, ákvarðanir sem geta sýnt raunverulegar breytingar á stöðu kvenna í íslensku þjóðkirkjuna.

Tákn eru „viktig“

Biskupstákn og þau skilaboð sem þau senda út í samfélagið og innan raða kirkjunnar manna eru mikilvæg.

Gleymum því ekki þegar við göngum til seinni umferðar.